Fjárveiting til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:46:00 (440)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
     Virðulegi forseti. Ráðstöfun fjár til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni var hagað með eftirfarandi hætti: Skrifað var til landshlutasamtaka sveitarfélaga og þau upplýst um málið. Óskað var eftir því að þau gerðu tillögur um ráðstöfun fjárins enda hefðu þau samráð við atvinnumálanefndir sveitarfélaganna innan sinna vébanda. Svör bárust frá þeim öllum sl. vor. Í mörgum tilfellum voru ekki í svörunum fólgnar beinar tillögur um úthlutun þeirra þar sem skilafrestur var skammur. Ráðuneytið óskaði síðan eftir viðbótarupplýsingum þar sem það átti við.
    Ráðuneytið stóð þannig að ráðstöfun fjárins að haft var náið samstarf við Byggðastofnun og má því segja að endanleg úthlutun hafi í flestum tilvikum byggst á áliti starfshóps félmrn. og Byggðastofnunar sem fjallaði um umsóknir. Jafnframt var haft samráð við einstök landshlutasamtök, sveitarfélög og iðnráðgjafa einstakra svæða við úthlutunina, bæði bréflega og símleiðis.
    Eftirfarandi forsendur voru lagðar til grundvallar við úthlutun fjárins: Verkefnið taki sérstaklega til atvinnumála kvenna. Ekki væru veittir beinir stofn- eða rekstrarstyrkir til einstakra fyrirtækja. Verkefnin skyldu vera vel skilgreind og fyrir lægi framkvæmda- og kostnaðaráætlun. Tekið væri mið af framlagi heimamanna til verkefnisins, þess er sótt var um.
    Ráðstöfun fjárins var afgreidd í þremur áföngum, í júní, september og október, eftir því sem upplýsingar lágu fyrir. Af þeim 15 milljónum sem til ráðstöfunar voru eru afgreiddar 13 millj. 550 þús. en því sem eftir stendur hefur að mestu leyti verið úthlutað að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
    Ég mun hér gera grein fyrir því hvaða aðilar hafa fengið úthlutað fjármagni. Þeir eru eftirfarandi:
    Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, en verkefnið var þróunarverkefnið til fjölgunar atvinnutækifæra kvenna, 2 millj.
    Til Akraness. Markaðsátak í sauma- og prjónaiðnaði og stofnun fjarvinnslustofu, 1 millj.
    Atvinnuráðgjöf Vesturlands, atvinnuuppbygging fyrir konur, það voru þrjú verkefni, 1,2 millj.
    Fjórðungssamband Vestfirðinga, ráðstefna um atvinnumál kvenna, 350 þús.
    Siglufjarðarkaupstaður, tveggja ára átaksverkefni í atvinnumálum kvenna, 650 þús.
    Fjórðungssamband Norðlendinga, héraðsnefnd Austur-Húnvetninga ásamt Seylu- og Lýtingsstaðahreppi, átaksverkefni á svæðinu, svo sem minjagripagerð og nýting villigróðurs, 500 þús.
    Héraðsnefnd Austur-Húnavatnssýslu, Saumasmiðjan Skagaströnd, það var námskeið í rekstri fyrirtækja, fjármálum og fleira, 100 þús.
    Héraðsnefnd Austur-Húnavatnssýslu, vegna minjagripaframleiðslu, 300 þús.
    Héraðsnefnd Austur-Húnavatnssýslu vegna fjallagrasatínslu og kortagerð, 150 þús.
    Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar, ráðning markaðsfræðings í 6 mánuði vegna fyrirtækja kvenna, 1 millj.
    Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, smáiðnaðarverkefni, 1 millj.
    Fjórðungssamband Norðlendinga, þ.e. Skútustaðahreppur, könnun og markaðssetning á aðstöðu til heilsuræktar, 400 þús.

    Fjórðungssamband Norðlendinga, þ.e. Öxarfjarðar- og Kelduneshreppur, saumastofa og minjagripagerð, 100 þús.
    Til Atvinnuþróunarsjóðs Austurlands var ákveðið að ráðstafa 5,3 millj. af þessu fjármagni samkvæmt tillögu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi ásamt ábendingum um skiptingu fjárins. Landshlutasamtökin á Austfjörðum voru einu samtökin sem óskuðu eftir að fá óskipt til sín þetta fjármagn til ráðstöfunar en ráðuneytið taldi þó ástæðu til, eftir að hafa farið yfir þær tillögur sem þar lágu fyrir, að koma með ábendingar um skiptingu fjárins sem Atvinnuþróunarsjóði hefur verið sent.
    Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, til heimilisiðnaðarmiðstöðvar að Þingborg, 1,5 millj.
    Framtíðin, átaksverkefni í Mýrdal, til sjö verkefna sem tengdust atvinnumálum kvenna, 500 þús.
    Samtals eru þetta 13 millj. 350 þús. kr.
    Ég vænti þess að ég hafi svarað því sem fyrirspyrjandi óskaði eftir.