Fjárveiting til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 11:50:00 (441)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
     Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel að hún sé tímabær, mjög þarflegt sé að fylgja því eftir hvernig svona fjármunum er varið. En mig langar í þessu sambandi að minna á að hér á Alþingi hafa áður verið samþykktar tvær þingsályktunartillögur sem ganga einmitt út á það að bæta atvinnuástand kvenna á landsbyggðinni. Þær voru báðar gerðar á síðasta kjörtímabili að frumkvæði Kvennalistans. Önnur þeirra gekk út á það að ríkisstjórnin kannaði möguleikana á að koma upp fjarvinnslustofum á landsbyggðinni og flytti verkefni frá ríkisvaldinu og út á land og hin gekk út á það að gera könnun á því hvernig mætti efla heimilisiðnað í landinu. Þessar tillögur voru samþykktar eftir allnokkra umræðu og athygli sem þær fengu hér á þingi. En það sem maður óttast yfirleitt með þál. er að framkvæmdin verði ekki eins góð og sá hugur sem að baki býr þegar hlutirnir eru samþykktir.
    Það stakk mig dálítið í svari ráðherra hér áðan að það var leitað fyrst og fremst til landshlutasamtaka sveitarfélaga um tillögur og þau beðin að gera þær í samráði við atvinnumálanefndir. Mér finnst að það hefði átt að leita í mun ríkari mæli til kvennasamtaka og það hefði hreinlega mátt auglýsa eftir hugmyndum vegna þess að ef við ætlum að bæta atvinnustöðu kvenna á landsbyggðinni, þá þurfum við að sækja hugmyndir til kvenna. En því miður eru konur í mun minna mæli en karlar í sveitarstjórnum og í ýmsum stofnunum á vegum þeirra.