Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:12:00 (451)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Þingmenn Austfirðinga hafa hér tekið djúpt í árinni varðandi jarðgangagerð. Annar þeirra talaði um þjóðarsátt um jarðgöng, en hvorugur þeirra minntist þó á það í hvaða röð þeir kysu að ráðast í jarðgöng á Austurlandi, enda mun það nú vera svo að um það séu skiptar skoðanir og síður en svo einhugur í þeim efnum.
    Ég sé líka, hæstv. forseti, sérstaka ástæðu til að þakka þingmanni Alþfl. fyrir þann mikla stuðning sem hann er reiðubúinn til að veita mér á meðan ég gegni þessu embætti, stuðning frá hans flokki til þess að fá meira fjármagn til vegagerðar en nú er. Ég þakka fyrir þennan stuðning og ég vonast sannarlega til þess að aðrir þingmenn Alþfl. og ráðherrar muni tala sama rómi og hann þegar samgöngumál ber á góma. Ég er þakklátur fyrir þetta og veit að þingmaðurinn talaði þarna ekki fyrir sína eigin hönd heldur Alþfl. í heild. (Gripið fram í.) Ég hef ekki ástæða til að ætla annað.
    Ég vil jafnframt vekja athygli á því að á þessu ári hefur þungaskattur hækkað um 15% og bensíngjald um eitthvað svipað. Þær hækkanir voru ákveðnar af síðustu ríkisstjórn. Eins og sakir standa nú er ekki grundvöllur fyrir frekari hækkunum á þessum gjaldmiðlum, en það er á hinn bóginn stefna ríkisstjórnarinnar að ráðast ekki á næsta ári í vegaframkvæmdir með lántökum heldur standa undir þeim með þeim tekjustofnum sem Vegasjóður hefur, sem eru bensíngjald og þungaskattur.
    Ég vil svo að lokum taka fram, hæstv. forseti, að það er auðvitað ekki hægt að aðskilja einstakar framkvæmdir í vegamálum og segja að það séu öðruvísi krónur sem fara í jarðgöng en í bundið slitlag og eitthvað svoleiðis. Auðvitað verður skattheimta ríkissjóðs metin í heild sinni og auðvitað hljótum við á hverjum tíma að meta í heild hvað við treystum okkur til að leggja mikið fram til vegamála, enda var gert ráð fyrir því af forvera mínum, þó hann vildi taka lán til Vestfjarðaganga nú á þessu ári, að slík lán yrðu að fullu greidd upp áður en ráðist yrði í jarðgöng á Austurlandi. Það liggur alveg ljóst fyrir.
    Ég vil líka vekja athygli á því að á Austurlandi eru ýmis fleiri verkefni brýn en jarðgöng. Ég vil minnast á samgönguerfiðleika Vopnafjarðar t.d., sem má segja að sé einangruð byggð frá Austurlandi og mjög vafasamt satt

að segja að fara þá leið sem Austfirðingar kusu að leggja verulega peninga í að reyna að laga Hellisheiðina þannig að hún verði kannski fær hálfum mánuði lengur að sumarlagi í góðri tíð. Og ég vil líka minna á að það er töluvert í land með að hægt sé að ljúka því að tengja Norðurland og Austurland með fullnægjandi hætti yfir Möðrudalsöræfi og Neðrafjall. Ég vil láta þess getið að margir Austfirðingar, sérstaklega þeir sem tengjast þjónustuviðskiptum og ferðamálum, gera sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að hægt sé að ljúka þessum kafla hringvegarins, eins og öðrum, og af þeim sökum alls ekki einboðið að næsta stórverkefni á þessum landsfjórðungi hljóti að vera jarðgöng, eins og ég sé það mál fyrir mér.
    En það er sem sagt hvorki fyrirspyrjanda né annarra þeirra sem sitja á þingi nú að kveða upp úr með það hvernig fjármunum ríkisins verði varið á þeim herrans árum 1997 og 1998, sem er sú viðmiðun sem forveri minn gerði í sambandi við jarðgangagerð á Austfjörðum, en ég legg áherslu á að sú nefnd sem hefur þau mál til athugunar er að reyna að vinna vel að sínu verki, reyna að draga fram hverjar séu óskir Austfirðinga, en það mun að sjálfsögðu geta sett allt málið í mikla tvísýnu ef mjög skiptar skoðanir eru heima í héraði um það hvar rétt og vænlegt sé að ráðast í jarðgöng næst.