Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:21:00 (454)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
     Hæstv. forseti. Það er mikill misskilningur eins og aðrir þingmenn vita að ég hafi verið að veitast að forvera mínum hérna áðan, ég var einungis að skýra frá þeim verðlagsforsendum sem vegáætlun var reist á og þeim lántökuheimildum sem hún var reist á og fjárlög voru reist á.
    Ég vil í annan stað taka fram að það er í samræmi við annan málflutning hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar að telja að það sé eitthvert níð um Austfirðinga þó sagt sé að þeir hafi mismunandi hagsmuni í samgöngumálum og menn séu ekki einhuga um það austur þar á hvað beri að leggja mesta áherslu á í vegamálum og hvar eigi að byrja ef spurning verður um það að ráðast þar í jarðgöng. Hvort t.d. eigi að reyna að bæta samgöngur fyrst við Vopnafjörð eða Norðfjörð, svo ég taki tvö dæmi. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta eftir því hvar maðurinn býr og eftir því hvaða hagsmuni hann hefur. Þetta vitum við og þess vegna sá ég ástæðu til að hvetja til þess að Austfirðingar kæmu sér saman í þessu máli.