Jarðgangaframkvæmdir á Austurlandi

14. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 12:23:00 (456)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
     Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. var að hnýta í mig fyrir að hafa verið að gera athugasemd við ummæli hans um fyrrv. samgrh. og birtist nú gamli Blöndal æ hraðar hér í ræðustólnum, en það var eitt helsta einkenni gamla Blöndals hér á síðasta kjörtímabili að hann hvorki heyrði né sá það sem aðrir menn sögðu, hann fór bara sínar eigin leiðir. Staðreyndin er sú að ég minntist ekkert á fyrrv. samgrh. í minni ræðu, ekki einu einasta orði. Hvað þá heldur að ég væri að saka hæstv. ráðherra um það að hann væri eitthvað að veitast að fyrirrennara sínum. Hann var bara ekki til í minni ræðu hér, fyrrv. samgrh., og á hann þó allt gott skilið. Vil ég biðja virðulegan ráðherra að vera ekki að kveðja sér hér hljóðs til þess að bera af sér sakir þegar þær voru engar í þessum efnum. Og er ráðherrann nú greinilega farinn að heyra líkt og gamli Blöndal gerði hér á síðasta kjörtímabili, en það voru yfirleitt ofheyrnir.