Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 13:39:00 (463)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Sú staðreynd að ég hef hér með mér upp í pontu nokkuð þykkan bunka af skjölum segir kannski skýrar en nokkur orð að Vestfirðingar eiga sitthvað vantalað við hæstv. menntmrh.
    Ég verð að segja að það hafa ekki svo ég muni til verið teknar svo margar umdeildar ákvarðanir í menntamálum og skólamálum á Vestfjörðum á jafnskömmum tíma og verið hafa frá því sl. sumar. Þar er ekki aðeins hin umdeilda ákvörðun um lokun Héraðsskólans í Reykjanesi heldur einnig fleiri atriði sem ég kýs að gera hér að umtalsefni og víkja lítillega að.
    Ég vil í fyrsta lagi nefna þá ákvörðun ráðuneytisins að fyrirskipa 10% samdrátt í kennslukvóta Menntaskólans á Ísafirði. Þessi ákvörðun féll satt að segja í mjög grýttan jarðveg hjá stjórnendum skólans og Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Ég er með ályktun þess sambands sem þingmönnum var sent og þar er tekið svo til orða að atlaga sé hafin að Menntaskólanum á Ísafirði á sama tíma og nemendum þar er að fjölga. Og það er einmitt atriði sem vert er að undirstrika. Það hefur verið þannig á Vestfjörðum að of margir nemendur á framhaldsskólaaldri hafa kosið að fara í framhaldsskóla út fyrir fjórðunginn. Við höfum haft uppi tilburði undanfarin tvö ár að breyta þessu og það er að skila árangri. Þá birtist svar ráðuneytisins sem getur orðið til þess að brjóta niður alla þessa undirbúningsvinnu með því að fyrirskipa þennan 10% samdrátt. Að sögn skólameistara getur farið svo að það þurfi á þessum vetri að vísa úr skóla einhverjum af þeim nemendum sem þar sitja við nám ef ákvörðuninni verður ekki hnekkt. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh.: Hefur hann tekið ákvörðun um að endurskoða fyrri fyrirmæli um 10% samdrátt? Og mun hann taka mið af þeirri staðreynd að nemendum hefur fjölgað í skólanum þannig að nemendur sem þar verða í vetur geti verið sæmilega öruggir í sínu námi?
    Annað mál sem okkur Vestfirðingum þótti skjóta skökku við var sú ákvörðun menntmrn. að synja um heimild til að starfrækja öldungadeild á Hólmavík í tengslum við væntanlegan Framhaldsskóla Vestfjarða. Satt að segja er okkur það óskiljanlegt hvernig ráðuneytið kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé til fé til þessarar deildar á Hólmavík, fé sem er eitthvað um 200 þús. kr. yfir veturinn, á sama tíma og ýmsir ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn finna sér fé þó ekki sé til á fjárlögum til að kaupa hentugar bifreiðar frá Heklu hf. Sú spurning kemur upp í minn huga hvort það sé í raun og veru dæmi um afstöðu Sjálfstfl. til menntamála og til fullorðinsfræðslu í hinum dreifðu byggðum landsins að það er að þeirra mati ekki hentugt að fólkið sem þar starfar fái tækifæri til að auka við sína menntun.
    Ég vil áður en ég kem að aðalmáli í mínu erindi sem er Héraðsskólinn í Reykjanesi nefna eitt mál enn, sem er Framhaldsskóli Vestfjarða. Samningur milli sveitarfélaga á Vestfjörðum og ráðuneytisins lá tilbúinn til undirritunar við stjórnarskipti sl. vor. Síðast þegar ég vissi, ekki fyrir alllöngu, lá sá samningur enn óundirritaður hjá ráðuneytinu. Þessi samningur skiptir okkur verulegu máli í þeirri viðleitni okkar að efla og byggja upp framhaldsmenntun á Vestfjörðum því við erum meðvitaðir um það og fullvissir um að ein leiðin og jafnvel ein af betri leiðunum til að efla byggðir landsins og halda okkar fólki heima í héraði er að geta boðið upp á verðugt framhaldsskólanám. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra að því hvort búið sé að ganga frá undirritun á þessum samningi og ef svo er ekki hvenær það sé fyrirhugað.
    Í tengslum við Framhaldsskóla Vestfjarða, sem heimamenn eru sammála um að stofna, hefur líka verið í gangi vinna í að koma á fiskvinnslubraut við þann skóla. Sú vinna hefur verið unnin af nefnd sem þáv. skólameistari Menntaskólans á Ísafirði, Smári Haraldsson, veitti forstöðu og hefur sú nefnd unnið að þessu máli í samráði við menntrn. og bæjarstjórn Bolungarvíkur sem hefur boðist til að leggja til aðstöðu fyrir þessa braut. Þetta mál var á góðum skriði í tíð fyrrv. menntmrh. en eftir stjórnarskiptin hefur verulega hægt á því og ég vil leita eftir svörum ráðherra um hvað líði því að vinna að þessu máli og hvenær við megum vænta þess að á Vestfjörðum, þar sem eitt stærsta hlutfall vinnandi fólks á landinu vinnur við sjávarútveg, gefist kostur á að mennta sig í störfum við þá atvinnugrein.
    Vík ég þá loks að Héraðsskólanum í Reykjanesi. Mér finnst óhjákvæmilegt að rekja aðdraganda málsins og greina frá afstöðu heimamanna til þessarar ákvörðunar og síðan vil ég kalla eftir rökum ráðherra fyrir sinni ákvörðun og hvernig hann rökstyður hana og lögmæti hennar. Ég held að best sé að lýsa aðdraganda málsins með því að vitna í greinargerð sem formaður skólanefndar Héraðsskólans í Reykjanesi hefur birt og rekur málið nokkuð vandlega í stuttu máli. Ég vil því, með leyfi forseta, vitna í greinargerð formanns skólanefndarinnar. Hún er svohljóðandi:
    ,,Þegar langt var liðið fram á sumarið án þess að nokkurt lífsmark kæmi frá menntmrn. fór skólanefndin að undrast hversu seint gekk af hálfu ráðuneytisins að ganga frá ráðningu skólastjóra og kennara fyrir haustið. Taka verður fram að frá ráðuneytinu höfðu ekki komið fram neinar athugasemdir eða hugmyndir um breytingar á skólahaldi. Það er fyrst þann 25. júlí sem gengið er frá ráðningu skólastjóra og kennara. Þá veit maður ekki annað en að allt sé klárt og ég bið skólastjóra að fara að huga að auglýsingum og þess háttar, því venjan er að auglýsa skólann að vori og svo aftur seinni hluta sumars. Þá gerist svo um miðjan ágúst að deildarstjóri grunnskóladeildar menntmrn. kemur hér fram í svæðisútvarpinu og greinir frá hugmyndum ráðuneytisins um að loka Héraðsskólanum í Reykjanesi í vetur. Hann tíundar þar kostnað á hvern nemanda í skólanum og nefnir tölur sem eru allsendis ósannar, víðs fjarri réttu lagi. Þetta er það fyrsta sem skólanefndin heyrir af hugmyndum ráðuneytisins. Það er með eindæmum að boðskapur þess skuli berast skólanefnd með þessum hætti.
    Ráðuneytismenn efndu svo til fundar með þingmönnum Vestfjarða eins og þeir kölluðu það í ágústmánuði. Samt boðuðu þeir ekki alla þingmennina til þess fundar. Þetta var kynnt sem upplýsingafundur. Þarna lögðu ráðuneytismenn ekki einungis fram villandi upplýsingar heldur beinlínis rangar upplýsingar í sumum tilvikum. Við töldum þetta háttalag vítavert og svöruðum því í ályktun sem skólanefndin lét frá sér fara á fundi inni í Reykjanesi þann 22. ágúst, en þar mætti fyrrgreindur deildarstjóri til að kynna skólanefndinni hugmyndir ráðuneytisins. Skólanefndin mótmælti harðlega og benti á að á þeim tíma þegar þeir leggja fyrir þingmenn og allan almenning í svæðisútvarpi upplýsingar um 11 örugga nemendur þá hefur skólanefndin í höndum 24 umsóknir. Þeir töluðu um þrjá nemendur í 10. bekk en við vorum þar með tólf umsóknir. Ráðuneytismenn hirtu alls ekki um að afla réttra upplýsinga. Hinn mikla kostnað á hvern nemanda á liðnum árum fengu þeir út með því að taka út úr langversta ár skólans hvað kostnað snerti. Í fyrsta lagi: Það skólaár voru tveir skólastjórar á launum. Og í öðru lagi: Þetta skólaár var byrjað með um haustið 23 nemendur og ráðuneytismenn deila með þeirri tölu í kostnaðartöluna enda þótt um vorið væru 32 nemendur útskrifaðir. Þá sem endranær voru nemendur að bætast við smátt og smátt eftir að kennsla var byrjuð. Í þriðja lagi: Þetta skólaár var síðasta árið sem starfsfólk mötuneytisins var á launum hjá ríkinu. Það hefur ekki verið á launaskrá síðan og ekki nema einn skólastjóri. Það var ekki hirt um að styðjast við eða birta réttar upplýsingar af því að það hentaði ekki málstað ráðuneytisins.``
    Að lokum vil ég vitna í annan stað í greinargerð formanns skólanefndar, þar sem segir svo, með leyfi forseta: ,,Öll framvinda málsins af hálfu menntrmn. hlýtur að eiga sér miklu lengri aðdraganda en hér kemur fram. Það er greinilegt að þessari málsmeðferð var hagað á allan hátt til þess að drepa okkur á tíma. Skólanefnd fékk ekkert að vita fyrr en á allara síðustu stundu.``
    Hér er nokkuð glögglega rakið hvernig menntmrn. stóð að því að taka þessa ákvörðun og kynna hana þeim sem í hlut átti. Það er að vonum að formaður skólanefndar, sem öðrum fremur á að vera ráðuneytinu innan handar, skuli vera nokkuð þungorður í garð ráðuneytisins.
    Ég vil benda á að þessi ákvörðun ráðuneytisins hefur mætt harðri mótspyrnu heiman úr héraði, nánast hvarvetna. Ég er hér með ályktanir frá ýmsum sveitarfélögum sem eru býsna harðorðar og mótmæla þessari ákvörðun. Sveitarstjórnir við Ísafjarðardjúp, bæjarstjórnirnar á Ísafirði og í Bolungavík og enn fremur frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga, sem segir í sinni ályktun að þessi ákvörðun ráðherra sé aðför að byggðarlögum við Inndjúp. Ég vek athygli á því, þar sem þær ályktanir sem harðorðastar eru koma frá Fjórðungssambandi Vestfjarða, að á þeim tíma var formaður þess sjálfstæðismaðurinn Ólafur Helgi Kjartansson. Mér er það alveg óskiljanlegt hvers vegna hæstv. ráðherra hunsar með öllu vilja heimamanna, hvar í flokki sem þeir standa. Mér er það líka alveg óskiljanlegt hvers vegna ráðherra gat ekki sætt sig við þá málamiðlunartillögu sem þingmenn Vestfirðinga lögðu fyrir hann sem var sú að skólinn skyldi starfræktur í vetur en á þeim tíma færi fram athugun á starfi skólans og því hvort hægt væri að finna honum annað og verðugra hlutverk, þó svo núverandi hlutverk standi fyllilega undir því eitt og sér. Þetta var ekki hægt að fallast á og ég inni ráðherra eftir hans rökstuðningi við því að ganga á svig við vilja þingmanna og annarra heimamanna.
    Ég bendi líka á þá ákvörðun Alþingis sem fyrir liggur í fjárlögum, sú ákvörðun lýsir sér í því að það er fjárveiting til að reka skólann út allt þetta ár. Sú ákvörðun segir okkur að það hafi verið vilji Alþingis við afgreiðslu fjárlaga að þessi skóli yrði starfræktur með því sniði sem verið hefur út þetta ár. Og ég spyr: Hvaða lög eru það sem hæstv. ráðherra getur vitnað til og taka af fjárlögin? Ég bendi hæstv. menntmrh. líka á að í 6. gr. núv. fjárlaga er tekið fram að fjmrh. sé heimilt að fella niður eða fresta greiðslum úr ríkissjóði á árinu 1991 með því að leggja niður tímabundið eða til lengri tíma starfsemi ríkisstofnana að fengnu samþykki ríkisstjórnar og fjvn. Þetta þýðir, ef við skilgreinum Héraðsskólann sem ríkisstofnun, að það er ekki menntmrh. sem á að taka þessa ákvörðun heldur hæstv. fjmrh. og þá því aðeins að fyrir liggi samþykki ríkisstjórnar og fjvn. Hér er enginn annar ráðherra í salnum svo ég komi auga á þannig að ég verð að beina því til hæstv. menntmrh., þar sem ég sé ekki hæstv. fjmrh., hvort fyrir liggi samþykki ríkisstjórnarinnar og fjvn. fyrir því að loka skólanum í haust.
    Ég vil líka benda hæstv. ráðherra á að það er ekki sjálfgefið að skilgreina Héraðsskólann í Reykjanesi sem ríkisstofnun. Það er nefnilega til samningur þótt gamall sé orðinn á milli aðila, sýslunefnda og sveitarfélaga, um það að Héraðsskólinn í Reykjanesi sé sjálfseignarstofnun. Og ég hefði talið að í ljósi þess hefði ráðherra þurft að hafa samráð við eigendur þessarar sjálfseignarstofnunar eða aðila að henni áður en hann tæki sína ákvörðun.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra líka hvort hann sé búinn að skipa þá nefnd sem hann boðaði að yrði sett á laggirnar til að ræða framtíð skólans. Hverjir eru í nefndinni og hvert er erindisbréf hennar?
    Ég vil að lokum vitna til ummæla hæstv. fjmrh. hér í fyrrinótt í umræðu um fjárlagafrv. vegna fyrirspurnar af minni hálfu. Þar kom fram hjá hæstv. fjmrh. sú yfirlýsing varðandi málefni skólans að fari svo að nægur fjöldi nemenda fáist til skólans næsta haust væri hann viss um að fjármagn fengist. Ég tel þetta þýðingarmikla yfirlýsingu, virðulegur forseti, þetta eru mín lokaorð, því hún felur það í sér að hæstv. fjmrh. er tilbúinn að standa að skólanum í óbreyttu formi, setur einungis upp það skilyrði að tilskilinn fjöldi nemenda fáist. Og ég spyr hæstv. menntmrh.: Er hann sammála varaformanni síns flokks?