Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 14:39:00 (469)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
     Vegna þeirra orða sem hafa verið látin falla í þessari þingskapaumræðu vill forseti láta þess getið, eins og hér kom reyndar fram, að það var gott samkomulag á milli þessara tveggja aðila sem vildu fá að ræða skólamálin í utandagskrárumræðu um að sameina hana undir þessum lið 50. gr. þingskapa, þ.e. síðari mgr., sem er þessi lengri umræða. Það lá ljóst fyrir strax þegar utandagskrárumræðan um sjávarútvegsmálin fór fram á dögunum að þetta er óhagkvæmt fyrirkomulag. Reynslan hefur sýnt það nú þegar, bæði þá og eins núna, að það er of þröngur stakkur, sérstaklega fyrir hæstv. ráðherra sem þurfa að svara í slíkum utandagskrárumræðum, að hafa ekki leyfi til þess að tala nema tvisvar sinnum þó að það sé hálftími í hvort sinn. En svona eru þingsköpin.
    Hins vegar tók ég því sem nokkurs konar tillögu eða ábendingu frá hv. 9. þm. Reykv. hvort ekki mætti nú gera undantekningu og leyfa hæstv. menntmrh. að svara hv. 5. þm. Vestf. í eins og 10 mínútur sem væru utan við þessi lög sem við erum að reyna að fara eftir. Forseta er ljúft að gera það og ef ekki koma athugasemdir við það frá þingheimi, --- þegar er búið að biðja um orðið um þingsköp, en forseti æatlar aðeins að ljúka setningunni og gefa síðan hv. 1. þm. Vestf. orðið um þingsköp --- þá vill forseti leyfa þetta þannig að hæstv. menntmrh. taki núna 10 mínútur af þessum hálftíma sem hann á eftir að nýta sér í þessari umræðu og vill forseti taka jafnframt skýrt fram að það er á engan hátt fordæmisskapandi.