Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 14:41:00 (470)

     Matthías Bjarnason (um þingsköp) :

     Virðulegi forseti. Alþingi setur sér þingsköp og þá ber Alþingi að fara eftir þeim þingsköpum. Ef það á að breyta út frá því eins og forseti vill leggja til og fleiri hafa beðið um, þá hlýtur það að vera fordæmisskapandi jafnvel þó virðulegur forseti segi að það sé ekki fordæmisskapandi. Það er þá verið að skapa fordæmi.
    Það sem hér hefur gerst er það að grautað er saman umræðu með þeim hætti að við getum ekki sætt okkur við hana. Ég þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir að biðja um þessa utandagskrárumræðu og ræða almennt um skólamál. En ég er ekki að sama skapi eins ánægður með 5. þm. Vestf. sem hleypur hér fram fyrir skjöldu eftir að þingmenn Vestf. að einum undanskildum, hæstv. heilbrrh., hafa talað um það að taka málið hér upp á þingi og grautar því hér inn í þessa umræðu með þeim ömurlega hætti að ráðherrann nefnir ekki einu orði það sem hann hefur talað hér um. Þetta er orðin sú grautargerð að það verður útilokað annað, virðulegur forseti, en að krefjast þess að sérstök umræða verði tekin upp um hið svokallaða Reykjanesskólamál sem er langt mál og getur sú ákvarðanataka orðið afdrifarík þannig að það verður útilokað annað en taka það þá upp sérstaklega. Ég mun þá krefjast þess að fram fari þá sérstök umræða um það mál eftir þessa grautargerð 5. þm. Vestf.