Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 14:58:00 (472)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Ég verð nú að segja að mig undraði mjög ummæli hv. 1. þm. Vestf. í minn garð hér áðan og þær ásakanir hans að ég hefði klúðrað þessari umræðu um Héraðsskólann í Reykjanesi. Það hefur þegar komið fram að ég bað um sjálfstæða umræðu um það mál. Það hefur líka komið fram að það voru aðrir sem óskuðu eftir því að ég féllist á að sameina þessa beiðni mína annarri beiðni og að ég varð við þeirri ósk. Hv. 1. þm. Vestf. ætti því að beina orðum sínum að þeim sem fóru fram á þessa tilhögun en ekki að mér. Ég vil segja það við hv. 1. þm. Vestf. að þótt hann hafi lengi setið á þingi eða sé nokkuð aldinn að árum, þá hefur hann ekkert forræði yfir mér sem þingmanni. Og þó að hann hafi tilkynnt fjölmiðlum að hann mundi taka málið upp hér, þá breytir það því ekki að ég hef óskað eftir því.
    Hins vegar fyrst hv. þm. lætur svo þung orð í minn garð falla, þá vil ég minna hann á það að það er annað mál sem e.t.v. væri ástæða til að ræða hér í þingsölum og það er afstaða hans og ráðstöfun á eignum ríkissjóðs í Byggðastofnun, ákvörðun sem þar er tekin með hans atkvæði að selja eignir ríkissjóðs fyrir lítið fé náfrænda sínum.