Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 15:17:00 (475)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Áður en ég kem að Reykjanesskólanum ætla ég aðeins koma að svörum við nokkrum spurningum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson beindi til mín. Fyrst varðandi samning um framhaldsskóla Vestfjarða. Ég get upplýst að ég hef þegar staðfest samninginn um framhaldsskóla Vestfjarða sem sveitarfélög á Vestfjörðum hafa gert sín í milli, en það er ekki von að hv. þm. hafi verið það kunnugt vegna þess að það var gert núna eftir að ég kom aftur til starfa í ráðuneytinu, þ.e. sl. mánudag 21. október. En staðfesting liggur sem sagt þegar fyrir.
    Varðandi öldungadeildina í tengslum við grunnskólann á Hólamvík var erindinu svarað með bréfi 13. ágúst og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ráðuneytið sér sér ekki fært að verða við þessari beiðni að þessu sinni þar sem fjárveiting er ekki fyrir hendi og ekki horfur á að hún fáist heldur á aukafjárlögum, en er reiðubúið að taka þetta mál til athugunar síðar verði óskað eftir því.``
    Ég get svarað hv. 1. þm. Vestf. þá um leið þannig að ég er alveg tilbúinn að líta sérstaklega á þetta mál, en ég bendi á að ákveðin vandkvæði eru uppi í sambandi við öldungadeildirnar yfirleitt. Öldungadeildirnar hafa þróast víða í það að verða hálfgerðir námsflokkar sem þekkjast nú sums staðar enn. Með þessu móti hafa menn kannski séð sér leik á borði að koma meiri kostnaði yfir á ríkisvaldið með því að fara inn á þessa braut. Í öldungadeildirnar sækir fólk sem hefur kannski ekkert annað í huga en að nema einhverjar greinar eða jafnvel eina grein, en er ekki að hugsa um að ná stúdentsprófi. Þetta er allt svona til sérstakrar athugunar núna, en ég er sem sagt reiðubúinn, eins og kom fram í þessu bréfi ráðuneytisins frá 13. ágúst, að skoða þetta mál sérstaklega.
    Varðandi fiskveiðibrautina í Bolungarvík er ég ekki alveg reiðubúinn að svara hvernig það mál stendur. Ég man þetta ekki nægilega vel og tókst ekki að afla mér gagna. Ég held endilega að það sé eitthvað óafgreitt heima í héraði en ætla þó ekki að fullyrða það. Ég mun því athuga sérstaklega hvernig það mál stendur.
    Ein spurning var um Menntaskólann, þ.e. kröfuna um samdrátt í kennslukvóta. Það eru tilmæli sem var ekki eingöngu beint til Menntaskólans á Ísafirði, en ég held að þar hafi orðið nokkur misskilningur. Það var verið að tala um fjárlögin fyrir árið 1992. Sjálfsagt hefur það áhrif miðað við þann fjölda sem tekinn er inn í skólann núna á haustmissiri þannig að það er skiljanlegt að skólameistari og skólayfirvöld hafi kippst nokkuð við þegar svona tilmæli koma, en menn eiga samt ekkert að láta sér bregða á niðurskurðartímum sem þessum. Það er verið að beina þeim tilmælum til allra stofnana sem undir ráðuneytið og ráðuneytin öll heyra að rifa seglin sem mest er mögulegt. Sú var ástæðan fyrir þessari beiðni.
    Um málefni Héraðsskólans í Reykjanesi hafa orðið allsnarpar umræður og ég vil aðeins segja strax í upphafi að mér þykir leitt að samráð og samband við þingmenn kjördæmisins hefur kannski ekki verið eins og best hefði verið á kosið. Ég þekki vel þá reglu sem hv. 1. þm. Vestf. var að minna mig á að ef óskað væri eftir fundi með þingmönnum einstakra kjördæma er venjan sú að hafa samband við 1. þm. kjördæmisins. Þetta þekki ég vel. En allt bar þetta nokkuð brátt að. Að því er mér a.m.k. þótti var mikil nauðsyn að ná fundi þingmannanna sem allra fyrst. Þetta mál hafði verið um nokkurt skeið, ekki lengi, í þeirri stöðu í ráðuneytinu að það varð að taka ákvörðun af eða á hvort skólastarf ætti að vera með óbreyttum hætti nú í haust eða hvort þarna yrði breyting á.
    Hv. 1. þm. Vestf. nefndi það að 25. júlí hefði verið gengið frá ráðningu skólastjóra. Þetta er alveg rétt. Ég gaf leyfi til þess og taldi það einu færu leiðina þegar ég var spurður hvort ætti að ganga frá ráðningu skólastjórans vegna þess að hann þurfti að fara inn á launaskrá fyrir mánaðamótin. Ég taldi mér auðvitað ekki annað fært en að svara því játandi vegna þess að þá hafði ekki verið tekin ákvörðun um að skólahald yrði ekki með sama hætti og áður. Sú var ástæðan og gert alveg með opnum augum að kæmi sú staða upp að skólinn yrði ekki starfræktur yrði einfaldlega að ráða fram úr því hver yrði staða skólastjórans og, ef ég man rétt, eins kennara og eins leiðbeinanda líkast til. Þetta var sem sagt ástæðan fyrir því að frá ráðningu skólastjórans var gengið. En mér þótti þegar svo var komið undir mánaðamótin ekki hægt að bíða miklu lengur með ákvörðun. Mér þótti rétt og raunar skylt að hafa samráð og samband við þingmenn kjördæmisins. Hv. þm. Kristinn Gunnarsson komst einhvern veginn þannig að orði að við í ráðuneytinu hefðum ekki boðað alla þingmenn til fundarins. Ég ætla ekki að gera mikið mál úr þessu, en staðreyndin er sú að það náðist ekki í hv. 1. þm. Vestf. Ég var að vísu ekki sjálfur við símann, sem ég hefði svo sem vel getað hugsað mér að gera til þess að hafa tal af hv. 1. þm. Vestf., heldur var það tiltekinn starfsmaður í ráðuneytinu sem tók að sér að boða þingmennina. Og ég hef satt að segja ekki ástæðu til

þess að rengja hann um að hann hafi reynt að ná sambandi við hv. 1. þm. Vestf. en hann segir mér að það hafi ekki tekist. Hann náði hins vegar í hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson sem hafði síðan samband við mig og við ræddum saman og það fór ekkert á milli mála hver afstaða hans var til þessa máls.
    Ég ætla ekki í neinum smáatriðum að rekja þann fund sem fulltrúar ráðuneytisins ásamt mér og þingmenn kjördæmisins utan þeirra tveggja áttum í ráðuneytinu þann 1. ágúst en þar var þingmönnunum gerð grein fyrir stöðu mála. Ég vona að ég sé ekkert að segja of mikið þó að ég segi að þetta hafi verið vinsamlegur fundur. Það ríkti skilningur á þeim vandamálum sem við stóðum frammi fyrir. Það varð ekki nein endanleg niðurstaða á þessum fundi. Ég á nokkuð ítarlega fundargerð frá fundinum og ég leyfi mér að túlka það þannig að þingmenn kjördæmisins hafi haft skilning á vandamálinu og þeir hafi gert sér grein fyrir því að ráðuneytið stæði frammi fyrir þeim vanda að taka þarna ákvörðun. Ég tek það skýrt fram að ekki fór á milli mála hverjar voru óskir þingmannanna. Þær voru þær að skólinn yrði starfræktur.
    Það kom upp sá möguleiki að væru nemendur þetta fáir, sem þar var talað um, yrði gert hlé á skólastarfi í vetur gegn því að yfirlýsing yrði gefin um að skólastarf hæfist þá að nýju haustið 1992. Ég treysti mér ekki til þess að gefa slíka yfirlýsingu. Það viðurkenni ég fúslega. En sú staða hefur komið upp annars staðar. Ég hlýt í þessu samhengi aðeins að minnast á það líka að málefni héraðsskólanna almennt hafa verið til meðferðar. Staða þeirra hefur töluvert mikið breyst við breytta þjóðfélagshætti og breytta skólalöggjöf og hlutverk þeirra er allt annað en áður var. Þetta eru staðreyndir.
    Það var svarað hér fyrirspurn, að ég hygg í síðustu viku í minni fjarveru, um málefni héraðsskólanna þar sem nokkuð var rakið hver staða einstakra skóla er og það er einfaldlega svo að þeir eru hver af öðrum að týna tölunni í því formi sem þeir hafa verið reknir. Héraðsskólinn á Laugarvatni var t.d. nú í haust sameinaður Menntaskólanum og verður sem slíkur ekki rekinn meir. Mér þykir mjög líklegt að þetta sé síðasta árið sem Reykholtsskóli starfar í núverandi formi. Það liggur hins vegar ekki endanlega fyrir hvernig byggingar á staðnum verða nýttar en þegar ég kom í ráðuneytið lá fyrir ítarleg tillögugerð frá nefnd sem hafði starfað að þeim málum um framtíð þess staðar. Það er verið að yfirfara þær tillögur nú og ég vona satt að segja að hægt verði að vinna að málum þess staðar eins og þar var lagður grunnur að.
    Það eru uppi spurningar um hvort Skógaskóli muni starfa áfram. Þar er gerð tilraun nú í vetur í samstarfi við Fjölbrautaskólann á Selfossi og má vel vera að sú tilraun heppnist og ef svo er þá er enn opin leið til þess að halda því starfi áfram. Þar hefur engum dyrum verið lokað. En svona er þetta. Hlutverk þessara héraðsskóla hefur mjög svo breyst á undanförnum árum og við stöndum einfaldlega frammi fyrir því að taka þarna ákvarðanir.
    Þegar ákvörðunin um að skólinn í Reykjanesi skyldi ekki starfa í ár var tekin lágu fyrir ákveðnar staðreyndir sem hins vegar hafa verið vefengdar, m.a. í bréfi þingmanna kjördæmisins sem vitnað var til hér áðan. Ég vona að menn virði mér það til betri vegar þó að ég fari eftir þeim upplýsingum sem lagðar eru á borð fyrir mig af starfsmönnum ráðuneytisins. Ég hef ekkert annað að halla mér að, ekki neitt, og ég hef ekki við frekari athugun málsins séð ástæðu til þess að rengja það sem lagt var á borð fyrir mig. Það er einu sinni svo að þessi skóli hefur nú á síðari árum byggt sína starfsemi að þó nokkru leyti á því að nemendur hafa komið annars staðar að heldur en úr héraði. Það voru einfaldlega ekki nægilega margir nemendur sem höfðu staðfest umsóknir sínar til þess að réttlætanlegt væri frá sjónarhóli ráðuneytisins að reka skólann núna í vetur. Þegar svo kom upp að fleiri kynnu að koma --- enda fór skólanefndin í það að auglýsa sérstaklega, eftir að henni var kunn ákvörðun ráðuneytisins, látum það vera þó að það hafi verið gert --- lýsti ég því yfir að ég væri reiðubúinn til þess að endurskoða þessa ákvörðun mína og ef svo færi að 30--40 nemendur staðfestu umsóknir sínar teldi ég réttlætanlegt að endurmeta þessa afstöðu. Þetta sagði ég og við þetta var ég reiðubúinn að standa. Það vil ég að komi skýrt fram. En það fór nú einfaldlega ekki svo að þessi fjöldi næðist. Talan 30 náðist ekki. Ég sé að enn er verið að vefengja að þar hafi ráðuneytið verið með réttar tölur og það þykir mér mjög leitt að sjá og heyra.
    Það var hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, sem las hér upp úr bréfi skólanefndarinnar --- er það ekki bréfið frá 21. ágúst? (Gripið fram í.) Það er grein, já, ég kannast við hana. Ég held að hún sé í mjög svipuðum dúr og bréfið sem barst ráðuneytinu frá skólanefndinni. Bréf skólanefndarinnar er dags. 28. ágúst og því svaraði ráðuneytið daginn eftir og ég ætla að lesa hér upp með leyfi hæstv. forseta aðeins stuttar glefsur úr bréfi ráðuneytisins. Þar segir svo:
    ,,Í bréfinu``, þ.e. bréfi skólanefndarinnar, ,,koma fram villandi staðhæfingar sem ráðuneytið vill leiðrétta og koma á framfæri við þá aðila sem fengu sent afrit af bréfi skólanefndar. Þegar ákvörðun um að fella skólahald í héraðsskólanum niður næsta skólaár var tekin, lágu fyrir upplýsingar um samtals 24 umsóknir í þrjá árganga skólans. Þar af höfðu fjórar verið dregnar til baka. Þessar tölur voru staðfestar á fundi með skólanefndum beggja skólanna, skólastjóra og kennurum, fundi sem haldinn var í héraðsskólunum 15. ágúst sl. Miðað við þessar tölur stefndi í að kostnaður á hvern nemanda í héraðsskólanum yrði rúmlega 830 þús. á sama tíma og meðalkostnaður ríkisins á hvern grunnskólanemanda á Vestfjörðum er um það bil 125 þús. Þar á ofan var óvissa ríkjandi um það hvort allir þessir 20 nemendur skiluðu sér ef þeir yrðu krafðir um að standa straum af launakostnaði í mötuneyti. Kostnaður við rekstur héraðsskólans 1991 var samkvæmt útreikningum fjármálaskrifstofu ráðuneytisins kr. 446 þús. á nemanda og á þá eftir að taka stofnkostnað með í dæmið. Þessu tvennu er ruglað saman í bréfi skólanefndar og svo virðist sem þingmenn Vestf. og Fjórðungssambandið hafi verið ranglega upplýstir um þessar prósentur. Hafi slíkt verið vísvitandi gert verður að átelja harðlega slíkan málflutning sem er héraðsskólanum síst til framdráttar.``
    Þetta var úr bréfi ráðuneytisins til skólanefndarinnar og bætt svo við að rök ráðuneytisins um nemendafæð og kostnað standist því fyllilega.
    Í bréfi skólanefndar er fullyrt að nú liggi fyrir yfir 30 umsóknir. Þær lágu ekki fyrir þegar ákvörðun um að fella niður skólahaldið var tekin. Síðan er óskað eftir að þessar umsóknir eða ljósrit þeirra verði send ráðuneytinu sem var gert. Þar segir líka:
    ,,Það er öllum ljóst sem til þekkja að tilvist Héraðsskólans í Reykjanesi byggist á nemendum utan byggðarlagsins. Minnkandi aðsókn að héraðsskólum almennt hefur leitt til þess að þeir hafa verið lagðir niður eða önnur starfsemi en grunnskólakennsla sett á fót. Þessi þróun hefur m.a. leitt til þess að stærra hlutfall nemenda héraðsskóla en áður hefur átt við einhvers konar erfiðleika að etja. Á þetta m.a. við um Héraðsskólann í Reykjanesi. Ekki skal dregið úr því að þessir nemendur hafa fengið góða umönnun í skólanum, en bent á að það er andstætt grunnskólalögum og stefnu ráðuneytisins að safna nemendum sem eiga í tímabundnum eða langvarandi erfiðleikum saman í tiltekna skóla.``
    Þetta vil ég nefna sérstaklega um leið og ég þó segi að skólamenn og ráðuneytismenn hafa sagt mér að það hafi vissulega verið gott að eiga þennan skóla að vegna þess að hann hafi tekið oft og tíðum við nemendum sem átt hafa í einhvers konar erfiðleikum, kannski ekki síst erfiðleikum á heimili en þeir sjálfir ekki verið neinir vandræðaunglingar. Og þannig hefur margur vandinn verið leystur og af þeim ástæðum kannski sérstaklega var ákveðinn vilji fyrir því í ráðuneytinu að reyna í lengstu lög að halda í þetta skólahald þótt það hafi hins vegar í lokin ekki verið talið réttlætanlegt.
    Ég veit ekki hvort ég þarf í sjálfu sér að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál. Ég harma að þetta hefur valdið leiðindum og ég veit að þetta olli ákveðnum erfiðleikum vegna þess að ákvörðunin var seint tekin, en hún átti hins vegar ekki að koma mönnum algerlega í opna skjöldu. Þetta hefur vofað yfir og þetta var ekkert sem var í raun að gerast þegar bréfið frá ráðuneytinu um ákvörðunina og dags. er 21. ágúst var sent. Það átti sér ákveðinn aðdraganda sem heimamönnum var bærilega vel kunnur.
    Ég vil líka segja að áframhaldandi rekstur Héraðsskólans í Reykjanesi hefði svo sem ekki skipt neinum sköpum í því fjármáladæmi sem við erum að glíma við núna. Ég viðurkenni það fúslega. Það sparast þarna að vísu nokkur upphæð. Það er svona eftir því frá hvaða sjónarhóli menn líta þegar þeir meta upphæðir, en mér finnst þetta frekar vera mál sem taka á prinsippákvörðun um, ef ég má orða það svo, vegna þess að við stöndum frammi fyrir mörgum hliðstæðum núna alveg á næstunni. Ég held að það sé alveg ljóst. Þetta er ekki neitt einstakt dæmi sem við komum ekki til með að sjá annars staðar.
    Hæstv. forseti. Ég held að ég láti þetta nægja ( Gripið fram í: Um nefndina.) Já, um nefndina. Ég lét þess einmitt getið á fundinum með þingmönnum kjördæmisins þann 1. ágúst að mér þætti skynsamlegt að nefnd yrði sett á laggirnarnar, skipuð heimamönnum og fulltrúum frá ráðuneytinu, sem fjalla skyldi um framtíð héraðsskólans og aðra menntunar- og menningarstarfsemi á staðnum. Eins og hér hefur komið fram er þetta ekki neitt einkamál ráðuneytisins. Landið er ekki í eigu þess eða hitavatnsréttindi á staðnum. Þau eru í eigu heimamanna, Ísafjarðar, ef ég veit rétt. Það er því auðvitað hið eðlilegasta mál að heimamenn komi þarna mjög sterklega að verki og mundu auðvitað gera þótt ekki væri þessi staða uppi. Ég hef ekki gengið frá þessu máli en er reiðubúinn að beita mér fyrir því í samráði við þingmenn kjördæmisins og heimamenn að sem allra fyrst verði sest niður til þess að fjalla um framtíð þessa staðar. Ég er alveg sannfærður um að staðurinn sem slíkur getur átt hlutverki að gegna í framtíðinni, en ég hef miklar efasemdir um að það sé hlutverk héraðsskóla. Við þurfum í sameiningu að finna leiðir til þess að kveikja þarna nýtt líf og sem gæti orðið til þess að renna stoðum undir þá veiku byggð sem þarna er.