Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 15:58:00 (477)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Herra forseti. Ég vona að það sé innan hinna nýju þingskapa sem mér leyfist að svara spurningum sem beint er til mín þar sem ég hef nýtt ræðutíma minn.
    Fyrst varðandi leikskólann. Hv. þm. spurði í hvaða átt ríkisstjórnin ætlar að vinna í sambandi við endurskoðun leikskólalaga. Ég get svarað því hreint út að mér finnst að eftir að sveitarfélögin hafa tekið alfarið við stofnkostnaði og rekstri leikskóla þá eigi endurskoðunin á leikskólalögunum að hníga í þá átt að afskipti ráðuneytisins verði sem allra minnst og minni en þau eru samkvæmt gildandi lögum.
    Það er ekki ástæða fyrir hv. þm. að óttast mjög endurskoðun grunnskólalaganna undir okkar stjórn. Það er heldur ekki nein ástæða til þess að óttast einkavæðingu skóla almennt. Slíkt er ekki á dagskrá og ég get sagt að frá mínu sjónarmiði kemur auðvitað einkavæðing grunnskóla ekki til greina og enda hef ég aldrei heyrt neinn tala um slíkt í neinni alvöru. En það breytir ekki þeirri staðreynd að ýmsa þætti í rekstri skólanna má einkavæða. Það er allt annað en að tala um einkavæðingu heilla skóla. Það má einkavæða sem sagt ýmsa rekstrarþætti.
    Varðandi Kennaraháskólann og dreifða og sveigjanlega kennaramenntun sem hv. þm. spurði um. Ég svaraði því í fyrirspurnatíma í morgun en þingmaðurinn hefur sjálfsagt ekki verið við. Ég get endurtekið það að vonast er til að það komi til framkvæmda haustið 1992 og í síðasta lagi haustið 1993.
    Ég hef áður lýst áhuga mínum á að efla Háskólann á Akureyri, m.a. með því að athuga sérstaklega hvort kennaramenntun verði komið þar á og það mun ég láta athuga alveg sérstaklega.
    Varðandi skólagjöldin þá er það misskilningur að ég sé eitthvað farinn að draga þar í land. Ég talaði alveg eins núna áðan og ég hef talað frá upphafi um möguleikann á innheimtu skólagjalda.
    Tilraun til styttingar náms, að gera slíka tilraun í einum til tveimur skólum er sjálfsagt að athuga en þetta verður þáttur í endurskoðun framhaldsskólalaganna.