Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:26:00 (480)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að undirstrika það í framhaldi af ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að á þessum málum hafði verið tekið í Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp. Mér finnst það fjarskalega ófaglegt af honum sem fyrrv. eða jafnvel núv. formanni fræðsluráðs Vestfjarða að tala um hlutina eins og hann gerði áðan. Það er eins og hann geri sér ekki grein fyrir því að um árabil var ástandið í uppnámi í Reykjanesskóla við Ísafjarðardjúp og á því var tekið af fyrrv. menntmrh. í fullri sátt við heimamenn. Ég tel það í raun og veru háskalega ófaglega nálgun af hv. þm. að vera uppi með málflutning af því tagi sem hann flutti hér áðan.
    Ég vil einnig segja að ég tel að eitt af því alvarlegasta við Reykjanesmálið sé framkoman við starfsliðið sem þar hefur verið og hafði verið kallað til af fyrrv. menntmrh. og menntmrn. vegna þess ófremdarástands sem verið hafði. Að skólanum hafði verið kallaður ungur skólamaður sem hafði lagt sig fram um að bæta skólastarf og ég vil láta það koma fram að a.m.k. af minni hálfu, þó að aðrir þingmenn hafi ekki gert það til þessa, tel ég að þeir forráðamenn skólans hafi starfað vel við erfiðar aðstæður við að byggja upp starfsemi skólans á ný. Þess vegna er ákvörðun hæstv. menntmrh. auðvitað þeim mun meira reiðarslag fyrir þá.
    Hitt vil ég svo segja, virðulegi forseti, um þá umræðu sem hér hefur farið fram að ég er þeirrar skoðunar að í framhaldi af henni sé útilokað að samþykkja það oftar að hér fari fram margar utandagskrárumræður í senn þegar það gerist að þingmenn stjórnarliðsins hver á fætur öðrum ráðast að þessu fyrirkomulagi sem við höfum fallist á í góðri trú til þess að greiða fyrir eðlilegum störfum í þinginu. Auðvitað hefði verið eðlilegast í framhaldi af ræðu hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, ég sé það núna, að biðja um sérstaka umræðu um Menntaskólann við Hamrahlíð, sérstaka umræðu um Kennaraháskóla Íslands, sérstaka umræðu um Reykjanes, sérstaka umræðu um Menntaskólann á Ísafirði og þannig mætti lengi telja vegna þess að hæstv. núv. menntmrh. hefur bersýnilega skilið eftir sig jarðsprengjur um allt land í þessu efni sem óhjákvæmilegt er að ræða og ég tel þessar menntastofnanir sem ég nefndi áðan engu síður mikilvægar en Héraðsskólinn í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp.