Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 16:35:00 (487)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
     Virðulegi forseti. Það fer að verða dálítið mikið af Vestfirðingum hér uppi í ræðustól, en það er alveg óháð þessum orðaskiptum hér á undan mér að ég hef beðið um orðið. Hér átti að ræða skólamál almennt og málefni Reykjanesskóla við Djúp. Það hef ég hugsað mér að gera.
    Í kringum árið 1950 fjárfestu menn í steinsteypu á Íslandi. Það þótti þá álitlegast að eiga þar sína fjármuni. Minna var um það vert að leggja þá í banka því að þeir báru neikvæða vexti, en steinsteypan skilaði sér í auknu verðmæti eftir því sem árin liðu. Síðar breyttist þetta með verðtryggingu og þá þótti mjög álitlegt að eiga innstæðu í banka og þykir jafnvel enn. Það er minna rætt um það að menntun er fjárfesting. Menntun er fjárfesting þjóðarinnar, fjárfesting til framtíðar. Aðalnámsskrá grunnskóla og grunnskólalögin byggja á því að menntun sé fyrir alla, allir eigi rétt á henni og hún eigi að vera við hæfi hvers og eins. Það á að vera óháð búsetu, efnahag og stöðu. Ríkisvaldinu ber að sjá öllum sínum börnum fyrir grunnskólamenntun þegar það á við og útvega þeim aðgang að skóla frá sex ára aldri.
    Misjafnlega gengur að uppfylla þessi skilyrði, sérstaklega úti um landið. Skólahús eru misjafnlega búin tækjum og misjafnlega mönnuð og eins og fram hefur komið hér fyrr er hlutfall leiðbeinenda í störfum um og yfir 50%. Hver skyldi vera ástæðan fyrir því? Þær eru sjálfsagt margar og mismunandi. Þeir kennarar sem útskrifast frá Kennaraháskóla Íslands skila sér ekki til starfa í grunnskólum landsins. Þeir leita annað, ekki síst vegna lágra launa. Þar að auki er tregða meðal kennara við því að fara of langt frá þéttbýlinu í kringum suðvesturhornið.
    Önnur ástæða er líka fyrir þessu. Hún er sú að þó að hægt sé að fá kennara til starfa er þar oft um tvo aðila að ræða, það vantar þá vinnu fyrir hinn aðilann. Það vantar vinnu fyrir makann. Þó að annar sé kennaramenntaður og vilji sækja vinnu út á land hefur makinn, sem oft er líka með háskólamenntun, ekki vinnu við hæfi. Það er líka spurning um húsnæði og um flutninga og kostnað við þá. Það er líka spurning um háan rekstrarkostnað þess heimilis sem viðkomandi ætlar að reka.
    Hverjar ættu þá að vera úrbætur til þess að bæta úr þessum kennaraskorti við grunnskólana? Húsnæði verður að vera á sanngjörnu verði og sanngjörnum kjörum. Það verður jafnvel að veita aðstoð í formi flutningsstyrks og greiða niður húsaleigu. Þetta hafa sveitarfélögin tekið að sér að gera í síauknum mæli þó að í raun og veru sé ekki þeirra að sjá til þess að börnin fái kennslu, heldur ríkisvaldsins. Sveitarfélögin hafa tekið að sér að greiða staðaruppbót, misjafnlega mikið og oft eftir aðstæðum á hverjum stað. En það þurfa líka að vera fjölbreyttari atvinnumöguleikar, eins og ég nefndi áðan, fyrir hinn aðilann. Það er ekki alltaf svo að það séu einstaklingar sem koma til kennslu. Og síðast en ekki síst þarf að hækka laun kennara.
    Framhaldsskólinn á líka að vera fyrir alla, en í framhaldsskólanum hafa skapast vandamál vegna þess að nú geta nemendur gengið á milli skólanna, úr grunnskóla upp í framhaldsskóla, án þess að mjög miklar kröfur séu gerðar um skil þar á milli. Þetta hefur skapað þau vandamál að sérkennsla þarf í auknum mæli að fara fram í framhaldsskólum. Þá hefur það ákvæði að fatlaðir eigi inngöngu í framhaldsskólana jafnt og aðrir, sem er sjálfsagt mál, líka skapað ýmis vandræði og aðstöðumismunun í skólunum.
    Í framhaldsskólunum hefur líka orðið mikil fjölgun undanfarin ár og er skemmst að minnast þess að á þessu hausti urðu nemendur um 1.500 fleiri en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum. Því er meiri þörf á fjárframlögum á fjáraukalögum þessa árs vegna þessarar fjölgunar nemenda. Einnig er meiri þörf fyrir stoð- og sérkennslu.
    Allt þetta kallar á aukið fjármagn. Það kallar þá jafnframt á nýja skipulagningu til að taka mið af þessum aðstæðum eða skoða hver grunnurinn ætti að vera. Það þarf að skoða málefnið betur. Það er ekki hægt að koma bara með handahófskenndar aðgerðir á síðustu mánuðum áður en skólastarf á að byrja og skera af handahófi hér og þar. Það hefur aldrei þótt til fyrirmyndar, ef eitthvað er að í mannlegum líkama, að leggja hann bara upp á borðið og skera af handahófi til þess að vita hvar meinsemdin er. Fyrst þarf að rannsaka og athuga hvar meinsemdin liggur. Ef framhaldsskólar og skólakerfið yfirleitt í landinu er komið svo langt fram úr því sem við Íslendingar höfum efni á að standa undir verðum við að skoða leiðir sem við getum farið í samráði við það fólk sem það á að bitna á en ekki gera handahófskenndar tilraunir við að lækna meinsemdina.
    Er það þá rétt stefna að framhaldsskóli sé fyrir alla? Já, vissulega, en ekki sami skólinn eða sömu námsbrautir fyrir alla. Nám þarf að vera sveigjanlegt. Það þurfa að vera styttri brautir. Það þarf að auka fullorðinsfræðslu. Það þarf að fjölga öldungadeildum. Það þarf að bæta starfsmenntun og það þarf að sníða þetta að þörfum þjóðfélagsins á hverjum tíma. Og það á að færa menntunina nær fólkinu. T.d. er mjög misjafnt hvernig skilgreining er á milli starfsmenntunar, öldungadeildar, starfsþjálfunar o.s.frv. og mjög er misjafnt hvernig þetta er greitt af hálfu menntmrn. eða af hálfu viðkomandi aðila sem halda þessi námskeið eða halda þessari kennslu uppi.
    Öldungadeildir hafa t.d. mikið félagslegt gildi. Ef hægt er að koma þeim á sem víðast út um land, og fullorðinsfræðslu annarri, hafa þær það gildi að þær auka bæði félagslegt og menningarlegt starf á stöðunum, þær auka samstarf skóla og þær vekja bjartsýni meðal íbúanna. Þess vegna þarf að styrkja þá starfsemi af fremsta megni.
    Þetta er allt of dýrt, segja ráðamenn í dag. Fjárfesting er dýr eins og ég sagði í upphafi. Það er dýrt að byggja Perlu og hún fer fram úr áætlunum. Það er líka dýrt að leggja vegi, en það skilar sér í betri nýtingu ökutækja, bættum samgöngum sem hafa ótalin önnur áhrif. Það færir byggðirnar saman og bætir nýtingu annarra mannvirkja. Menntunin skilar líka miklu. Hún kostar ekki bara peninga, hún skilar sér alls staðar í þjóðfélaginu. Menntun á að vera fyrir alla, óháð búsetu, óháð kyni eða stétt, óháð efnahag. Þess vegna eru skólagjöld óheppileg lausn á fjárhagsvanda ríkissjóðs því að þau mismuna fólki eftir efnahag.
    Ég get ekki látið hjá líða að nefna aðeins þá breytingu sem fyrirhuguð er á Lánasjóði ísl. námsmanna þó að fram eigi að fara sérstök utandagskrárumræða um það síðar. Sú breyting, sem nefndin, sem skilaði áliti nýlega, hefur lagt til, er fáránleg í einu orði sagt. Hún er ekki til þess fallin að hvetja fólk til framhaldsnáms eða háskólanáms. Ef þær breytingar ná fram að ganga mun það auka misréttið. Bilið á milli fátækra og ríkra breikkar og á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Ég vona svo sannarlega að þær tillögur verði gjörsamlega kolfelldar. Það verður hins vegar rætt síðar.
    Málefni héraðsskólanna, þ.e. málefni Héraðsskólans í Reykjanesi, hafa verið til umræðu í tengslum við þessa skólamálaumræðu. Svo mörg orð hafa verið sögð um það mál að ég ætla ekki að bæta miklu við. Ég vil þó leggja áherslu á mikilvægi þess að þar sé starfræktur skóli, það er mikilvægur hlekkur í byggðajafnvægi. Þessi skóli hefur orðið út undan á síðustu árum, bæði í viðhaldi og í því að vera byggður upp samhliða öðrum skólamannvirkjum og annarri útfærslu í skólakerfinu. Að vísu hafa verið uppi hugmyndir um það, samkvæmt því sem hæstv. fyrrv. menntmrh. upplýsti hér áðan og ég get vissulega tekið undir þær hugmyndir, að uppbygging Reykjanesskólans muni verða í tengslum við framhaldsskóla Vestfjarða, en það var einnig upplýst í dag að nýlega væri búið að skrifa undir samning um það í menntmrn.
    Ég held að sá hlekkur sem Reykjanesskólinn hefur verið megi ekki bresta. Þar er hægt að gera góða hluti. Aðstæður þar eru eru dálítið sérstakar. Þar er t.d. fuglalíf óvanalega mikið og fjölskrúðugt. Þangað hafa komið fuglafræðingar alls staðar að úr heiminum. Ég hef oft verið þar og hitt fólk frá ýmsum þjóðlöndum sem þar hefur sest að í nokkrar vikur til þess að rannsaka fuglalífið. Þar eru líka sérstakar örverur sem hafa bólfestu í hverunum sem eru á Reykjanesinu. Þær örverur eru mjög sjaldgæfar og eiga sér nánast enga sambærilega stöðu annars staðar í heiminum. Það býður því upp á möguleika á rannsóknum á þessum örverum og í framhaldi af því líftækni sem byggist á þeim rannsóknum. Því mætti hugsa sér að þarna væri e.t.v. hægt að hafa náttúrufræðibraut í tengslum við framhaldsskóla Vestfjarða.
    Eins og mönnum er kunnugt, sem hafa hlustað og fylgst með fréttum, var þarna fiskeldisstöð í gangi sem varð síðan gjaldþrota, þannig að þar hefur verið byggð upp ýmiss konar aðstaða til fiskeldis. E.t.v. væri hægt að nýta þá aðstöðu til kennslu í fiskeldisfræðum.
    Þá má einnig nefna að hæstv. menntmrh. nefndi áðan að hann ætlaði sér að vinna að dreifðri og sveigjanlegri kennaramenntun, mundi leggja mikla áherslu á að hún yrði komin af stað árið 1993. Ég fagna því vissulega að hann skuli vera að vinna að því. Þetta hefur verið mikið baráttumál kennara og landsbyggðarmanna yfirleitt að koma á dreifðri og sveigjanlegri kennaramenntun og ég vona svo sannarlega að það verði sem allra fyrst. E.t.v. væri hægt að nýta eitthvað af húsnæði Reykjanesskóla undir slíkt, t.d. koma á námskeiðum sem væru þá áfangi í dreifðri og sveigjanlegri kennaramenntun. Það mætti vel hugsa sér það.
    Frú forseti. Ég vænti þess að hæstv. ríkisstjórn endurskoði þá ætlun sína að koma hér á stórhækkuðum skólagjöldum til að draga úr kostnaði af rekstri framhalds- og sérskóla og háskóla. Með skólagjöldum er verið að gera upp á milli nemenda, eftir efnahag og þar með eftir stétt og búsetu. Um leið er hugtakið framhaldsskóli fyrir alla fótum troðið.