Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 17:27:00 (492)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. menntmrh. að það hafa verið innheimt skólagjöld, ég hugsa í raun og veru alveg frá því að skólastarf hófst á Íslandi, frá því að Ísleifur biskup Gissurarson setti niður skóla á sínum tíma og frá því að stofnaður var Hólaskóli og skóli í Skálholti. En það sem við erum að tala um hér er þetta: Skólagjöld þau sem hafa verið innheimt hafa verið tekin til félagsstarfs nemenda í fyrsta lagi. Í öðru lagi eru efnisgjöld upp í 18 þús. kr., hygg ég, á önn þar sem hæsta dæmið er sem mig minnir að sé frá hússtjórnarbraut Menntaskólans á Akureyri. Í þriðja lagi er um að ræða skóla sem gilda um sérstök afbrigðileg ákvæði í framhaldsskólalögum. Þ.e. Verslunarskólinn sem tekur 37 þús. kr. og er sérstaklega undanþeginn almennum ákvæðum laganna með ákveðinni lagagrein.
    Þegar framhaldsskólalögin voru svo sett er ákveðið að setja í 8. gr. ákvæði um þessi gjöld til þess að ríkið geti í raun og veru verið með þau inni í sínum fjárlagafrv. og uppgjörum og gert kröfu á skólana um að þeir skili þessu. Hvað gerir núv. ríkisstjórn? Hún gerir enga slíka kröfu á skólana. Í rauninni er það þannig að þegar fjárlagafrv. birtist er engin grein gerð fyrir þessum gömlu skólagjöldum. En um það snýst málið hins vegar ekki. Málið snýst um það að ríkisstjórnin er að tala um að leggja á ný skólagjöld í rekstur skólanna, laun og annan rekstrarkostnað. ( Gripið fram í: Ekki laun.) Nei ekki laun, en annan rekstrarkostnað samkvæmt 32. gr. laganna. Það er óheimilt samkvæmt 2. tölul. þeirrar greinar vegna þess að þar er nákvæmlega tiltekið að allur rekstur á að greiðast úr ríkissjóði. Þess vegna er það svo að ef ráðherra ætlar að taka skólagjöld í þessu efni verður að breyta lögum.