Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 17:45:00 (495)

     Einar Már Sigurðarson :
     Frú forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þm. sem fóru fram á þessa utandagskrárumræðu um skólamál sem hefur auðvitað komið í ljós að full þörf var á. Það hefur verið þannig á stundum síðustu mánuði að það hefur hvarflað að mörgum að hæstv. menntmrh. væri kominn í einhverja samkeppni við hæstv. heilbrrh. um það að fá athygli fjölmiðla. En það verður að segjast um hæstv. heilbrrh. að hann virðist ætla að halda tigninni.
    Vegna orða hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um að nauðsynlegt væri að auka vægi þingnefnda, þá vil ég í upphafi taka undir það sjónarmið en jafnframt beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh. að þessu gefna tilefni, hver það var í menntmrn. ef það hefur ekki verið hæstv. ráðherra sem neitaði beiðni hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í menntmn. um að fá bréfaskipti menntmrn. og Kennaraháskóla Íslands og einnig bréfaskipti Menntaskólans við Hamrahlíð og menntmrn. Því miður hefur hv. þm. ekki fengið þessi bréfaskipti til sín þrátt fyrir beiðni, bæði í þingnefndinni og þó málið hafi verið tekið upp við virðulegan forseta.
    Hæstv. ráðherra fór eðlilega víða í umræðunni og hóf svör við ræðu hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um skólagjöld. Þar kom ýmislegt markvert fram, m.a. að hugmyndir hæstv. ráðherra um skólagjöld gera ráð fyrir því að um hámarksupphæð sé að ræða. Ég vil í því sambandi spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé hugmyndin að þessi hámarksupphæð gildi einnig fyrir einkaskóla, og á ég þar að sjálfsögðu fyrst og fremst við Verslunarskóla Íslands, vegna þess að það er ljóst að breyta verður lögum ef menn ætla að ná fram þeim markmiðum sem menn hafa sett sér við þessa gjaldtöku. Það liggur ljóst fyrir öllum sem það vilja skilja ef lesin er 8. gr. laga um framhaldsskóla. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Skólanefnd ákveður upphæð gjalda er nemendum er gert að greiða við innritun í námsáfanga svo sem innritunargjöld, efnisgjöld, pappírsgjöld og nemendasjóðsgjöld.`` --- Það segir að það má eingöngu innheimta þessi gjöld og engin önnur. En það kemur fram í fjárlagafrv. að gert er ráð fyrir að þessi gjöld verði notuð til að lækka rekstrargjöld hjá skólum, en miðað er við, eins og þar segir, að skólarnir geti lagt á innritunar- og efnisgjöld og/eða lækkað rekstrargjöld til þess að semja starfsemina að fjárveitingum.
    Ég vil fara fram á það við hæstv. menntmrh., að hann nefni okkur dæmi hvernig þetta getur orðið í raunveruleikanum. Æskilegast þætti mér að hæstv. ráðherra tæki dæmi af þeim framhaldsskóla sem næstur okkur er, þ.e. Menntaskólanum í Reykjavík, þannig að við fengjum hér í þingsölum ,,konkret`` dæmi um hvernig þetta er hugsað. Við höfum því miður ekki fengið nægjanlega skýr svör við því í menntmn. þrátt fyrir að embættismenn menntmrn. hafi verið um það spurðir.
    Eitt til viðbótar varðandi skólagjöldin. Það kom fram í ræðu hæstv. menntmrh. að mjög margir framhaldsskólar, að því er mig minnir, hafi notað þessi skólagjöld, sem innheimt hafa verið fram að þessu, til rekstrar. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hæstv. menntmrh. komi fram með það hvaða skólar eru þarna á ferðinni vegna þess að meðan það er ekki gert þá sitja allir framhaldsskólar undir þeirri ásökun hæstv. ráðherra að hafa í raun og veru brotið lög sem þeir eiga að starfa eftir.
    Það er einnig nauðsynlegt að fá svör frá hæstv. ráðherra um það hvernig ríkisstjórnin hyggst manna þá nefnd sem m.a. á að yfirfara rekstur framhaldsskólanna vegna þess að í fjárlagafrv. segir að þessa nefnd muni ríkisstjórnin skipa. Það vekur óneitanlega þann ótta eftir að hafa hlýtt á m.a. fulltrúa námsmannahreyfinganna á fundi menntmn. þar sem þeir fjölluðu um ágæta nefnd sem hæstv. ráðherra skipaði um endurskoðun á reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna að þarna verði á ferðinni svipuð nefnd sem loki sig af og hafi ekki samráð við neina aðila sem að málinu koma.
    Það er einn þáttur sem minnst er á í hinni hvítu bók sem nauðsynlegt er að fá frekari skýringar á frá hæstv. ráðherra og hann minntist einnig á sjálfur í ræðu sinni áðan. Það er varðandi einkavæðingu og einkaskóla. Í hinni hvítu bók segir að staða einkarekinna skóla í skólakerfinu verði skilgreind nánar. Spurning er hvort hægt er að fá á þessu stigi nánari skýringu á því hvað þarf að skilgreina nánar.
    Þá er einnig nauðsynlegt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur með örfáum dæmum um hvaða þættir í skólastarfinu það eru sem hæstv. ráðherra telur hægt að einkavæða.
    Það er einn þáttur í skólastarfi hér á landi sem er líklega hvað mest einkavæddur, en það er fullorðinsfræðsla. Þar kemur að máli mikill fjöldi aðila og samkvæmt ágætri bók, Til nýrrar aldar, kemur m.a. fram að á árinu 1990 hafi um 150 aðilar komið nálægt fullorðinsfræðslu. Það er ekki síður athygli vert að í þessari sömu bók kemur einnig fram að á árinu 1990 hafi framlög ríkisins til fullorðinsfræðslu á vegum nær allra ráðuneyta eða undirstofnana numið um 300--400 millj. kr. Ég hefði haldið, hæstv. menntmrh., að þegar tekið var til sparnaðarverka í menntmrn. þá hefði mátt skoða þennan þátt öllu betur. Það sem vekur enn meiri athygli er að það er ekki að sjá að menntmrn. hafi hug á því að auka sinn þátt í fullorðinsfræðslunni þegar fjárlagafrv. er skoðað. Hins vegar virðist félmrn. ætla að stórauka sinn þátt í þessari fræðslu því undir liðnum Starfsmenntun í atvinnulífinu er aukning úr 15 millj. á þessu ári í 58 millj. á því næsta. Þarna hefði ég haldið að hægt hefði verið að samræma hlutina og vera ekki að hafa þá á víð og dreif í ráðuneytunum. Það hefði verið eðlilegt að menntmrn. hefði þarna ákveðna yfirumsjón. Ég er sannfærður um að hægt er að auka verulega sértekjur stofnana og þar á meðal skólanna vegna þess að sú fullorðinsfræðsla sem m.a. fer fram í framhaldsskólum landsins er ódýrasta fullorðinsfræðsla sem fram fer og ekki bara ódýrasta heldur trúlega sú besta eða a.m.k. nálægt því að vera sú besta og þegar slíkt fer saman held ég að vænlegt sé að reyna að efla og breiða út slíka starfsemi.

    Ein er sú stofnun sem sinna á grunnskólum landsins og heitir Námsgagnastofnun. Samkvæmt fjárlagafrv. virðist ekki vera gert ráð fyrir að framlag á nemanda verði aukið til þeirrar stofnunar. Því er nauðsynlegt að hæstv. menntmrh. skýri hvort ekki sé ætlunin að framfylgja því sem ótvírætt er samkvæmt lögum, að nemendur í grunnskólum landsins eigi að fá öll kennslugögn ókeypis. Að vísu er sagt í hvítu bókinni: ,,Stefnt verður að aukinni þátttöku almennra bókaforlaga í gerð námsgagna.`` Hugsast gæti að þarna væri hugmyndin að bjóða út gerð námsgagna og hæstv. ráðherra hafi þá trú að með því sé hægt að spara stórar upphæðir og hægt sé að ná þessum markmiðum laganna fyrir sama pening og áður var þegar sá háttur var ekki á hafður að nemendur fengju öll gögn ókeypis.
    Það hefur komið fram víða að markmið ríkisstjórnarinnar sé að auka sjálfstæði framhaldsskólanna, bæði faglegt og fjárhagslegt. Því er hins vegar ekki að neita að þau vinnubrögð sem notuð hafa verið og hér hafa verið gerð að umtalsefni hvað eftir annað vekja ugg vegna þess að skólakerfið er auðvitað viðkvæmt sem slíkt og það ber að meðhöndla það á þann hátt. Það gengur ekki að gefnar séu fyrirskipanir út og suður eftir geðþótta hverju sinni. Við höfum haft af því reynslu og ég hélt að það væru liðnir tímar að hæstv. menntmrh. gengi í spor sumra fyrirrennara sinna sem ekki þarf að nefna dæmi um því að þau ættu að vera öllum vel kunn.
    Örlítið hér til viðbótar um grunnskóla. Það kemur fram í fjárlagafrv. að ákveðið hefur verið að seinka gildistöku nokkurra ákvæða nýrra grunnskólalaga, m.a. um hámarksfjölda nemenda í bekkjum. Því miður hafa ekki fengist um það nægjanlega skýr svör hversu mikið þessi ákvæði hefðu kostað hefðu þau verið látin taka gildi, en það vekur athygli að gert er ráð fyrir að almennar sparnaðaraðgerðir í grunnskólunum spari um 50 millj. og þeirra getið í greinargerðinni án þess að sérstaklega sé tilgreint hvað þarna er átt við.
    Það er einnig nauðsynlegt, hæstv. menntmrh. að í þessari umræðu komi fram hvenær hæstv. menntmrh. gerir ráð fyrir að endurskoðun á bókinni Til nýrrar aldar verði lokið vegna þess að ekki er hægt að skilja orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að þar til því verki er lokið sé menntastefna ráðuneytisins í raun og veru ekki ljós. Það er ekki síður mikilvægt að fá um það upplýsingar hvernig þessi endurskoðun á að fara fram. Það hefur komið fram hér í umræðunum að þessi bók er ekki einkasmíði eða fámennissmíði, heldur smíði fjölda aðila á víð og dreif í skólakerfinu. Þess vegna er eðlilegt að spyrja: Verður farið að þessari endurskoðun á sama hátt, að sami fjöldi aðila fái að koma að þeirri endurskoðun eða er ætlunin að færa hana inn í fámennari hóp? Þá væri ekki síður nauðsynlegt að fá að heyra hvaða gæðingar fái að sitja þar.
    Virðulegi forseti. Ég er alveg að ljúka máli mínu og enda á því að gera stutta athugasemd við ummæli hæstv. menntmrh. um forustu kennarasamtakanna. Hæstv. ráðherra orðaði það svo að nauðsynlegt væri að forusta kennarasamtakanna þyrfti ekki að vera eins upptekin við kjaramálin og hún hefði verið. Þetta var væntanlega vel meint vegna þess að ef kjörin væru betri gæti forusta kennarasamtakanna að sjálfsögðu farið að sinna ýmsum öðrum málum. Ég held þó að nauðsynlegt sé að fram komi að forusta kennarasamtakanna og sérstaklega Kennarasambands Íslands hefur sinnt skólastefnu og skólamálum mjög mikið og ég efast um að mörg stéttarfélög í landinu hafi sinnt faglegri umræðu jafn vel.