Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:19:00 (498)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Ég vil bera blak af fyrrv. hæstv. menntmrh. Birgi Ísl. Gunnarssyni. Þær endalausu árásarræður sem fluttar eru á hann hér af hv. þm. Sjálfstfl. eru satt að segja ákaflega merkilegar. Hæstv. fyrrv. menntmrh. gerði tillögu á Alþingi um frv. til laga um framhaldsskóla. Það var samþykkt samhljóða og engin athugasemd gerð við þau ákvæði sem hér hafa aðallega verið nefnd. Það er greinilegt að Sjálfstfl. er að reyna að nota sér þessi ákvæði til þess að skjóta sér undan skyldum sínum í sambandi við framhaldsskólana þó svo að það örli á því, eins og kom fram hjá hv. 10. þm. Reykn., að menn átti sig á að það er breytt námsframboð, stuttar brautir, m.a. tengdar atvinnulífinu, sem þurfa að koma í staðinn fyrir þessar eilífu stúdentsprófsbrautir. Ég vil lýsa því yfir sem minni skoðun að þá oftrú á stúdentshúfuna sem hefur birst hér í málflutningi m.a. hv. síðasta ræðumanns kann ég ekki að meta.
    Hitt sem mér fannst einnig athyglisvert var það hvernig hv. þm. hagaði orðum sínum, að Sjálfstfl. hefði nóg að gera í menntmrn. næstu fjögur ár. Það er ljótur boðskapur á bak við slíka yfirlýsingu vegna þess að hver svo sem er menntmrh. má ekki vera þar í vinnu fyrir þrönga flokkshagsmuni heldur þjóðina í heild, öll þau börn, alla þá unglinga og allt það unga fólk sem er í skólum landsins.