Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 18:28:00 (502)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Hér hefur hv. 10. þm. Reykn. talað um menntamál og boðað þar stefnu sem má segja að gangi að sumu leyti þvert á stefnu núv. hæstv. menntmrh. ef hann fer að ráðum þeirra sem sett hafa reglurnar um námslánin. Ef við viljum auka iðnnám í landinu verðum við að hafa víðsýni til þess að halda áfram að lána iðnnemum sem eru undir tvítugsaldri. Með þeirri ákvörðun að neita að veita lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna til nemenda, sem eru undir tvítugsaldri, eru menn að þrýsta mönnum frá verknámi með hraðari aðgerðum en nokkru öðru. Þess vegna verða menn að átta sig á því að það þýðir ekki í orði að tala um það að menn vilja styðja verknámið og hins vegar að svipta verknámið þessum möguleikum sem það hefur haft.
    Ég ætla að bæta við: Ef við skoðum fjölbrautaskólana, sem hafa verið vaxtarbroddur hins íslenska skólakerfis á undanförnum árum, og framhaldsskólalögin, sem voru lögð fram af Birgi Ísl. Gunnarssyni þáv. menntmrh. og samþykkt á Alþingi Íslendinga, blasir það við að fyrst og fremst einn þáttur í þeim gengur ekki upp. Það eru blindgöturnar í verknáminu, þ.e. nemandi fer í fjölbrautaskóla, lýkur þar bóklega hluta ákveðins verknáms, e.t.v. fer hann líka í eitthvert verknám í skólanum, en svo liggur blindgatan í því að hann getur ekki klárað námið nema meistari taki hann í vinnu. Ef mönnum er alvara hljóta þeir í framhaldi af þessu að höggva á þennan hnút. Það gengur í sjálfu sér ekki að hafa þær blindgötur að menn standi frammi fyrir því eftir kannski tveggja eða þriggja ára nám í Iðnskólanum að þeir komist ekki á leiðarenda í því námi sem þeir ætluðu sér vegna þess að það er ákveðinn tími sem þeir eiga það undir einhverjum meistara hvort þeir komast áfram eða ekki.
    Hitt atriðið sem ég ætlaði að vekja athygli á er að talað er um hvað afleiðingar opnunar séu alvarlegar. Mér hefði nú fundist nær að spyrja: Hverjar hefðu afleiðingarnar verið ef menn hefðu lokað? Ef við hefðum bara Menntaskólann við Tjörnina, Menntaskólann við Hamrahlíð og nokkra aðra menntaskóla, hverjar hefðu afleiðingarnar þá orðið? Við vorum með þetta lokaða kerfi á tímabili á dögum viðreisnar. Þá streymdu menn í Kennaraskólann í stórum stíl. Hvers vegna? Það var leið sem var opnuð fram hjá þessu kerfi og afleiðingin var sú að það er búið að mennta óhemju marga sem aldrei hafa ætlað sér að fara í kennslu.
    En það er líka tímabært að menn geri sér grein fyrir því að það er nú ekki eins og guð hafi sagt þó eitthvað heyrist úr Háskólanum. Ég held að það sé ekkert nýtt að Háskólinn hóti inntökuprófum og þrengingum á aðgerðum. Læknafélag Reykjavíkur hefur ráðið því í mjög mörg ár hversu margir fara í læknadeild. Menn hafa viljað byggja stéttarmúra til að þrengja að. En hitt er svo umhugsunarefni hvort það sé sjálfgefið miðað við það hve stúdentsprófið er orðið fjölbreytilegt. Einn er stúdent úr máladeild, annar úr stærðfræðideild, þriðji er úr náttúrufræðideild, einn úr verslunarfræði og þar fram eftir götunum. Ég kann ekki einu sinni nöfn á þessu öllu saman. Það er ekki sjálfgefið að nám í öllum greinum í Háskóla gangi upp sem framhald af öllum þessum tegundum af stúdentsprófi. Við getum tengt og sagt: Það á að vera eðlilegt að sá sem hefur stærðfræðipróf úr stærðfræðideild komist t.d. í verkfræði eða efnafræði, en það er ekkert sjálfgefið að fyrir þá sem hafa fyrst og fremst lagt áherslu á tungumál í sínu námi henti raungreinar í Háskólanum. Ég held að menn verði að átta sig á þessu. Það er einnig umhugsunarefni að sennilega fer íslenska þjóðin verr með sína stærðfræðinga og þá sem efnilegir eru í raungreinum en nokkur önnur þjóð með þeim kvöðum sem hún leggur á þá til tungumálanáms. Það eru náttúrlega mikil hlunnindi fyrir þessa aðila að stunda nám í enskumælandi heimi og læra kannski ekkert nema ensku en komast svo áfram eftir háskólanám á leiðarenda í einhverjum sérgreinum raunvísinda.
    Ég held þess vegna að sú kenning að einhverjar alvarlegar afleiðingar séu af opnuninni í skólakerfinu standist ekki. Ég man ekki betur en Háskóli Íslands hafi fellt menn alveg miskunnarlaust í læknadeild frá því ég man eftir mér og ég býst við að hann haldi áfram að gera það. Ég býst við að það verði áfram þannig um þær deildir sem taka við mönnum og vita að þær eru að útskrifa menn sem komast í mjög hálaunuð störf. Þær geta valið úr. Það er svo aftur á móti spurning hvort þjóðfélagið raðar rétt upp áherslum í hvaða deildir hæfustu námsmennirnir þurfa að fara.
    Ég held aftur á móti að eitt af verkefnunum sem komi til umhugsunar hljóti að vera að koma í veg fyrir blindgöturnar í fjölbrautakerfinu. Og ég trúi því að þau lög um framhaldsskóla sem við höfum í dag bjóði upp á mikla möguleika á að auka fjölbreytni. Þess vegna finnst mér að það sé kannski ekki sanngjörn umsögn, skulum við segja, ekki árás á þann menntmrh. sem lagði til að þessi lög yrðu hér upp tekin og eftir þeim farið, að halda því fram að framhaldsskólinn sé eitthvert stórkostlegt vandamál í íslensku skólakerfi. Ég verð að segja eins og er að ég er miklu hræddari við stöðuna í grunnskólunum. Það er varla að það sé á hreinu lengur hvort ólæsi er í vexti á Íslandi eða ekki. Það er varla að menn viti það. Það hefur gengið verulegt sparnaðaræði yfir gagnvart grunnskólanum. Þetta er nú einu sinni sá skóli sem allir Íslendingar þurfa að fara í. Þar hefur virkilega verið sparað. Enn er verið að spara í þeim fjárlögum sem nú gilda. Að mínu viti er verið að framkvæma þá stefnu að leggja það á herðar kennaranna að búa við stærri bekkjardeildir en ásættanlegt er og jafnframt að gera of lítið úr því að þeir þurfi aðstoð gagnvart nemendum sem annaðhvort eru erfiðir eða eiga erfitt með nám.
    Ég held að sú umræða sem hér hefur farið fram hafi verið mjög þörf. Ég er sannfærður um, eftir að hafa hlustað á mál þeirra sem hér hafa talað og áttað mig á því hverjir tóku ákvörðun um að þegja við þessa umræðu, því að það er líka athyglisvert miðað við yfirlýsingar í fjölmiðlum sem við höfum hlustað á, það hafa ekki allir hanar galað sem hafa haft hátt að undanförnu, að svo virðist sem bak við tjöldin hafi náðst einhver málamiðlum í þeim ágreiningsmálum sem uppi hafa verið og geti kannski komið manni til að trúa því að íslenska skólakerfið muni ekki taka öllum þeim breytingum sem mestu boðendur frjálshyggju hafa talið að væru í höfn og Alþfl. hafi kannski haldið fastar á sínum stefnumiðum í menntamálum en menn áttu von á miðað við eftirgjöf á ýmsum öðrum sviðum. Ég tel að sú þögn sem hér hefur ríkt og ég hef tekið eftir gagnvart afstöðu ýmissa sem hafa haft sig mjög í frammi að undanförnu boði það að í menntamálum hafi Alþfl. ákveðið að ná vopnum sínum og koma í veg fyrir að valtað verði yfir eitt og annað í fortíðinni sem hann getur vissulega hælt sér af að hafa átt sinn þátt í að skapa í landinu sem félagshyggjuflokkur.