Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 19:01:00 (506)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Orðið andsvar á kannski ekki við í þessu tilviki þótt ég nýti mér þann rétt sem ég hef samkvæmt þingsköpum til þess að taka til máls vegna ræðu hv. síðasta ræðumanns. Ég vil taka eindregið undir það með henni sem hún sagði varðandi skólakerfið og þá stefnu hér að leggja alla að jöfnu innan íslenska skólakerfisins. Ég tel að þar hafi menn farið inn á varhugaverða braut og það sé tími til kominn að huga að leiðum til þess að snúa af þeirri braut.
    Hún tók fast til orða þegar hún sagði að skólakerfið hafi farið of illa með of marga. Ef svo er, og hún talaði hér af reynslu sem kennari, að hennar mat er það að íslenska skólakerfið hafi farið of illa með of marga, þá er vissulega tími til kominn að líta á það kerfi og kanna hvort ekki sé bráðnauðsynlegt að gera skjótar úrbætur á því þannig að menn séu ekki lagðir að jöfnu á röngum forsendum.