Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 19:04:00 (507)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að það þarf að fara með gát í breytingar á skólakerfinu. Nákvæmlega eins og hún sagði getur það tekið langan tíma að leiðrétta ef gert er eitthvað rangt. Það er einmitt ástæðan fyrir því að ég afturkallaði ákvörðunina um fjórða ár Kennaraháskólans og afturkallaði samþykki forvera míns um breytingu á námsskrá Menntaskólans í Hamrahlíð vegna þess að ég hafði miklar efasemdir um að þarna væri verið að gera rétt. Ég er þess vegna ekki að gera neina byltingu eða kollsteypu. Við erum í sama kerfi og við höfum verið og menn hafa vissulega verið misjafnlega ánægðir með. En það er skynsamlegra að skoða þetta ofan í kjölinn. Það hafði ekki verið gert, það liggur fyrir. Því miður var ekki það samráð haft sem nauðsynlegt var áður en þessar ákvarðanir voru teknar. Ég er ekki að fordæma þær. Ég er ekki að segja að það sé alrangt sem þarna var fitjað upp á en ég vil skoða það betur. Á þetta legg ég áherslu.