Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 19:07:00 (508)

     Kristinn H. Gunnarsson :
     Virðulegi forseti. Í þeim málum sem ég hef hreyft hér hafa orðið þó nokkrar umræður og það eitt sannfærir mann um að það var full þörf á að biðja um að málin yrðu rædd.
    Hvað varðar fyrsta atriðið sem ég tek hér til, samning milli ríkisins og sveitarfélaga Vestfjarða um framhaldsskóla Vestfjarða, þá fagna ég því að hæstv. menntmrh. hefur undirritað þann samning og hann því komist á því sveitarstjórnarmenn, og ég segi við sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum, bindum miklar vonir við þennan samning að hann muni verða okkur ansi halddrjúgur í þeirri viðleitni að búa Vestfirðingum og ungu fólki þar betri aðbúnað en verið hefur að mörgu leyti.
    Hvað varðar annað atriðið, öldungadeildina á Hólmavík, fagna ég því út af fyrir sig að hæstv. ráðherra er reiðubúinn til að líta á þetta mál aftur eins og hann orðaði það. Ég hefði heldur kosið að hann tæki sterkar til orða. Ég vil þó virða þessa viðleitni en ítreka þó það sjónarmið varðandi þetta mál að ég skil ekki hvers vegna ekki voru til örfáar krónur fyrir erfiðisvinnufólk á Hólmavík til þess að sækja sér frekari menntun en hins vegar til margar, margar krónur til að kaupa bíla. Og ég held að það séu mjög margir sem eru sammála mér og skilja ekki þennan áherslumun.
    Í þriðja lagi er fiskvinnslubraut við væntanlegan framhaldsskóla Vestfjarða sem ég gat um. Það mál er þannig statt að sú nefnd sem sett var á laggirnar til þess að undirbúa það með fyrrv. skólameistara Menntaskólans á Ísafirði í forsvari skilaði af sér skýrslu snemma á þessu ári. Í þeirri skýrslu er lagt til að ráðinn verði sérstakur starfsmaður í sex mánuði til að skipuleggja námsbrautir í þessu námi við framhaldsskóla Vestfjarða. Og þar er óskað eftir því að sjútvrn. eða menntmrn. verði við því að greiða laun þessa starfsmanns sem sérstakt þróunarverkefni í námi fyrir sjávarútveginn eða fiskvinnsluna. Að vissu leyti er þetta mál því á borði hæstv. menntmrh. og að nokkru leyti hæstv. sjútvrh. og ég vildi beina því til ráðherra að líta á það og ýta því frekar áfram.
    Í fjórða lagi, Menntaskólinn á Ísafirði. Þar tók ég eftir því að ráðherra notaði orðið tilmæli um samdrátt í kennslukvóta. En í þeim gögnum sem ég hef er talað um að fyrirskipa. Ég skil þessa breytingu þannig að í raun og veru sé ráðherra búinn að gera það upp við sig að Menntaskólinn á Ísafirði fái þann kennslukvóta sem þarf til að halda uppi því námi sem er í gangi út þennan vetur án þess að til truflunar að þurfa að koma, hvorki fyrir skólann né nemendir.
    Þá er í fimmta lagi Héraðsskólinn í Reykjanesi. Þessi umræða hefur að vissu leyti varpað skýrara ljósi á það mál. Hún hefur dregið það fram að hér var um að ræða prinsippafstöðu sem ráðherrann studdist við við þá ákvörðun að loka skólanum en ekki fjárhagsástæður. Það hefur líka komið fram að þessi prinsippafstaða styðst við mjög takmarkaðan rökstuðning og líkur benda til þess að stuðningur við afstöðu af þessu tagi sé minni en ég hafði haldið innan Sjálfstfl.
    Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra vefengdi á engan hátt skilning minn á gildi fjárlaga og bar ekki fram nein svör og tilvitnun í lög til þess að styðja ákvörðun sína um að loka skólanum. Það stendur þess vegna eftir að hér hafi menn tekið ákvörðun á hæpnum lagalegum forsendum. Í raun og veru stendur það eftir varðandi Héraðsskólann í Reykjanesi að það eitt sem menn setja fyrir sig og að vilja að verði uppfyllt er að nemendur ná einhverri tiltekinni tölu. Nefnd hefur verið talan 30 án þess að nokkur rökstuðningur fylgi fyrir því af hverju sú tala er heilagri en önnur. Ég bendi á það að fjöldi nemenda sem væntanlega hefði hafið nám í haust er mjög svipaður og verið hefur undanfarin ár. Með skírskotun til þeirra raka verður því ekki fundin haldbær skýring á því að loka skólanum þar sem engar breytingar hafa orðið sem munar um í þeim efnum.
    Ég vil því skiljast við þetta mál að sinni þannig að ég líti svo á að hér hafi menn í raun og veru dregið nokkuð í land og ráðherra sé tilbúinn að endurmeta fyrri ákvörðun sína varðandi þennan skóla. Ég hygg að það besta sem þingmenn kjördæmisins geta gert til þess að vinna að hagsmunum þeirra sem að skólanum standa og íbúum sem búa á því svæði sem skólinn er sé að halda áfram að hafa áhrif á hæstv. ráðherra og láta ekkert annað trufla okkur í þeirri viðleitni. Ég bind nokkrar vonir við það að væntanlegur fundur og fyrirhuguð nefnd um framtíð skólans leiði til þess að sjónarmið okkar haldi áfram að vinna á eins og það hefur gert, bæði fyrir þessa umræðu og í henni. Ég vil því ljúka þessu máli með því að segja að þó að sigur hafi ekki unnist þá sér maður ljós fram undan í þessum efnum.
    Fyrirkomulag þessara umræðna hefur nokkuð verið gagnrýnt og ég hef tekið sérstaklega eftir því að fáeinir þingmenn Sjálfstfl. hafa gert athugasemdir við það og í raun verið að beina gagnrýni að forseta. Ég vil segja af því tilefni að mér finnst það heldur ómaklega að forseta Alþingis vegið og hvað mig áhrærir hefur forseti sýnt sanngjarna og réttmæta fundarstjórn og ég mun halda áfram að taka vel beiðnum hennar í framtíðinni eins og ég gerði fyrir nokkrum dögum.