Skólamál

15. fundur
Fimmtudaginn 24. október 1991, kl. 19:13:00 (4086)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) (andsvar) :
     Hæstv. forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. um þau orð sem ég notaði varðandi kennslukvóta Menntaskólans við Hamrahlíð að ég talaði um tilmæli en í bréfinu væri talað um fyrirskipun, þá má hann ekki skilja orð mín svo að þar með hafi ég lýst því yfir að Menntaskólinn fái þann kvóta sem hann hefur beðið um, en þetta verður allt

saman athugað.
    Ég hafði ekki tíma til þess að svara öllu í fyrri ræðum mínum í dag og þar á meðal ekki, og kannski gleymdi ég því, varðandi gildi fjárlaga. Menn geta haldið áfram að deila um það svo lengi sem þeir vilja að ef einhver tiltekin fjárveiting hefur verið samþykkt í þinginu sé alveg bráðnauðsynlegt að eyða henni. Ég hef ekki þann skilning á fjárlögum og lái mér hver sem vill. Þetta eru heimildir til framkvæmdarvaldsins sem það fær hjá fjárveitingavaldinu og mér finnst ekki að menn þurfi að deila um þetta.
    Hv. þm. talaði um að hann fengi það út úr þessari umræðu varðandi Reykjanesskólann að þar hefði verið um grundvallarákvörðun að ræða, ekki fjárhagslega. Ég sagði það í minni ræðu að sparnaðurinn sem af því hlytist að skólinn starfaði ekki í vetur skipti ekki sköpum í þessu fjárlagadæmi okkar öllu og það er auðvitað ekki svo. En það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að réttlæta í rekstri þótt ekki sé þar um stórar fjárhæðir að ræða og mér finnst alveg út í bláinn að vera að tala um bílakaup í því samhengi.
    Við verðum vonandi sammála um að setja nefnd á laggirnar til þess að kanna hver er heppilegust nýting mannvirkja á Reykjanesi við Djúp, hvernig hægt er að kveikja þar nýtt líf en ekki leyfa eitthvert líf sem er ekkert líf, eins og ég segi að Héraðsskólinn hafi verið orðinn. Ég held að við hljótum að vera sammála um að við eigum að reyna að finna þessum stað verðugt viðfangsefni. Hann hafði það fyrr á árum meðan héraðsskólarnir gegndu öðru hlutverki en þeir gera í dag. Það var svo og það á að endurnýja þennan stað með viðfangsefnum sem hæfa breyttum tímum.