Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 10:38:00 (512)

     Kristín Einarsdóttir :

     Virðulegur forseti. Ég verð að lýsa óánægju minni og vonbrigðum með það að framhald umræðu um skýrslu utanrrh., sem var á dagskrá á miðvikudaginn var, skuli ekki vera á dagskrá í dag. Hún var heldur ekki á dagskrá í gær. Ég vil vekja athygli á því að hæstv. utanrrh. var í miðri ræðu sinni þegar þingfundi lauk á miðvikudaginn og var kominn þar sögu, að því er hann sagði sjálfur, að hann þurfti að svara kvennalistakonum. Það er ekki í fyrsta skipti sem hann veigrar sér við að svara okkur og þess vegna hefði mér þótt lágmark að hægt hefði verið að fá að heyra svör hæstv. utanrrh. við þeim spurningum sem voru lagðar fram. Þetta er ekki eingöngu spurningin um það að við fáum að viðra okkar hugmyndir heldur ekki síður að fá að heyra svör við þeim spurningum, sem hér voru bornar fram af hv. kvennalistaþingmönnum sem og öðrum, sem ekki var svarað.
    Ég get eiginlega ekki haft samúð með ríkisstjórninni vegna þess að hér er sérstakur þingfundur til að mæla fyrir málum ríkisstjórnarinnar, en ég heyrði ekki betur en allir þeir, sem höfðu fjarvist í dag, væru stjórnarliðar. Eigum við, þingmenn stjórnarandstöðunnar, síðan að hjálpa ríkisstjórninni við að koma málum sínum í gegnum þingið eða í gegnum 1. umr. þegar hv. stjórnarliðar geta ekki einu sinni séð sér fært að gera það? Ég vil líka benda hæstv. ráðherrum á það að við höfum líka skipulagt þennan dag alveg nákvæmlega eins og þeir og aðrir stjórnarliðar og þurfum auðvitað að breyta okkar áætlunum þar sem ákveðið var að hafa þennan þingfund. Ég vil benda á að í starfsáætlun þingsins stóð að þessi dagur gæti komið til greina sem þingfundardagur og þá eiga stjórnarliðar jafnt sem stjórnarandstæðingar að taka tillit til þess.