Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 11:07:00 (523)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
     Virðulegi forseti. Ég vakti athygli á því úr ræðustól á hinu háa Alþingi í gær með hverjum hætti viðvera ráðherra hæstv. núv. ríkisstjórnar hefur verið hér í haust. Og því miður, virðulegur forseti, þá verð ég að ítreka það aftur hér í tilefni þeirrar þingskapaumræðu sem hér hefur farið fram. Ég verð að taka undir orð hv. 14. þm. Reykv. um þau atriði. Ég ætla, virðulegi forseti, sérstaklega að gera að umtalsefni viðveru hæstv. iðn.- og viðskrh. hér á hinu háa Alþingi þetta haust. Hann hefur ekki sést nema í flugulíki ef ég man rétt í heilar þrjár vikur nema þá í mesta lagi, t.d. í gær og fyrradag, hálftíma í senn. Síðan gerist það í gær að hæstv. iðn.- og viðskrh. mætir á samkomu út í bæ þar sem hann flytur ræðu um veigamikla stefnumörkun í stórum málum sem hann hefur í einstökum tilfellum lagt fram frv. um á Alþingi en ekki haft fyrir því að kynna Alþingi, hvað þá að það sé komið til hv. efh.- og viðskn. þingsins. Þetta voru málefni um auðlindaskatt í sjávarútvegi, tengingu íslensku krónunnar við ECU og fleiri mjög stór mál.
    Virðulegi forseti. Þessi framkoma er á engan hátt líðandi. Og eins og ég benti á í gær þá hefur þessi viðvera, eða fjarvera réttara sagt, hæstv. ráðherra þýtt það að nú, þegar verið er að frumkvæði stjórnarflokkanna að senda þingið heim í vikufrí, þá eru komin til nefnda þrjú mál frá hæstv. ríkisstjórn. Og miðað við þau stóru orð sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa haft um viðskilnað fyrri ríkisstjórnar og um þær breytingar sem þurfi að gera þá er þetta, virðulegi forseti, með öllu ólíðandi. Stjórnarandstaðan hefur verið tilbúin. Hún hefur setið hér í þingsölum tilbúin til þess að ræða þessi mál við ráðherra ríkisstjórnarinnar en þeir hafa vegna anna, væntanlega erlendis, ekki látið sjá sig.