Framhald umræðu um skýrslu utanríkisráðherra um EES-samninga

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 11:12:00 (526)

     Ólafur Ragnar Grímsson:
     Virðulegi forseti. Ég bar fram þau tilmæli til forseta að hér yrði frestað fundi þannig að menn gætu rætt það utan þingsalar hvernig vinnan verður hér í dag. Nú hefur forseti kosið að verða ekki við þeirri ósk og það er auðvitað ákvörðunarvald forseta. Ég vil hins vegar vekja athygli á því að hafi það verið ætlun virðulegs forseta að hefja umræðu um lánsfjárlög 1992, sem er fyrsta mál á dagskrá, vil ég láta forsetann vita það strax að ég mun mótmæla því að það verði gert án þess að tveir ráðherrar séu viðstaddir sem ekki eru hér nú, þ.e. hæstv. forsrh. og hæstv. félmrh. Það er ekki, virðulegi forseti, hægt að ætlast til þess að við í stjórnarandstöðunni tökum þátt í 1. umr. um lánsfjárlagafrv. fyrir 1992 án þess að þessir tveir ráðherrar séu a.m.k. í salnum til þess að taka þátt í þeirri umræðu.
    Ég mun í sjálfu sér ekki gera athugasemd þótt einhver önnur frumvörp sem hér eru á dagskránni verði tekin fyrir. Ég vildi láta forseta vita það strax, ef hún ætlar að gera fundarhlé til að skipuleggja starfið í dag, að til þess að hægt sé að gera það með árangursríkum hætti og í friðsemd við okkur þurfum við í stjórnarandstöðunni að fá nánari upplýsingar um það hvaða ráðherrar verða hér í dag svo að hægt sé að haga starfi þingsins með tilliti til þess. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til okkar að starfið hér haldi áfram og það sé fullkomlega tilviljunarkennt hvaða ráðherrar eru í salnum.