Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 12:59:00 (540)

     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
     Virðulegur forseti. Í ræðu sinni fjallaði forsrh. m.a. um Hafskipsmálið. Ég ætla ekki að fara út í það hvað ég tel vera rétta reikningsskilavenju í Hafskipsmálinu þó að ég hafi á því ákveðnar skoðanir. Ég tel það ekki vera á dagskrá hér.
    Ég vildi hins vegar aðeins ítreka það við hæstv. forsrh. að ástæðan fyrir því að ég fór hér upp var sú að hann var einu sinni enn að lesa yfir þingheimi og þjóð um öll töpin í sjóðunum og fullyrða um þá hluti. Það var ekki þetta tilefni sérstaklega sem gaf mér tilefni til að fara upp. Það var það tilefni hvernig forsrh. landsins hefur lesið um þessi mál yfir þjóðinni í allt sumar, næstum því á hverjum einasta degi, sem ég tel að hafi verið mjög villandi og tel nauðsynlegt að menn taki nokkurt mið af í framtíðinni því að það er alveg rétt hjá hæstv. forsrh. að oft er hægt að túlka niðurstöður með ýmsum hætti. En það er bara því miður svo að þeir eru ýmsir til sem vilja túlka niðurstöður með tilliti til fyrri skoðana sinna eða þeirra skoðana sem þeir hafa gefið sér og fullyrðinga sem þeir hafa áður sett fram. Ég hef það á tilfinningunni að hæstv. forsrh. landsins hafi ansi mikið túlkað þessar niðurstöður í samræmi við fyrirframgerðar skoðanir sínar.