Bókhald

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 13:19:00 (543)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :

     Virðulegi forseti. Það var vissulega vel til fundið hjá hæstv. forsrh. að gefa okkur sýnishorn af hádegisfréttum Útvarps Matthildar hér í ræðustólnum en þetta hafði ósköp lítið með málefnalega umræðu um málið að gera. Eins og kom fram í ræðu minni þá var tilefnið orð fjmrh. um samskipti Alþingis og Ríkisendurskoðunar sem féllu í ræðu fjmrh. og urðu til þess að ég fór hér upp.
    Í sjálfu sér er ekki mikið meira um þetta að segja. Ég ætla hins vegar að vona að forsrh. taki með efnislegri og málefnalegri hætti á vandamálum þjóðarinnar en á umræðunum hér í þingsalnum. Hins vegar er það alveg rétt hjá honum að ég hef talið að það þyrfti að vera málefnaleg umfjöllun um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Ég er ekki í hópi þeirra manna sem geta á einum sólarhring, áður en samningurinn liggur fyrir í endanlegum texta og form. utanrmn. upplýsti það hér fyrr í þinginu í dag að samningurinn liggur ekki fyrir í endanlegum texta, farið í einhverja húrra-hjörð yfir þessum samningi. Ég er heldur ekki í hópi þeirra manna sem vilja hér og nú lýsa yfir andstöðu við þennan samning, alls ekki. Ég er í hópi þeirra manna, sem ég vil kalla skynsemdarmennina í þessum umræðum um Evrópskt efnahagssvæði, sem vilja meta kosti og galla samningsins á rólegan og yfirvegaðan hátt þegar hann liggur fyrir.
    Ég vil t.d. bara vekja athygli á einni mjög einfaldri staðreynd af því að formenn Alþfl. og formenn Sjálfstfl. eru báðir búnir að lýsa yfir stuðningi við þennan samning, að í þingflokkum þessara tveggja ráðherra og reyndar í þingflokkum annarra flokka er stór hópur þingmanna sem eðlilega getur ekki lesið þennan samning því að hann er enn þá bara til á flóknu, ensku tæknimáli (Forseti hringir.), já, ég vildi bara koma þessu að af því að forsrh. vék að Evrópsku efnahagssvæði, virðulegi forseti. Þess vegna er nauðsynlegt að mjög fljótlega verði gengið frá því að þýða á íslensku þau drög sem til eru svo að flokkar og stofnanir geti fjallað um þetta á eðlilegan hátt. Og það eigum við að gera. Við eigum hvorki að hlaupa til og segja, við erum með, eða hlaupa til og segja, við erum á móti. Við eigum að vera í skynsemdardeildinni sem vegur kosti og galla samningsins.