Lánsfjárlög 1992

16. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 14:00:00 (552)

     Halldór Ásgrímsson :
     Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til lánsfjárlaga sem er mjög mikilvægt frv. þar sem í því koma fram fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í lántökum á næsta ári og þær fyrirætlanir sem koma fram í áætlunum ríkisstjórnarinnar um peningamarkaðinn á næstunni. Þetta frv. verður að sjálfsögðu að skoðast í samhengi við fjárlagafrv. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir og við verðum að líta á þessi frumvörp sem innlegg ríkisstjórnarinnar í það efnahagsástand sem nú ríkir í samfélaginu.
    Ríkisstjórnin hefur tekið það fram að mikilvægast af öllu sé að ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd, ná jafnvægi í ríkisfjármálum og mikilvægast af öllu, eins og ég hef skilið það, sé að ná niður vöxtunum. Ég tek undir það með hæstv. ríkisstjórn að það er mikilvægast af öllu í íslensku samfélagi í dag að ná því jafnvægi á peningamarkaði að vextir lækki. Og í ljósi þess er mjög nauðsynlegt að gera sér nokkra grein fyrir hvernig vextirnir eru að þróast um þessar mundir.
    Það hefur komið fram hjá Seðlabanka Íslands að áætlaðir raunvextir, miðað við verðbólgu nú á fjórða ársfjórðungi, á óverðtryggðum skuldabréfalánum viðskiptabanka og sparisjóða séu 15,8%. Voru á fyrsta ársfjórðungi 10,5%, á öðrum ársfjórðungi 3%, á þriðja ársfjórðungi 11,9% og nú á fjórða ársfjórðungi 15,8%.
    Það er ljóst að viðskiptabankarnir hafa borið sig afar illa undan því að hafa ekki haft nema 3% raunávöxtun þessara skuldabréfalána á öðrum ársfjórðungi og telja sig hafa tapað miklu fé og því þurfi þeir nú að ná upp. Það standi þess vegna ekkert til af þeirra hálfu að lækka vextina. Þeir segja að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt þau spil með framlagningu fjárlagafrv. og með framlagningu frv. til lánsfjárlaga að ástæða sé til að ætla að það traust muni ríkja hér á fjármálamarkaði að vextir munu lækka mjög mikið. Ríkisstjórn sem lýsir því yfir hvað eftir annað að það eigi ekki að hafa afskipti af lánsfjármarkaðnum heldur eigi þar fyrst og fremst að ráða framboð og eftirspurn hlýtur að gera áætlanir um hvernig eigi að koma jafnvægi á lánsfjármarkaðnum til að ná vöxtunum niður. Og nú þýðir náttúrlega ekkert fyrir hæstv. ríkisstjórn að halda mikið fleiri ræður um viðskilnað fyrri ríkisstjórnar.
    Að sjálfsögðu getur ríkisstjórnin haldið því áfram út allt þetta kjörtímabil eða svo lengi sem hún ætlar sér að sitja, sem ég veit ekki hvað er lengi, en ég geri frekar ráð fyrir því að hún hafi ætlað sér að sitja út þetta kjörtímabil. Hæstv. ráðherrar gera lítið annað hér á Alþingi en að tala um viðskilnað fyrri ríkisstjórnar og hvað þar hafi gerst voðalegir hlutir. Og ef þeir hafa gert einhverja voðalega hluti, eins og hæstv. fjmrh. viðurkenndi hér áðan, hafi það verið vegna þess að hann vildi ekki gera einn ráðherra í fyrri ríkisstjórn ómerkan orða sinna.
    Mér finnst þessi umhyggja hæstv. fjmrh. svona almennt í garð fyrri ráðherra ekki koma fram í ræðum sem hann heldur á Alþingi. En gott og vel, ekki ætla ég að halda því fram að allt sem fyrri ríkisstjórn hafi gert hafi verið skynsamlegt og hún hafi ekki gert nokkur mistök. Auðvitað gerði hún ákveðin mistök og þau ber að viðurkenna. Hins vegar lagar það ekkert stöðuna að tala um lítið annað. Það er eins og Alþfl. hafi ekki verið í þeirri ríkisstjórn eða þá að Alþfl. hafi í raun gengið í Sjálfstfl. þegar þessi stjórn tók við völdum. (Gripið fram í.) Framsókn hagaði sér ekki þannig, hæstv. fjmrh. En hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. tala um óskaplega hluti sem fyrri ríkisstjórn hafi gert og tala með þeim hætti hér á Alþingi að í því felast yfirleitt þungir áfellisdómar. Gott og vel. Við sem sátum í þeirri ríkisstjórn erum alveg menn til að taka við þeim ámælum og munum svara fyrir þær gerðir eftir því sem við höfum tækifæri til. En það er rétt að benda hæstv. ráðherrum af hálfu Alþfl. í núv. ríkisstjórn á að þeir sátu í þessari ríkisstjórn og báru því ábyrgð líka. Ætla þeir einnig að byggja allan sinn málflutning í vetur á því hvað þetta hafi nú allt verið slæmt í tíð fyrri ríkisstjórnar? Ég á ekki von á því. En hvað um það. Hvernig svo sem á þessu öllu stendur og hvernig þetta hefur orðið eru vextirnir allt of háir. Aðalástæðan er að sjálfsögðu sú að hér er umframeftirspurn í samfélaginu. Við höfum orðið fyrir margvíslegum, efnahagslegum áföllum. Það eru utanaðkomandi áhrif og margt fleira sem verður að viðurkenna. Ég er sem sagt sammála hæstv. ríkisstjórn í því að allt beri að gera til að lækka þessa vexti. En ég sé engin merki þess að vextir séu að lækka. Þeir kunna að lækka eitthvað en mér finnst það ekki koma fram í þessu lánsfjárlagafrv. að það sé hægt að treysta því að það verði jafnvægi á peningamarkaði á næsta ári.
    Það kemur t.d. fram í þessum skjölum að ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því að viðskiptahallinn verði 17 milljarðar, sem er mikið fé. Það má vel vera að viðskiptahallinn verði eitthvað meiri. Það verður ekki ráðið af þessum gögnum með hvaða hætti þessi mikli viðskiptahalli verður fjármagnaður. Það er sagt að ekki standi til að taka meiri erlend lán. Gott og vel. En mér sýnist að ætlunin sé að ganga þannig frá málum að það verði feiknarleg umframeftirspurn á peningamarkaðnum og vextir verða þar af leiðandi mjög háir.
    Eitt af því sem hæstv. fjmrh. sagði var að Byggingarsjóður ríkisins mundi þurfa rúma 20 milljarða eða rúma 15 milljarða umfram afborganir, ef ég man rétt. ( Fjmrh.: Húsnæðislánakerfið.) Húsnæðislánakerfið. Alveg rétt. Það er stórt kerfi sem þarf mikla peninga og þar er verið að gera marga nytsamlega hluti. En spurningin er sú hvort við höfum peninga við þessar aðstæður til að gera það eða hvort það sé þess virði að halda því áfram alveg án tillits til þess hversu háir vextirnir verða og alveg án tillits til þess hversu mikil afföllin verða í þessu kerfi. Það skipti bara engu máli.
    Ég tek eftir að gert er ráð fyrir að útgáfa húsbréfa á árinu 1991 verði 15 milljarðar kr. og síðan á eftir að taka afföllin þar frá. Það eru þau afföll sem eru á þessum markaði. Afföllin eru að nokkru leyti frádráttarbær frá skatti, vextirnir líka, og það er afar undarlegt þegar verið er að halda því fram að þetta húsbréfakerfi kosti ríkissjóð ekki nokkurn skapaðan hlut, það sé bara frítt. Þetta er alrangt og ég veit að hæstv. fjmrh. veit það manna best. Auðvitað kostar það heilmikið og þessi eilífi samanburður á því að þetta sé fínt kerfi og önnur séu vond er slæm rökhyggja. Við þurfum fyrst og fremst að spyrja okkur þessara spurninga: Getum við lagt svona mikla peninga inn á þennan markað? Og ef við viljum gera það, verðum við þá ekki að draga úr ýmsu öðru?
    Við þingmenn utan af landsbyggðinni viljum mikla peninga til vegagerðar. Við erum ekki mjög kröfuharðir

um peninga til húsnæðismála því að ríkisstjórnin heldur uppi þeim málflutningi að helst enginn vill byggja þar. Það er jafnvel talað um að rétt sé að hjálpa mönnum í stórum stíl að flytja frá heilum landshlutum og eru Vestfirðir nefndir sérstaklega í því sambandi. Við erum ekkert sérstaklega áhugasamir um að þiggja þau húsnæðislán sem eru í boði til að byggja yfir þetta fólk í Breiðholtinu þó að í sjálfu sér sé gott að búa þar eins og ég get borið vitni um. Svona liggja einfaldlega áherslurnar, hæstv. fjmrh. --- Ég kann nú betur við að hafa hæstv. fjmrh. hér en ég get skilið að hann þurfi að bregða sér frá. --- Svona liggja áherslurnar. Áherslurnar hjá hæstv. ríkisstjórn liggja svona og þetta hefur farið úr böndum á árinu 1991. Og þar á að sjálfsögðu að nefna til fyrri ríkisstjórn. En það vill nú svo til að það eru nokkrir ráðherrar í núv. ríkisstjórn sem voru líka í þeirri fyrri og þeir bera væntanlega einhverja ábyrgð. Og það er alveg sama hversu vel menn vilja í þessum málaflokki, þetta gengur ekki. Þetta er ekki hægt.
    Hæstv. fjmrh. kemur hér og segir: Það á nú að lækka þetta. Og það er búið að grípa til ráðstafana sem koma í veg fyrir að þetta verði eins mikið og í ár, og nefnir 12 milljarða. Hagfræðideild Vinnuveitendasamband Íslands metur það með öðrum hætti og telur að það muni nema 5% og samkvæmt mínum útreikningum eru það 750 millj. Nú má vera að þetta sé að mati ríkisstjórnarinnar vitlaust hjá Vinnuveitendasambandi Íslands eins og ýmislegt annað. Ég hlustaði á það í gær að hæstv. viðskrh. veitti VSÍ miklar ákúrur með miklum þjósti fyrir að fulltrúar þess skyldu hafa leyft sér að hafa efasemdir um að bygging álvers mundi hefjast á þessu ári, en hann skammaði að vísu Vinnuveitendasambandið fyrir nokkuð sem aldrei hefur verið sagt af þess hálfu. Það var nú það alvarlega. Þó það beri að sjálfsögðu að skamma Vinnuveitendasambandið fyrir rangfærslur og fyrir skoðanir er ekki rétt af núv. ríkisstjórn að skammast mikið yfir því sem ekki hefur verið sagt. Og fulltrúar VSÍ gátu ekki borið hönd fyrir höfuð sér á þessum fundi.
    Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. um hvernig hann sér þessa þróun í vaxtamálunum. Ef við lítum á hvernig vextirnir þróast miðað við vexti á erlendum mörkuðum kemur það fram að LIBOR-vextir hafa farið lækkandi að undanförnu á sama tíma og vextir á Íslandi hafa farið hækkandi. Það er mjög erfitt að gera sér í hugarlund að á sama tíma og vextir á alþjóðlegum mörkuðum, sérstaklega LIBOR-vextir --- ég veit að þessi mynd er flóknari --- hafa farið lækkandi hafa vextir hér á landi farið hækkandi. Þetta verður einfaldlega til þess að menn munu leita í meira og meira mæli inn á erlenda fjármagnsmarkaði og reyna að fá þar lán. Það er engin leið að reikna með því að hægt sé að halda uppi hærra vaxtastigi á Íslandi þegar til lengri tíma er litið en gengur og gerist erlendis. Og að mínu mati er heldur ekki hægt að reikna með því að hægt sé að hafa vexti á Íslandi miklu lægri en gengur og gerist erlendis. Við erum einfaldlega það háð alþjóðlegum peningamörkuðum að við ráðum ekki við það. Og ég ætlast ekki til þess af núv. ríkisstjórn --- og hef heldur ekki svo mikla trú á henni, og veit að hún hefur heldur ekki svo mikla trú á sjálfri sér þó hún hafi það mikla trú á sjálfri sér að reikna með því að hún ráði við vaxtastigið á alþjóðlegum mörkuðum.
    En ég hef miklar efasemdir um að það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera muni leiða til að vextir muni lækka mjög mikið hér á næstunni. Ég vona að það sé rangt en hæstv. ríkisstjórn verður a.m.k. að reyna að senda einhver önnur merki út á markaðinn en falleg orð og fagrar setningar um niðurskurð ríkisútgjalda og minnkun ríkisumsvifa. Það er bara ekki nóg. Það verður að vera hægt að lesa út úr þessum plöggum að það sé að gerast og menn hafi einhverja tiltrú þar á. Þar að auki er gert ráð fyrir því í áætlunum hæstv. ríkisstjórnar að farið verði í umtalsverðar virkjunarframkvæmdir á næsta ári og byggingu á mjög stóru álveri.
    Ríkisstjórnin með hæstv. iðnrh. í broddi fylkingar fullyrðir að þetta mál sé í höfn og menn megi ekki efast um það. Menn sem hafi einhverjar efasemdir um það séu að gera ríkisstjórninni upp hluti sem alls ekki fá staðist. Nú kann svo að vera að það sé eins með þetta mál og vextina á alþjóðlegum lánamörkuðum, að það sé ekki alveg víst að ríkisstjórnin geti ráðið því í einu og öllu hver framvindan verður í þessu máli. Það vill nefnilega svo til að það þarf að fjármagna þetta mál eins og önnur og leita lána á alþjóðlegum mörkuðum. Það á allt saman eftir að gera. Það á eftir að fá þau kjör á þau lán að þau fái staðist.
    Vinnuveitendasamband Íslands sagði einfaldlega: Við teljum ekki rétt að gera þetta með þeim hætti sem gert er í þjóðhagsáætlun, þ.e. að segja sem svo að ef bygging álversins og virkjananna hefst ekki á árinu 1992, þá verði að taka þjóðhagsáætlun og allar áætlanir til endurskoðunar. Þetta er afstaða ríkisstjórnarinnar. Afstaða Vinnuveitendasambandsins var einfaldlega sú að það væri rétt að ganga út frá því í fyrstu umferð að þetta mundi ekki gerast, í varúðarskyni. Það er alltaf skynsamlegt að sýna varúð. Það er rétt hjá Vinnuveitendasambandinu. En ef það gerðist hins vegar, sem þeir vonuðust til að gerðist, væri rétt að endurskoða allar áætlanir í ljósi þess. En ríkisstjórnin kaus að fara hina leiðina og skammar Vinnuveitendasambandið blóðugum skömmum fyrir það.
    Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvað telur hann að muni gerast á fjármagnsmarkaði ef þessi áform verða að veruleika? Ég vonast eftir því að þau verði að veruleika, ég vil taka það skýrt fram. Ég tel að hagkerfið á Íslandi þurfi á því að halda. Þótt ég sé ekki í einu og öllu sammála hvernig að þessu máli hefur verið staðið, þá er það ósk mín að það muni gerast.
    Ég sé að hæstv. utanrrh. er kominn í salinn og hefur veitt okkur þá ánægju að vera viðstaddur og það er spurningin hvenær við munum verða þeirrar ánægju aðnjótandi að tala við hann. Ég vildi fá það upplýst áður en ég held mikið lengur áfram. ( Forseti: Forseti hefur því miður misst af því sem um var spurt.) Virðulegur forseti. Það er eðlilegt, og ónærgætið af mér að vera að tala um þetta í þann mund sem forsetar voru að skipta um stól. En ég spurði einfaldlega hvort forseti vildi að ég frestaði ræðu minni núna. ( Forseti: Forseta þykir ekki

óeðlilegt að bjóða hv. þm. að ljúka sinni ræðu en eftir það mundi þessari umræðu verða frestað.) Ég á eftir að tala í allnokkurn tíma, virðulegur forseti, og mundi því alveg eins kjósa að umræðan gæti hafist nú þegar og ég frestaði einfaldlega minni ræðu. ( Forseti: Ef hv. þm. óskar eftir því að fresta ræðunni finnst forseta sjálfsagt að verða við því.)