Skýrsla utanrrh. um niðurstöður samninga um Evrópskt efnahagssvæði

17. fundur
Föstudaginn 25. október 1991, kl. 15:15:00 (555)

     Halldór Ásgrímsson :
     Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að skýrari línur eru komnar í þetta stóra mál. Hitt er svo annað mál að mér finnst það e.t.v. ganga heldur langt hjá hæstv. ráðherrum og jafnvel fleirum að ræða þetta mál með þeim hætti að hið Evrópska efnahagssvæði sé orðin staðreynd.
    Það er alveg ljóst að það er margt sem á eftir að gearst. Viðkomandi þjóðir eiga eftir að samþykkja þessa niðurstöðu. Evrópubandalagið á eftir að ganga með formlegum hætti frá málinu og það vakti athygli mína, og ég vil spyrja hæstv. utanrrh. um það í upphafi máls míns, að formaður utanrmn. sagði í umræðum um þingsköp í dag að menn væru óbundnir af öllu. Það hefði ekki verið skrifað undir neitt, menn hefðu ekki einu sinni sett stafina sína á eitt né neitt og málið væri nánast allt í lausu lofti. Hv. formaður utanrmn. er að vísu ekki viðstaddur í þingsalnum, en ég skildi hann nánast þannig að þingmenn stjórnarliðsins væru gjörsamlega óbundnir af málinu. Það kom mér verulega á óvart að hæstv. ráðherrar hafi verið í þessum mikilvægu og alvarlegu samningaumleitunum án þess að ljóst væri að þeir hefðu samningsumboð a.m.k. frá meiri hluta Alþingis. Eða getur það verið að þeir þurfi e.t.v. að koma fljótlega og segja: Þetta var misskilningur af okkar hálfu. Við höfðum ekki umboð til þess að komast að þessari niðurstöðu.
    Það kom mér mjög á óvart að formaður utanrmn. skyldi viðhafa þessi orð og það er býsna alvarlegt fyrir ríkisstjórn Íslands að nú skuli spyrjast út að formaður utanrmn. Íslendinga hafi lýst því yfir á Alþingi að Íslendingar væru óbundnir af öllu.
    Það má vel vera að ýmsir láti sér í léttu rúmi liggja hvað sagt er hér á Alþingi og ég geri svo sem ekki ráð fyrir því að ávallt sé gert mikið með það sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar segjum hér. Ég sé a.m.k. oft að hæstv. ráðherrar eru svona heldur ólundarlegir yfir því. En menn gera mikið með það sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar segja hér á Alþingi og á erlendri grund og menn gera líka mikið með það sem formaður utanrmn. Alþingis segir hér á Alþingi og á erlendri grund. Og ég vona að menn geri það líka hér innan lands.
    En hvað um það, þetta eru mjög mikilvægir samningar. Þetta mál er áreiðanlega eitt mikilvægasta mál ef ekki mikilvægasta málið sem Alþingi Íslendinga hefur tekið til umfjöllunar. Það á sér langan aðdraganda og menn geta farið misjafnlega langt aftur í söguna til þess að rekja hann. Við getum þess vegna byrjað um það leyti sem Ísland verður sjálfstætt, fullvalda ríkið. Við getum byrjað þegar heimsstyrjöldinni lauk og Atlantshafsbandalagið var stofnað og vestræn ríki bundust samtökum sem við Íslendingar tókum sem betur fer þátt í og minn flokkur bar fulla ábyrgð á. Við getum rakið hann síðan til samrunans í Evrópu, stofnun Efnahagsbandalagsins og stofnun EFTA sem Íslendingar stóðu að. Flokkur minn kaus á sínum tíma að sitja hjá í því máli vegna þess að hann hafði ýmsar athugasemdir við það. Framsfl. tók hins vegar pólitíska ábyrgð á og var í pólitískri forustu fyrir því að ganga frá bókun 6 á sínum tíma og þar með samskiptum okkar við Efnahagsbandalagið.
    Þegar Evrópubandalagið ákveður að koma á innri markaði í Evrópu gátu EFTA-þjóðirnar ekki setið hjá. Þær urðu að ganga til samninga við Evrópubandalagið með einum eða öðrum hætti. Ákveðið var af fyrrv. ríkisstjórn með hvaða hætti skyldi staðið að því máli og þar voru ekki margir kostir. Í fyrsta lagi var að fara með öðrum EFTA-þjóðum í samninga við Evrópubandalagið, í samningana um Evrópska efnahagssvæðið, eða sitja hjá og reyna fyrir sér með öðrum hætti sem menn kölluðu gjarnan tvíhliða viðræður. Það var mat þáv. ríkisstjórnar og ég er sammála hæstv. utanrrh. í þeim efnum að það var ekkert annað að gera en vinna með hinum EFTA-þjóðunum. Það væri styrkur fyrir okkur og við ættum að gera það. Það var ástæða mikillar umræðu hér á Alþingi,

meira að segja ástæða vantrausts á þáv. ríkisstjórn en sem betur fer varð niðurstaðan sú að ganga til samninga.
    Mikið var um það rætt hver skyldu vera aðalatriðin af Íslands hálfu í þeim umræðum. Aðalatriðin voru þau að krefjast þess að það yrði fríverslun með fisk sem við höfðum áður komið fram með innan EFTA og það var ekkert lítið mál að koma því máli í höfn og varð til þess að Noregur hefur breytt um stefnu í þeim málum og ákveðið að afnema hina miklu styrki í sjávarútvegi í Noregi sem við Íslendingar höfðum gagnrýnt um langan tíma og var mikilvægt mál. Við vorum e.t.v. ekki mjög bjartsýn um það að Evrópubandalagið mundi fallast á fríverslun með fisk og það hefur komið á daginn fyrir löngu að það var rétt mat. Það var hins vegar eðlileg krafa af okkar hálfu að farið skyldi með þær iðnaðarvörur með sama hætti og aðrar iðnaðarvörur. Og það hefur styrkt okkur í þessum viðræðum að halda þeirri kröfu á lofti.
    Það var líka talið mikilvægt að finna leiðir sem gætu orðið til þess að það kæmist á sjávarútvegssamningur milli Íslands og Evrópubandalagsins og menn leituðu allra líklegra leiða til þess að hann gæti orðið að veruleika. Eftir langar umræður var það mat þeirra sem best þekktu til og lengst höfðu unnið að þeim málum að lykillinn fælist í að reyna að semja um gagnkvæmar veiðiheimildir við Evrópubandalagið í litlum mæli. Þetta var mjög gagnrýnt hér á Alþingi. Þetta var gagnrýnt af dagblöðum. Þetta var gagnrýnt af einstökum þingmönnum hér á Alþingi og höfð uppi stór orð. En hvað um það. Þetta var sá lykill sem menn urðu að hafa í töskunni ef einhver von átti að verða til þess að ná í höfn.
    Það var jafnframt talið nauðsynlegt að fram færi mjög mikil kynning á sérstöðu Íslands í þessu máli með samtölum við forsætisráðherra, utanríkisráðherra, þjóðhöfðingja, sjávarútvegsráðherra, viðskiptaráðherra, þingforseta og ýmsa hagsmunaaðila. Menn lögðu mikla vinnu í þessa kynningu. Og ég tel að hún hafi skilað verulegum árangri því að auðvitað er það svo að í viðræðum sem þessum verður árangurinn ekki aðeins á lokamínútunum. Hann er að verða til allan tímann þótt lokamínútur séu alltaf afdrifaríkar og ég geri ekki lítið úr því. Þá er það grunnurinn sem skiptir miklu máli.
    Síðan gerist það í sumar að margvíslegar efasemdarraddir fara að heyrast um framvindu mála. Hæstv. ríkisstjórn lætur í ljós efasemdir, segist vera orðin uppgefin á þessu og gerir sig líklega í umræðum til þess að láta það í ljós að svo kynni að fara að þeir yrðu að skrifa undir samning sem væri okkur Íslendingum óhagstæður. Við gagnrýndum það verulega hér á Alþingi með réttu eða röngu. Ég skal ekkert fullyrða um það. En yfirlýsingar ráðherranna gáfu tilefni til þeirrar gagnrýni hvort sem það hefur allt verið á rökum reist eða ekki. Við áttum orðastað við hæstv. utanrrh. áður en hann fór í lokaferð sína og honum mátti vera það alveg ljóst að við í Framsfl. a.m.k. gætum ekki staðið að þeim hugmyndum sem þá voru uppi á borðinu og ég skildi hæstv. utanrrh. í umræðum sem fram fóru á Alþingi að hann gæti það ekki heldur.
    Við erum komin með ákveðnar línur og við vitum nokkurn veginn um hvað var samið þarna hvort sem menn höfðu nú umboð til þess eða eru skuldbundnir af því eða ekki. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það. Nú stöndum við frammi fyrir þeirri spurningu: Eigum við að samþykkja þetta eða ekki? Við hljótum jafnframt að velta því fyrir okkur hvað ætlum við að gera ef við viljum ekki samþykkja þetta og hvaða leiðir eru þá til lausnar okkar málum?
    Ég býst við því að það sé ekki einfalt fyrir Íslendinga að segja nú við Evrópubandalagið: Við viljum fá tvíhliða samning. Ég held að við sem ákváðum að fara þá leið að fara í samningana um Evrópska efnahagssvæðið höfum alveg gert okkur ljóst að það yrði ekkert auðvelt að hlaupa frá því á einhverju stigi og þess vegna tækju menn einhverja áhættu í þessum efnum. Ég ætla ekki að skorast undan ábyrgð á þeirri ákvörðun og tek á mig fulla pólitíska ábyrgð á því sem þá var að gerast.
    Hitt er svo annað mál að það getur farið eftir ýmsu hvort við, sem erum í stjórnarandstöðu nú, getum stutt þetta mál í einu og öllu og tekið á því pólitíska ábyrgð. Það fer að sjálfsögðu eftir því hvernig til tekst í nokkrum málum sem ekki eru ljós enn þá og hvað ríkisstjórnin hyggst gera innan lands til að tryggja raunverulegan framgang þessa máls, skapa atvinnulífinu skilyrði til að standa undir því og skapa okkur Íslendingum skilyrði til að lifa bærilega við þá niðurstöðu sem þar hefur orðið eða verður. Af þeim ástæðum er ég a.m.k. ekki tilbúinn til að svara því hér og nú hvort ég styð þessa niðurstöðu eður ei, eins og menn eru gjarnan spurðir um, vegna þess að niðurstaðan er ekki komin. Þar eru enn þá ýmis óljós atriði. Ég vil gera nokkur þeirra að umræðuefni hér.
    Ég vil taka það fram að sú niðurstaða, sem hefur orðið að því er varðar tollana, er álíka góð og ég gerði mér vonir um lengst af og taldi ástæðu til að ætla, miðað við þau samtöl sem við áttum við ýmsa aðila, að gætu verið í spilunum. Ég gerði mér hins vegar alveg fulla grein fyrir því að það var ekki hægt að reikna með að við fengjum 100% tollfrelsi. Nú er sagt --- og það hefur verið reiknað út og ég dreg það ekkert í efa --- að það sé 96%. Hvort 96% er gott eða 98% er nú að deila um keisarans skegg. Ég held þannig að það verði að telja, miðað við þær væntingar sem þar voru í húfi, að þar sé um ásættanlega niðurstöðu að ræða.
    Að því er varðar hugsanlegar gagnkvæmar veiðiheimildir eru ýmis atriði mjög óljós. Í fyrsta lagi virtist mér í drögum að þessum samningum að þar sé talað um karfa. Þar er talað, ef ég man rétt, um 3000 tonn af karfa. Þetta mál hefur verið kynnt fyrir okkur með þeim hætti að hér væri ekki átt við karfa heldur 70% langhala eða 80% langhala, það hefur nú ekki verið alveg ljóst, og síðan annan fisk með. Það stendur ekki í drögum að þessum samningi. Og þegar við ræddum þetta mál hér á sl. vori kom það fram á Alþingi að ekki hefðu farið fram nægilegar rannsóknir að því er varðaði þennan fiskstofn, þ.e. langhalann, til þess að unnt væri að ganga frá samningum um hann. Við vissum ekki á hvaða veiðisvæðum væri hægt að veiða hann, hversu mikið magn væri af honum og það voru ýmsar upplýsingar sem við höfðum alls ekki til þess að ganga frá fullgildum samningi um þetta mál. Þessar rannsóknir hafa einfaldlega ekki farið fram. Menn geta sagt sem svo að auðvitað hefði það átt að vera búið, en það er nú með svo margt að svo er ekki.
    Það kom hins vegar skýrt fram í umræðum hér á Alþingi og umræðum í sjútvn. og utanrmn. að það væri mjög mikilvægt í ljósi þess sem þarna væri verið að tala um að fara strax í þær athuganir. Mér vitanlega hefur ekkert gerst í þessu máli, ekki nokkur skapaður hlutur, ekkert skip farið út til rannsókna, engin rannsóknaráætlun samin eða nokkur annar undirbúningur átt sér stað. Ef þetta er rétt verð ég að segja það alveg eins og er að mér finnst ekki vel á málum haldið.
    Ég geri mér alveg grein fyrir því að við gátum átt von á að þurfa að gera slíkan samning. En ég fer þess á leit að reynt sé að halda þannig á málum að henti okkur Íslendingum sem allra best. Ég benti hæstv. utanrrh. á það sl. vor að það væru áreiðanlega möguleikar á því að semja þannig um þetta mál að það væri ekki aðeins mögulegt að við Íslendingar létum þessar veiðiheimildir í té í okkar lögsögu heldur í annarra þjóða lögsögu. Þá átti ég við að við erum með samning við Færeyinga, Norðmennn, og það vill svo vel til að Evrópubandalagsþjóðirnar veiða í lögsögu þessara þjóða. Það sem ég hafði í huga var einfaldlega það að í stað þess að leyfa Evrópubandalagsþjóðunum að veiða hér gerðum við þá gagnkvæmu samninga við þær þjóðir, sem ég hef m.a. hér í huga, að við gætum framselt aflaréttindi, sem við hugsanlega fengjum í þeirra lögsögu, til Evrópubandalagsþjóðanna. Ég er ekki að segja að þetta muni takast. En ég held því fram að þetta beri að reyna og mér fannst að hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin gerðu heldur lítið með þessar skoðanir og hefðu lagt þeim mun meiri áherslu á að tala um að þetta væri ekkert sem skipti máli. Það þyrfti nú ekki mikið að vera að hugsa um þessi fáu tonn. Formaður þingflokks Alþfl. lét þau ummæli út úr sér í umræðum að við værum að fá eitthvað fyrir ekkert. Það er því kannski von að maður vantreysti þessu aðeins og vilji að þarna fari fram ítarleg umræða, ekki endilega í almennum umræðum á þingi heldur í utanrmn., sjútvn., um hugsanleg lok þessa máls þar sem því hefur ekkert verið lokið, það á eftir að ganga frá því. Ég tel mikilvægt að við eigum sem best samstarf um það á Alþingi eins og í öðrum málum sem snerta svo viðkvæm mál sem þetta. Það verður líka að vera ljóst að sú loðna, sem við eigum að fá í okkar hlut í staðinn, hefur sárasjaldan verið veidd vegna þess að Evrópubandalagið hefur ekki haft nein tök á því að veiða hana. Þess vegna væri náttúrlega miklu frekar hægt að segja að Evrópubandalagið sé að fá eitthvað fyrir ekkert. En þetta er allt spurningin um mat á framtíðinni og það er ekki einfalt mál að meta hana. Ég er út af fyrir sig sammála því að það ber að hafa það í huga að þessi loðna verði einhvern tímann veiðanleg á svæði þar sem Evrópubandalagið getur náð til hennar. Þar af leiðandi tel ég ekki rétt að orða það þannig að þeir séu að fá eitthvað fyrir ekkert. Þetta er atriði sem ég tel mjög mikilvægt að fá betur upplýst.
    Síðan er annað mál sem skiptir mjög miklu máli í sambandi við mat á því hver afstaða manna verður til þessa samnings þegar hann hugsanlega liggur fyrir, þ.e. hvaða áform ríkisstjórnin hefur til að skapa atvinnuvegunum sambærileg starfsskilyrði og gengur og gerist í Evrópu. Ætlar ríkisstjórnin að svara því hvort leggja á niður aðstöðugjaldið eða ekki? Við höfðum ákveðið það í fyrri ríkisstjórn að það skyldi gert. Nú fæst ekkert svar um það. Fjmrh. víkur sér undan því og í hvítu bókinni eða fjárlögunum, maður ruglar þessu dálítið saman, stendur eitthvað á þá leið að það skuli athugað. Reykjavíkurborg ber sig illa. Hún hefur ekki efni á því að missa neitt. Þar þarf að halda áfram að byggja og menn hafa ekki efni á því að missa svona tekjur. Þá spyr ég einfaldlega: Hvort vegur meira hagsmunir atvinnulífsins að þessu leyti eða sveitarfélögin í landinu og byggingaráform þeirra? Ég hef það á tilfinningunni að byggingaráformin í Reykjavík vegi miklu meira í þessu en hagsmunir atvinnulífsins í landinu. Það verður að upplýsast á Alþingi hvaða afstöðu ríkisstjórnin hefur í þessu máli. Það er ekki nóg að segja: Við ætlum að skoða þetta og líta á þetta.
    Það er líka mikilvægt að vita um stefnu ríkisstjórnarinnar í bankamálum. Stendur það til að um leið og það verður að veruleika að hlutabréf í öllum bönkum verði til sölu á erlendum mörkuðum, ríkisbankarnir orðnir að hlutafélögum, geti hver sem er keypt hlutabréf í þeim daginn eftir? Er það ætlunin?
    Hvernig verður gengið frá málinu um möguleika erlendra aðila til að eignast landareignir? Ég veit að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki svör við því í dag, en það er mál sem verður að vinna á Alþingi. Það verður að vinnast af hæstv. ríkisstjórn og það verður að koma því máli sem allra fyrst inn á Alþingi.
    Að því er varðar ýmsa aðra fyrirvara vil ég ekki halda því fram að hæstv. núv. ríkisstjórn hafi týnt þeim. Hins vegar hafa þeir breyst í meðförum og það er svo í öllum samningum að þótt fyrirvarar séu gerðir í upphafi þá verða menn að sjálfsögðu að meta það á lokastigi hvort hverfa eigi frá samningnum með því að ákveðnum fyrirvörum hefur ekki verið náð fram. Þannig er í einhverjum atriðum en það verða menn að meta.
    Það er staðreynd að ef þessi samningur verður að veruleika mun það hafa margvísleg áhrif. Það mun m.a. hafa áhrif á samstarf okkar við hin Norðurlöndin. Um það er rætt í mikilli alvöru á Norðurlöndunum að breyta Norðurlandasamstarfinu með tilliti til þess sem er að gerast í Evrópu. Það hefur jafnvel gengið svo langt að því hefur verið haldið fram að ef Ísland og Noregur yrðu ekki aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu kynni svo að fara að þeir yrðu út undan í Norðurlandasamstarfinu og Svíar, Danir og Finnar mundu ekki verða tilbúnir að eyða allt of miklum tíma í að skrafa við þá. Það má vel vera að ýmsum þyki léttvægt hvað þarna er að gerast, en ég lít á það með mikilli alvöru og tel afar nauðsynlegt að við tryggjum stöðu okkar í Norðurlandasamstarfinu í ljósi þeirrar þróunar sem á sér stað í Evrópu því þrátt fyrir allt þá er þetta samstarf okkur mjög mikilvægt.
    Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. með hvaða hætti hann hyggst rækja það samstarf á næstunni til að tryggja hagsmuni okkar Íslendinga í því sambandi --- og í reynd hæstv. forsrh. jafnframt, því á þeim mun hvíla að leiða þær viðræður fyrir hönd okkar Íslendinga --- á hvern hátt staða Íslands verður best tryggð í samstarfi Norðurlandaþjóðanna í ljósi þess sem er að gerast í Evrópu. Um þetta hafa verið skrifaðar miklar skýrslur og margvíslegar tillögur komið fram og forsætisráðherrar hinna Norðurlandanna, einkum Svíþjóðar og Danmerkur, hafa verið að tjá sig allverulega um þessi mál að undanförnu.
    Þetta eru þýðingarmikil atriði sem sýna það í hnotskurn hversu umfangsmikil áhrif þessa samnings geta orðið og hversu flókið það er í reynd að taka afstöðu til hans.
    Síðan vildi ég spyrja, ekki endilega hæstv. ríkisstjórn heldur stjórn Alþingis Íslendinga, hvaða áhrif þessi hugsanlegi samningur kunni að hafa á störf og skipulag þingsins. Í Danmörku er það t.d. þannig að sérstök nefnd fjallar um samstarfið við Evrópubandalagið. Það er rætt í fullri alvöru á þjóðþingum hinna Norðurlandanna að taka upp þá skipan mála, m.a. í þeim tilgangi að þessar nefndir geti hist með reglubundnu millibili til að bera saman bækur sínar. Það er jafnframt ljóst að fjöldinn allur af lagafrv. á eftir að koma fram á Alþingi sem tengjast þessu máli og þingið á eftir að verða mjög upptekið við þau lagafrv. um margra mánaða skeið.
    Ég held það væri rétt af hæstv. ríkisstjórn og yfirstjórn þingsins að endurskoða afstöðu sína til þess hvort rétt sé að hafa þingið mjög lengi fjarverandi á allra næstu mánuðum. Ég gæti vel trúað því að full ástæða væri til að ætla að þingið þyrfti að sitja allt næsta sumar, þótt það valdi e.t.v. ekki tilhlökkun hjá mörgum. En þetta er atriði sem hlýtur að hafa verið rætt í hæstv. ríkisstjórn og er nauðsynlegt fyrir okkur alþingismenn að fá upplýsingar um, enda verði þessi samningur að veruleika.
    Ég vildi jafnframt spyrja hæstv. utanrrh. hvað hann telji um það sem kallað er umhverfismál í Evrópubandalaginu. Þar mun hafa verið í smíðum nokkuð sem heitir umhverfissáttmáli og er mikilvægur sáttmáli. En það vill svo illa til að þær þjóðir sem við erum að semja við hafa afar lítinn skilning á sérstöðu okkar Íslendinga í þeim efnum. Átta sig ekkert á því að hér þurfi e.t.v. að farga einum og einum sel og hugsanlega einhverjum hnísum. Þeir hafa aðallega hringt í okkur í neyð sinni til þess að biðja um pláss fyrir veika seli sem þeir hafa ekki lengur pláss fyrir á spítölum í Þýskalandi. Þessum sjávarspendýrum hefur verið bærilega tekið hér af sumum en aðrir hafa tekið þeim fremur illa og ég ætla ekki að rekja frekar í hverju það felst.
    Ég óttast það nokkuð að þessum ágætu vinum okkar sums staðar í Evrópu dytti það í hug að við mundum þurfa að skuldbindast hugsun þeirra í þessum málum, sem má aldrei gerast. Ég vildi spyrja hæstv. utanrrh. vegna þess að ég hef heyrt það að menn láti sér detta slíkt og þvílíkt í hug. Ég trúi því ekki að hæstv. utanrrh. hafi tekið þátt í slíkum samtölum. (Gripið fram í.) Nei, ég veit það og treysti því. En ég nefni þetta til þess að menn hafi varann á sér í þeim efnum, því þetta er stórt mál og mikilvægt og mikilvægt að menn skrifi ekki undir neitt þar sem þetta stendur einhvers staðar neðanmáls. Menn hafa tilhneigingu til að búa til svona sáttmála og skrifa svo eitthvað neðanmáls sem getur haft úrslitaþýðingu fyrir Íslendinga en skiptir aðra engu máli.
    Virðulegur forseti. Það hefur nokkuð verið rætt um ríkisstyrki Evrópubandalagsins til sjávarútvegsins og því haldið fram að þessir styrkir væru hættulegir, sem er rétt. En ég vil benda á að það leggur á okkur þær kvaðir á Íslandi að reka íslenskan sjávarútveg með hagkvæmari hætti en gerist og gengur meðal annarra þjóða. Því meiri sem þessir styrkir eru þeim mun hagkvæmar þurfum við að reka okkar sjávarútveg.
    Ég óttast þessa styrki ekki mjög mikið því ég held þeir murki lífið úr sjávarútvegi margra landa. Það er nefnilega svo með styrkina, þótt hæstv. utanrrh. hafi látið sér sæma að kalla þá framsóknarstefnu, hvað svo sem hann átti nú við með því, að þeir eru ekki alltaf til góðs. Ég hélt að hæstv. utanrrh. vissi af löngu samstarfi við Framsfl. að hann hefði þá skoðun. Ég veit ekki til þess að við höfum verið að halda því fram að það þyrfti að styrkja sjávarútveginn á Íslandi sérstaklega. Við höfum einmitt haldið því fram að það þyrfti að koma á því skipulagi í sjávarútvegi á Íslandi að hann fengi staðist þessa samkeppni. Það höfum við verið að gera. Það er náttúrlega mikilvægt að menn haldi því áfram. En ef mönnum dettur svo í hug, eins og ég veit að hæstv. utanrrh. dettur í hug og hæstv. viðskrh., hann hefur lýst því yfir að það standi til alveg á næstunni, að leggja á auðlindaskatt í þessu umhverfi þá erum við ekki lengur sammála. Ef hæstv. utanrrh. heldur að það séu aðstæður til þess nú að skattleggja sjávarútveginn íslenska sérstaklega þegar sjávarútvegurinn í kringum okkur er ríkisstyrktur og við erum að fara inn í meiri alþjóðlega samkeppni, þá er ég ekki lengur með á nótunum. Ef það er ætlunin tengist það að sjálfsögðu öllu þessu umhverfi sem samningurinn verður að skoðast í og afstaða til hans hlýtur að mótast af mörgum slíkum málum.
    Að lokum, virðulegur forseti, vildi ég segja að ég vænti þess að þetta mál náist í höfn með þeim hætti sem er okkur Íslendingum hagstætt. Það mun taka alllangan tíma og við þurfum tíma til að gera þetta mál upp við okkur. Þjóðin þarf góðan tíma og hún þarf raunsanna mynd af því sem er að gerast og það má alls ekki láta svo í skína að þetta sé allt orðið að veruleika. Þess vegna er mikilvægt að fram fari málefnaleg umræða um þetta mál.
    Það hefur verið rætt allmikið um hvort þessi samningur, ef af verður, sé líklegur til þess að við Íslendingar göngum síðar í Evrópubandalagið. Ég vil lýsa því hér yfir að ég er algjörlega andvígur aðild að Evrópubandalaginu. Ég þarf ekki að hafa neinar skýringar um það. Ég þarf ekkert að segja eins og hæstv. utanrrh. að það sé vegna sjávarútvegsstefnunnar. Mér finnst hann gefa það mjög oft í skyn að ef sjávarútvegsstefnan væri önnur þá gætum við kannski gengið inn. Af hverju eru menn alltaf að gefa það í skyn með þessum hætti? Geta menn ekki einfaldlega sagt að við séum andvígir aðild að Evrópubandalaginu til þess að vera ekki að skapa neina óvissu um það í okkar samfélagi? Þá er ég ekkert að gera mönnum upp skoðanir í þeim efnum. Ég tek þau svör gild þegar menn segja það en það er margt annað sem þarna kemur til. Það er ekki bara sjávarútvegsstefnan.
    Það mundi taka langan tíma að ræða um það en ég tel að ef við getum orðið aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu með hagstæðum hætti sé líklegra að það styrki stöðu þeirra sem ekki vilja ganga í Evrópubandalagið. Það er mín skoðun. Þar af leiðandi tel ég þetta mál vera mikilvægt í því ljósi. Ég er algjörlega ósammála þeim sem telja að gerð þessa samnings muni verða til þess að við Íslendingar göngum í Evrópubandalagið.
    Ég verð að játa að auðvitað hikar maður í máli sem þessu. En ég sé ekki fram úr því hvernig núv. ríkisstjórn eða aðrir sem þurfa að stýra okkar ágæta landi ætla að halda á málum ef við mundum algjörlega segja okkur frá málinu. Ég átta mig ekki á því. Ég held að það yrði mjög erfið staða.
    Hitt er svo annað mál að það er ekki sama hvernig á er haldið og mikilvægt að reyna að skapa sem breiðasta pólitíska samstöðu um þetta mál á Alþingi. Ég lýsi mig tilbúinn til slíks samstarfs. Enda felst í því ósk um að tekið verði tillit til sjónarmiða þeirra sem starfa í stjórnarandstöðu og sýndur vilji til að starfa með þeim að málinu.
    Ég er ekki að ætla að sá vilji sé ekki fyrir hendi, hann mun sjálfsagt koma í ljós. En það er margt sem ég tel að mætti betur fara í þessu máli. Það eru slíkir þjóðarhagsmunir að veði að við hljótum að leggja okkur fram líka sem erum í stjórnarandstöðu að það fáist sem best niðurstaða fyrir landið. Með þessu lýsi ég minni persónulegu afstöðu. Ég er ekki að lýsa afstöðu annarra til þessa máls, enda hygg ég að það séu skiptar skoðanir um málið á þessu stigi í öllum flokkum. Ég hef a.m.k. hitt fyrir þingmenn stjórnarliðsins hér á göngum sem lýsa miklum efasemdum í málinu. Ég tala nú ekki um þegar þeir eru farnir að tala um að ekkert sé bundið og allt sé laust og þetta þurfi að ræða og enginn viti hver niðurstaðan verði.
    Virðulegur forseti. Þetta hefur orðið lengra en ég hafði ætlað mér en ég tel samt mjög mikilvægt að þessu máli sé sýndur sá sómi að það sé rætt á Alþingi. Ég held að það sé líka mikilvægt fyrir hæstv. ríkisstjórn að málið sé rætt hér og hún heyri álit okkar þingmanna á því. Ég vænti þess að hún muni sýna vilja til þess að hafa gott samstarf við þingmenn stjórnarandstöðunnar um það.