Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 13:48:00 (563)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Í þessari ræðu um ársskýrslu Byggðastofnunar fyrir árið 1990, sem dreift var á Alþingi fyrir skömmu, mun ég fyrst fjalla um starfsemi Byggðastofnunar en síðan fara almennum orðum um byggðamál og stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim málaflokki.
    Stofnunin hefur nú starfað í sex ár. Á þessum tíma hefur starfsemi hennar beinst annars vegar að því að styðja atvinnustarfsemi á landsbyggðinni en hins vegar að undirbúningi þess að þar rísi lífvænleg fyrirtæki. Starfsmenn Byggðastofnunar eru 43, þar af 7 sameiginlegir með Framkvæmdasjóði Íslands. Á Akureyri starfa þrír sérfræðingar og á Ísafirði einn auk iðnráðgjafa.
    Nettórekstrarkostnaður stofnunarinnar, án frádráttar vegna tekna, var 138 millj. kr. á árinu 1990. Niðurstaða efnahagsreiknings um áramót var 9 milljarðar 921,9 millj. kr. en í lok september var hún 9 milljarðar 314,8 millj. kr. sem er lækkun um 6%. Bókfært eigið fé var hins vegar 1 milljarður 849,7 millj. kr. í lok september en var 1 milljarður 624,4 millj. kr. í upphafi ársins.
    Skrifstofa Byggðastofnunar á Akureyri tók til starfa 1989. Hún deilir þar húsnæði með Iðnþróunarfélagi Eyjafjarðar, starfsemi atvinnumálanefndar Akureyrar og ferðamálafulltrúa Vestur-Norðurlanda. Skrifstofan á Ísafirði tók til starfa sl. ár og er hún staðsett í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Iðnráðgjafi Vestfjarða er einnig staðsettur á skrifstofu stofnunarinnar þar.
    Nú hafa komið fram athyglisverðar hugmyndir um nokkurs konar fræðasetur á sviði sjávarútvegs á Ísafirði og kemur vel til greina að stofnunin styðji það með einum eða öðrum hætti. Á þessu ári var fyrirhugað að stofnunin hæfi starfsemi á Austurlandi. Því hefur nú verið slegið á frest í sparnaðarskyni en stofnunin hefur hins vegar ráðið starfsmann í hálfu starfi þar til bráðabirgða.
    Samkvæmt lögum er Byggðastofnun ætlað að stuðla að þjóðhagslega hagkvæmri þróun byggðar í landinu. Þetta hlutverk sitt rækir stofnunin með ýmsum hætti. Hún hefur á undanförnum árum aðallega gert það með lánastarfsemi til fyrirtækja, bæði vegna framkvæmda en einnig í auknum mæli á síðustu árum vegna þeirra erfiðleika í rekstri sem mörg sjávarútvegsfyrirtæki hafa átt í. Þá hefur stofnunin einnig stutt við margar þær nýjunar í atvinnulífinu sem reyndar hafa verið á landsbyggðinni á undanförnum árum. Þetta hefur hún aðallega gert með því að lána fyrirtækjum af þeim lántökuheimildum sem hún hefur haft. Margar þessara tilrauna hafa því miður mistekist og hefur stofnunin af þeim sökum tapað miklum fjármunum. Hins vegar hefur stofnunin sloppið við alvarleg áföll vegna sjávarútvegs sem er þó langstærsta atvinnugreinin sem hún hefur lánað til.
    Sífellt stærri hluti af starfi Byggðastofnunar á þessu sviði beinist að fjárhagslegri

endurskipulagningu fyrirtækja á landsbyggðinni. Á síðasta en þó einkum á þessu ári hefur starfsemi stofnunarinnar beinst mjög að hagræðingu í sjávarútveginum. Annars vegar er þar um að ræða starf vegna þeirra fyrirtækja sem hlutafjárdeild stofnunarinnar á hlut í og hefur það einkum beinst að sameiningu þeirra við önnur fyrirtæki. Hins vegar hefur stofnunin tekið þátt í nefndastörfum með viðskiptabönkum, Fiskveiðasjóði Íslands og sveitarstjórnum vegna endurskipulagningar sjávarútvegs á einstökum stöðum.
    Í upphafi ársins ákvað stjórn Byggðastofnunar að efla atvinnuþróunarstarf á vegum stofnunarinnar. Ákveðið var að veita til rekstrarkostnaðar, átaks- og þróunarverkefna allt að 15 millj. kr. Auk þess var ákveðið að stjórnir slíkra verkefna og iðnráðgjafar eða stjórnir atvinnuþróunarfélaga gætu sótt um styrki til undirbúnings verkefna sem varða einstaka atvinnukosti samtals allt að 25 millj. kr. Átaksverkefnin ná yfir eitt byggðarlag eða hérað og hafa að markmiði að efla frumkvæði í héraði og leita leiða til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífi. Við það er miðað að slík verkefni séu unnin að frumkvæði heimaaðila en Byggðastofnun styðji verkefnin með fjárframlagi og aðstoð frá starfsmönnum stofnunarinnar. Almennt hefur kostnaðarþátttaka stofnunarinnar verið um það bil helmingur af kostnaði en nokkru meiri í hinum fámennari héruðum. Framangreind ákvörðun stjórnar Byggðastofnunar hefur stuðlað að umtalsverðri aukningu í atvinnuþróunarstarfi um allt land. Samþykkt hefur verið um að styðja við verkefni á 16 svæðum á landinu en þau eru ekki öll farin af stað enn þá. Verkefni þessi eru af mismunandi toga, allt frá afmörkuðum könnunum á einstökum möguleikum til víðtækra verkefna sem ná yfir allt viðkomandi hérað og jafnvel á fleiri en einu sviði samtímis.
    Með lagabreytingu um Byggðastofnun sem samþykkt var á Alþingi sl. vor var ákveðið að fela stofnuninni umsjón með almennri atvinnuráðgjöf í landshlutunum. Ákveðið var að breyta ekki fyrirkomulagi þessara mála fyrr en nú um þessi áramót, enda höfðu fjárveitingar fyrir yfirstandandi ár þegar verið ákveðnar þegar lagabreytingin var samþykkt og meðferð styrkveitingar til starfseminnar í höndum iðnrn. Ákveðið hefur verið að efla þessa starfsemi bæði með auknum styrkjum til rekstrar þjónustunnar og auknu fjármagni til verkefna á vegum atvinnuráðgjafa og annarra aðila á landsbyggðinni.
    Eitt af þeim nýmælum sem er að finna í lögunum um Byggðastofnun er að atvinnuþróunarfélögum er ætlað að vera vettvangur einstakra héraða varðandi atvinnuþróun. Er stofnuninni ætlað að styrkja starfsemi þessara félaga og er henni heimilt að vera eignaraðili. Hún er nú þegar aðili að slíkum félögum á Suðurnesjum og í Þingeyjarsýslum. Vitað er um áhuga á fleiri stöðum á því að stofnunin verði eignaraðili að fyrirhuguðum félögum. Í samræmi við hin nýju lög hyggst stofnunin styðja rekstur slíkra félaga á næsta ári, bæði með rekstrarframlagi og þátttöku í verkefnum á þeirra vegum.
    Þá er stofnuninni með hinum nýju lögum ætlað að stuðla að því að þekking og þjónusta menntastofnana og tæknistofnana nýtist atvinnuþróunarstarfi á landsbyggðinni og þeir sjóðir og stofnanir sem að slíku verkefni standa taki þátt í þessu starfi. Stofnunin hefur nú þegar haldið fund með forstöðumönnum þeirra stofnana sem í hlut eiga og er ástæða til að ætla að hægt verði að ná árangri á þessu sviði.
    Samkvæmt lögunum um Byggðastofnun ber henni að vinna að tvenns konar áætlunum, annars vegar að landshlutaáætlunum en hins vegar að fjögurra ára byggðaáætlunum fyrir landið allt. Stefnan hefur verið að vinna að áætlunum fyrir einstaka landshluta, alltaf í nánu samráði við aðila í viðkomandi héraði. Undanfarin ár hafa slík verkefni verið unnin af mönnum sem stofnunin hefur fengið til liðs við sig á viðkomandi svæði. Á árinu 1990 var unnið að slíkri áætlun fyrir Mýrdalshrepp í Vestur-Skaftafellssýslu en það var síðasti hluti verkefnis sem náði yfir Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu. Þrátt fyrir framangreint starf á vegum stofnunarinnar er ljóst að verkefni eru óþrjótandi þar sem sú

búseturöskun sem stofnuninni er ætlað að sporna gegn heldur áfram.
    Samkeppni um fiskaflann fer vaxandi og það leiðir óhjákvæmilega til endurskipulagningar á fiskvinnslu í landinu. Samdrætti í sauðfjárframleiðslu er enn ekki nærri því lokið. Afar miklir erfiðleikar eru í fiskeldi og ljóst að sú grein mun ekki standa undir þeim væntingum sem til hennar voru gerðar.
    Landsmönnum fjölgaði um tæplega 1% á árinu 1990. Það var annað árið í röð sem fleiri fluttu af landinu en til þess. Búferlaflutningar milli landa hafa alltaf verið mjög sveiflukenndir en þeir hafa endurspeglað að nokkru efnahagsástand í landinu og viðhorf til framtíðarmöguleika. Margir þeirra sem héðan flytjast eru ungt og vel menntað fólk. Það er áhyggjuefni ef atvinnuþróun í landinu getur ekki skapað öllum sem það vilja starfstækifæri við hæfi hér á landi.
    Ekkert lát er á þeirri íbúaþróun innan lands sem nú hefur staðið óslitið í meira en áratug. Húsbyggingar einkaaðila hafa því sem næst lagst af á landsbyggðinni og fjárfesting er þar almennt mjög lítil. Undangengin 10 ár hefur fjölgað umfram landsmeðaltal í 14 byggðakjörnum landsbyggðarinnar þar sem búa fleiri en 700 íbúar. Þar með eru allir þéttbýliskjarnar á Suðurnesjum, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Dalvík, Egilsstaðir, Höfn í Hornafirði, Selfoss, Hveragerði og Þorlákshöfn. En enginn staður á Vesturlandi eða Vestfjörðum hefur vaxið umfram landsmeðaltal á þessum tíma. Á Akureyri, stærsta þéttbýlisstað utan höfuðborgarsvæðisins, er íbúafjölgunin einungis helmingur af hlutfallslegri fjölgun þjóðarinnar. Á allmörgum þéttbýlisstöðum landsbyggðarinnar búa nú færri en fyrir 10 árum. Í sveitabyggðum fækkar íbúum jafnt og þétt.
    Miklu skiptir fyrir búsetu í þéttbýlisstöðum landsbyggðarinnar hvernig sjávarútveginum reiðir af í þeim breytingum sem fyrirsjáanlegar eru á starfsskilyrðum hans á komandi missirum, m.a. með tilliti til þátttöku Íslands í Evrópsku efnahagssvæði. Aðlögun fiskvinnslunnar að nýjum aðstæðum skiptir meginmáli en skjóta verður fleiri stoðum undir atvinnulíf á þéttbýlisstöðum landsbyggðarinnar til að það verði fjölbreyttara en það er nú því að það hefur sýnt sig að þeir viðhalda sér ekki af sjávarútveginum einum saman. Samgöngubætur skipta verulegu máli til þess að efla þéttbýlisstaðina sem þjónustukjarna, en ljóst er að langmestur hluti nýrra starfa sem til verða í landinu á næstu árum verður í þjónustugreinum.
    Nýr áfangi er nú hafinn á þeirri braut að tengja saman þá þéttbýlisstaði sem hafa verið í mestri einangrun. Lokið er við jarðgöng milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Ákveðið hefur verið að gera jarðgöng sem tengja saman þéttbýlisstaðina á norðanverðum Vestfjörðum, en samgöngubætur um Óshlíð milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur standa yfir.
    Ég hef gert nokkra grein fyrir starfsemi Byggðastofnunar en ég get ekki látið hjá líða áður en lengra er haldið að fara nokkrum orðum um fjárhagsstöðu stofnunarinnar og þeirra sjóða sem hún hefur umsjón með.
    Eftir stjórnarskiptin sl. vor fór ég þess á leit við Ríkisendurskoðun að hún gerði ítarlega úttekt á fjárhagsstöðu þeirra fjárfestingarlánasjóða sem heyra undir forsrn. Stofnunin skilaði skýrslu sinni í ágústmánuði sl. og er ekki ofsögum sagt að staða þessara sjóða sé afleit. Helstu niðurstöður voru þær að auka þyrfti framlög í Afskriftasjóð Byggðastofnunar um 1200 millj. kr. því að á næstu árum gætu rúmar 1500 millj. kr. af útlánum hennar tapast. Varðandi þá sjóði sem stofnunin hefur yfirtekið og stofnað var til af síðustu ríkisstjórn er það mat Ríkisendurskoðunar að auka þurfi tillag í Afskriftasjóð atvinnutryggingardeildar um 1 milljarð og 350 millj. kr. Hvað varðar eigið fé deildarinnar yrði það neikvætt um 1,4 milljarða kr. ef afskriftareikningur væri færður samkvæmt mati Ríkisendurskoðunar. Þannig er fyrirsjáanlegt að deildin þarf verulegt viðbótarfjármagn til að mæta greiðsluvanda á næstu árum. Varðandi hlutafjárdeild Byggðastofnunar telur Ríkisendurskoðun að tap ríkissjóðs geti numið allt að 260 millj. kr. þegar upp verður staðið.
    Við þessa dökku mynd bætist síðan sú staðreynd að Framkvæmdasjóður Íslands hefur tapað 2,7 milljörðum kr. af eigin fé sínu á sl. 5 árum og er eigið fé hans nú neikvætt um a.m.k. 1,2 milljarða kr. Þessi mynd er einkar sorgleg þegar þess er gætt að vandinn í atvinnulífinu sem þessir sjóðir áttu að leysa er enn óleystur. Þetta er arfleifð síðustu ríkisstjórnar í atvinnumálum.
    Virðulegi forseti. Flestum má ljóst vera að byggðastefna í þeirri mynd sem hún hefur verið rekin á undanförnum árum hefur brugðist. Augljóst er að það markmið hennar að stöðva fólksflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins hefur ekki náðst. Öðru nær. Á síðasta áratug jukust þessir flutningar svo mjög að þeir hafa sjaldan eða aldrei verið meiri. Að minni hyggju gefur þessi þróun okkur tilefni til þess að endurmeta stefnu stjórnvalda í byggðamálum frá grunni. Að óbreyttu má gera ráð fyrir að verulega muni fækka á landsbyggðinni en fjölga einhliða og mjög hratt á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt framreikningum sérfræðinga Byggðastofnunar gæti þróunin orðið sú að um það bil 30 þúsund manns flytji til höfuðborgarsvæðisins á næstu 20 árum eða svo og að fækka muni um 11 þúsund manns á landsbyggðinni í heild. Fjölgun á höfuðborgarsvæðinu yrði um 53 þúsund manns samkvæmt áðurnefndum framreikningum sem byggðir eru á reynslu um búsetuflutninga og spám um fjölgun þjóðarinnar til ársins 2010.
    Ekki er blöðum um það að fletta að mannlíf hér á landi yrði sýnu fátæklegra ef þessar spár gengju eftir, enda hefði slík þróun í för með sér mikla byggðarröskun. Færa má sterk rök fyrir því að slík þróun sé óæskileg út frá þjóðhagslegu sjónarmiði þar sem æskilegra væri að fólksfjölgun yrði á þéttbýlisstöðum úti á landi og að byggð eflist þar til mótvægis við höfuðborgarsvæðið. Það eru að vísu bæði gömul sannindi og ný að byggð leggst af á einstökum svæðum og önnur vaxa. Byggðarmynstrið er síbreytilegt og hefur breyst mikið hér á landi á þessari öld samfara miklum breytingum í atvinnuháttum.
    Hér á landi hafa atvinnuhættir tekið örum breytingum á undanförnum árum með þeim afleiðingum að það hefur bitnað misjafnlega á einstökum byggðarlögum og atvinnugreinum. Á tímabilinu 1981--1988 fækkaði störfum í landbúnaði, fiskveiðum og fiskvinnslu um 2000. Fjölgun varð á hinn bóginn nokkur í öðrum framleiðslugreinum en hrein aukning nýrra starfa var öll í þjónustugreinum eða alls um 18 þúsund ný störf.
    Við Íslendingar sjáum nú fram á breytingar sem verða jafnvel enn örari í náinni framtíð og það vita allir sem vilja vita að þessi þróun mun takmarka afkomumöguleika fólks á einhverjum svæðum og einhverjum byggðarlögum.
    Ég vil í fyrsta lagi nefna í þessu sambandi að fyrirsjáanlegt er --- og raunar er það óhjákvæmilegt --- að störfum í hefðbundnum landbúnaði, og þá sér í lagi sauðfjárrækt, muni fækka á komandi árum. Hafa menn áætlað að samdráttur í þeirri grein einni muni fækka ársverkum í sveitum um allt að 1000.
    Í öðru lagi er fyrirsjáanlegt að með byggingu álvers á Keilisnesi muni framboð atvinnutækifæra suðvestanlands aukast og gæti það valdið einhverri röskun byggðar.
    Í þriðja lagi er ljóst að fiskiskipum og vinnslustöðum hefur fækkað nokkuð og þeim mun væntanlega fækka enn frekar á komandi árum.
    Allir þessir þættir gera hinum smærri og afskekktari byggðarlögum erfiðara fyrir en verið hefur líkt og þegar hefur komið á daginn. Þetta er staðreynd sem ég tel að við eigum að horfast í augu við, enda mun okkur Íslendingum seint takast að framfylgja hér árangursríkri byggðastefnu ef við bregðumst við vandanum með því að stinga hausnum í sandinn líkt og margir hafa gert og virðast kjósa að gera enn um sinn.
    Víst eru horfurnar í málefnum margra byggðarlaga ekki bjartar eins og ég hef áður getið. Þess vegna hljótum við að gleðjast þegar rofar til og möguleikar skapast við að

treysta undirstöður hinna dreifðari byggða landsins. Ég tel að samningur sá sem nýverið náðist um Evrópskt efnahagssvæði sé mjög til heilla fyrir þau byggðarlög sem byggja afkomu sína á fiskveiðum og fiskvinnslu. Þessi samningur gefur okkur Íslendingum tækifæri til nýsköpunar í atvinnumálum og þá sérstaklega í sjávarútvegi. Með niðurfellingu og lækkun tolla sem kveður á um í samningunum mun afkoma margra hefðbundinna útflutningsgreina tvímælalaust batna og vil ég t.d. nefna útflutning á saltfiski í því sambandi. Þá mun útflutningur á ferskum flökum, síldarflökum og fullunnum réttum væntanlega aukast og í heild á litið gefa okkur tækifæri til að flytja héðan út verðmætari og betri vöru, tilbúna til sölu á neytendamörkuðum í Evrópu. Samhliða því má gera ráð fyrir að útflutningur á óunnum fiski fari minnkandi.
    Ég hef engar efasemdir um að fyrirtæki og starfandi aðilar í sjávarútvegi muni nýta þau tækifæri sem gefast með þessum samningum. Þar með munu útflutningsverðmæti fiskafurða aukast verulega, nýtingin á þeirri fjárfestingu sem fyrir er í landinu mun batna og í kjölfarið munu skapast ný og sérhæfðari störf í sjávarútvegi. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess samdráttar í afla sem orðið hefur á undanförnum árum sem og í ljósi þess að fátt bendir til þess að afli á Íslandsmiðum muni aukast í næstu framtíð.
    Þeir misbrestir sem verið hafa á almennri efnahagsstjórn í landinu á undanförnum árum, og þá ekki síst í tíð síðustu ríkisstjórnar, hafa því miður oft verið réttlættir í nafni byggðastefnu. Einnig var offjárfesting í sjávarútvegi og landbúnaði á fyrri tíð yfirleitt kennd við byggðastefnu. Þá hefur á síðari árum verið gripið til fjárfrekra lausna á vanda einstakra fyrirtækja í sjávarútvegi, oftast til bráðabirgða, einnig í nafni byggðastefnu. Það sama er að segja um fjárfestingu í svonefndum nýjum atvinnugreinum, loðdýra- og fiskeldi sem og viðhald hefðbundins landbúnaðar. En mér er spurn: Hefur þessi stefna reynst haldgóð? Hafa slíkar aðgerðir bætt stöðu landsbyggðarinnar? Svar mitt við þessum spurningum er nei. Um þetta ætti ekki að vera nokkur ágreiningur. Ég hef orðið þess sterklega áskynja í samræðum við landsbyggðarfólk að það er mér sammála. Svar þessa fólks er einnig nei. Því finnst sem byggðastefnan hafi verið notuð sem skálkaskjól.
    Augljóst er að þessi stefna síðustu ára hefur ekki stuðlað að auknu sjálfstæði atvinnuveganna og fyrirtækja á landsbyggðinni. Hún hefur ekki eflt frumkvæði og framtak einstaklinga og félagasamtaka á landsbyggðinni. Öðru nær. Hún hefur gert bæði fyrirtæki og einstaklinga háðari ríkisvaldinu og forsjá þess. Stjórnvaldsákvarðanir á liðnum árum hafa auk þess á engan hátt tekið mið af þeim gagngeru breytingum í þjóðfélaginu og almennu efnahagsumhverfi sem átt hafa sér stað og búast má við í framtíðinni. Með henni hefur ekki verið stuðlað að eflingu þeirra atvinnugreina á landsbyggðinni sem fyrst og fremst veita nýliðum á vinnumarkaði atvinnu og verðug tækifæri.
    Ég tel afar mikilvægt að stefnan í byggðamálum skapi forsendur fyrir varanlegri atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Það krefst þess að þeir sem um byggðamál fjalla nálgist þau með öðrum hætti en gert hefur verið til þessa. Gömlu klisjurnar duga ekki lengur. Nauðsynlegt er að opinská og heiðarleg umræða hefjist um þessi mál. Í raun er aðeins um tvennt að velja í þeirri stöðu sem skapast hefur. Annars vegar getum við haldið áfram óburðugum tilraunum til þess að bæta fyrir þá stöðnun sem átt hefur sér stað án vel skilgreindra markmiða. Hins vegar getum við skilgreint þau markmið sem við teljum raunhæf og æskileg í byggðamálum og leitast við að stýra þróuninni í þann farveg er efli farsæld landsbyggðarinnar og þjóðarinnar allrar. Ég þekki ekki afstöðu stjórnarandstöðunnar í þessu efni en ríkisstjórnin kýs seinni kostinn. Við eigum að snúa vörn í sókn.
    Spurt hefur verið um stefnu og áform ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og hefur hún sætt nokkurri gagnrýni fyrir það að í stefnu- og starfsáætlun sinni, hvítbókinni sem svo hefur verið nefnd, er ekki að finna ítarlega kynningu á áformum ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Því er til að svara í fyrsta lagi að íbúum landsbyggðarinnar er það kunnugra en öðrum að langur texti og fjöldi loforða um að fé skuli veitt í hitt og þetta er engin trygging fyrir árangri. Það sýna efndir síðustu ríkisstjórnar. Hitt er mikilvægara að sú ríkisstjórn sem nú situr lítur svo á að byggðamál séu samofin öðrum málefnum og málaflokkum og að helstu hagsmunamál hinna dreifðari byggða landsins felist í almennri stefnu stjórnvalda í mörgum málaflokkum, svo sem samgöngumálum, gengismálum og peningamálum.
    Hér er raunar um algjöra viðhorfsbreytingu að ræða. Ég tel að það sé ósamboðið því fólki sem býr í hinum dreifðari byggðum landsins að málefni þess skuli sífellt vera tekin úr heildarsamhengi þjóðmálanna og gerð að einhvers konar vandræðamáli og fólkið að vandræðafólki þegar illa hefur tekist til við um almenna hagstjórn. Það er bæði ómaklegt og ósanngjarnt. Raunar verð ég að segja að mér finnst það undarlegt að undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar og þeim er að honum starfa skuli oft og tíðum sýnd lítilsvirðing í íslenskri þjóðmálaumræðu.
    Íslenska þjóðin byggir afkomu sína á veiðum og vinnslu sjávarfangs og sú verðmætasköpun sem þar á sér stað fer að mjög miklu leyti fram á landsbyggðinni. Það er meginþáttur í stefnu ríkisstjórnarinnar að vaxtarsvæði landsbyggðarinnar verði efld. Með hugtakinu vaxtarsvæði er átt við þau svæði og byggðarlög sem tengjast eða geta tengst með greiðum og tíðum samgöngum þannig að íbúar innan þeirra geti samnýtt þjónustu og haft með sér náið samstarf í atvinnumálum. Efling þessara svæða, sem felur í sér að samgöngur innan þeirra verði bættar og fólk velji sér búsetu innan þeirra, býður ekki einvörðungu upp á aukna hagkvæmni í rekstri og þjónustu hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga við fólkið í landinu, heldur mun hún og gefa möguleika á aukinni fjölbreytni í félagslegu og atvinnulegu tilliti og tekur það jafnt til hefðbundinna greina iðnaðar, verslunar og þjónustu.
    Þessi stefna felur í sér að byggðir landsins efli hver aðra, að byggð efli byggð. Markmiðið er að á vaxtarsvæðum landsbyggðarinnar geti þjónusta og iðnaður náð fótfestu við hlið sjávarútvegs og fiskvinnslu. Ríkisstjórnin boðar ekki kollsteypu í þessu sambandi, hún leggur áherslu á að fullt tillit verði tekið til sjónarmiða þess fólks sem byggir hin strjálbýlli héruð landsins. Um þessa stefnu verður að takast sátt. Það verður að takast sátt um hin raunhæfu og æskilegu markmið sem þjóðin vill setja sér varðandi þróun byggðar í landinu. Ég segi: Sem þjóðin vill setja sér, því að ég veit að ný byggðastefna, ný markmið í byggðamálum verða ekki farsæl að öðrum kosti.
    Ég tel afar brýnt að einstaklingar, sveitarfélögin í landinu og samtök þeirra hvetji til umræðu um það hvernig við viljum að byggð verði hér háttað í framtíðinni og að framsýn og fyrirhyggja ráði þeirri umræðu. Það er með öllu óþolandi og með öllu óviðunandi að stjórnvöld semji einhverja stefnu í byggðamálum sem síðan verði framkvæmd með valdboði.
    Ef okkur tekst að snúa við þeirri óheillavænlegu þróun sem átt hefur sér stað í byggðamálum ber brýna nauðsyn til þess að frumkvæði í nýrri stefnumótun verði í höndum landsbyggðarfólks, sveitarfélaga þar og samtaka þeirra. Hugmyndir heimamanna verða á hinn bóginn að vera til þess fallnar að viðkomandi svæði verði eðlilegt atvinnu- og þjónustusvæði. Ég vil undirstrika mikilvægi þess að vaxtarsvæðin verði glögglega skilgreind og þau nái að mynda öflugar heildir þar sem kröfum almennings og nútímans verður svarað, ekki síst í félagslegu og menningarlegu tilliti.
    Ég benti á það í ræðu fyrir skömmu að e.t.v. væri það ekki eingöngu búsetuöryggi og afkomumöguleikar sem réðu því að fólk flyttist brott úr ákveðnum byggðarlögum. Í því sambandi vitnaði ég til Vestfjarða þar sem atvinnuleysi er lítið sem ekkert og meðaltekjur með því hæsta sem gerist á landinu, en þó er svo komið að verulega hefur fækkað á

sumum stöðum. Það er því ljóst að huga verður að fleiri þáttum í umræðunni um byggðamál en gert hefur verið og ég tel brýnt að fólk átti sig á því á margir þeirra þátta sem ráða því hvar fólk velur sér búsetu eru þess eðlis að ríkisvaldið er á engan veginn í stakk búið til að hafa þar afgerandi áhrif. Ég tel það hins vegar raunhæfan kost að ríkisvaldið stuðli að því að byggð þéttist með almennum aðgerðum og komi þannig til móts við breyttar kröfur nútímasamfélags.
    Ég fer ekki í grafgötur með þá trú mína að um leið og vaxtarsvæðin eflast muni smá og afskipt byggðarlög eiga á brattann að sækja. Ég varpaði fram þeirri hugmynd hvort ríkisvaldið gæti eða ætti með einhverjum hætti að koma til móts við það fólk sem finnur sig knúið til að flytja frá heimabyggð sinni í stað þess að verja miklum fjármunum í vonlausan atvinnurekstur eins og gert hefur verið í tíð síðustu ríkisstjórnar og reyndar áður. Þessi orð mín hafa verið rofin úr samhengi og mistúlkuð.
    Orð mín voru ætluð til að hvetja til umræðu um skynsamlega nýtingu fjármuna og knýja fram skoðanaskipti sem geta leitt okkur fram á veg. Því miður sýna viðbrögðin að sumir líta á gömlu klisjurnar sínar um byggðamál eins og sjálfgefnar staðreyndir. Ég harma það ef slíkur þvergirðingsháttur á enn um sinn að koma í veg fyrir að málefnaleg umræða fari fram um byggðamál.
    Það kemur fram í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að hún muni starfa í anda sáttar höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Ríkisstjórnin mun greiða fyrir aðlögun byggðar í landinu að breyttum atvinnuháttum og markaðsskilyrðum. Við þessi orð og stefnumið mun ríkisstjórnin standa.
    Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að gera stuttlega grein fyrir áformum um breytingu á skipulagi og starfsemi Byggðastofnunar. Ríkisstjórnin hefur markað þá stefnu að aðalskrifstofur stofnunarinnar verði fluttar til Akureyrar á fyrri hluta kjörtímabilsins. Það er í samræmi við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að koma upp fjölþættari starfsemi á vegum hins opinbera utan höfuðborgarsvæðisins og flytja stofnanir þess út á land. Sjálfur tel ég mikilvægt að stofnunin starfi í nánari tengslum við það umhverfi sem telst vera vettvangur hennar samhliða því sem breytingar verða gerðar á starfseminni.
    Byggðastofnun er ætlað að vera vettvangur aðgerða ríkisvaldsis til áhrifa á atvinnu- og byggðaþróun. Í forsrn. er nú unnið að reglugerð um starfsemi og skipulag stofnunarinnar í framhaldi af lagabreytingum sl. vor. Þá var lögð til sú áherslubreyting í starfi stofnunarinnar að í stað þess að vera aðallega lánastofnun skuli atvinnuþróunar- og þjónustuhlutverk hennar eflt. Ég tel veigamikil rök hníga að því að ætla byggðaáætlunum, þá bæði þeirri áætlun sem Alþingi á að fjalla um og svæðisbundnum áætlunum, aukið vægi þegar kemur að lánveitingum og annarri fjárhagslegri fyrirgreiðslu stofnunarinnar. Með slíkum áætlunum er verið að leggja grundvöll að samræmdri stefnu Alþingis og stjórnvalda í byggðamálum og því er eðlilegt að fjárhagsleg fyrirgreiðsla Byggðastofnunar sé í samræmi við þær. Þetta ætti líka að stemma stigu við handahófskenndri fyrirgreiðslu sem því miður hefur átt sér stað.
    Ég hef því látið kanna sérstaklega vegna reglugerðarsmíðinnar hvort ekki sé unnt að setja sem almennt skilyrði fyrir lánveitingu og annarri fjárhagslegri fyrirgreiðslu að fyrir liggi byggðaáætlun fyrir viðkomandi svæði. Þá tel ég rétt að í hinni stefnumarkandi byggðaáætlun sem lögð er fyrir Alþingi sé gerð úttekt á þeirri fyrirgreiðslu sem Byggðastofnun hefur veitt og í svæðisbundinni byggðaáætlun komi fram mat á því hvaða fjárhagslega fyrirgreiðslu þurfi af hálfu Byggðastofnunar til að koma þeim í framkvæmd.
    Ég er þeirrar skoðunar að gildandi lög um stofnunina veiti henni ekki sjálfstæða heimild til kaupa á hlutafé í félögum eða að leggja fram önnur stofnframlög sem eigandi nema um sé að ræða fjárfestingar- eða þróunarfélög.

    Þá hef ég einnig lagt til að í reglugerðina verði sett ákvæði þess efnis að Byggðastofnun verði sjálf ekki beinn þátttakandi í atvinnurekstri. Með þessum ráðstöfunum í fyrirhugaðri reglugerð um Byggðastofnun er leitast við að sú sóun fjármuna geti ekki átt sér stað, sem því miður hefur orðið, og þá ekki síst úr sjóðum sem síðasta ríkisstjórn setti á laggirnar og vikið var að hér að framan. Öll sú óráðsía stendur okkur nú fyrir þrifum þegar bregðast þarf við fyrirsjáanlegum aflasamdrætti.