Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 14:26:00 (565)

     Ragnar Arnalds :
     Virðulegi forseti. Þegar núv. ríkisstjórn kom til valda mátti strax greina nýjan og að mörgu leyti breyttan tón í garð landsbyggðar frá því sem áður hafði verið. Hæstv. forsrh. reyndi aftur og aftur að leika þann leik að sverta Byggðastofnun og ófrægja stjórn hennar með því m.a. að halda því fram að útlán fyrri stjórnar sjóðsins hefðu mótast af pólitískum duttlungum fyrrv. forsrh. Sams konar dylgjur má reyndar finna í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Íbúar heilla byggðarlaga hafa þurft að sætta sig við að afkoma þeirra og búsetuöryggi sé komið undir pólitískum duttlungum miðstjórnarvaldsins.``
    Þetta er enn sama glósan. Einnig var strax í upphafi þegar þessi stjórn kom til valda farið að hræra af miklum móði saman stöðu Byggðasjóðs annars vegar og stöðu alveg óskyldra sjóða, Atvinnutryggingarsjóðs og Framkvæmdarsjóðs og gera þetta með uppslætti í fjölmiðlum allt í einu lagi að einhverju allsherjargjaldþroti. Þessi ískyggilega ófrægingarherferð gekk þó að mínum dómi lengst þegar Ríkisendurskoðun var fengin til þess að gefa út álit á reikningum Byggðastofnunar, þessum reikningum sem útbýtt hefur verið til þingmanna fyrir árið 1990, en álitsgerðin gekk þvert á undirritaðan reikning stofnunarinnar sem þessi sama Ríkisendurskoðun hafði nokkrum vikum áður undirritað. Munurinn var bara sá að hún hafði undirritað ársskýrsluna áður en kosningar fóru fram, en álitsgerðin var gefin eftir að ný stjórn hafði verið mynduð.
    Þegar bardagagleði forsrh. reis sem hæst í sumar mátti á tímabili skilja það svo að best væri að leggja Byggðastofnun niður. Nokkru seinna kom reyndar sú fræga kenning forsrh. að besta aðgerðin í byggðamálum væri að aðstoða fólk við að flytja á brott. Að minni hyggju var það ekki tillagan sjálf sem vakti mesta undrun. Hún hefur oft heyrst áður. Það var miklu frekar það skilningsleysi og algera uppgjöf gagnvart vandanum sem skein út úr þessum ummælum hæstv. ráðherra, þeim ráðherra sem byggðamálin heyra undir.
    Þeir sem hlýddu hér áðan á ræðu hæstv. forsrh. hljóta að hafa tekið eftir því, rétt eins og ég, að hún var ekki öll samin af sömu persónunni. Hún var bersýnilega samin af a.m.k. tveimur mönnum. Fyrri parturinn var í ákaflega jákvæðum tón. Þar var tíundaður árangur Byggðastofnunar, sá árangur sem náðst hefði með byggðastefnunni á undanförnum árum, en í seinni hlutanum kvað svo allt í einu við alveg gjörólíkan tón. Þar var greinilega allt annar maður farinn að skrifa ræðuna. Þá var byggðastefnan orðin hálfgert skammaryrði og margendurtekið að hún væri óttaleg óráðsía og bruðl.
    Kannski þarf það í sjálfu sér ekki að koma neinum á óvart að fyrrv. borgarstjóri Reykjavíkur hafi takmarkaðan skilning á byggðamálum og kannski þarf það heldur ekki að koma neitt sérstaklega á óvart að byggðamál eigi lítt upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn, t.d. ef haft er í huga, svona í framhjáhlaupi, að formenn þessara tveggja flokka, báðir formennirnir, báðir varaformennirnir og báðir þingflokksformennirnir, þ.e. allir helstu forráðamenn þessara tveggja flokka, eru frambjóðendur í Reykjavík. Auðvitað eru Reykvíkingar hvorki verri né betri en annað fólk, síst af öllu mundi ég halda slíku fram sem er bæði borinn og barnfæddur Reykvíkingur. En ég held að það hljóti að vekja athygli víðar en í mínum huga að þessir flokkar skuli ekki velja til æðstu trúnaðarstarfa í sínum röðum neina aðra en þá sem hafa verið í framboði hér í Reykjavík. Það er mjög athyglisvert. Það er engin undantekning á því. Þess vegna held ég að enginn þurfi að vera neitt stórkostlega undrandi þó að á þessum tveimur bæjum ríki nokkurt tómlæti um byggðamál.
    Menn spyrja að því hvort byggðastefnan hafi brugðist. Í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta: ,,Sú byggðastefna sem rekin hefur verið hefur ekki skilað tilætluðum árangri.`` Vissulega kann ýmislegt að vera til í þessu, en fyrst verðum við að vita til hvers var ætlast í öndverðu. Ég held persónulega að enginn hafi átt von á því að með byggðastefnunni gufuðu öll vandamálin upp. Vandamálin eru vissulega enn óleyst og viðunandi jafnvægi í byggðamálum hefur ekki náðst. Langt í frá. En við hljótum að spyrja okkur: Hefur þá starf okkar verið til einskis? Hefur byggðastefnan brugðist? Er hún úrelt, jafnvel óþörf eins og sumir segja?
    Ég hika ekki við að fullyrða og það af hjartans sannfæringu að byggðastefna undanfarinna ára hefur gert sitt gagn þótt hún hafi ekki leyst allan vanda. Hún hefur skilað stórfelldum árangri, en við skulum átta okkur á því að vandamálin væru margfalt stærri, margfalt rosalegri en þau eru ef ekkert hefði verið gert. Það er auðvitað kjarni málsins. En í hverju lýsir þessi vandi sér?
    Ég vil í fyrsta lagi benda á þann vanda sem hlýst af hinu lága fasteignaverði víða um land sem aftur veldur því að lítið verður um húsbyggingar. Á þessu ári virðast vera sárafáar íbúðir í smíðum á vegum einkaaðila utan Reykjavíkur og Reykjaness, svo sárafáar að undrun sætir. Ég hef reynt að átta mig á því um hvaða tölu hér gæti verið að ræða en ekki komist að niðurstöðu því ég sé ekki að skýrslur greini það nákvæmlega hvað er á vegum einkaaðila og hvað er á vegum félagslegra aðila. En ég hygg að í kringum 1700 íbúðir séu í smíðum utan höfuðborgarsvæðisins um þessar mundir og ég held að mikill meiri hluti, kannski megnið af þessum íbúðum sé á vegum félagslegra aðila. Ég þori ekki að segja hvað er mikið afgangs þegar félagslegar íbúðir hafa verið dregnar frá en ég hygg að þær séu aðeins örfá hundruð á öllu landinu utan höfuðborgarsvæðisins.
    Annað sem lýsir vandanum vel er hin lélega og fábreytta þjónusta víða úti um land og fólk finnur fyrir að ekki er fyrir hendi. Þar eru fábreytt atvinnutækifæri, þar er lítil atvinnuuppbygging, fólki finnst langt að leita til stjórnvalda og stjórnarstofnana og þar er hærra raforkuverð og víðast meiri húshitunarkostnaður. Þar er líka yfirleitt hærra verð á innfluttum vörum. Af þessum vanda, sem vissulega er ekki nýr, hefur leitt stanslaus straumur fólks og fjármagns hingað suður á höfuðborgarsvæðið. Til marks um þennan straum er kannski rétt að nefna eina tölu. Á áratugnum 1980--1990 fjölgaði íbúum í Reykjavík og á Reykjanesi um 24.000 manns. En fjölgun í öðrum landshlutum samanlagt var nánast engin, eða rétt um 400 manns. Þar var því stöðnun eða bein afturför.
    Ég held það sé mjög eftirtektarvert fyrir alla sem hugleiða þessi vandamál að landsbyggðin er og hefur lengi verið í ákveðnum vítahring. Það er vegna þessa aðstöðumunar sem ég hef nú lýst sem fólkið er að flytja í burtu. En burtflutningur fólksins eykur svo aftur aðstöðumuninn fyrir þá sem eftir sitja. Það er eins með fasteignamálin. Vegna hins lága fasteignaverðs þorir fólk ekki að byggja. Það þorir ekki að fjárfesta í húsbyggingum. En svo aftur vegna þess hve lítið er byggt er víða skortur á íbúðarhúsnæði og þess vegna verður fólkið að fara. Þetta er vítahringur sem erfitt hefur reynst að brjótast út úr.
    Ég tel að meginmarkmið byggðastefnu hljóti að vera að auðvelda landsbyggðinni að brjótast út úr þessum vítahring án þess að það þurfi að flýja á brott, eins og hæstv. forsrh. hefur gert að tillögu sinni. Ég tel að það hljóti að vera annað meginmarkmiðið að minnka aðstöðumuninn og reyna með Byggðasjóði og með öðrum aðgerðum að veita aftur út á land þó ekki væri nema einhverjum örlitlum hluta af því fjármagni sem sogast jafnt

og þétt hingað inn á höfuðborgarsvæðið eftir óteljandi leiðum. Loks hlýtur það að vera markmið byggðastefnu að örva framtak og uppbyggingu heimamanna með öllum tiltækum ráðum.
    Það er kannski ástæða til að nefna sjávarútveginn alveg sérstaklega í þessu samhengi. Hér á landi hefur verið síendurtekið kreppuástand í sjávarútvegi og þetta kreppuástand hefur leikið landsbyggðina sérstaklega illa. Stundum vegna þess að afli hefur dregist saman tímabundið, t.d. vegna þess að kvóti er minnkaður eins og nú stendur fyrir dyrum, en miklu oftar vegna mistaka í efnahagsstjórn, t.d. vegna þess að gengi krónunnar hefur verið rangt skráð um langt árabil eða vegna þess að raunvextir eru allt of háir. Ég tek það þó fram að auðvitað er þetta ekki byggðamál í sjálfu sér, ekki í eðli sínu. Þetta er miklu frekar þjóðarvandi sem kemur öllum landsmönnum í koll.
    Vaxtamálin eru líka ansi fyrirferðamikil í þessu samhengi og hafa verið mikill örlagavaldur í íslensku atvinnulífi. Í því sambandi langar mig að nefna gjaldþrotin. Samkvæmt opinberum tölum urðu 73 gjaldþrot í Reykjavík árið 1982 hjá einstaklingum og félögum. Fimm árum seinna --- aðeins fimm árum seinna --- eða árið 1987 eru gjaldþrotin í Reykjavík orðin fimmfalt fleiri eða 351. Enn líða þrjú ár og við erum komin á árið 1990. Þá er samsvarandi tala í Reykjavík 932 gjaldþrot. Á þessum átta árum er um það að ræða að gjaldþrot í Reykjavík hafa þrettánfaldast. Það liggja ekki fyrir tölur utan Reykjavíkur frá seinustu árum en ég hygg að aukningin utan Reykjavíkur sé mjög samsvarandi, ég veit að á árabilinu frá 1982 til 1987 fjölgaði gjaldþrotum úr 46 í 244.
    Í hádegisfréttum var greint frá því að menn hefðu breytt framkvæmdafyrirkomulagi varðandi gjaldþrot með svonefndu tryggingagjaldi og af því mundi leiða nokkur fækkun skráðra gjaldþrota. Ég hygg hins vegar að sú fyrirkomulagsbreyting breyti ekki eðli málsins á nokkurn hátt. Þessi gífurlega aukning sem orðið hefur í gjaldþrotum á bara átta árum, eins og ég hef nefnt, þ.e. það virðist vera þrettánföldun, segir sína sögu og við hljótum að reyna að draga af henni einhverja ályktun. Hver er skýringin á þessum ósköpum? Ég er ekki í neinum vafa um skýringuna. Ég tel að það sé engin önnur skýring á þessu en sú að um miðjan seinasta áratug varð gífurleg hækkun raunvaxta, eins og flestir þekkja. Bara til þess að hafa það á hreinu hvað þarna var um mikla breytingu að ræða má nefna vexti á spariskírteinum sem voru liðlega 3% árið 1982 en voru komnir upp í 9% þegar líða tók á seinni hluta áratugarins. Sem sagt, raunvextir höfðu þrefaldast á fáum árum. Ég nefndi spariskírteinin, það má vissulega nefna aðra viðmiðun, t.d. raunvexti í bankakerfinu eða raunvexti hjá verðbréfasjóðunum. Ég hygg að það breyti ekki miklu, þarna var um að ræða þreföldun á raunvaxtastiginu á tiltölulega fáum árum. Það er þessi þreföldun á vaxtabyrðinni í þjóðfélaginu sem vissulega kemur ekki fram um leið og vaxtahækkunin verður heldur á lengri tíma vegna þess að vextirnir eru að hlaðast upp og menn eru að lenda í meiri og meiri þrotum, jafnt og þétt. En það þarf engan að undra þó að hraðinn verði alltaf meiri og meiri, eins og menn sáu á þessum tölum sem ég hef nú nefnt. Gjaldþrotin höfðu fimmfaldast á fyrstu fimm árunum, en þau höfðu þrettánfaldast eftir átta ár.
    Auðvitað eru fleiri skýringar til á gjaldþrotahrinunni sem gengið hefur yfir á liðnum áratug, en ég er ekki í neinum vafa um að þetta er meginskýringin. Og svona í framhjáhlaupi segi ég hiklaust að raunvaxtahækkunin er líka meginskýringin á því hve verulega hefur hægt á hagvexti og atvinnuþróun hér á landi seinustu árin. Að vísu verður þar að taka inn í myndina minnkandi þorskveiði og aðra erfiðleika í þjóðarbúinu, en það er að minni hyggju alveg hiklaust meginskýringin á þessu vandamáli sem menn hafa verið að benda á að upp úr miðjum seinasta áratug fer hagþróun á Íslandi að verða verulega miklu hægari en áður var og verulega miklu hægari en í flestum öðrum OECD-löndum, en hafði áður verið miklu örari og miklu hraðari.

    Ég viðurkenni það að vaxtamálið er ekkert sérstakt vandamál landsbyggðarinnar, en ég get samt ekki komist hjá því að nefna þetta vandamál hér vegna þess að ég held að fátt hafi dregið eins mikið úr uppbyggingu atvinnulífs víðs vegar um land í seinni tíð og einmitt vaxtapólitíkin. Staðreyndin er auðvitað sú að það er enn þá erfiðara úti á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu að koma auga á atvinnurekstur sem getur staðið undir þessu háa raunvaxtastigi eftir að þessi breyting hefur orðið.
    Ég vil fara örfáum orðum um Atvinnutryggingarsjóð þótt það eigi við um þann sjóð sem ég nefndi hér áðan um vextina og sjávarútvegsmálin að þar er ekki eingöngu um byggðamál að ræða. Sjóðurinn var stofnaður haustið 1988 þegar hrun í sjávarútvegi blasti við og stjórn Þorsteins Pálssonar hrökklaðist frá völdum. Tilgangurinn með stofnun þessa sjóðs var að sjálfsögðu að fleyta atvinnulífinu í gegnum þá ólgusjóa sem þá blöstu við, í gegnum það kreppuástand sem þá var ríkjandi, án þess að efnahagslífið þyrfti að ganga í gegnum kollsteypu gengisfellingar og verðhækkana. Sjóðurinn var sem sagt fórnarkostnaður stjórnvalda á sínum tíma til þess að geta gert tvennt í senn: Gera sjávarútveginum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn og um leið að ná niður verðbólgu á sama tíma. Þetta tókst í seinustu ríkisstjórn. Sjávarútvegurinn mun og um leið allt efnahagslíf á Íslandi njóta þessa átaks á komandi árum. Þetta var ekki átak sem var bundið við þann tíma þegar það stóð yfir, heldur var þarna um að ræða átak sem mun gera okkur auðveldara að stjórna íslensku efnahagslífi um langt skeið, nú eftir að verðbólgunni hefur verið náð niður. En auðvitað tekur það líka nokkur ár að gera upp reikningana fyrir þann fórnarkostnað sem féll til á sínum tíma. Það þarf engum að koma á óvart. Og þess vegna nefni ég þetta mál hér að sú staðreynd að eftir að sjóðurinn lauk hlutverki sínu var hann vistaður hjá Byggðastofnun, má að sjálfsögðu aldrei verða til þess að framlag í Atvinnutryggingarsjóð flokkist undir fjárveitingar til byggðamála því að þetta var mál sem snerti þjóðfélagið allt.
    Um Byggðastofnun og Byggðsjóð vil ég segja það að ég sé ekki betur en Byggðastofnun standi traustum fótum. Eigið fé Byggðasjóðs 30. apríl sl. var 1692 millj. kr. 99% af útlánum Byggðasjóðs eru gengistryggð eða verðtryggð. Hins vegar er Byggðastofnun almennt með veð fyrir aftan aðra stofnlánasjóði og banka. Sú hefur verið meginreglan alla tíð að Byggðastofnun hefur neyðst til og verið talið sjálfsagt að hún fengi ævinlega veð fyrir aftan aðra stofnlánasjóði og fyrir aftan bankana --- þannig er það a.m.k. í yfirgnæfandi fjölda tilvika --- og þetta hefur auðvitað sín áhrif þegar um mikla gjaldþrotahrinu er að ræða í þjóðfélaginu eins og núna er. Á þessum tímum þegar gjaldþrotum fjölgar sífellt má að sjálfsögðu búast við nokkrum áföllum og þess vegna hafa verið settar 1656 millj. kr. í afskriftareikning útlána. Áföll vegna gjaldþrota á komandi árum upp að þessu marki munu því ekki skerða þá eiginfjárstöðu Byggðastofnunar sem ég nefndi hérna áðan og er 1692 millj. kr.
    En þá er rétt að varpa fram spurningunni: Hvað er brýnast í byggðamálum og hvað ber að forðast?
    Í fyrsta lagi þarf að ýta undir frumkvæði og forustu heimamanna með því að efla kjördæmin stjórnsýslulega.
    Það þarf að mynda byggðastjórnir í hverju kjördæmi sem gefi rétta og lýðræðislega mynd af íbúafjölda sveitarfélaga, svo og af skoðanahópum og valdahlutföllum stjórnmálasamtaka. Þá er ég einfaldlega að segja að núverandi kjördæmasamtök eru ekki fær um að gegna þessu hlutverki. Þar verða að koma til samtök sem byggja á lýðræðislegri grunni en núverandi kjördæmasamtök gera og þarf varla að skýra það frekar fyrir þá sem til þekkja.
    Það þarf einnig að efla starfsemi Byggðastofnunar og koma upp útibúum í öllum

kjördæmum. Að því hefur verið unnið á undanförnum árum og ég tel að það mál sé á góðri leið.
    Það þarf einnig að efla atvinnuþróunarfélög og atvinnuþróunarsjóði sem eru nú þegar að nokkru til í kjördæmunum. Þeir þurfa að vera til í öllum kjördæmum. Þessi atvinnuþróunarfélög ættu að yfirtaka hluta af starfsemi Byggðastofnunar.
    Það þarf að sameina og stækka sveitarfélögin svo að þau verði fjölmenn og sterk og það þarf að efla fjárhag þeirra. Hins vegar á alls ekki að una lengur við forréttindi Reykjavíkurborgar í skattamálum. Þau forréttindi sem allir þekkja, og eru auðvitað ekki í takt við tímann, eru á kostnað annarra sveitarfélaga í landinu. Þessi forréttindi eiga að hverfa úr sögunni.
    Það þarf að jafna raforkuverð um land allt. Til þess þarf að minni hyggju vafalaust að sameina Rafmagnsveitur ríkisins og Landsvirkjun.
    Það þarf að endurskipuleggja farþegaflutninga innan lands á sjó og landi. Hins vegar ber að sjálfsögðu að forðast það að draga úr bráðnauðsynlegri þjónustu Skipaútgerðar ríkisins eins og núverandi ríkisstjórn virðist áforma.
    Það þarf að flytja a.m.k. tvær ríkisstofnanir á ári hverju út á land næsta áratuginn. Það verður að tryggja það að uppbygging stórfyrirtækja eigi sér víðar stað en á höfuðborgarsvæðinu. Stuðningur stjórnvalda í tíð seinustu ríkisstjórnar við flutning Sláturfélags Suðurlands á Hvolsvöll og við flutning sjávarútvegsfyrirtækisins Ingimundar til Siglufjarðar var hvort tveggja dæmi um það hvernig rétt er að halda á málum, skref í rétta átt sem vísar veginn til frekari aðgerða af sama tagi.
    Það á ekki að selja Rás 2 eins og Sjálfstfl. hefur boðað. Þvert á móti á að efla Ríkisútvarpið og það á að tryggja að allir landsmenn geti notið útsendinga þess en enn þá vantar töluvert upp á að svo sé. Ljósleiðarakerfi Pósts og síma gæti vissulega bætt þar verulega úr og þarf að athuga það nánar.
    Áður en ég lýk máli mínu, virðulegi forseti, langar mig að fara örfáum orðum um óskabarnið sem minna hefur orðið úr en efni stóðu til. Þar á ég við fiskeldið. Fiskeldið hefur orðið þung byrði á sjóðakerfinu og því eðlilegt að ræða stöðu þess alveg sérstaklega. Það er grátlegt, því verður ekki neitað, það er grátlegt hvernig farið hefur fyrir fiskeldinu. 23 eldis- og hafbeitarstöðvar hafa orðið gjaldþrota og gífurlegir fjármunir hafa tapast. Lán Byggðastofnunar til laxeldisins nema 1400--1500 millj. kr. eins og mál standa nú. Enn eru um 50 stöðvar í rekstri, sumar á vegum þrotabúa eða stofnlánasjóða en flest þessara fyrirtækja eru í gífurlegum erfiðleikum.
    Ég tel rétt að við veltum aðeins fyrir okkur spurningunni: Hvers vegna fór svona illa í laxeldinu? Það er alltaf auðvelt að vera vitur eftir á og það er það sem menn verða. Menn sjá nú hvað var að, eftir á. Að sjálfsögðu var farið allt of geyst af stað og ekki af nægilegri fyrirhyggju. Sjóeldi reyndist miklu erfiðara hér við land en menn höfðu gert sér vonir um og menn höfðu reynslu af í nálægum löndum. Íslensku laxastofnarnir reyndust ekki henta vel til eldis. Það uppgötvuðu menn ekki fyrr en eftir á. Úr því má að sjálfsögðu bæta. Verð hefur farið mjög lækkandi á erlendum mörkuðum með stórauknu framboði og það er núna 20% lægra en það var fyrir fáum árum. Uppbygging laxeldisins lenti auk þess í vaxtasprengingunni miklu sem ég gerði áðan að umtalsefni og það hefur sannarlega goldið þess grimmilega. Afurðalánafyrirgreiðslan við laxeldið var frá upphafi mjög óhagkvæm, bæði dýr og ófullkomin og er það enn.
    En þá er kannski eðlilegt að menn spyrji: Var rangt að hefja laxeldi hér á landi? Ég held að margir þeirra sem spyrja sig þeirrar spurningar séu furðufljótir að gleyma umræðunni eins og hún var almennt í þjóðfélaginu fyrir fimm árum síðan. Um miðjan seinasta áratug voru Íslendingar varla byrjaðir að framleiða lax í eldis- og hafbeitarstöðvum og

þá, árið 1985, var útflutningur á laxi og silungi aðeins 17 millj. kr. Á sama tíma höfðu Norðmenn gert laxeldið að feikilegri stóriðju sem mokaði þá þegar til þeirra tugum milljarða króna. Írar, Skotar og Danir voru einnig komnir á fljúgandi ferð við uppbyggingu laxeldis. Máltækið segir: ,,Sveltur sitjandi kráka`` og staðreyndin er sú að mönnum fannst þá að engin ný atvinnugrein lofaði jafnmiklu og góðu eins og einmitt laxeldið. Það var því eðlilegt að menn spyrðu sig á þeim tíma: Eigum við að sitja með hendur í skauti? Um það spurðu menn sig um land allt og svöruðu neitandi.
    Markaður fyrir laxaseiði í Noregi var mjög góður og það var byrjunin. En skömmu eftir að menn fóru að selja inn á þann markað lokaðist hann mjög snögglega og íslenskar stöðvar sátu uppi með gríðarlega mikið magn af óseljanlegum seiðum. Þá var tekin ákvörðun um það að fara út í matfiskeldi, sem svo er kallað, í mjög stórum stíl. Og núna, fimm árum seinna, er útflutningsverðmæti eldis- og hafbeitarstöðva risið úr þessum 17 millj. sem það var fyrir fimm árum í 690 millj. kr. og hefur tekið feiknastökk upp á við á aðeins fimm árum. En fjárhagsstaðan er erfið, því er ekki að neita.
    Ég vil þó minna á í þessu samhengi að Ísland er ekki eina landið í veröldinni sem glímir við erfiðleika í laxeldi. Ef þið hafið hlustað á útvarpsfréttir í gær hafið þið vafalaust tekið eftir frétt frá Noregi þar sem kom fram að nær allar laxeldisstöðvar, eins og Ríkisútvarpið orðaði það, hvort sem það er nú satt eða ekki en þannig var það orðað, nær allar laxeldisstöðvar í Noregi yrðu gjaldþrota á næstu dögum ef ekki fengist 13 milljarða kr. styrkur til norsks laxeldis frá ríki og bönkum. Þannig er ástandið í þessari atvinnugrein, ekki bara á Íslandi heldur í öllum hinum löndunum þar sem hún er stunduð. Og menn verða að gera sér grein fyrir því að þetta gerist ekki bara á sviði laxeldis heldur getur þetta gerst á mjög mörgum öðrum sviðum atvinnulífs og hefur verið að gerast á undanförnum áratugum. Þetta er ekkert einstakt með laxeldið.
    Uppbygging íslensks atvinnulífs hefur aldrei gengið áfallalaust. Við höfum orðið fyrir áföllum aftur og aftur á þeim sviðum þar sem uppbygging hefur verið hvað mest. Áföllin og tapið í fiskeldinu stafa að sjálfsögðu af reynsluleysi, þekkingarleysi og vankunnáttu en líka af þessum erfiðu ytri aðstæðum, lækkandi verði og háum vöxtum.
    Ég tel hins vegar að þekkingin og reynslan sem hefur fengist á þessum fimm árum geti orðið margra milljarða virði á komandi árum. Ef ég er spurður að því hvort ég telji tíma til kominn að hætta við laxeldið, þá svara ég alveg hiklaust að það væri glapræði. Það væri glapræði að gefast núna upp þótt móti blási. Það verður að reyna að láta þær stöðvar lifa sem hafa einhverja lífsmöguleika í von um batnandi afkomu með minnkandi framleiðslukostnaði, hugsanlega með aðeins hækkandi verði á nýjan leik eins og margir gera sér vonir um og með ýmiss konar hagræðingu sem víða er í fullum gangi.
    Að lokum: Hver er framtíð fiskeldisins? Ég held að við verðum að hafa það í huga að eftir nokkur ár verður seiðaeldi til eflingar þorskstofninum komið í fullan gang hér á landi. Til þess að hjálpa náttúrunni svo að um munar við ræktun þorskstofnsins þarf að sjálfsögðu gífurlegt magn seiða en sú framleiðsla væri áreiðanlega fljót að borga sig ef vel tækist til. Ég bendi því á að þekkingin og tæknin sem hefur verið að flæða inn í landið á seinustu árum með laxeldinu ásamt auðvitað miklu af ónotuðum fjárfestingum gjaldþrota fyrirtækja sem nú eru fyrir hendi, þetta hvort tveggja á hugsanlega eftir að koma okkur að mjög góðum notum á næstu árum við uppbyggingu þorskstofnsins. Að sjálfsögðu eru vonir okkar ekki eingöngu bundnar við stóraukið laxeldi þrátt fyrir áföllin og hugsanlegt þorskeldi á komandi árum. Möguleikarnir eru fjöldamargir aðrir eins og flestir þekkja. Bleikjueldi lofar mjög góðu og gefur gott verð. Lúðueldi er hafið og miklir möguleikar virðast liggja í eldi heitsjávarfiska með aðstoð jarðhita þótt við höfum ekki enn spreytt okkur á þeim möguleikanum.

    Ég segi að lokum um þetta stórkostlega mikilvæga mál: Hvers konar fiskeldi er sjálfgefið viðfangsefni okkar Íslendinga með þá frábæru aðstöðu sem við höfum á þessu sviði frá náttúrunnar hendi.