Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 15:19:00 (568)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Sú nýlunda er í dag að hæstv. forsrh. er í þingsalnum og hefur gefið mönnum kost á að ræða landsins gagn og nauðsynjar í umræðum um skýrslu um byggðamál. Það er mjög virðingarvert og ákaflega óheppilegt að slíta þá umræðu í sundur. Í 50. gr. þingskapa segir svo: ,,Í upphafi þingfundar skal forseti tilkynna hvaða mál fyrirhugað er að taka til umræðu utan dagskrár.`` Það er engin undanþága frá þessari skyldu á forseta og því algjörlega óheimilt á miðjum þingfundi að tilkynna að upp verði tekin utandagskrárumræða. Ég vil vekja athygli á þessu hér, ekki vegna þess að mér sé ekki ljóst að það mál er komið í hnút eins og fleiri mál hjá hæstv. ríkisstjórn, hún liggur því vel við höggi, heldur hins að með formlegum hætti hlýtur að verða að krefjast þess að forseti virði 50. gr. --- alveg eins og okkur er ætlað að virða rauð, gul og græn ljós í borðinu --- og fari eftir texta hennar undanbragðalaust, og tilkynni það í upphafi þingfundar ef fram eiga að fara umræður utan dagskrár.