Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 15:24:00 (571)

     Gunnlaugur Stefánsson :
     Virðulegi forseti. Í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, Velferð á varanlegum grunni, segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun með almennum aðgerðum styðja viðleitni til að byggja upp iðnað og þjónustu á vaxtarsvæðum landsbyggðarinnar og greiða fyrir aðlögun að breyttum atvinnuháttum og markaðsskilyrðum. Ríkisstjórnin vill í samvinnu við heimamenn beita sér fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar á landsbyggðinni og hlúa að vexti og viðgangi smáfyrirtækja. Efling vaxtarsvæðanna, með bættum samgöngum og aukinni samvinnu sveitarfélaga og fyrirtækja innan þeirra, er í senn hornsteinn hagkvæmrar byggðastefnu og almennrar atvinnu- og efnahagsstefnu á næstu árum. Ríkisstjórnin mun fylgja eftir áætlunum sínum um jöfnun húshitunarkostnaðar í landinu. Ríkisstjórnin mun starfa í anda sátta milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.
    Ríkisstjórnin mun á kjörtímabilinu beita sér fyrir því að stofnunum og þjónustu á vegum ríkisins verði komið fyrir utan höfuðborgarsvæðisins eftir því sem hagkvæmt þykir.``
    Hér hafa verið höfð stór orð uppi af þingmanni Alþb. og Framsfl. þess efnis að stefna þessarar ríkisstjórnar hafi nú þegar gjörsamlega brugðist og allt hafi snúist til hins verra á landsbyggðinni. Ég er viss um að þeir geta tekið undir það að þetta er stefna, sem hér hefur verið lesin upp og þeim er kunn, sem getur þjónað mikilvægu hlutverki á landsbyggðinni ef hún nær fram að ganga. Það hlýtur hverjum manni að vera ljóst að of snemmt

er að dæma um það núna hvort þessi stefna nær fram að ganga og hvort hún nær að skila þeim árangri sem við öll væntum.
    Það er ekki gott að horfa til framtíðar í gegnum sjóngler fordómanna. Því miður virtist mér sérstaklega hv. þm. Páll Pétursson vilja líta svo á byggðamálin. Ég get ekki tekið undir orð fyrrv. forsrh. þegar hann sagði eitt sinn að byggðastefnan hefði brugðist. Þá erum við hv. þm. Páll Pétursson sammála. Satt er það að margt í byggðastefnu undangenginna ára hefur brugðist en margt tekist vel og þar hefur Byggðastofnun gegnt mjög mikilvægu hlutverki og oftast rækt það vel og skynsamlega. Auðvitað má deila um ýmsar ákvarðanir og gjörðir sem svo stór og mikilvæg stofnun tekur og stendur að, en í heild hefur Byggðastofnun á mörgum sviðum lyft grettistaki, ekki bara komið til hjálpar heldur lagt grundvöll að nýsköpun í atvinnumálum á landsbyggðinni frekar en ella hefði orðið.
    Við hvers konar vanda er að etja á landsbyggðinni? Meginvandinn á landsbyggðinni er sá að kvótakerfið og lág laun fiskverkunarfólks fara víða illa með byggðarlög. Þetta eru tvö stærstu vandamálin sem við er að etja á landsbyggðinni núna. Það eru lág laun þeirra sem vinna við frumatvinnuveginn, sjávarútveginn, og svo hins vegar kvótakerfið sem ekki bara raskar byggð heldur ógnar byggð vegna þess að þeir sem þurfa að starfa og lifa undir ógn kvótakerfisins geta búist við á hvaða tíma sem er að kvótinn, grunnurinn undir heimilunum, verði seldur burt. Atvinnuréttindi fólksins í byggðunum eru hvergi virt þegar kvótabraskið er annars vegar. Það hlýtur að skipta máli fyrir atvinnulífið í landinu þegar kvótabraskið getur numið 4 milljörðum á ári. Það hlýtur að muna miklu fyrir lítið byggðarlag er telur 350 manns að þurfa að kaupa kvóta fyrir 100 millj. kr. þegar skipið sjálft kostar 90 millj. Það hlýtur að skipta líka máli fyrir atvinnu fólksins á þeim stað þaðan sem skipið er selt. Við getum ekki varið slíkt kerfi. Það er svo meingallað að hér verður að takast á við málið, enda er það í endurskoðun í nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin hefur heitið því að hér verði gerð breyting á. Þetta er eitt stærsta landsbyggðarmálið, þ.e. að treysta grundvöll sjávarútvegsins og atvinnunnar í þorpunum vítt og breitt um landið.
    Hitt málið er lág laun fólksins er vinnur við sjávarútveginn og sérstaklega í fiskvinnslunni. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin hafi forustu um að þar verði misréttið leiðrétt ef svo heldur fram sem horfir og verið hefur allt of lengi, allt of mörg ár, að þessi störf sem í raun og veru leggja grundvöll að þjóðarbúinu séu vanmetin.
    Það eru fleiri mál sem rétt er að vekja athygli á í þessari umræðu. Það er satt að mikil búseturöskun hefur verið hér í landinu, ekki bara síðasta áratug og ekki bara síðustu tvo áratugi heldur lengur. Ein meginástæðan fyrir búseturöskuninni til viðbótar því sem ég hef sagt áður er ríkisþenslan í Reykjavík. Fjárfestingargleði ríkisins í Reykjavík og útþensla ríkisbáknsins í Reykjavík hefur náttúrlega skapað aðstöðumun á vinnumarkaði, fjárfestingarmarkaði, peningamarkaði og hvaða markaði sem er í raun og veru. Það hlýtur að skipta máli fyrir atvinnulífið í Reykjavík þegar ráðist er í framkvæmdir er kosta einn milljarð króna, eins og t.d. þegar ákveðið var að gera við Þjóðleikhúsið á stuttum tíma, innan árs. Það hlýtur að skipta máli fyrir atvinnulífið hér í Reykjavík og það sogar til sín með óbeinum hætti vinnuafl af landsbyggðinni, vinnuafl m.a. úr fiskvinnslunni, sem þolir ekki samkeppni við svona mikla fjárfestingargleði. Það hlýtur líka að skipta mjög miklu máli fyrir byggðina í landinu og fjármál ríkissjóðs þegar fyrrv. fjmrh. gerir í skyndi fyrir kosningar samning við Reykjavíkurborg um að greiða gamlar skuldir upp á 1 milljarð kr., skuldir fyrir framkvæmdir í vegagerð sem ekki allar finnast einu sinni í vegáætlun. Þetta skiptir máli fyrir getu ríkissjóðs til þess að standa að framkvæmdum í vegamálum þegar horft er til framtíðar og það er þegar farið að segja til sín þegar ríkissjóður þarf að borga

af þessari skuld á fjórða hundrað millj. kr. á þremur árum. Þeir peningar eru náttúrlega hvergi teknir annars staðar en frá framkvæmdum sem miða að því að leysa úr brýnasta vanda. Samgrh. lýsti því hér yfir að tæpast yrði farið í jarðgangagerð á Austurlandi fyrr en í fyrsta lagið 1998 eða 1999 og okkur þótti það, þingmönnum Austurlands sem hér töluðu, heldur seint í verkin farið og það er rétt. Auðvitað finnst manni það vont að hugsa til þess að í svo mikilvæga framkvæmd verði ekki farið fyrr en eftir sex eða sjö, jafnvel átta ár, þegar við horfum upp á áætlanir í Reykjavík sem teljast skyndiframkvæmdir til þess að byggja hús er kostar milljarð króna. Það virðist annar mælikvarði gilda yfir höfuð á þær framkvæmdir sem farið er í hér í Reykjavík en nauðsynlegar framkvæmdir er tengjast landsbyggðinni. Við landsbyggðarþingmenn eigum ekki að una þessum mælikvarða. Við þurfum að standa fyrir nýju gildismati. Ef hægt er að byggja eitt stykki hús í Reykjavík á tveimur, þremur árum fyrir milljarð kr. og taka um það ákvörðun ári áður eða svo, hljótum við að geta krafist þess að sami mælikvarði gildi um framkvæmdir úti á landi. Þetta gildir líka um ofþensluna í öllum rekstri ríkisvaldsins í Reykjavík. Það má segja að hafi atvinnulífið í Reykjavík verið í örum vexti, þá hafi það fyrst og fremst verið vegna aukinna ríkisumsvifa, enda er ríkisvaldið langstærsti vinnuveitandi hér í Reykjavík. Gerið ykkur í hugarlund hvað stórt það þorp eða sá kaupstaður yrði, sem mundi ekki hafa neitt annað en Háskóla Íslands og stofnanir hans? Ef Háskóli Íslands yrði staðsettur utan Reykjavíkur í sjálfstæðu sveitarfélagi, hvað þyrfti margt fólk að búa á þeim stað og hvað gæti Háskóli Íslands einn og sér staðið undir stóru samfélagi? Þetta er rétt að íhuga og hvað sú stofnun er í raun og veru mikilvægur þáttur í öllu atvinnulífi og fjármálum Reykjavíkurborgar. Það er ekki að undra að Reykjavíkurborg geti ráðist í stórar og dýrar framkvæmdir á borð við ráðhúsið, á borð við Öskjuhlíðarhús, Perlu, og aðrar álíka, þegar svo vel er staðið að fjárhagi þessarar borgar og þegar sá fjárhagur stendur á jafnföstum rótum og ríkisvaldið hefur tryggt á undanförnum árum.
    Það eru orð að sönnu sem segir í stefnu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar að flytja þarf ríkisstofnanir út á land og það er rétt sem hv. 6. þm. Vestf. benti á að það þyrfti að hætta að tala um þetta, það þyrfti að grípa hér til einhverra framkvæmda. Ég óska eftir því að hæstv. forsrh. undirbúi sig til þess að fara að gera þinginu grein fyrir því hvaða stofnanir þetta verði.
    Á sínum tíma var nefnd að störfum sem nokkrir hv. þm. sátu í. Hún gerði mikla úttekt á þessum málum, gaf út þykka bók og taldi upp margar stofnanir sem framkvæmanlegt væri að flutt yrðu út á land. Ég bjóst hálfpartinn við því að þessir hv. þm. sem sumir voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn gerðu alvöru í því að flytja eins og eina stofnun úr bókinni út á land. Það var nú tæpast. Jú, Skógrækt ríkisins komst í Egilsstaði og það hefur munað litlu síðan að hún flyttist aftur suður vegna húsnæðisvandræða. Ekki var nú betur búið að þeirri stofnun en það, en nú er verið að koma þeim málum á fastan grundvöll. Það væri sannarlega ástæða til að dusta rykið af þessari þykku og stóru bók og athuga hvort ekki mætti nýta þá vinnu sem á bak við hana liggur til þess að hefja þetta starf nú þegar. Auðvitað eru margar stofnanir sem geta verið úti á landi og þarf ekki að fara mörgum orðum um það.
    Það er fagnaðarefni hvað samvinna sveitarfélaga hefur verið að aukast að undanförnu. Sú nefnd sem hefur verið að störfum og ferðast um landið og átt viðræður við sveitarfélög hefur unnið nú þegar mikið og gott starf og það ber að þakka. Nú eru viðræður í gangi mjög víða í landinu, ekki endilega alls staðar til þess að sameina sveitarfélög, heldur einnig til þess að auka alla samvinnu sveitarfélaga. Telja verður að þetta sé eitt mikilvægasta átak sem átt hefur sér stað í byggðamálum á undanförnum árum og erum við ekki enn búin að sjá alla þá ávexti sem af þeirri samvinnu geta sprottið þegar fram líða

stundir.
    Virðulegi forseti. Samhliða því sem alvarleg búseturöskun hefur orðið í landinu hafa lífskjörin á landsbyggðinni versnað og þau hafa versnað í samanburði við lífskjörin hér í Reykjavík. Á einum vettvangi hefur þó verið staðið sérstaklega vel að málum á sl. þremur árum en það er húsnæðisstefna síðustu ríkisstjórnar og sú húsnæðisstefna sem nú þegar hefur verið mörkuð af þessari ríkisstjórn, að halda áfram að byggja íbúðir á landsbyggðinni á grundvelli hins félagslega átaks. Á þessu ári er verið að byggja 600 íbúðir á vegum hins félagslega kerfis. Á síðasta ári voru byggðar 800 íbúðir og það má spyrja sig að því hvernig húsnæðismálum á landsbyggðinni væri komið ef þetta átak hefði ekki verið gert. Hér á hæstv. félmrh. miklar þakkir skildar fyrir mikla dugandi og harða baráttu fyrir það að ná þessum málum fram. Hér hefur náttúrlega verið stigið mjög stórt og mikilvægt skref til þess að treysta byggðina í landinu, stærra skref en stigið hefur verið en á mörgum öðrum sviðum byggðamála.
    Það er alveg ljóst að framfarir á sviði tækninnar leyfa að aukin starfsemi á vegum ríkisins geti farið fram á landsbyggðinni. Ég gæti meira að segja hugsað mér það að Þjóðhagsstofnun gæti verið staðsett utan Reykjavíkur. Og þannig er hægt að hugsa sér að stofnanir sem í raun og veru eru ekki nema sími og tölva, ( EgJ: Og nafnið.) og nafnið, Egill, það er rétt, og nokkrir starfsmenn sem starfa við þessi tæki og tól og aðrir þurfa þar ekki að koma að, geti verið á landsbyggðinni. Það má örugglega flytja tölvurnar til og starfsfólk getur líka flutt á milli sveitarfélaga. Það höfum við séð í gegnum tíðina sem eigum heima á landsbyggðinni. Það má kannski hjálpa þessu fólki líka til að flytja út á land með tilstuðlan hæstv. forsrh. sem hefur heitið átaki í þessum efnum.
    Að lokum langar mig til að nefna eitt málefni er snertir stóran hóp manna á landsbyggðinni og það er loðdýraræktin. Hún hefur verið til umræðu á hverju þingi en nú verður að fara að taka á þessum málum þannig að þeirri óvissu, sem fjölmörg heimili og margar fjölskyldur standa andspænis, verði eytt. Það er alveg ljóst að fjölmargar fjölskyldur, sem hafa og eru í loðdýrarækt, standa aldrei undir þeim áföllum sem dunið hafa yfir í þessari atvinnugrein. Ég skora á hæstv. landbrh. að taka þessi mál til endanlegrar afgreiðslu þannig að þessari óvissu megi eyða.
    Það er kannski ekki ástæða til að fara nánar út í það núna hvernig að því skuli staðið, en það er alveg ljóst að ef loðdýraræktin á að komast af og ef við eigum að geta horft til framtíðar um að hún eigi að geta staðið á eigin fótum, eins og margt bendir til um þessar mundir þegar áætlanir eru bjartari en oft áður um hækkandi verð og betra gengi, þá hljótum við að standa frammi fyrir þeirri spurningu hvort gamlar stórskuldir eigi að ganga frá þessari atvinnugrein algjörlega eða hvort það eigi að létta þessum skuldum af til þess að hlúa megi enn betur að loðdýraræktinni en gert hefur verið fram að þessu. Hér þarf að taka heildarákvörðun er snertir alla skuldara í loðdýrarækt. Ekki að teknir verði út einn og tveir og þrír til sérstakrar afgreiðslu. Hér verður að taka heildstæða ákvörðun er gengur yfir alla jafnt.
    Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að hægt verði að ræða landsbyggðarmál á grundvelli þjóðarsáttar. Að treysta megi grundvöll byggðanna svo að sátt megi ríkja á milli byggðanna og fólksins í landinu, en til þess að slík sátt geti orðið verður að leiðrétta aðstöðumun þann sem fólk hefur allt of lengi búið við. Það er erfitt að játa það, en það er satt að allt of margir segja við mig: Ef ég gæti selt þá væri ég farinn. Þessi orð lýsa kannski ástandinu betur en allt annað og það má upplýsa hv. þm. Pál Pétursson um það að þessi orð voru líka sögð í tíð fyrri ríkisstjórnar og í jafnríkum mæli. En það þarf að efla bjartsýni og von í byggðunum þannig að fólkið hafi trú á því að þar megi blómgast byggð og þar hlýtur ríkisstjórnin að hafa forustu á hendi og stjórnarandstaðan líka. Ég undrast það

hlutverk stjórnarandstöðunnar í fyrstu umræðu um byggðamál nokkrum mánuðum eftir að ríkisstjórnin er komin til valda að láta líta svo út að allt sé í kalda koli hjá ríkisstjórninni í byggðamálum áður en nokkrar aðstæður gefa tilefni til að dæma hana. Það er ekki kominn nógu langur tími. Ef henni mistekst þá skal ekki standa á mér að leggja dóm á og gera það með þungum orðum. Ekki með fordómum. ( SJS: Dæmið ekki.) Það er ágætt að dæma þegar við sjáum það í ljósi sögunnar, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Fyrst að hv. 5. þm. Vestf. er kominn í salinn og var að grípa hérna fram í, þá er nú rétt að nefna eitt í sambandi við hans framlag til byggðamála. Hann hefur haft forustu um það að gera starfskjör prestanna í landinu tortryggileg, og áttum okkur sérstaklega á því, að það á bara við um prestana á landsbyggðinni. Ekki prestana í Reykjavík, ekki prestana á Akureyri, heldur sérstaklega starfskjör einnar stéttar sem nýtur ákveðinna réttinda umfram starfsskilyrði er viðkomandi stétt nýtur í Reykjavík. Maður hlýtur að spyrja þennan sama þingmann landsbyggðarinnar hvort maður megi búast við næstu aðför að kennurum, hvort næsta aðför muni beinast gagnvart fiskvinnslufólki. Og hvaða stéttum næst. Kannski er komin hér ein skýringin á því að það ríkir sundrung í landinu og í byggðunum. Það er verið að ala undir óánægju og gefa í skyn að eitthvað tortryggilegt sé á ferðinni og sérstaklega á sviðum þar sem fyrri þingmenn voru að tryggja stöðu landsbyggðarinnar gagnvart Reykjavík, tryggja það að sóknirnar hefðu embættisbústað til þess að það væru meiri líkur á að sóknarprestar réðust til starfa í sóknunum og hefur það ekki gengið allt of vel til þessa. Það er ekki skylda ríkisvaldsins að tryggja prestsbústaði í Reykjavík. Það er að vísu skylda ríkisvaldsins að borga prestum í Reykjavík leigu fyrir afnot af einkahúsnæði sóknarprestsins. ( Gripið fram í: Er það ein króna?) Þú veist það, hv. þm.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. En það er sannarlega ástæða til að taka á málefnum landsbyggðarinnar og ég veit það að ríkisstjórnin mun gera það. Ég gef henni þann tíma sem nauðsynlegur er og ég trúi því að sá tími verði vel nýttur í þágu fólksins sem á landsbyggðinni býr.