Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:43:00 (577)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
     Virðulegi forseti. Mér finnst það fremur óviðkunnanlegt þegar það gerist að maður er í samstarfi, ákvörðun sem maður trúir að maður eigi kost á að fjalla um, e.t.v. að hafa áhrif á eða a.m.k. að heyra um innan þingflokks, berist í fréttatíma sjónvarps eins og gerðist að þessu sinni. Ég vil taka fram að þó það hafi gerst er það ekki einstætt, slíkir hlutir gerðust líka á fyrra kjörtímabili. Ég gagnrýni þann gjörning, hver sem á í hlut.
    Það samkomulag sem var kynnt sem samkomulag milli menntmrh. og fulltrúa Kópavogsbæjar kom mér mjög á óvart. Ég taldi að undanfari þessa hlyti að vera umfjöllun í ríkisstjórn sem við stjórnarliðar fengjum að vita um. Mér finnst skipta máli að það komi fram hér, og ég skildi orð forsrh. þannig, að ákvörðun ríkisstjórnar standi enn þá. Ákvörðunin um 300 millj. kr. framlag og þá væntanlega það lán sem átti að fylgja með standi, telji Kópavogur að hann haldi áfram með þetta mál og sé viljugur til þess.
    Í fréttum kom hins vegar fram að samkomulag væri milli beggja aðila um að hætt yrði við framkvæmdina og að ríkisvaldið greiddi Kópavogi 10 millj. kr. eins og hér hefur verið nefnt.
    Mér finnst það skipta meginmáli að sú ákvörðun ríkisstjórnar komi skýrt fram hér, eins og ég skildi forsrh. Hins vegar ef núv. meiri hluti í Kópavogi ákveður að hann treystir sér ekki í þessa framkvæmd á grundvelli samningsins sem gerður var, þá er það sérmál, og þá er það ákvörðun Kópavogskaupstaðar. Sú ákvörðun hlýtur að verða tekin fyrir í bæjarstjórn Kópavogs og kynnt þar og síðan í framhaldi á réttum vettvangi.