Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 17:45:00 (578)

     Ingi Björn Albertsson :
     Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrir að taka þetta mál upp hér og geta þess að ég hef afrit af nokkrum bréfum sem hann hefur augsýnilega einnig. Ég harma að málið skuli vera komið í þær ógöngur sem það er í og fer jafnframt fram á það hér og nú að þetta mál verði rætt utan dagskrár undir lengra forminu vegna þess að það er engin leið að ræða þetta mál á svo skömmum tíma sem okkur er ætlaður, í tveggja mínútna ræðutíma.
    Ég tel líkt og aðrir sem hér hafa talað að ríkisstjórnin sé siðferðilega skyldug að sjá til þess að þessi keppni geti farið fram hér á landi. Það þarf ekki langt mál til að rökstyðja það. Það má kíkja á þau bréf sem hér hefur verið talað um og ég ætla að leyfa mér að lesa eina eða tvær setningar. Ég ætla að fá að lesa þær á ensku þar sem ég veit að þingmenn eru upp til hópa mjög vel menntaðir og skilja það tungumál. Í bréfi frá Birgi Ísl. Gunnarssyni, þáv. menntmrh., til Alþjóðahandknattleikssambandsins, dags. 19. apríl 1988, stendur eftirfarandi:
    ,,The government of Iceland herewith declares that a new sports, exhibition and conference hall for 8.000 spectators is planned to be built in Reykjavík well in advance of the World Championship in handball 1993--1994. This hall will be built in cooperation with the Reykjavík City and several interested parties . . . `` o.s.frv.
    Hér er það alveg skýrt frá menntmrh. í ríkisstjórn Íslands að þessi höll verður byggð og meira að segja að hún verði byggð í samvinnu við Reykjavíkurborg. Þess vegna er það alveg ljóst í mínum huga að ríkisstjórnin er siðferðilega skyldug að reisa þessa höll.
    Síðan vil ég fá að leiðrétta þann misskilning að hér er ekki eingöngu verið að tala um handboltahöll, þó að þessi mikla keppni eigi að fara þar fram. Hér er verið að tala um fjölnota íþróttahús og ekki bara íþróttahús heldur ráðstefnuhús, fyrirlestrahús, hljómleikahús og hvaða nöfnum menn vilja nefna það.
    Hæstv. forseti. Af því að menntmrh. kom inn á það að málið yrði að koma fram með nýjum hætti óska ég eftir skýringum á því hvað eru nýir hættir. Er nóg að Handknattleikssamband Íslands komi til ríkisstjórnarinnar og óski eftir því að málið verði tekið upp á nýtt? Er það frumkvæði nóg og mun þá málið verða tekið upp hjá ríkisstjórninni og leitað samstarfs við önnur sveitarfélög?