Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 18:02:00 (584)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan. Það er vilji ríkisstjórnarinnar að standa ekki lakar við þetta fyrirheit en fyrrv. ríkisstjórn ætlaði að gera. Við höfum sagt sem svo: Við stöndum við þá fjárupphæð sem búið er að lofa. Við höfum ítrekað það úr þessum ræðustól. Ég veit ekki af hverju þingmaðurinn sem síðast talaði líkir því nánast við svik að ætla að gera það með sama hætti og fráfarandi ríkisstjórn vildi gera. Ég held reyndar að þegar fyrrv. ríkisstjórn gerði þennan samning við Kópavog og skammtaði Kópavogi þó þetta naumt hafi í raun málið verið drepið af hennar hálfu. Í mínum huga er það algerlega ljóst að tiltölulega lítið sveitarfélag eins og Kópavogur gat ekki haft afl og efni til þess að standa við sinn hluta af samningnum. Það hefði verið ofvaxið fjárhag þess sveitarfélags. Ég er ekki í vafa um það.
    Ég vil aðeins nefna það vegna þess að persóna fyrrv. borgarstjórans í Reykjavík er iðulega nefnd í þingsölum af hinu og þessu tilefni vegna þeirra bréfa sem vitnað var til, þá reyndi fyrrv. ríkisstjórn aldrei að eiga neitt samráð við Reykjavíkurborg um að byggja þetta íþróttahús, aldrei voru uppi neinir tilburðir af hálfu fyrrv. fjmrh. eða menntmrh. að fá borgarstjórn Reykjavíkur til þess að byggja þetta hús þrátt fyrir að nú sé vitnað í bréf þar sem nafn Reykjavíkur er sérstaklega nefnt. Vegna bæklingsins góða þá skora ég á menn að lesa þann texta sem þar er eftir mér hafður og byggist aðallega á því að lýsa því yfir að umhverfi Laugardalsvallarins sé fagurt og það væri út af fyrir sig ánægjulegt að hafa þessa keppni hér á landi. Engin fyrirheit gefin af hálfu Reykjavíkurborgar í þessu plaggi eins og menn geta séð.