Heimsmeistarakeppnin í handbolta

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 18:04:00 (585)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
     Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi flest þessara bréfa undir höndum sem hér hefur verið vitnað til, bæði á ensku og íslensku, en ég sé hvergi þessa umsókn frá ríkisstjórn Íslands um að fá að halda heimsmeistaramót í handknattleik. Ég sé hins vegar stuðningsyfirlýsingar við umsókn Handknattleikssambands Íslands. Ég sé þær. Og það er allt annað mál. Hér er verið að rukka ríkisstjórnina um að standa við einhver fyrirheit um að hún ætli að halda heimsmeistaramótið. Hvers konar rugl er þetta eiginlega?
    Í síðasta bréfið sem ég hef frá Birgi Ísl. Gunnarssyni stendur --- ég verð víst að nota enskuna: ,,As you know the Icelandic Handball Federation has applied for hosting the World Handball Championship.`` Auðvitað er þetta það sem um er að ræða. Menn eiga því ekki að vera með svona útúrsnúninga, enda skiptir þetta ekki höfuðmáli.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði að það ætti ekki að verðlauna þá sem standa ekki við samninga og hætta við eins og Kópavogur í þessu tilviki. Það eru bein ákvæði í samningnum sem gerður er 5. apríl og undirritaður er af þáv. menntmrh. og þáv. fjmrh. þess efnis að verði af einhverjum ástæðum hætt við að halda heimsmeistarakeppnina í handknattleik á Íslandi 1995 muni ríkisstjórnin leita eftir heimild Alþingis til þess að greiða Kópavogskaupstað hönnunarkostnað og annan kostnað o.s.frv. Það er einfaldlega þetta ákvæði sem verið er að standa við í því samkomulagi sem gert var milli fulltrúa ríkisstjórnarinnar og fulltrúa Kópavogs sl. laugardag.
    Það er líka rétt að ítreka að það eru allt aðrar forsendur í dag en voru þegar verið var að reka áróður af íslenskum stjórnvöldum fyrir því að heimsmeistaramótið yrði haldið hér á landi. Það eru allt aðrar forsendur, eins og m.a. kemur fram í þessum litprentaða bæklingi sem hér hefur verið vitnað til. Þar var nefnilega verið að tala um fjölnota hús sem byggt yrði í Reykjavík. En um hvað var samið af fyrrv. ríkisstjórn? Það var samið um byggingu íþróttahúss sem síðar átti að breyta að hluta til í skólamannvirki. Þetta 300 millj. kr. fyrirheit fyrrv. ríkistjórnar var m.a. réttlætt með þeim hætti. Nú hafa menn komist að því að það er ekki heppilegt að byggja hús með þeim hætti og Kópavogsmenn hafa á undanförnum mánuðum unnið að því að endurhanna þetta hús og koma kostnaðinum verulega niður.
    Ég er því miður búinn með tímann. Fleira mætti segja en ég ítreka það sem ég sagði áðan að ríkisstjórnin er auðvitað tilbúin til viðræðna ef einhverjir nýir fletir koma upp í þessu máli. Það er mjög eðlilegt að Handknattleikssamband Íslands eigi viðræður við ríkisstjórnina eða fulltrúa hennar og það er ekkert á móti því að ræða við fulltrúa Breiðabliks í Kópavogi en fyrir fram hlýt ég að draga það í efa að það félag hafi getu til að framkvæma þetta ef bæjarfélagið sjálft telur sig ekki geta það.