Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 21:00:00 (590)

     Steingrímur J. Sigfússon :
     Hæstv. forseti. Ég fagna því að umræða um byggðamál skuli komast á dagskrá þingsins svo snemma á þessum vetri. Ég vænti þess að fleirum en mér þyki æskilegt að geta rætt um stöðu byggðamálanna eins og hún blasir við í byrjun vetrar og heppilegt tilefni til þess er auðvitað að fá í hendur ársskýrslu Byggðastofnunar og hlýða á ræðu hæstv. forsrh af því tilefni.
    Ég held að ég verði samt vegna atburða í umræðunni fyrr í dag að víkja fyrst að ummælum hv. 1. þm. Vestf. um þá hvítu bók sem við alþingismenn fengum senda og bar að sögn kunnugra fæðingu hennar nokkuð brátt að. Er ekki að vita nema um hálfgerðan fyrirburð hafi þar af leiðandi verið að ræða, en á sólarhringnum áður en eldhúsdagsumræður um stefnuræðu forsrh. fóru fram kom þessi hvíta bók til þingmanna en áður hafði verið boðað að nokkur bið yrði eftir. Nú kom það fram í umræðum áðan að hv. 1. þm. Vestf. lýsti þessa bók, ekki bara þær línur sem fjalla um byggðamál sem hann lýsti sig ósammála, heldur alla bókina sér óviðkomandi. Ég hlýt því að spyrja og vona að það skýrist í umræðunni fyrr en seinna, hver er eiginlega staða þessarar bókar? Ég held að það sé ákaflega ankannalegt að við hv. þm. ræðum um stefnu ríkisstjórnarinnar, að svo miklu leyti sem við erum að reyna að greina hana, hafandi þetta plagg í höndunum ef það kemur svo á daginn, sem manni virðist verða æ ljósara, að þetta sé í raun og veru marklaust plagg og hafi ekki þá formlegu stöðu á nokkurn hátt sem gefið var í skyn þegar það var lagt fram. Ég skildi hv. 1. þm. Vestf. svo að þetta plagg hefði ekki fengið afgreiðslu í þingflokki Sjálfstfl. Í öllu falli var alveg ljóst að hann lýsir það sér óviðkomandi. Þess vegna hljótum við að spyrja: Er það svo um fleiri hv. þm. Sjálfstfl. að þetta hvíta plagg sé þeim óviðkomandi og er það e.t.v. svo þegar til kastanna kemur að einungis þeir tíu hv. þm. sem sitja í hæstv. ríkisstjórn beri ábyrgð á þessu skjali?
    Mér er tjáð að á þingi hafi fyrir nokkru komið í ræðustól hv. varaþm. Alþfl. og bæjarstjóri í Hafnarfirði, Guðmundur Árni Stefánsson, og lýst því yfir að þetta plagg hefði ekki fengið þá afgreiðslu í Alþfl. sem lög þess flokks mæla fyrir um til þess að teljast gilt. Það mun vera svo að þar þurfi flokksráð eða flokksstjórn um að fjalla þar sem þetta er skjal er varðar efnisinnihald stjórnarsamstarfs og þetta plagg mun ekki hafa fengið þá afgreiðslu í Alþfl. ( Heilbrrh.: Hvaða plagg ertu alltaf að tala um?) Ég er að tala um litlu, hvítu músina, hæstv. heilbrrh., sem svo var nefnd á dögunum. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að við fáum þetta fram og það fyrr en seinna. Æskilegt væri að t.d. þingflokksformenn stjórnarflokkanna gætu, ef þeir eru viðstaddir eða í kallfæri, upplýst okkur um hvaða stöðu þessi verkefnisáætlun, stefnuyfirlýsing eða hvað menn kjósa að kalla það, af nafninu verður það ekki ráðið, hefur hjá stjórnarflokkunum vegna þess að það er vísað í þetta skjal aftur og aftur í umræðum af hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég lýsi því eftir því og vona að talsmenn stjórnarflokkanna hér í kvöld, hæstv. forsrh. eða annar fyrir hönd Sjálfstfl., og við sitjum kannski uppi með hæstv. heilbrrh. sem talsmann Alþfl --- það virðist ekki vera öðrum til að dreifa á þeim bæ en það hafði þó verið óskað eftir því af okkar hálfu að formaður eða varaformaður þess flokks yrði einnig viðstaddur umræðuna og er nokkur skaði ef því verður ekki við komið --- svari þessu alveg afdráttarlaust. Nú er að vísu rétt að taka það fram að ég er ekki að lýsa sérstaklega eftir þessu vegna þess að ég telji það sem í þessari bók stendur þvílík tíðindi í stefnumarkandi atriðum, síður en svo. Þvert á móti var það þannig að þegar ég fór að blaða í gegnum pappíra til að undirbúa mig undir þessa umræðu fór ég m.a. í stefnuyfirlýsinguna, þessa þunnu frá því í vor, og síðan í hvítu bókina og fór að leita að köflunum um byggðamál. Og mikið rétt. Ég fann einar fimm línur í örkinni frá 30. apríl um byggðamál. Reyndar er þar fjallað á einu bretti um atvinnu- og samgöngumál og jöfnunaraðgerðir eins og lækkun húshitunarkostnaðar, en þar segir þó í 9. lið, með leyfi forseta: ,,Með aðgerðum í atvinnu- og samgöngumálum verði þjónustu- og vaxtarsvæði á landsbyggðinni styrkt.`` Síðan er það ekki skýrt nánar. Við höfum síðan verið að fá á því ákveðnar skýringar hvað í þessu felist, a.m.k. í huga hæstv. forsrh. Ég fór svo í hvítu bókina, þetta leyniplagg sem svo var lengi og sem nú er smátt og smátt að verða ljóst að er eingöngu á ábyrgð tíu ráðherra í hæstv. ríkisstjórn og hefur enga stöðu í stjórnarflokkunum. En hvað um það. Ég fór í efnisyfirlitið og ætlaði að leita að kaflanum um byggðamál. Þetta er nokkuð mikið plagg. Hér var þeim búinn að vinnast tími til þess þegar kominn var október að semja 45 blaðsíðna plagg. Og ég fór í efnisyfirlitið á fremstu síðu og leitaði að kaflanum um byggðamál en fann hann hvergi. Ég fór að blaða í gegnum plaggið, las allar undirfyrirsagnir undir kaflafyrirsögnunum og leitaði þar að kaflanum um byggðamál og fann hann hvergi. ( ÓÞÞ: Þetta er undir heilbrigðismál.) Nei, það er nú ekki alveg svo slæmt að þetta sé þar.
    Í textanum um sambúð lands og þjóðar fann ég svo loksins ákveðna umfjöllun um byggðamál líklega upp á einar fimmtán prentaðar línur. Þar kemur þessi klausa sem hv. 1. þm. Vestf. var m.a. í dag að lýsa sig ósammála fyrir utan það að hann lýsti plaggið sér óviðkomandi. Það helsta sem ríkisstjórnin hefur í hvítu bókinni sinni fram að færa --- handbók ráðherranna, sem við hljótum að fara að kalla svo úr þessu úr því að hún hefur aldrei verið samþykkt í stjórnarflokkunum --- er það að byggðastefnan hafi brugðist og það sem menn hafi verið að gera í þessum efnum hingað til hafi allt verið tóm vitleysa og íbúar heilla byggðarlaga hafi þurft að sætta sig við að afkoma þeirra og búsetuöryggi væri komið undir pólitískum duttlungum miðstjórnarvaldsins o.s.frv. Svo kemur þetta með eflingu vaxtarsvæðanna og svo er minnst á húshitunarkostnaðinn. Þetta er það sem hefur staðið upp úr í þessu viðamikla framlagi ríkisstjórnarinnar til byggðamála.
    Það bar allt að sama brunni líka, því miður verð ég að segja, í ræðu hæstv. forsrh. áðan. Eftir að hafa lesið að mestu leyti formálann að ársskýslu Byggðastofnunar --- ég gat ekki heyrt betur, hæstv. forsrh. leiðréttir mig ef það er rangt, en að stofni til væri fyrri hluti ræðu hans keimlíkur málflutningnum í ársskýrslu Byggðastofnunar, kom í síðari hlutanum, sem var, eins og einhver glöggur ræðumaður fyrr í dag benti á, saminn af allt öðrum manni, helsta framlag hans til umræðunnar var þetta venjulega um mistök fyrri ríkisstjórnar, um hina slæmu arfleifð síðustu ríkisstjórnar í atvinnumálum. Reyndar hefur hæstv. forsrh. tekið þeim framförum að hann talar alltaf um síðustu ríkisstjórn þar sem áður voru yfirleitt allar ríkisstjórnir lýðveldisins, nema kannski viðreisn stundum, settar í falleinkunnarhópinn. Og svo kom þetta með sjóðina sem við erum búnir að heyra hundrað sinnum í vor, sumar og haust og þar með var þetta eiginlega búið. Ég kalla það að þar með hafi ræðan verið búin.
    Þetta verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér finnst verða æ dapurlegra með hverjum deginum sem líður. Ég hefi talið að það hefði verið tækifæri til þess núna fyrir hæstv. forsrh., m.a. vegna þess að ýmis ummæli hans á undanförnum dögum og vikum um atvinnu- og byggðamál hafa fallið í misgóðan jarðveg, að reisa sig svolítið í málfutningi með myndarlegri ræðu um byggðamál. Með stefnumarkandi ræðu sem eftir hefði verið tekið þar sem eitthvert efnislegt framlag kæmi af hans hálfu, sem forsrh. í nýrri ríkisstjórn, í væntanlega hans fyrstu opinberu ræðu sem fjallar um byggðamálin sérstaklega. En ég lýsi eftir því. Hvar var það í þessari ræðu? Mér er spurn. Ég heyrði ekkert nema fyrri hlutann sem lesinn var meira og minna upp úr ársskýrslunni og seinni hlutann sem var um hina vondu arfleifð hinna vitlausu manna sem hafa verið að gera endalaus mistök og axarsköft á undanförnum árum og áratugum.
    Þessi málflutningur, hæstv. forsrh., er þegar orðinn þreyttur. Við þingmenn erum ýmsu vanir og gætum sjálfsagt hlustað á hann býsna lengi án þess að verða mjög flökurt af því að við fáum að heyra ýmislegt. En ég held að þjóðin sé að verða mjög leið á því að ekkert komi frá hæstv. ríkisstjórn annað en skammir um fyrri ríkisstjórn og ríkisstjórnir.
    Svo er náttúrlega spurningin um Alþfl. Hvernig hæstv. umhvrh. líði undir þessum endalausa rógi, skömmum og svívirðingum um fyrri ríkisstjórnir og sérstaklega þá síðustu sem Alþfl. sat í. Það fer að verða dálítið kyndugt. Nú er hæstv. félmrh. mættur, varaformaður Alþfl., og þá get ég snúið máli mínu til hæstv. félmrh., gegnum forsetann að sjálfsögðu eins og þingsköpin segja. Ég óska eftir því að við heyrum eitthvað frá Alþfl. um þennan málflutning hæstv. forsrh. Er þetta ekki farið að verða pínulítið þreytandi, hv. talsmenn Alþfl.? Að allt sem ríkisstjórnin hefur fram að færa í hverjum málaflokknum á fætur öðrum, í byggðamálunum eins og öðru, eru skammir um síðustu ríkisstjórn og arfleifð fyrri ríkisstjórna.
    Það verður auðvitað betra tóm til þess að ræða síðar og oftar aðgerðir til bjargar atvinnuvegunum á árinu 1988--1989, en eins og venjulega fór forsrh. yfir þau mál á sinn kostulega hátt, talaði um óráðssukkið og bruðlið og mistökin öll sem í þessu hefðu fólgist og klykkti svo út með því að segja að verst væri að vandamálin væru óleyst. Hæstv. forsrh. er ekki enn búinn að jafna sig á því að hann skuli koma að vandamálum þegar hann tekur við stjórn landsins. Það er greinilegt að hann hefur átt von á því að hann kæmi að algerlega sléttum sjó og ekki yrði við nein vandamál að glíma. Það er út af fyrir sig alveg rétt að öll vandamál leystust ekki með þeim aðgerðum sem þarna var gripið til, en hæstv. forsrh. væri hollt að hugleiða hvernig ástandið væri ef ekkert af þessu tagi hefði komið til sögunnar. Heldur hann að það væri hægara um vik að stjórna efnahags- og atvinnumálum á Íslandi í dag ef nánast allt atvinnulífið eins og það leggur sig hefði verið rústað niður á þessum tíma?
    Auðvitað er það líka svo að hæstv. sjútvrh. og fyrrv. hæstv. forsrh. hlýtur að vera dálítið ókyrr stundum undir ræðum hæstv. núv. forsrh., ég ímynda mér það a.m.k., og þeir sjálfstæðismenn margir sem sátu samfellt í ríkisstjórn frá 1983 til 28. sept. 1988 hljóta auðvitað að líta í eigin barm þegar núv. hæstv. forsrh. lætur gamminn geisa um mistökin, axarsköftin, óráðsíuna og vitleysuna sem viðgengist hafi við stjórn landsins á undanförnum árum.
    Hér var fiskeldi nefnt fyrr í dag. Skyldu ekki hv. þm. Sjálfstfl. sem enn eru á þingi og sátu á þingum kjörtímabilin 1983--1988 minnast þeirrar aðildar og þeirrar ábyrgðar sem Sjálfstfl. einmitt ber á þeirri fjárfestingu? Þá á ég ekki við ofurhugann, hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, heldur flokkinn almennt sem tók stærstu einstöku ákvarðanirnar og í raun og veru einu stóru opinberu ákvarðanirnar um að auka fjárfestingu og uppbyggingu í fiskeldi sem teknar hafa verið. Það var einmitt ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem um mitt ár 1988 tók langstærstu og eiginlega einu miklu ákvarðanirnar um að veita opinberan tilstyrk við fjárfestingu og uppbyggingu í fiskeldi. En samt halda þessar ræður svona áfram. Maður veltir því fyrir sér hvenær komi að því að t.d. hæstv. sjútvrh. eða einhverjir aðrir af talsmönnum Sjálfstfl. sem ábyrgð báru á stjórnmálum á þessum tíma fari að bera hönd fyrir höfuð sér.
    En af því að byggðamálin hljóta óhjákvæmilega að tengjast fyrst og fremst ástandi mála í atvinnulífi landsbyggðarinnar eins og það blasir við okkur um þessar stundir --- ég segi fyrst og fremst því að það hlýtur að koma í öðru eða þriðja sæti að ræða það t.d. hvort við eigum einhvern tíma síðar á kjörtímabilinu að flytja Byggðastofnun til Akureyrar --- þá ætla ég að leyfa mér að fara nokkrum orðum um þau.
    Hæstv. sjútvrh. hefur látið hafa það eftir sér í fjölmiðlum síðustu sólarhringa að það verði að grípa til þess sem hann kallaði neyðaraðgerðir til að bjarga málefnum sjávarútvegsins og rekstrinum þar frá þeirri yfirvofandi vá sem þar er fyrir dyrum. Það þarf ekki að rekja fyrir hv. þm. orðaskipti sjútvrh. og ónefnds bankastjóra Landsbankans sem er kunnugur úr þessum sölum af þessu tilefni. Leiðum það hjá okkur en horfum á efni málsins. Hvert er það? Staðan er sú að það er 7--8% tap í botnfiskvinnslunni eins og hún leggur sig í dag og útlitið fyrir næsta ár er upp á taprekstur um a.m.k. 10%. Var það ekki hv. 1. þm. Vestf. sem sagði við okkur í dag að ástæðan fyrir því hvernig komið var haustið 1988 hefði í raun og veru verið ósköp einföld. Á mannamáli sagt var það að atvinnulífið væri rekið með bullandi tapi og var komið í þrot á haustmánuðum 1988. Hv. 1. þm. Vestf. þurfti ekki flóknari röksemdafærslu en þetta til þess að útskýra hvað hefði gerst. Það

var ósköp einfaldlega þetta. Atvinnureksturinn gekk með bullandi tapi mánuð af mánuði og var kominn í strand haustið 1988.
    Ætli þetta sé þá ekki eitthvað svipað núna? Halda menn það ekki? Hvað halda menn að sjávarútvegurinn, skuldsettur eins og hann er, keyri lengi áfram á 10% tapi sem blasir við honum? Ég tala nú ekki um ef helsti viðskiptabanki sjávarútvegsins, sem er með um 70--80% af fyrirtækjum í sjávarútvegi í viðskiptum að veltu til, stöðvar alla fyrirgreiðslu til þeirra nema afurðalán. Það er alveg augljóst mál að þá sigla hlutirnir hér mun hraðar í strand en nokkurn gat órað fyrir og kynnu að vera hér ýmsir ekki fjarri sem gætu sagt okkur eitthvað af því hversu lengi fyrirtækin mörg hver, stór og smá, koma til með að endast við þessar aðstæður.
    Þá reynir á hvort hreystin verður jafnmikil og látið var í veðri vaka nú í vor og sumar að menn yrðu bara að bjarga sér og ríkisstjórnin færi ekki að grípa til neinna ráðstafana. Það væri liðin tíð, enda hefðu þær illa gefist, verið sukk og svínarí og gott ef ekki glæpastarfsemi á borð við það að stela kaffi, að vera að leyfa sér að grípa til ráðstafana til aðstoðar atvinnulífinu.
    Ég held að það sé óhjákvæmilegt, hæstv. forseti, að taka þetta saman þegar verið er að ræða um byggðamál úr því að tækifæri gefst til þess á annað borð og þá hljóti fyrstu hlutirnir að koma fyrst sem er auðvitað þetta: Kemur atvinnulíf landsbyggðarinnar og reyndar landsmanna allra til með að ganga, ekki bara til næstu ára litið heldur til næstu mánaða litið eins og horfurnar eru orðnar í dag?
    Ég tek auðvitað undir með hv. 1. þm. Vestf. að við aðstæður eins og þær sem núna eru uppi er það furðulegt að menn skuli vera að ræða um að draga úr stuðningi til byggðamála, að vera að bakka út úr hvers kyns stuðningi og fyrirgreiðslu við undirstöðuatvinnugreinar eins og sjávarútveg þegar hann þarf að mæta 20% aflasamdrætti og horfir fram á 10% taprekstur á næsta ári. Auðvitað ættu menn að vera að ræða hér tillögur sem væru þegar komnar fram frá hæstv. ríkisstjórn um ráðstafanir vegna þessa ástands og þessa útlits og hvernig ætti að beita auknum stuðningi og auknum ráðstöfunum í þessu skyni. Og menn ættu að vera að ræða hér hvernig rekstrarskilyrði atvinnugreinanna yrðu bætt þannig að þær gætu gengið og hvernig myndarlegar væri hægt að leggja til framfaramála til þess að mæta þeim samdrætti, þeirri veltuminnkun, sem augljóslega blasir við að óbreyttu, sérstaklega á landsbyggðinni.
    Af því að hv. 1. þm. Vestf. rifjaði dálítið upp söguna í sinni merku ræðu, vék að því m.a. hvers vegna mönnum tókst á síðari hluta áttunda áratugarins að snúa straumnum við og það kom fimm, sex, sjö ára tímabil þar sem búsetuþróunin var í góðu jafnvægi og fólksfjölgunin jafnvel ívið meiri úti á landi en í þéttbýlissvæðunum, þá ætla ég að leyfa mér að bæta aðeins við þá söguskýringu af því að mér fannst hv. 1. þm. Vestf. gera þau ein mistök að fara ekki alveg nógu langt aftur. Hann byrjaði 1974 en hefði átt að byrja 1971 því að auðvitað voru það stjórnarskiptin þá og gerbreytt viðhorf í málefnum landsbyggðarinnar með tilkomu vinstri stjórnarinnar 1971 --- eftir frosttímabil viðreisnarstjórnarinnar með landflótta og byggðaröskun, sem allir þekkja --- með útfærslu landhelginnar og uppbyggingu sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar, stórauknum framkvæmdum í samgöngumálum og fleiru sem þarna kom til sögunnar, að það tókst að snúa þessu við. Það er alveg rétt sem hv. 1. þm. Vestf. segir og það má sú ríkisstjórn eiga sem sat að völdum 1974--1978 að hún hvarf ekki frá þessari stefnu nema í mjög litlum mæli þá. Hún hélt t.d. áfram uppbyggingu Byggðastofnunar með myndarlegum fjárveitingum á árunum 1975--1978. Það er alveg rétt hjá hv. 1. þm. Vestf. sem sat í þeirri stjórn og það má hún vel eiga sem hún gerði skynsamlega. Það skynsamlegasta sem hún gerði var að halda áfram því uppbyggingarstarfi í byggðamálunum sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir á árunum

1971--1974.
    Það var afleiðing aðgerða þessara tveggja ríkisstjórna sem á síðari hluta þessa tímabils sneri þróuninni algerlega við þannig að við upplifðum hér langbesta jafnvægisástand í byggðarþróun fyrr og síðar um áratuga skeið. Þetta segir okkur auðvitað að það eru sleggjudómar að segja að byggðastefnan hafi brugðist, bara á einu bretti. Þetta er allt rugl og vitleysa, kák og della sem allir hafa gert á undan mér, svo að maður leyfi sér að taka frjálslega í munn og endursegja ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. Svona málfutningur gengur auðvitað ekki.
    Við skulum fara með gagnrýnum huga yfir það hvað hefur tekist og hvað ekki og það er engin deila um það að ýmislegt í áherslum manna og tilraunum á undanförnum árum hefur tekist misvel. Þannig er það auðvitað og þætti svo sem ekkert skrítið yfirleitt annars staðar en á Íslandi að t.d. eitthvað af áhættufjármagni sem lagt er í slík fyrirtæki tapist. Þess vegna heitir það nú einu sinni áhættufjármagn, ekki satt, hv. þm. Eyjólfur Konráð? ( EKJ: Jú, jú.) Já, rétt. Það stendur í bókunum. Það heitir auðvitað áhættufjármagn af því að menn vita að það getur tapast. Menn eru að leggja nokkurn veginn upp á von og óvon í tilraunastarfsemi í atvinnulífinu og eðli málsins samkvæmt gengur þar ekki allt saman upp. Menn geta haft þá skoðun að mönnum hafi jafnvel verið óvenjumislagðar hendur um ýmislegt í byggðamálum en það er fjarri lagi að standa að umræðum um þessi mál, og allra síst sæmandi forsrh. nokkurrar þjóðar, með þeim sleggjudómastíl sem hefur einkennt málflutning hæstv. forsrh.
    Reyndar var það eitt sem kom fram í ræðu hæstv. forsrh. og ég leyfi mér aðeins að staldra við og það var umfjöllun hans um það, eins og ég skildi það, að EES-samningurinn leysti í raun og veru þetta allt fyrir okkur þegar hann kæmi. Hann hlyti náttúrlega að meira og minna leyti að gerbreyta öllum byggðamálum til betri vegar. Ég segi nú bara, mikil er trú þín. Nú þegar ber á því að stéttirnar í landinu eru sumar hverjar komnar í hár saman út af því að þær eru að hlakka yfir því að nú verði þær hver annarri óháðar með viðskipti þegar þær komast í hið mikla frelsi EES-samningsins. Ég heyrði t.d. af skemmtilegri sennu sem fór fram úti í bæ fyrir einum 2-3 sólarhringum. Þar hittust tæknimenn og byggingariðnaðarmenn og arkitektar. Þeir fyrrnefndu hlökkuðu mjög yfir því að nú yrðu þeir leystir undan þeim ósköpum að þurfa að eiga viðskipti við íslenska arkitekta sem fengju ekki mikla vinnu í íslenska byggingariðnaðinum eftir að EES-samningurinn væri kominn því að þeir gætu nú látið teikna allt í Bretlandi eða Danmörku og þyrftu ekki á þessum mönnum að halda meir. Og öfugt. Það kom auðvitað í ljós að arkitektunum datt í hug að það yrði nú ekki mikið að gera með þennan óhagkvæma byggingariðnað á Íslandi. Þeir mundu teikna fyrir erlenda verktaka. Það væri nóg að gera en hinir yrðu óþarfir. Ég segi það bara á frumstigi umræðna um þennan EES-samning að ég held að það sé of snemmt, hæstv. forsrh., að slá því föstu að hann komi eins og hin líknandi hönd og leysi allar andstæður í byggðaþróun á Íslandi. Það er a.m.k. sýnd veiði en ekki gefin.
    Það er eiginlega óhjákvæmilegt að staldra aðeins við það sem komið hefur fram bæði í ræðum hæstv. forsrh., í báðum þessum bókum, handbók ráðherranna og örkinni frá 30. apríl, og auðvitað í frægum ummælum hæstv. forsrh. á flokksstjórnarfundi Sjálfstfl. um vaxtarsvæðin og þá byggðastefnu sem þar á bak við felst ef ég hef skilið hana rétt. Sem sagt þetta, að leggja beri alla áherslu á fáein, væntanlega valin, vaxtarsvæði á landsbyggðinni og jafnvel hjálpa síðan íbúum annarra byggðarlaga við að flytja þangað. Hvílíkt heimsmet í miðstýringu væri þetta og kemur það æ betur í ljós að Austur-Evrópuþjóðirnar eiga ekkert heimsmet þar eins og reyndar hv. 1. þm. Vestf. minnti á hér líka í dag í öðru samhengi. Þetta væri að mínu mati einhver sú ógæfulegasta stefnubreyting og kúvending í þeirri hugsun sem á bak við byggðaaðgerðir liggur, þróun í jafnvægi í byggð landsins sem

nokkur getur verið. Ég er alveg sannfærður um það að þyngra högg væri ekki hægt að greiða álitlegustu vaxtarsvæðum á landsbyggðinni heldur en að tæma byggðarlögin í kringum þau og gera þar með þessi vaxtarsvæði svokölluðu, sem yrði auðvitað öfugmæli innan skamms, að einhverjum eyjum í óbyggðinni, einhvers konar vinjum í eyðimörk. Í mínum huga á þetta að vera í rauninni þveröfugt. Það er áhrifaríkasta byggðastefnan að beita aðgerðunum fyrst og fremst og markvissast þar sem byggðin er veikust til þess að ekki rofni sú keðja sem byggðin í landinu er.
    Af því að hæstv. forsrh. var nú að guma af því hér þannig að hv. 1. þm. Vestf. sá ástæðu til þess að setja ofan í við hann að hann hefði farið mikið um landið og hlustað á fólk og hefði nú bara orðið þó nokkurn skilning á því hvernig fólkið í landinu hugsaði þessi mál held ég að hann ætti t.d. að fara til Húsavíkur, svo að ég taki nú stað í mínu kjördæmi, og spyrja þá að því þar, Húsvíkinga, hvers virði þeir telji byggðina fyrir austan sig vera sér á norðausturhorninu, á hinni löngu strandlengju frá Tjörnesi og til Vopnafjarðar. Þar búa að vísu ekki nema 2500 manns í nokkrum sjávarplássum og sveitum en þeir á Húsavík eru með það algerlega á hreinu hversu geysilega mikilvægt mál það er fyrir þá að missa ekki byggðina þannig að þeir verði ekki endastöð, ekki jaðarbyggð, ekki einhver eyja í óbyggðinni. Ég held að ef við getum fengið það aðeins betur fram og skýrar hvað hæstv. forsrh. á við og hvað felst í þessari umfjöllun hér í bókunum, handbók ráðherranna og örkinni, þá skil ég vel að hv. 1. þm. Vestf. segi sig frá þessari hugmyndafræði. Það skyldi nú ekki vera að það hafi ekki síst verið þetta sem hann var að tala um.
    Ég held að þetta sé mikil feigðarstefna og ég óska eftir því að hæstv. forsrh. tali ekkert rósamál þegar hann kemur hér upp í umræðunni næst, eða í lok hennar væntanlega til að svara fyrir, og skilgreini þetta svolítið fyrir okkur. Hvernig hugsar hæstv. ríkisstjórn sér þessi vaxtarsvæði? Hverjir eru staðirnir? Það þýðir ekkert að tala hér dulmál. ( PP: Egill er að bjóðast til að tala fyrir forsrh.) Já, ég fagna því ef hv. þm. Egill Jónsson ætlar að taka að sér að tala fyrir forsrh. í þessum byggðamálum, og skilgreina vaxtarsvæðin. Hv. þm. væri kannski svo vænn í leiðinni svona í framhjáhlaupi að lýsa afstöðu sinni til hvítu bókarinnar. Er hún honum óviðkomandi eins og hv. 1. þm. Vestf.? Ég vil t.d. fá að vita það hvað er í huga hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar varðandi Norðurland í þessum efnum og sérstaklega Norðurl. e. Þar er mér málið skylt. Ég vil ekkert vera að ræða um byggðamál við ríkisstjórn sem er með slík áform uppi án þess að vita hvað þar er á ferðinni og beinlínis hvað felst í því. Úr því að þetta er á bók gengið, þá eru væntanlega til skýringar á þessu. Ekki er verið að setja þetta á blað bara út í loftið eða hvað, hæstv. forsrh.? Varla er verið að varpa þessu fram á alvarlegum fundum, eins og við skulum ætla flokksráðsfundi Sjálfstfl. eru, bara svona út í loftið.
    Nei, ég segi það að sé einhver áherslubreyting vitlaus í byggðamálum á Íslandi þá er það sú borgríkis- og smáborgríkishugsun sem auðvitað felst í þessu. Það á að vera eitt, stóra borgríkið við Faxaflóa og nokkur smáborgríki úti á landi. Hvar eiga þau að vera? (Gripið fram í.) Ja, það er vonandi. En þá er líka best að stjórnarliðar tali skýrt og útskýri fyrir okkur hvað í þessu felst. Ég held nefnilega að einmitt áhrifaríkasta aðferðin til þess að efla landsbyggðina í heild og þá ekki síst þá staði hennar sem eru öflugastir fyrir, þ.e. að stöðva byggðaröskun og eyðingu þar sem hún finnst og hv. 3. þm. Austurl., sem ætlar að tala hér í umræðunni eins og fram hefur komið, þekkir þetta af því að menn hafa verið að glíma við gróðureyðinguna. Hvernig snúa menn sér í því máli? Menn fara ekki og bera á best grónu blettina eins og ríkisstjórnin ætlar sér með vaxtarsvæðahugmyndunum. Menn ráðast að gróðureyðingunni þar sem hún er og reyna að græða þar upp en tvöfalda ekki áburðinn á túnunum. Það þarf í raun og veru ekki flóknari umræður um þetta. Svo vitlaust er þetta. Þar að auki er allt vel þegið sem kemur til viðbótar til eflingar þeim

byggðakjörnum á landsbyggðinni sem veita þjónustu og eru miðstöðvar í héruðum eða landshlutum. Það er bara allt annar hlutur. Það sem við erum hér að tala um er viðhorfið til hinna smærri og dreifðari byggða, hvort á að láta þær eyðast eða ekki. Þá segi ég alveg eins og er, það mun verða þungt að láta vaxtarsvæðin vaxa ef þau eru orðin eins og eyjar í eyðimörkinni.
    Varðandi byggðamálin almennt, hæstv. forseti, held ég að hjá því verði varla komist að nefna fjárlagafrv. aðeins á nafn og almennt þau viðhorf hæstv. ríkisstjórnar til byggðamála sem hafa birst okkur hér og þar og annars staðar heldur en í handbók ráðherranna, örkinni og ræðu forsrh. Ég vil leyfa mér að nefna anda fjárlagafrv. almennt. Hvað er þar á ferðinni? Hvar er byggðastefnuna að finna í fjárlagafrv.? Er t.d. staðið þannig við loforðin um húshitunarkostnað og orkuverðsjöfnun að við getum klappað fyrir því og vel við unað? Hvernig lítur það mál út í fjárlagafrv., það sem er nefnt á nafn hér í báðum bókunum og á að vera ein af skrautfjöðrum ríkisstjórnarinnar að manni skilst í byggðamálum að gera eitthvað í sambandi við lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er mestur á landinu? Ef ég finn þetta, þá held ég að ég geti lesið það upp, með leyfi forseta. Í 9. lið í örkinni stendur: ,,Lífskjör verða jöfnuð, m.a. með lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er mestur.``
    Hvernig gengur með lækkun húshitunarkostnaðar þar sem hann er mestur? Jú, það skal að vísu tekið fram að það stendur til að verja 40 millj. kr. til viðbótar til niðurgreiðslu á raforkuverði. En hvernig er dæmið í hinn endann? Einar 33 af þessum millj. eru teknar til baka strax í sama frv. með því að framlögin til Rafmagnsveitna ríkisins eru lækkuð til styrkingar á dreifikerfum. Ef Rafmagnsveiturnar ætla að halda sambærilegum framkvæmdum á þessum svæðum verða þær að fjármagna þær með gjaldskrárhækkunum, ekki eiga þær það á bankabók, og þá eru 7 millj. eftir til að lækka raforkuverðið með þessum lið. Hvað hefur svo verið að gerast? Í þrígang hefur Landsvirkjun hækkað taxta sína þannig að það liggur þegar fyrir að raunhækkun á raforkutöxtunum í landinu er orðin umtalsverð umfram verðlag. Að vísu var Landsvirkjun barin niður með áform sín um 20% raunækkun til viðbótar, en eftir stendur að kyndingarkostnaðurinn mun hækka að raungildi á þeim svæðum þar sem hann hefur verið hæstur fyrir ef fjárlagafrv. gengur fram óbreytt í kjölfar þeirra gjaldskrárbreytinga sem orðið hafa hjá Landsvirkjun og síðan auðvitað veitunum í kjölfarið. Svona stendur það, hæstv. forsrh., þessi skrautfjöður, ein af örfáum, sem manni virtist við lestur þessarar bókar að ríkisstjórnin ætlaði að reyna að koma sér upp.
    Ég gæti farið gegnum fleiri slík dæmi, það verður væntanlega gert vandlegar þegar fjárlög verða hér til umræðu oftar í vetur. Mér væri hjarta nærri að nefna skólamálin og þá stöðu sem blasir þar við með upptöku skólagjalda og skertum framlögum til skólamála af ýmsu tagi. Með þeirri nýju stefnu sem upp virðist vera tekin, að loka bara fyrirvaralaust skólum á landsbyggðinni, með geðþóttaákvörðunum ráðherra, þó svo að Alþingi og fjárveitinganefnd hafi ákvarðað fjárveitingar til reksturs þeirra stofnana. Er þetta sérlega jákvætt? Vekur þetta bjartsýni á skilning og stuðning hæstv. ríkisstjórnar við byggðina þar sem hún er veik fyrir, eins og við Ísafjarðardjúp? Nei, því miður ekki. Og ætli það sé ekki svo að skólagjöldin og annar slíkur kostnaður sem nú á að leggja ofan á kostnað nemenda eða fjölskyldna, sem senda börn sín t.d. í framhaldsskólana, komi þyngst við þá sem þyngstar byrðarnar hafa fyrir --- og hverjir eru það? Hverjir bera langsamlega þyngstan baggann vegna skólagöngu barna sinna í dag? Það er fólk á landsbyggðinni í þeim byggðarlögum sem ekki hafa framhaldsskóla og það verður að senda börn sín um langan veg til dvalar í heimavistum eða annars staðar fyrir mörg hundruð þúsund krónur á hverjum vetri. Um hálfa millj. kr., að talið er, kostar nám með fullu gjaldi vegna dvalar í heimavist Menntaskólans á Akureyri að mér er tjáð. Og halda menn ekki að skólagjöldin komi þá þeim mun þyngra við þessar fjölskyldur sem þær bera meiri byrðar fyrir? Jú, líklega.
    Félagslega þjónustu á landsbyggðinni mætti nefna, húsnæðismálin o.fl. Það er einnig óhjákvæmilegt að nefna, eins og hér var reyndar komið inn á, aðstöðu sveitarfélaganna. Ef byggðamál eru nefnd á annað borð. Það er augljóst mál að eitt af því sem verður að taka á er mismunandi aðstaða og mismunandi tekjugrundvöllur sveitarfélaganna. Það er geysistórt byggðamál í sjálfu sér að jafna aðstöðu sveitarfélaganna í þessu tilliti og þar er það auðvitað höfuðborgin og höfuðborgarsvæðið með þeim geysilegu viðbótartekjum, sem samþjöppun þjónustu og eftir atvikum atvinnulífs hér færir borginni á silfurfati, sem verður að jafna. Nú er að vísu svo komið samkvæmt nýjustu fréttum að fjármálum Reykjavíkurborgar hafi verið svo illa stjórnað á undanförnum árum og eyðslan þar svo gífurleg að skuldastaða borgarinnar við Landsbankann sé orðin mikið alvörumál. Fittið, eða yfirdrátturinn á heftinu einu saman er einn og hálfur milljarður króna. Ég man nú ekki hvort fittið er kannski sektirnar, það man kannski einhver hér. En í öllu falli er það svo. Það er kannski þess vegna þyngra um vik en hitt liggur á borðinu að tekjur þessa sveitarfélags standa langt upp úr öllum öðrum í landinu án þess að þeirra sé aflað með útsvarstekjum. Þó að þær séu sambærilegar við mörg önnur sveitarfélög eru heildartekjur borgarinnar þessar. Maður spyr sig auðvitað að því hvernig staða Reykjavíkurborgar væri ef hún hefði sambærilegar tekjur á íbúa og önnur sveitarfélög í landinu úr því að hún er svona bág eftir óstjórnun undangenginna ára þrátt fyrir þetta mikla tekjumisvægi sveitarfélaganna. En það er auðvitað ekki hlutur sem hægt er að búa við að Reykjavíkurborg geti leyft sér hvað sem er í krafti þess forréttindakerfis í tekjuöflunarmálum sveitarfélaga sem hún býr við. Það verður að gera þá kröfu til stjórnenda borgarinnar að þeir spili úr og reki borgina sem sambærilegum tekjum og önnur sveitarfélög hafa. Þar þarf að færa til eða jafna með einhverjum aðgerðum tekjur upp á verulegar fjárhæðir, 1--2 milljarða kr. á ári hið minnsta.
    Þetta er réttlætismál og snertir auðvitað ekki síst þá staði landsbyggðarinnar sem ríkisstjórnin virðist nú bera nokkuð fyrir brjósti og eru miðstöðvar þjónustu og atvinnulífs í sínum héruðum og landshlutum og eru þeir staðir sem helst eru bornir saman við höfuðborgarsvæðið og gerðar kröfur til að standi því jafnfætis hvað þjónustu og lífskjör snertir. Það er sveitarfélögunum annars staðar í landinu mjög erfitt af þeirri einföldu ástæðu að forréttindakerfi höfuðborgarinnar og að nokkru leyti nágrannasveitarfélaganna er slíkt. Á þessum málum verður auðvitað að taka og hefði verið manndómsbragur að því ef hæstv. forsrh. hefði af sanngirni og réttsýni reifað þessi mál, þekkir það auðvitað manna best, hafandi verið borgarstjóri í Reykjavík, hvernig þessum málum er háttað. En það var fátt um þetta í framsöguræðu hæstv. forsrh., e.t.v. hefur hann hugsað sér að geyma þetta þangað til í seinni umferðinni.
    Hæstv. forseti. Ég held ég sjái ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Ég endurtek og ítreka þær spurningar sem ég hef hér borið fram. Í fyrsta lagi var það til talsmanna stjórnarflokkanna að það verði skýrt fyrir okkur hvaða stöðu handbók ráðherranna hefur í flokkunum. Er það sem sagt rétt skilið að hún hafi hvorki verið samþykkt af þingflokki Sjálfstfl. né hafi hún verið samþykkt í þeim stofnunum Alþfl. sem ber samkvæmt lögum flokksins að fjalla um slíka hluti þegar stjórnarsamstarf á í hlut? Ef svo er þá er málið upplýst og ef því mótmælir enginn skulum við taka það sem gefið og þá er þetta eins og ég segi ekki annað en handbók ráðherranna.
    Í öðru lagi lýsti ég eftir talsmönnum Alþfl. í þessari umræðu og auðvitað dettur okkur ekki í hug að enginn einasti alþýðuflokksmaður ætli að tala hér í kvöld, það kemur bara ekki til greina, þeir hljóta að hafa eitthvað að segja um byggðamál. ( Gripið fram í: Það er einn búinn að tala.) Já, nú bið ég forláts, ég gleymdi gagnmerkri stólræðu hér

í dag. Hér talaði hv. 5. þm. Austurl. af hálfu Alþfl. en ég vonast nú samt sem áður til þess að við fáum að heyra hér í einhverjum talsmönnum Alþfl., t.d. varaformanninum og hæstv. félmrh. og þá verði aðeins í leiðinni komið inn á þetta með þátttöku Alþfl. í síðustu, næst síðustu og þar síðustu ríkisstjórn, ef við teljum bæði ráðuneyti Steingríms Hermannssonar á síðasta kjörtímabili saman. Er það ekki að verða dálítið þreytandi fyrir talsmenn Alþfl. að hlusta á skammarræðu hæstv. forsrh. um fyrri ríkisstjórnir? Og hvernig líður hæstv. sjútvrh., ef ég má beina máli mínu til hans, og þeim sjálfstæðismönnum öðrum sem sátu meira og minna í ríkisstjórn eða báru ábyrgð á þeim á árunum 1983--1988? Er þess ekki að senn vænta að þeir fari að bera hönd fyrir höfuð sér ef enn heldur fram ræðum hæstv. forsrh. í sama stíl um mistök, sukk, óráðsíu og vitleysur allar sem allir á undan honum hafa gert?
    Ég óskaði eftir því í fjórða lagi að talsmenn hæstv. ríkisstjórnar útskýri fyrir okkur vaxtarsvæðakenninguna, í hverju hún felst og hvort sem hv. 3. þm. Austurl. gerir nú meiri eða minni tilraunir til þess hér fer ég fram á að það verði formlega gert af hæstv. forsrh. sem stendur fyrir umræðunni að hálfu hæstv. ríkisstjórnar.
    Við þessum fjórum spurningum og öðru því sem ég reifaði vænti ég að fá svör síðar í umræðunni, virðulegi forseti.