Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 22:22:00 (592)

     Jón Helgason :
     Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. hefur flutt skýrslu sína um Byggðastofnun og ég býst við að þeirrar skýrslu verði nokkuð minnst. Hún hefur þegar fengið dóm í fjölmiðlum með frásögn frá henni og orðin sem þar ómuðu í eyrum voru sukk og svínarí. Það er sú mynd sem þjóðin fær þegar hæstv. forsrh. ræðir um Byggðastofnun og byggðamál.
    Þessari stofnun stýrir sérstök stjórn, kjörin af Alþingi og flestir stjórnarmenn eru hv. alþm. Á máli hæstv. forsrh. eru þetta þá sukkarar og hv. 1. þm. Vestf. er þá yfirsukkari, svo að maður noti orðalag hæstv. forsrh. Þessi hv. þm., 1. þm. Vestf., reyndi að taka hæstv. forsrh. í kennslustund hér. Það hefur hv. 3. þm. Austurl. líka reynt að gera, og reyndar fleiri hv. þm., og veit ég ekki hvort það ber mikinn árangur þó að ég reyni að segja hér einhver orð. En engu að síður gefur ræða hæstv. forsrh. tilefni til þess og mér finnst ég ekki geta annað þar sem hann vék sérstaklega að stefnu núv. stjórnarandstöðu í byggðamálum, hver hún væri, spurði hann. Hann sagðist ekki vita það, en þó vissi hann nógu mikið til þess að fullyrða að hana þyrfti að endurmeta, komast upp úr því fari sem hún væri í. Eins og kom fram í ræðu hv. 1. þm. Vestf., þá fór það ekki á milli mála að hann taldi að hæstv. forsrh. vildi brjóta niður núverandi stefnu og breyta því að hv. 1. þm. Vestf. sagðist ekki vilja fara upp úr sínu gamla fari ef það yrði til þess að miða aftur á bak.
    En áfram hefur hæstv. forsrh. verið að klifa á sukki sjóðanna sem voru stofnaðir þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð í september 1988. Aðdragandinn að því var sá að flest fyrirtæki í útflutningsgreinunum voru þá að stöðvast. Við framsóknarmenn vorum aðilar að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sem þá hafði setið í 14 mánuði. En við höfðum þá allt frá áramótum 1987--1988 varað við stefnu þeirrar ríkisstjórnar, sérstaklega í vaxtamálum. Við gerðum það oft innan ríkisstjórnar, ég og aðrir sem í þeirri stjórn sátu. Svarið sem við fengum var þá gjarnan að það væri hagræðing í gjaldþrotum. Og fyrir þessar aðvaranir fengum við þungar ákúrur frá hendi Sjálfstfl. um að við værum að kljúfa ríkisstjórnina af því að við hvöttum til að hún tæki á þessum málum og breytti um stefnu, þá stefnu sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér í dag að hann hefði viljað að komið hefði verið í veg fyrir að leiddi til þess sem hún gerði, þ.e. hinnar erfiðu stöðu atvinnuveganna.
    En þá gerðist það í byrjun ágústmánaðar 1988 að þáv. hæstv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, skipaði forstjóranefndina svokölluðu sem gerði róttækar tillögur í efnahagsmálum. En þegar þær tillögur voru bornar undir þingflokk Sjálfstfl. var þeim hafnað og afleiðingin varð þá úrræðaleysi sjálfstæðismanna. Þó reyndu þeir að koma með nýjar tillögur og í drögum að hugmyndum sem þáv. hæstv. forsrh. Þorsteinn Pálsson lagði fyrir samstarfsflokkana segir m.a.:

    ,,Stofnaður verður sjóður sem hafi að markmiði að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Sjóðurinn skal vera sérstök deild í Byggðastofnun sem annast rekstur hans og hafa sérstaka stjórn.`` ( Gripið fram í: Kom þetta frá Sjálfstfl.?) Já.
    ,,Stofnfé sjóðsins verður 600 millj. kr. sem greiðist af lögbundnu framlagi ríkissjóðs til Atvinnutryggingarsjóðs á árunum 1989 og 1990. Enn fremur skal sjóðnum aflað lánsheimildar allt að 400 millj. kr. á næstu tveimur árum þannig að ráðstöfunarfé hans verði 1000 millj. kr.
    Sjóðurinn skal lána til aukningar eigin fjár í fyrirtækjum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu þeirra.``
    Þetta voru tillögurnar sem Þorsteinn Pálsson, þáv. forsrh. lagði fyrir samstarfsflokkana. Að vísu var þetta að mati okkar hinna allt of lítið, þörfin væri orðin svo brýn. En þarna eru tillögurnar sem sjálfstæðismenn nú að undanförnu hafa talað um sjóðasukk.
    Árangurinn af starfi Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs hefur verið ræddur hér ítarlega af öðrum og ég ætla ekki að fara langt út í það en að sjálfsögðu kom hann skýrast fram í reikningum fyrirtækjanna á sl. vori yfir reksturinn árið 1990 þegar rekstri fyrri ára var gjörbreytt og menn höfðu trú á að nú færi að hilla undir betri tíð. En þá gerðist það því miður að reiðarslagið kom strax eftir myndun þessarar ríkisstjórnar, vaxtahækkunin sem ég e.t.v. vík að betur síðar.
    En að sjálfsögðu vann fyrrv. ríkisstjórn að byggðamálum á mörgum öðrum sviðum en í sambandi við þessa sjóði og það kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar sem hæstv. forsrh. var að flytja og þar segir svo í lok inngangs hennar, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Byggðastofnun hefur um langt skeið bent á að þróun síðustu ára er óhagkvæm fyrir þjóðarbúið allt, bæði landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Þær lagabreytingar sem nú hafa verið ákveðnar auka möguleika á að hægt verði að snúa þessari þróun við og sú hugarfarsbreyting sem orðið hefur vekur ákveðnar vonir um að nú séu að verða þáttaskil í atvinnu- og byggðaþróun hér á landi. Byggðastofnun vill ekki láta sitt eftir liggja í þessum efnum.``
    Um aðdragandann að þessari laga- og hugarfarsbreytingu er nánar fjallað í skýrslu Byggðastofnunar á bls. 17, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Í ársbyrjun 1990 skipaði forsrh. nefnd um endurmat byggðastefnu, eftir tilnefningu allra stjórnmálaflokka á Alþingi. Stofnunin lagði nefndinni til ritara og að auki komu fleiri starfsmenn við sögu. Nefndin skilaði fyrstu tillögum um stefnumótun í atvinnumálum landsbyggðarinnar á miðju ári.
    Síðan var unnið að undirbúningi lagafrv. í samræmi við tillögurnar, þar sem leitast var við að tryggja að mótun og framkvæmd byggðastefnu í landinu yrði felld í ákveðinn farveg.
    Efnt var til viðræðna um horfur í byggðaþróun í landinu og hugmyndir nefndarinnar við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélög, atvinnuþróunarfélög, forstöðumenn rannsóknastofnana og fleiri aðila. Í framhaldi af því hélt nefndin fjölmenna ráðstefnu í Borgarnesi 8. okt. 1990 þar sem fulltrúar þessara aðila kynntu hugmyndir sínar.
    Þá aðstoðaði stofnunin einnig aðra nefnd sem í áttu sæti fulltrúar stjórnarflokkanna. Verkefni þeirrar nefndar var að gera tillögu um skipulag Byggðastofnunar og fyrstu aðgerðir í byggðamálum.`` Hefur verið fjallað um það fyrr í þessari umræðu að einhverju leyti.
    Þær lagabreytingar, sem nefndar eru í skýrslu Byggðastofnunar, komu fram í frv. sem lagt var fram á sl. vetri og afgreitt þá í þinglok. En vegna málflutnings hæstv. forsrh. tel ég nauðsynlegt að rifja upp nokkur atriði sem fram koma í greinargerð þessa frv., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Byggðanefnd var skipuð af forsrh. 4. jan. 1990. Nefndinni var falið að gera tillögur um nýjar áherslur og langtímastefnu í byggðamálum með það að markmiði að byggð dafni í öllum landshlutum. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka og samtaka á Alþingi.
    Formaður nefndarinnar er Jón Helgason alþm. Aðrir í nefndinni eru: Egill Jónsson alþm., Guðmundur Einarsson, fyrrv. alþm., Gunnar Hilmarsson, formaður Atvinnutryggingarsjóðs, Hreggviður Jónsson alþm., Lárus Jónsson, fyrrv. alþm., Skúli Alexandersson alþm., Skúli Björn Árnason fulltrúi og Snjólaug Guðmundsdóttir húsmóðir. Ritari nefndarinnar er Kristófer Oliversson frá Byggðastofnun.
    Áður en nefndin var skipuð hafði Byggðastofnun fjallað um þetta málefni og lagt fram hugmyndir um mótun nýrrar byggðastefnu og þar með átak til að rétta hlut landsbyggðarinnar til frambúðar. Haldnir voru fundir með fulltrúum allra stjórnmálaflokka þar sem starfsmenn stofnunarinnar lögðu fram gögn um þróun og horfur á landsbyggðinni. Megintilgangur þessara funda var að finna þau grundvallaratriði nýrrar byggðastefnu sem stjórnmálamenn úr öllum flokkum væru sáttir við og teldu framkvæmanleg. Niðurstöður viðræðna voru sendar forsrh. 16. apríl 1989. Í framhaldi af því skipaði hann nefnd eftir tilnefningu stjórnmálaflokkanna á Alþingi og hefur hún nú skilað fyrstu tillögum um stefnu í atvinnumálum landsbyggðarinnar.
    Þegar byggðanefnd forsrh. hóf starf sitt var byrjað á að fara yfir ábendingar Byggðastofnunar og ræða þær. Var það niðurstaða nefndarinnar að taka sérstaklega fyrir atvinnumálin og draga fram þau atriði sem nefndarmenn gátu orðið sammála um. Nefndin telur að efling atvinnulífs á landsbyggðinni og aukin fjölbreytni sé lykilatriði ef takast á að stöðva fólksflutninga til höfuðborgarsvæðisins og jafna byggðarþróun. Full samstaða var í nefndinni um aðgerðir til að auka atvinnuþróunarstarf, sbr. fskj. I.
    Fram til þessa hefur nefndin haldið 21 fund og rætt við fjölmarga aðila. Formaður og ritari héldu m.a. fundi og kynntu horfur í byggðarþróun í landinu og þær hugmyndir sem nefndin hefur til að sporna við fyrirsjáanlegri byggðarröskun. Fundir voru haldnir með eftirtöldum aðilum: Stjórn Byggðastofnunar, ASÍ, BSRB, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Stéttarsambandi bænda, Verkamannasambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Vinnumálasambandi samvinnufélaganna, Félagi ísl. iðnrekenda, LÍÚ, VSÍ, Kvenfélagasambandi Íslands, Búnaðarfélagi Íslands, Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Tækniskóla Íslands, upplýsingaþjónustu Háskólans, Rannsóknaráði ríkisins, Iðntæknistofnun, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Útflutningsráði Íslands, atvinnumálanefnd ríkisstjórnarinnar, Seðlabanka Íslands, Ferðamálaráði Íslands, Ferðaþjónustu bænda, Samtökum sveitarfélaga í Vesturlandskjördæmi, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Sambandi sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, byggðahreyfingunni Útverði, Sambandi ísl. sveitarfélaga og öllum iðnþróunarfélögunum á landsbyggðinni.
    Í framhaldi af þessum viðræðum hélt nefndin fjölmenna ráðstefnu í Borgarnesi 8. okt. 1990 þar sem fulltrúar ofangreindra aðila kynntu hugmyndir sínar. Þar var einkum óskað svara við þremur spurningum.
    Í fyrsta lagi hvort viðkomandi aðili sé ekki sammála því að aðgerða sé þörf til að koma í veg fyrir þá byggðarröskun sem tölur síðustu ára benda til. Í öðru lagi hvað viðkomandi aðili getur eða er reiðubúinn til að gera til þess að koma í veg fyrir að svo fari. Í þriðja lagi hverju æskilegt væri að breyta til þess að þeir næðu þar sem bestum árangri.

    Á ráðstefnunni komu fram margar gagnlegar ábendingar og tillögur sem nefndin hefur stuðst við í starfi sínu.``
    Í þessari möppu sem ég er með eru þær tillögur og hugmyndir sem fram komu á ráðstefnunni og eins og áður sagði studdist nefndin við þær í sínum lokatillögum.
    Tillögurnar leiddu til frv. sem fyrrv. ríkisstjórn lagði fram á Alþingi á sl. vetri og var samþykkt. Þau lög eru grundvöllur að því sem í skýrslu Byggðastofnunar segir að gefi vonir um þáttaskil í byggðamálum. En þetta skal endurmeta, breyta og brjóta niður eftir því sem hæstv. forsrh. segir nú. Frá allri þeirri samstöðu sem þarna tókst að ná fram með öllum flokkum skal hverfa.
    Á ráðstefnunni í Borgarnesi hvöttu fulltrúar stéttarfélaganna til samstarfs í byggðamálum og lýstu yfir vilja sínum til að vera þar þátttakendur og vöruðu við afleiðingum byggðarröskunar með svipuðum rökum og fram kom í greinargerð Byggðastofnunar sem lögð var fyrir stjórnmálaflokkana og send forsrh. 1989. Það er þessi skýrsla sem er mjög fróðleg um úttekt. Þar eru færð rök fyrir því hversu gífurlega dýrt það verður þjóðarbúinu í heild ef flutningur fólks á höfuðborgarsvæðið verður jafnör og hann hefur verið að undanförnu og til þess liggja margvíslegar ástæður.
    Frá háskólunum og Tækniskólanum kom fram að þar er fyrir hendi margvísleg þekking sem nýst getur atvinnulífinu í landinu betur en hún gerir í dag. En ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að þessi þekking yrði nýtt í þágu atvinnulífs á ýmsum stöðum um allt land. Þar getur verið um að ræða verkefni sem tengjast því að efla starfsemi sem fyrir er eða vinna að hugmyndum um nýja starfsemi og aðstoða við þróun þeirra.
    Fulltrúar Rannsóknastofnunar atvinnuveganna lýstu ánægju sinni yfir að fá nú tækifæri til að koma þekkingu sinni á framfæri og jafnframt vilja til aukins samstarfs. En í 4. gr. laganna um Byggðastofnun frá sl. vetri segir að Byggðastofnun skuli hafa samráð við tæknistofnanir atvinnuveganna, stofnlánasjóði, háskóla og fleiri aðila er vinna að hliðstæðum verkefnum. Í samræmi við það hefur Byggðastofnun nú boðað til fyrsta fundar þessara aðila og þeir sem þar mættu voru ánægðir með það upphaf og vonast til að það lofi góðu um framhaldið.
    Á fundinum í Borgarnesi lýstu fulltrúar frá Samtökum sveitarfélaga yfir stuðningi sínum við tillögu nefndarinnar. Að þeim snýr m.a. myndun atvinnuþróunarsvæða og stofnun atvinnuþróunarfélaga en um það atriði er fjallað í stefnumótun byggðanefnda sem send var forsrh. 11. júní 1990 og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nefndin er sammála um að veita eigi auknu fjármagni til atvinnuþróunar á landsbyggðinni og auka aðstoð stofnana ríkisvaldsins í því skyni með því skipulagi sem sýnt er á meðfylgjandi mynd. Mikilvægt er að taka tillit til þess við gerð fjárlaga. Það er ekki ætlun nefndarinnar að ríkisvaldið taki að sér aukna ábyrgð á atvinnuþróun í landinu, heldur er atvinnuþróunarfélögum ætlað að sinna undirbúningi og stofnun fyrirtækja sem verða síðan á ábyrgð þeirra sem reksturinn annast, þannig að ríkisvaldið styðji heimaaðila en stjórni þeim ekki og sveitarfélög eða samtök þeirra hafi í samráði við Byggðastofnun frumkvæði að því að stofnuð verði atvinnuþróunarfélög eða efld þau sem fyrir eru. Þessi félög verði fjármögnuð heima fyrir og með framlagi frá Byggðastofnun. Félögunum er ætlað að stuðla að nýsköpun og alhliða atvinnuþróun á starfssvæði sínu. Þau þurfa því eðli málsins samkvæmt að hafa rekstrarfé sem óvíst er hvort fáist endurgreitt. Þetta þarf að hafa í huga við skipulag og fjármögnun þeirra. Þarna hefur ríkisvaldið hlutverki að gegna. Meðal þeirra heimaaðila sem æskilegt er að taki þátt í atvinnuþróunarfélögum eru sveitarfélög, stéttarfélög, búnaðarfélög, peningastofnanir og stærri fyrirtæki. Auk ofangreindra aðila hafi Byggðastofnun beina aðild að þessum félögum.``
    Byggðanefndin varð sammála um að veita eigi auknu fjármagni til atvinnuþróunar

á landsbyggðinni og auka aðstoð stofnana ríkisvaldsins í því skyni. Það er ekki ætlun nefndarinnar að ríkisvaldið taki að sér þessa auknu ábyrgð, heldur styðji heimaaðila. En að sjálfsögðu hafði byggðanefnd í huga þá reynslu sem fengist hefur af árangursríku samstarfi sveitarfélaga á sviði atvinnumála. Þar var gjarnan vitnað til samstarfs hreppanna í ofanverðri Árnessýslu um stofnun og rekstur verksmiðju og hv. 4. þm. Norðurl. v. minntist á áðan. Þar lagði Byggðastofnun til hlutafé til þess að tryggja rekstur þessa ágæta fyrirtækis. Árangurinn af starfi verksmiðjunnar hefur orðið sá að í sveitarfélaginu þar sem hún var stofnuð hefur íbúum fjölgað frá því um a.m.k. 20%. Þetta kallar hæstv. forsrh. sukk og óráðsíu sem þurfi að stöðva. Byggðastofnun megi ekki lengur styðja heimaaðila til að stofna svona fyrirtæki. Það þurfi að hafa vit fyrir stjórn Byggðastofnunar með því að banna henni að gera svona vitleysu.
    Stærð atvinnuþróunarsvæða sem nefndin gerði tillögur um var hugsuð miðað við það að menn gætu gætu sótt atvinnu innan þess daglega. Það er vitanlega mjög háð því hvernig samgöngur eru. Samgöngur hafa farið ört batnandi síðustu árin og er verið að vinna að stórum verkefnum við að tengja nágrannabyggðarlög saman. Það getur sett stórt strik í reikninginn ef nú verður dregið úr framkvæmdum við það verkefni. Hv. 1. þm. Vestf. nefndi tölur áðan um það hve lagning bundins slitlags hefði dregist saman á þessu ári, miðað við það sem var fyrir þremur árum, eftir að ríkisstjórnin ákvað niðurskurð á sl. vori á framkvæmdafé Vegagerðarinnar.
    Sú umræða sem ég hef hér rakið að byggðanefnd forsrh. stóð fyrir hefur áreiðanlega haft töluverð áhrif. Þetta starf, eins og hér hefur komið fram, var unnið í nánu samstarfi við Byggðastofnun. Ætla ég ekkert að metast um það hver eigi þessar hugmyndir. Hv. 3. þm. Austurl. rakti sína skoðun. Aðalatriðið er að samstaða náðist um málið, að lögbinda það og hefjast handa. Það var fyrir atbeina fyrrv. ríkisstjórnar en allir stjórnmálaflokkar stóðu að því. Því er það næsta furðulegt þegar hæstv. forsrh. segir nú að þetta eigi allt að endurmeta og brjóta niður. Komast upp úr þessu fari, eins og hann orðar það, sem menn sitja í og eru búnir að marka sér með þessum gjörðum.
    Ég hygg að umræðan sem fram fór á síðasta ári hafi átt nokkurn þátt í því að auðvelda það verk, sem Byggðastofnun hefur verið að vinna að, að sameina og styrkja atvinnufyrirtæki og auka samvinnu milli sveitarfélaga og byggðarlaga. En ég vil undirstrika það að með þátttöku Byggðastofnunar í atvinnuþróunarfélögum og starfi hennar í byggðamálum er henni ekki ætlað að vera einhver yfirstjórnandi og koma á miðstýrðu kerfi frá höfuðstöðvum í Reykjavík, heldur, eins og tekið er fram í greinargerð nefndarinnar, er Byggðastofnun ætlað að vera bakhjarl og samræmingaraðili þessara aðila og veita fjárhagslegan stuðning. Það kom greinilega fram á fundinum í Borgarnesi að allir voru sammála þessari setningu sem stendur í stefnumótun byggðanefndar, með leyfi forseta:
    ,,Atvinnuþróun á hverjum stað hlýtur fyrst og fremst að byggjast á vilja, þekkingu, dugnaði og framtaki þeirra sem þar vilja hasla sér völl. Hins vegar þarf við stofnun atvinnurekstrar að tryggja í ríkum mæli þekkingu og fjármagn sem mörgum verður ofviða nema sköpuð séu hagstæði skilyrði til þess. Þess vegna er mikilvægt að mynda samtök til þess að geta veitt slíka aðstoð og hvatt til athafna.``
    En til þess að geta nýtt þessi skilyrði sem eru hvarvetna um land og sitt framtak þarf að hafa trú á framtíðina og bjartsýni ríkjandi. En frá því að núv. ríkisstjórn kom til valda hafa því miður dunið yfir frá henni orð og athafnir sem hafa lamað þetta framtak. Ríkisstjórnin sér lítið bjart fram undan. Eins og ég sagði áður þá var vaxtahækkunin fyrsta verk hennar. Það eru tvímælalaust einhverjar mestu álögur sem lagðar hafa verið á atvinnulíf og skulduga einstaklinga með einu pennastriki og þessir aðilar eru nú að kikna undan þeirri byrði. Það hafa áreiðanlega fleiri hv. alþm. en ég heyrt síðustu viku þegar við

vorum að ferðast um kjördæmi okkar. Skýrast kemur þetta kannski fram í orðum hæstv. sjútvrh. nú um helgina þegar hann segir að það verði að grípa til neyðarráðstafana til að koma vöxtunum niður. Við skiljum þetta vel eftir að hafa heyrt lýsingar þeirra atvinnurekenda m.a. sem studdu núv. stjórnarflokka í síðustu kosningum. Þeir segja að fjármagnskostnaður af rekstrarfé fyrirtækja nemi nú 25--45% og það muni allir skilja að undir slíkum klyfjum hlýtur reksturinn fljótt að kikna. Það undirstrikar auðvitað það sem flestir hafa sagt hér að auðvitað er það grundvöllur atvinnulífsins sem vegur þyngst um afkomu byggðarlaganna og að hún sé viðunandi og þess vegna eru aðgerðir eins og vaxtahækkunin náttúrlega rothögg þar á.
    En það hefur fleira gerst. Það hefur verið boðað að að leggja eigi niður Skipaútgerð ríkisins.
    Það hefur verið sagt að ríkisvaldið eigi ekki að hugsa um atvinnumál. Það var eitt af því sem hv. 1. þm. Vestf. hafnaði algjörlega í stefnu hæstv. ríkisstjórnar.
    Því hefur verið hótað að afnema verðjöfnun á olíu og bensíni.
    Og svo var það síðasta nú um helgina sem reyndar hefur verið minnst á áður. Það er tilkynning Landsbankans um stöðvun lánveitinga til útgerðarinnar umfram afurðalán. En það er nú erfitt að ímynda sér að Landsbankinn, stærsti viðskiptabanki þjóðarinnar, hafi tekið slíka ákvörðun án þess að hafa verið búinn að eiga áður viðræður við hæstv. viðskrh. og ríkisstjórn.
    Í fjárlagafrv. eru margir þættir sem snerta mjög fámenn byggðarlög og nú um helgina var vakin athygli mín á einu atriði úr heimabyggð minni. Það er fámennt sveitarfélag þar sem nærri 20% íbúanna eru á ellilífeyrisaldri. Í bréfi sem heilsugæslulæknirinn skrifaði þingmönnum segir m.a.:
    ,,Samkvæmt lauslegri áætlun munu heimsóknir til læknis árið 1990 (heilsuvernd, þ.e. ungbarnaeftirlit og mæðravernd er þar undanskilið) hafa verið 1700. Það þýðir að fyrir hverja heimsókn til stöðvarinnar eigi neytandinn að borga um það bil 1700 kr.``
    Eins og ég sagði þá eru nærri 20% íbúanna ellilífeyrisþegar og eðli málsins samkvæmt eru þeir langstærsti hluti þeirra sem sækja þurfa þessa þjónustu. Ef ekki á að leggja þessa byrði á þá verður hún að sjálfsögðu margföld á hina.
    Þetta er eitt dæmi af handahófi tekið úr fjárlagafrv. en við umræðu í allshn. kom fram ósk um að Byggðastofnun legði mat á áhrif fjárlagafrv. á byggðaþróun. Því miður treysti Byggðastofnun sér ekki til þess að gera það með stuttum fyrirvara. Þar var sérstaklega nefnt sem dæmi 340 millj. kr. niðurskurður á lögbundnu framlagi til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins, fjármagni sem er ætlað til uppbyggingar og hefur hliðstætt gildi og fjármagn það sem Byggðastofnun fær. Þessar tvær stofnanir hafa haft samvinnu sín á milli um aðstoð eða stuðning við sum verkefni þannig að verið er að ganga þvert gegn vilja hv. 1. þm. Vestf. sem sagði að hann væri algerlega andvígur að skerða fjármagn til byggðamála. En því var Byggðastofnun sent þetta verkefni að með lagabreytingu á sl. vetri var gert ráð fyrir því að Byggðastofnun gerði stefnumótandi byggðaáætlun til fjögurra ára í senn og forsrh. leggi tillögu fyrir Alþingi til afgreiðslu. Jafnframt er í þingsköpum kveðið á um að allshn. Alþingis skuli fjalla um byggðamál og þá um þessa áætlun og annað það sem byggðamál varðar. Sú lagabreyting er einmitt eitt af því sem Byggðastofnun telur að nú muni gera starfsemi byggðamála markvissari og telur að hafi vantað að um byggðamálin væri fjallað á Alþingi á þennan hátt. Þetta ætlar hæstv. forsrh. að endurmeta. En meðan lögum um Byggðastofnun hefur ekki verið breytt eða þessu ákvæði ber hæstv. forsrh. að leggja áætlunina fyrir þingið og ég vildi spyrja hann hvenær við megum vænta þess að fá hana.
    Það er að sjálfsögðu margt fleira sem minnst hefur verið á og vekur mann til umhugsunar um byggðamál, en ég vonast til þess að fram komi hjá hæstv. forsrh. síðar í umræðunni að hann hafi a.m.k. tekið mark á heilræðum hv. 1. þm. Vestf. og hv. 3. þm. Austurl. og hann fari að hugsa rólega um þessi mál eins og þar var orðað og taki slíkar ábendingar til greina. En það er áreiðanlega rétt sem hv. 3. þm. Austurl. sagði að mikill skaði er skeður með þessari neikvæðu umræðu. Þetta er kærkomið tækifæri fyrir þá sem telja eftir allar fjárveitingar til uppbyggingar atvinnulífs úti á landi sem við höfum of oft heyrt í fjölmiðlum. Þetta er vatn á myllu þeirra og eins og ég sagði áður lamar þetta þá sem eru fullir af hugmyndum og vilja til þess að byggja upp og bæta mannlífið úti um allt land. En vonandi verða þeir nógu margir sem feta í fótspor hv. 1. þm. Vestf. og 3. þm. Austurl. og knýja þarna á um stefnubreytingu tafarlaust hjá hæstv. ríkisstjórn.