Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 23:09:00 (594)

     Jón Helgason (andsvar) :
     Herra forseti. Það var athyglisvert sem hæstv. sjútvrh. staðhæfði hér oftar en einu sinni að Framsfl. hefði allt árið 1988 verið að knýja á um leiðréttingu gengis. Hv. 1. þm. Vestf. sagði að þessi fasta gengisskráning hefði verið orsökin fyrir því hversu illa var komið fyrir atvinnuvegunum þannig að þarna segir hæstv. sjútvrh. að vegna þess að ekki var farið að ráðum framsóknarmanna þá var komið svona illa. Við framsóknarmenn höfnuðum því að það yrði farið í einu í svo mikla gengisfellingu að af því hlytist óðaverðbólga. Það sem við lögðum höfuðáhersluna á var að þannig yrði að halda á málum að ekki færi allt úr böndunum í óðaverðbólgu. Þess vegna yrði að vinna sig út úr vandanum. Og það var það sem var gert, gengið var aðlagað á nokkrum tíma án þess að verðbólgan ryki upp.