Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Mánudaginn 04. nóvember 1991, kl. 23:11:00 (596)

     Einar K. Guðfinnsson :
     Virðulegi forseti. Það er sérstök ástæða til þess að taka undir þau orð hæstv. forsrh. að það þarf að fara fram bæði opinská og heiðarleg umræða þann mikilsverða málaflokk sem byggðamálin eru. Byggðamálin eru auðvitað ætíð eitt af stærstu viðfangsefnum okkar og eins og málum er núna komið á landsbyggðinni og hafa verið á landsbyggðinni undanfarin ár er sértakt tilefni til þess að fram fari afar opinská og heiðarleg umræða þar sem við reynum að sleppa venjulegu, pólitísku hnútukasti en freistum þess fremur að vinna sameiginlega lausn á máli sem sannarlega hefur vafist fyrir mönnum undafarin ár, enda er það ástand sem við blasir núna ekki annað en einn punktur á löngum ferli, löngum hörmungarferli vil ég segja, þar sem mjög hefur hallað á landsbyggðina á undanförnum árum. Þróunin gagnvart landsbyggðinni hefur sem sagt verið mjög alvarleg. Það er ekkert sem er sérstaklega að bresta á núna. Það ættu menn a.m.k. að vita sem hafa verið þingmenn landsbyggðarinnar undanfarin ár svo að ekki sé nú talað um hina sem nýrri eru og grænni í þeim efnum hér á hv. Alþingi.
    En hver er þessi alvarlega þróun sem ég læt mér svo tíðrætt um og menn hafa verið að nefna með einum og öðrum hætti í ræðum hér fyrr í kvöld og fyrr í dag? Ég nefni nokkur dæmi. Í fyrsta lagi blasir það við í almennum opinberum hagtölum að nettóbrottflutningur af landsbyggðinni hefur numið á undanförnum árum sem svarar til 1000--1600 manns árlega. Þetta þýðir það að dágott meðalstórt og býsna öflugt sjávarþorp víðs vegar af landsbyggðinni tæmist árlega. Ef við skoðum síðan fólksfjölgunina á höfuðborgarsvæðinu á síðustu fimm árum, ekkert sem er að gerast á síðustu mánuðum heldur á síðustu fimm árum, blasir það við að fólksfjölgunin hefur verið 14 þúsund á þeim tíma sem svarar til íbúafjölda Kópavogs, Hafnarfjarðar eða Akureyrar að ég hygg eða eitthvað af þeirri stærðargráðunni.
    Þetta segir okkur auðvitað það hversu stórkostlegir byggðaflutningar eru að eiga sér stað og sýnu verra er þetta auðvitað ef við förum að reyna að rýna fram í framtíðina með tilvísun til þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað á undanförnum missirum og árum. Þá kemur í ljós ef framreikningar Byggðastofnunar eru notaðir, framreikningar sem Byggðastofnun byggir á sínum bestu fáanlegu upplýsingum, að búast má við því að um 31 þúsund manna tilflutningur fólks frá landsbyggðinni eigi sér stað til höfuðborgarsvæðisins á næstu 20 árum. Fólksfjölgunin yrði alls um 53 þús. manns á höfuðborgarsvæðinu en bein fækkun á landsbyggðinni tæplega 11 þúsund manns. Þetta er sú framtíðarsýn sem blasir við okkur.
    En þá má kannski spyrja sem svo: Er þetta ekki bara allt í lagi? Er þetta ekki bara gangur lífsins? Er þetta ekki bara einhver hlutur, einhver náttúruleg, efnahagsleg, félagsleg og búsetuleg þróun sem ekkert er hægt að sporna við og engin ástæða er kannski til að sporna við? Birtist okkur ekki þarna búsetuósk landsbyggðarinnar, ósk fólksins um það hvar það vill búa?

    Nú vill svo til að fram fór fyrir örfáum árum ákaflega vönduð könnun á vegum þeirrar stofnunar sem mestrar virðingar nýtur á þessu sviði í landinu, Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, þar sem fólk var innt eftir því, bæði þeir sem búa á landsbyggðinni og hinir sem á höfuðborgarsvæðinu búa, hverjar væru helstu ástæður þess að þeir hefðu flust frá landsbyggðinni eða hygðust flytja frá landsbyggðinni. Og enn fremur hverjar væru almennt búsetuóskirnar. Það er afar fróðlegt í þessu sambandi að rifja upp þessar tölur vegna þess að þær segja okkur það sem segja þarf um búsetuóskir fólks ef það má einhverju ráða. Og hér er spurning frá Félagsvísindastofnun til íbúa landsbyggðarinnar: ,,Hvar vildirðu helst búa ef þú mættir nú ráða? Í sama landshluta og þú býrð nú, á höfuðborgarsvæðinu eða einhvers staðar annars staðar á landinu?`` Og niðurstaðan af þessu öllu saman er mjög ótvíræð. Fjórir af hverjum fimm af þeim sem spurðir eru svara afdráttarlaust: Við viljum búa í sama landshluta og nú. Einungis 12% kjósa að flytja til höfuðborgarsvæðisins og tæplega 9% nefna að þeir vilji gjarnan búa einhvers staðar annars staðar í landinu.
    En þá vaknar spurningin: Hver er þá ástæða þess að fólk hefur þrátt fyrir viljayfirlýsingu í þessa veru yfir höfuð flutt af landsbyggðinni?
    Niðurstöðuna getur líka að líta í fyrrnefndri könnun Félagsvísindastofnunar þar sem fyrrverandi landsbyggðarbúar, sem búa nú á höfuðborgarsvæðinu, eru spurðir hverjar séu ástæðurnar fyrir því að þeir fluttu af landsbyggðinni. Niðurstaðan er ósköp einföld: Í fyrsta lagi, atvinnumál og kjör. Í öðru lagi, skortur á félagslegri þjónustu sem gerð er krafa um í nútíma þjóðfélagi.
    Ég held að þarna séum við einmitt komin að lyklinum í svari okkar við spurningunni: Hver er ástæðan fyrir því að svona hefur hallað á landsbyggðina? Annars vegar að það er skortur á þeirri þjónustu sem fólk gerir kröfu um, og það er skortur á þeim nauðsynlega rekstrargrundvelli og þeirri nauðsynlegu fjölbreytni atvinnulífsins sem fólk þarf auðvitað að hafa tryggt í sínum heimahögum til þess að það vilji búa þar.
    Höfuðatvinnugrein landsbyggðarinnar er sjávarútvegur. Hann er upphaf og endir alls sem við höfum við sjávarsíðuna. Það gefur því auga leið að án öflugs sjávarútvegs er tómt mál að tala um byggðastefnu í landinu. Þess vegna felst skelfileg þversögn í því að á sama tíma og landsfeðurnir hafa verið með byggðastefnuna á vörunum hefur sjávarútvegurinn, eins og aðrar útflutnings- og samkeppnisgreinar, verið grátt leikinn. Verðmætin hafa verið soguð út úr greininni með rangt skráðu gengi og gegndarlausri erlendri skuldasöfnun. Einn af þeim tölvísu mönnum sem starfa á Þjóðhagsstofnun hefur komist að því í þessu sambandi að gengi íslensku krónunnar hefði á árunum 1977--1987 þurft að vera að meðaltali 12% lægra en það var til að viðskiptajöfnuður hefði náðst. Þessi hágengisskattlagning sem útflutnings- og samkeppnisgreinar hafa verið beittar hefur í raun og veru flutt milljarða króna frá landsbyggðinni til annarra geira þjóðfélagsins. Með þessu hefur fótunum verið kippt undan atvinnulífinu í sjávarplássunum í kringum landið. Þess vegna m.a. hefur fólk verið hrakið frá heimilum sínum. Það var ekki spurt álits á þessum gjörningi, það var ekki spurt álits á þessari efnahagsstefnu á undanförnum árum. Það var nefnilega ekkert verið að spyrja hvort því líkaði betur eða verr þessi efnahagsstefna sem rýrði lífskjör þess og möguleika til að búa á heimaslóðum. Þess vegna fór sem fór þrátt fyrir ótvíræðan vilja fólks til að búa í sínum heimahögum. Það voru hinar efnahagslegu aðstæður sem neyddu fólk til þess að hrekjast burtu frá heimaslóðum sínum.
    Ég hef heyrt þeirri skoðun fleygt að það sé út af fyrir sig ekkert slæmt þó að fólk flytjist burt frá landsbyggðinni. Í fyrsta lagi megni Reykjavíkurborg ákaflega vel að taka á móti þessu fólki, borgin hafi eiginlega gott af þessu, græði á því. Skattgreiðendum fjölgi og atvinnulífið eflist og allt sé þetta til góðs. Ég ætla í þessu sambandi að vitna í afar

merkilega skýrslu sem unnin hefur verið af Ársæli Guðmundssyni í Byggðastofnun þar sem allt hið gagnstæða er raunverulega dregið fram. Þar er niðurstaðan sú að þessir þjóðflutningar 20. aldarinnar muni koma okkur í koll með rýrnandi lífskjörum og versnandi efnahagsafkomu þegar fram í sækir. Vakin hefur verið athygli á því að um 7.000 manns fluttu af landsbyggðinni á árunum 1981--1987. Þetta svarar til allra íbúa Garðabæjar. Til marks um það kostnaðarlega óhagræði sem af þessu hlýst fyrir þjóðarbúið má hafa það að þessir nettófólksflutningar hafa valdið því að finna hefur þurft skólahúsnæði fyrir ríflega 1.000 nemendur af þessum sökum. Það var nauðsynlegt að byggja 2.855 íbúðir til þess að hýsa þetta fólk. Það þurfti að leggja götur á höfuðborgarsvæðinu til þess að taka á móti ríflega 3.000 bílum til viðbótar við þá sem fyrir voru. Á næstu 10 árum er sagt að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga um 28.000 ef fram heldur sem horfir og til að hýsa þessa íbúa þarf að byggja húsnæði sem svarar til heils nýs Breiðholtshverfis.
    Þessar staðreyndir blasa við og allir hljóta að sjá hvílíkt efnahagslegt óhagræði mun verða af þessari þróun. Hún mun valda því að nauðsynlegt verður að ráðast í margs konar fjárfestingar, íbúðarbyggingar, opinbera þjónustu, gatnagerð o.s.frv. Á landsbyggðinni verða slíkar fjárfestingar sem þegar eru fyrir hendi algjörlega vannýttar.
    Ég nefndi hér áðan gagnmerka skýrslu Ársæls Guðmundssonar um herkostnaðinn af slíkri þéttbýlismyndun hér á höfuðborgarsvæðinu. Og sá sem hér stendur átti þess kost sem fulltrúi í fjárln. að fara um höfuðborgarsvæðið fyrir nokkrum vikum og mánuðum síðan. Það var mjög eftirminnileg og eftirtektarverð ferð því hvarvetna blasti einmitt þessi mikli herkostnaður við. Hann blasti við í nýjum hverfum, hann blasti við þar sem sveitarfélögin voru að takast á við gríðarlega stór og mikil fjárfestingarverkefni í nýjum skólum, í nýjum dagheimilum, í nýjum heilsugæslustöðvum og sífellt var tónninn sá í þessum ágætu og metnaðarfullu sveitarstjórnarmönnum ,,við verðum að gera enn þá betur, við verðum að byggja enn þá hraðar upp því fólksflutningarnir eru svo stríðir að menn verða hreinlega að bregðast til varnar.``
    Bæjarstjórnarmennirnir í Garðabæ sögðu okkur t.d. frá því að þeir hefðu sett sér ákveðna áætlun. Áætlun um það að bregðast skjótt við og varna fólki þess að flytjast inn í sveitarfélagið því ella hlytist af slíkur ofurkostnaður að jafnvel þetta ríka sveitarfélag með þessar háu meðaltekjur, sem er laust við margs konar uppbyggingu sem sveitarfélög á landsbyggðinni þurfa að standa í eins og t.d. hafnarframkvæmdir, réði ekki við þessa öru fólksfjölgun sem væri að bresta á og hefði brostið á á undanförnum árum, þeir yrðu að snúa vörn í sókn --- þeir yrðu að snúa sókn í vörn, mætti kannski orða það frekar --- og verjast þessum ágangi fólksins sem er að flytja af landsbyggðinni og inn á þeirra svæði. Þetta allt undirstrikar og staðfestir þá niðurstöðu Ársæls Guðmundssonar sem ég vitnaði til og ég held að væri mjög þýðingarmikið að fólk hefði í huga þegar byggðamál eru rædd. Það er mjög athyglisvert í lokakafla skýrslunnar sem ég hef haft með mér hérna í ræðustólinn að taka eftir að nánast hvarvetna þar sem hann kemur að málinu er niðurstaðan sú að allt muni þetta horfa til aukins kostnaðar. Fyrir þjóðarbúið og fyrir viðkomandi sveitarfélög sem þó njóta fólksfjölgunarinnar. Rafmagnsveiturnar, hitaveitan, lóðamálin, sorpmálin, umferðarmálin, heilsugæslan, skólamálin, dagvistunin, húsnæðismálin, félagsmálin og þar fram eftir götunum. Allt muni þetta aukast að kostnaði fyrir þessi sveitarfélög nema menn reyni með skipulegum hætti að snúa þessari óheillaþróun við. Þess vegna er það til mikils unnið að reyna að sporna við íbúaþróuninni, einkum og sér í lagi vegna þess, eins og ég hef sýnt hér fram á, að hún er óeðlileg og ónáttúruleg og í andstöðu við vilja fólksins sjálfs í landinu.
    En hvað er þá hægt að gera? Ég er sammála því sem hæstv. forsrh. sagði og ég held raunar að það sé höfuðmálið að það er mjög hættulegt að ræða byggðamál án samhengis við annað í þjóðfélaginu. Án samhengis við efnahagsstefnuna, án samhengis við peningamálastefnuna, án samhengis við aðra hluti í þjóðfélaginu. Þó við séum að efna hér til sérstakrar umræðu um byggðamálin þá þýðir auðvitað ekki að tala um byggðamálin sem einhvers konar kassa, einhvern flöt sem ekki snertir aðra þætti eða lýtur ekki lögmálum annarra hluta í okkar þjóðfélagi. Við verðum auðvitað að líta á byggðamálin í samhengi við annað sem við erum að gera. Og hver er þá grundvöllurinn undir allt þetta? Grundvöllurinn er heilbrigt efnahagslíf, stöðugleiki og jafnvægi. Jafnvægi í viðskiptum við útlönd, jafnvægi almennt og stöðugleiki í efnahagslífinu. Það er sú meginkrafa sem landsbyggðin hlýtur að gera og það er sú meginkrafa sem undirstöðuatvinnugreinar landsbyggðarinnar hljóta einkum og sér í lagi að gera. Til þess hefur ríkisvaldið auðvitað margs konar tæki, svo sem fjárlögin, stefnumótun í opinberum lánsfjárveitingum og þar fram eftir götunum. Þess vegna verðum við auðvitað að líta á byggðamálin í þessu samhengi. Þegar ríkisstjórnin mótar sér þá meginstefnu í efnahagsmálum að reyna að tryggja hér efnahagslegt jafnvægi felur það auðvitað í sér mikilvægt skref í byggðamálum. Og þegar menn koma hér og reyna að tína til alls konar atriði úr fjárlögunum og segja, þetta er skorið niður, það er ekki nóg af þessu og okkur vantar meira af þessu, þá gleyma menn hinum hluta málsins sem er nefnilega það að núv. ríkisstjórn hefur sett sér það markmið, sem er aðalatriði málsins og getur skipt sköpum fyrir efnahagslífið í landinu og þar með byggðamálin í landinu, að ná utan um hina opinberu lánsfjárþörf. Hið opinbera hefur verið og er allt of fyrirferðarmikið á lánsfjármarkaðinum og veldur þeirri miklu vaxtahækkun sem mér heyrist flestir vera að andmæla hér úr ræðustóli, það veldur þessari miklu vaxtahækkun sem allt er að drepa, bæði úti á landi, ekki síst í atvinnulífinu þar, og eins og annars staðar í landinu.
    Við verðum þess vegna, virðulegi forseti, að vera trú þeim málflutningi sem við erum að flytja. Um leið og við segjum að við viljum hag landsbyggðarinnar sem bestan, við viljum lækka vextina, þá verða menn að segja það sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja, þá verður að segja að við erum þess vegna tilbúin að taka á í þeirri fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að skera niður útgjöld, draga úr hinni opinberu lánsfjárþörf til þess að skapa skilyrði fyrir atvinnulífið á landsbyggðinni ekki síst.
    Ein höfuðástæða þess hversu komið er úti um landið er einmitt hinn mikli vöxtur hjá hinu opinbera. Þessi vöxtur hefur sérstaklega átt sér stað hér á höfuðborgarsvæðinu eins og margfaldlega hefur komið fram.
    Í athyglisverðri samantekt, sem Bjarni Einarsson, aðstoðarforstjóri Byggðastofnunar, kynnti í fyrra á fjórðungsþingi Vestfirðinga, kemur þetta einmitt mjög glögglega fram. Þar er dregið fram í súluriti hver opinber þjónusta ríkis og sveitarfélaga er, mælt í vinnustundum á íbúa á árinu 1988. Þar kemur fram þegar höfuðborgarsvæðið er skoðað að þessar vinnustundir nema 226 á íbúa. Ef ég tek mitt kjördæmi sérstaklega er samsvarandi tala 127. Þetta segir okkur allt sem segja þarf vegna þess að í öðru orðinu hafa menn verið að reyna að beita sér fyrir þörfum sértækum framkvæmdum og aðgerðum fyrir byggðirnar en í hinu orðinu hefur verið aukið á útþenslu hins opinbera sem fyrst og fremst hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi herkostnaði fyrir landsbyggðina og landið í heild eins og ég var að reyna að rekja hér áðan.
    Núv. ríkisstjórn hefur sett sér það sem eitt meginmarkmið að treysta hin svokölluðu vaxtarsvæði í landinu. Ég varð var við það að nokkrir hv. stjórnarandstæðingar reyndu að gera sér mat úr þessu máli með dálítið sérkennilegum hætti og snúa út úr og láta eins og þeir vissu ekki hvað átt væri við með hugtakinu vaxtarsvæði. Nú vill þannig til að það er margfaldlega búið að útskýra þetta fyrir þeim og varla ástæða til þess í sjálfu sér að endurtaka það. Við sjálfstæðismenn höfum t.d. ályktað um þetta á ekki færri en tveimur

landsfundum eins og ég hef áður rakið hér á hinu háa Alþingi og við höfum sérstaklega skilgreint hugtakið vaxtarsvæði og það hefur hæstv. forsrh. gert og þess vegna er auðvitað alveg ástæðulaust að reyna að snúa út úr því máli. En til þess að taka nú af öll tvímæli er rétt að hafa yfir örstutta skilgreiningu á þessu grundvallarhugtaki. Ég vitna til landsfundarályktunar Sjálfstfl. um byggðamál frá árinu 1989, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Með hugtakinu vaxtarsvæði er átt við þéttbýlisstaði og sveitir sem tengjast með daglegum samgöngum og mynda þannig samstæð atvinnu- og þjónustuhéruð.``
    Hér fer auðvitað ekkert á milli mála. Þetta er það sem við er átt og þess vegna þarf ekki að undra að það sé áréttað sérstaklega í hvítu bókinni að ríkisstjórnin muni með almennum aðgerðum styðja viðleitni til að byggja upp iðnað og þjónustu á vaxtarsvæðum landsbyggðarinnar og greiða fyrir aðlögun á breyttum atvinnuháttum og markaðsskilyrðum. Og enn fremur að efling vaxtarsvæða með bættum samgöngum og aukinni samvinnu sveitarfélaga og fyrirtækja innan þeirra sé í senn hornsteinn hagkvæmrar byggðastefnu og almennrar efnahags- og atvinnustefnu á næstu árum. Þá blasir líka við að þrátt fyrir þrengingar ríkissjóðs og þrátt fyrir þá fyrirætlan hins opinbera að draga úr opinberum útgjöldum og opinberri lánsfjárþörf er það ljóst að heildarútgjöld til vegamála mæld á föstu verðlagi munu aukast á milli ára. Þannig er auðvitað verið að fylgja eftir þeim ásetningi ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í hinni hvítu bók sem mjög hefur verið til umfjöllunar af eðlilegum ástæðum hér í þessum umræðum.
    Úr því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er kominn hér inn, en hann gerði mjög að umtalsefni málefni og stöðu hinna veikustu byggða í landinu og ég veit að hann hefur örugglega mælt af góðum hug, þá vil ég vekja athygli á því að auðvitað er það líka atlaga að hinum veikustu byggðum þegar ákveðið er að draga mjög úr búfjárframleiðslunni og sauðfjárframleiðslunni í landinu eins og gert var með nýjum búvörusamningi. Uppkaup á frjálsum fullvirðisrétti og uppkaup á fullvirðisrétti, hvernig sem að því máli er staðið, veikir auðvitað hinar veikustu byggðir. (Gripið fram í.) Það er að vísu rétt, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ráð er fyrir því gert og þakka skyldi nú að ekki er greitt jafnþungt högg á þær byggðir sem nánast eingöngu búa að sauðfjárrækt í sínum landbúnaði. Ég verð að vísu að játa það að mér finnst þetta ekkert sérstaklega þakkarvert, þetta er náttúrlega sjálfsagður hlutur sem hver einasti maður getur tekið undir. En hinu verður auðvitað ekki neitað og ég á varla von á því að hv. þm. neiti því að sá búvörusamningur sem hann hafði forustu um og frumkvæði að, hann hlýtur auðvitað að veikja þær byggðir sérstaklega sem hann talaði svo fjálglega um hér áðan. Það er a.m.k. fróðlegt fyrir mig í mínu kjördæmi að sjá hvernig þessi uppkaup hafa skipst á einstök búmarkssvæði þar sem m.a. kemur í ljós að í veikum byggðum eins og Inndjúpinu hefur verið mikið um þau og raunar langt umfram þau markmið sem búvörusamningurinn setti sér. Það var meira um þessi frjálsu uppkaup heldur en búvörusamningurinn setti sér á fyrsta árinu. Auðvitað er þetta til að veikja byggðirnar. ( Gripið fram í: Þið getið nú breytt þessu.) Það er að vísu þannig að það er álit lögmanna og ríkislögmanns að þessi samningur sé bindandi fyrir ríkisvaldið og ég veit að hv. 5. þm. Vestf., sem hér er að grípa fram í, sór þennan samning af sér í kosningabaráttunni og vill auðvitað ekkert við hann kannast og það er rétt að flytja þau tíðindi hér inn í þingsali. Engu að síður var það svo að flokkur hans stóð að þessu og það fer ekkert á milli mála að það gengur ekki fyrir menn að reyna að sverja það af sér að auðvitað mun þessi búvörusamningur hafa áhrif á þessar veikustu byggðir og það þýðir ekkert að reyna að klóra sig út úr því.
    Það er ekki hægt að láta hjá líða í umræðu um byggðamálin að nefna líka húsnæðismálin sem ég hygg að þurfi að taka nokkuð öðrum tökum en gert hefur verið. Ég hef til að mynda verulegar efasemdir um þá uppbyggingu sem átt hefur sér stað í félagslega

íbúðakerfinu úti á landi. Ég held að þar hafi verið gengið fram með þeim hætti að það hafi orðið til þess að rýra hinn almenna íbúðamarkað og skapa óvissu hjá fólki sem þar býr og þar þurfi að snúa alveg við blaðinu. Enn fremur er ljóst að sú mikla þensla í útgáfu húsbréfa og sú mikla þensla sem orðið hefur í húsnæðismálunum almennt hefur fyrst og fremst átt sér stað hér á höfuðborgarsvæðinu og á augljóslega sinn þátt í því að halda uppi allt of háu vaxtastigi í landinu. Þegar við erum að tala um að við viljum skapa almenn rekstrarskilyrði fyrir grundvallaratvinnuvegina er það auðvitað deginum ljósara að ekki verður undan því vikist að taka á þessum þætti eins og öðrum. Það er rétt að vekja á því athygli að það er fyrirætlan ríkisstjórnarinnar að draga úr opinberri lánsfjárþörf hvað þetta snertir líka á næsta ári og það er auðvitað mikilsvert skref í rétta átt.
    Virðulegi forseti. Það steðjar mjög mikill vandi að íslensku atvinnulífi um þessar mundir, ekki síst íslenskum sjávarútvegi. Hér er auðvitað ekki um að ræða vanda sem hefur verið að skella yfir með mjög bráðum hætti. Mjög margir þóttust greina það löngu fyrr á þessu ári að ekki væri allt sem skyldi í íslenskum sjávarútvegi og margt miklu veikara þar en ráða mætti við fyrstu sýn af skoðun ársreikninga. Það hefur verið mjög vitnað til þess að árið 1990 hafi hreint ekki komið svo illa út fyrir íslenskan sjávarútveg og það er auðvitað þannig að hagnaðartölur þessa árs gefa til kynna við fyrstu sýn að e.t.v. hafi sjávarútvegurinn verið að rétta verulega úr kútnum. Ég skal ekki gera lítið úr því að afkoma þessa árs var mun betri en hún hefur oft verið en þó held ég að menn verði að gæta sín á því að láta ekki blekkjast af fyrstu skoðun á ársreikningum fyrirtækjanna.
    Ég vil vekja athygli á því að í grein sem Jón Atli Kristjánsson rekstrarhagfræðingur og starfandi rekstrarráðgjafi skrifaði í Morgunblaðið 24. júlí segir hann svo, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Fyrirtækin gengu mörg hver allvel á sl. ári þó hagnaðartölur séu blekkjandi vegna útreiknings verðbreytingafærslu. Eins er á það að líta að mótlæti undangenginna ára hefur gert menn lítilþæga. Sagan hefur hins vegar kennt okkur að mögru árin koma og hver var það sem fann upp regluna um eitt gott ár og síðan þrjú mögur?``
    Það blasir nefnilega við og má lesa út úr þessum orðum að þær hagnaðartölur sem menn sáu á sl. ári voru ekki allar sem sýndust og það var að ýmsu fleiru að hyggja. Ég held að þegar grannt er skoðað hafi síðasta ár líka undirstrikað það að staða sjávarútvegsins var hreint ekki jafnsterk og margir vildu vera láta og margir drógu ályktanir af með því að lesa með skjótum hætti almennar hagtölur úr þjóðhagsreikningum. Það þarf í raun og veru ekki að fara í neina pólitíska naflaskoðun í þessum málum eða skoða fortíðina mikið. Staðan er einfaldlega þessi: Sjávarútvegurinn stendur núna á mjög alvarlegum punkti og að honum steðja gífurlegir erfiðleikar. Og ef við erum að tala um trausta byggðastefnu verðum við um leið auðvitað að huga að því að treysta undirstöður sjávarútvegsins.
    Ég er sammála því sem menn hafa sagt í þeim efnum, bæði talsmenn atvinnulífsins og fjölmargir aðrir, að gamlar lausnir duga því miður ekki núna með sama hætti og áður. Við höfum einfaldlega ekki sama svigrúm og við höfðum áður. En við verðum engu að síður að ráðast gegn þessum vanda og það myndarlega og það strax. Aðalatriðið er eins og t.d. formaður Vinnuveitendasambandsins hefur sagt að við verðum að ná niður þessum drápsklyfjum fjármagnskostnaðarins, lækka vextina, kýla þá niður með því að draga úr opinberri lánsfjárþörf þannig að eftirspurn eftir lánsfé minnki og skilyrði til vaxtalækkunar skapist og það strax. ( Gripið fram í: Hvað segir fjmrh. við því?) Fjmrh. er sammála þessu eins og þingmaðurinn hlýtur að hafa hlýtt á í fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. Þar kom þetta afar glögglega fram.
    Í öðru lagi verður að skapa atvinnulífinu svigrúm til skamms tíma með almennum lánalengingum og í þriðja lagi, svo ég nefni nokkur atriði, að bregðast sérstaklega við aðsteðjandi vanda nú og auðvelda fyrirtækjunum skipulagsbreytingar. Ég held hins vegar að þegar við erum að tala um skipulagsbreytingar verðum við að hafa þrek til þess að ræða þær til hlítar. Skipulagsbreytingar af þessu taginu eru bæði margslungnar og erfiðar og þær kalla á það að hið opinbera komi til liðs með þeim hætti að greiða fyrir þessari aðlögun með ýmsu móti.
    Stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir núna er einfaldlega sú hvort sjávarútvegurinn nái að nýta sér þessa möguleika eða hvort hann sé dæmdur til þess að fara niður með þeirri hagsveiflu sem við erum núna stödd í. Ég held t.d. að það eigi að skoða fjölmargar leiðir í þessum efnum og það þurfi að skoða þessi mál mjög nákvæmlega og nota alla möguleika sem við höfum til aðgerða. Ég held að það mætti t.d. skoða hvernig hægt sé að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækjanna með beinum og óbeinum hætti, hvort ekki mætti reyna að koma á úreldingarsjóði fasteigna og véla í sjávarútvegi til þess að greiða fyrir þessari aðlögun og þannig mætti lengi telja. Við höfum núna úreldingarsjóð fiskiskipa og þarna er um að ræða hlut sem ég vildi a.m.k. leyfa mér að skoða í því skyni að greiða fyrir þessari aðlögun sem auðvitað verður að eiga sér stað, aðlögum að breyttum skilyrðum.
    Ég sagði áðan í ræðu minni að hér væri um að ræða ákaflega alvarlegt mál og við þyrftum að eiga um það opinskáa og heiðarlega umræðu. Ég hef freistað þess að fjalla um þetta mál frá mínum bæjardyrum með þetta að leiðarljósi.
    Hér hafa margir spurt sem svo: Hefur byggðastefnan brugðist? Og svarið hefur verið á ýmsa lund. Ég freistast til þess að spyrja á móti eins og ég reyndar gerði í blaðagrein fyrr í vor. Ef við spyrjum hvort byggðastefnan hafi brugðist, er ekki eins hægt að spyrja, hvort einhver hafi ekki brugðist byggðastefnunni. Í hvítu bókinni, sem mjög hefur verið rætt um, er þetta ekki orðað svo, eins og gefið hefur verið til kynna, að byggðastefnan hafi brugðist heldur að hún hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Ég hygg að flestir geti verið sammála um það að sú stefna, sem við höfum haft undanfarin ár, hvort sem við köllum hana byggðastefnu eða eitthvað annað, hafi ekki skilað tilætluðum árangri og þess vegna fer þessi mikla umræða hér fram í kvöld. Hún snýst um það að við erum sammála um að hún hafi ekki skilað tilætluðum árangri, en ágreiningurinn er væntanlega um með hvaða hætti við getum snúið vörn í sókn.