Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 00:01:00 (602)

     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Þrátt fyrir mikinn lestur af talnaflóði, þá kemst hæstv. félmrh. ekkert undan því að þessi mikla útgáfa á húsbréfum og þessi miklu framlög og þessi mikla fjárþörf húsnæðiskerfisins í heild hefur auðvitað haft áhrif á raunvaxtastigið í landinu. Það er engum blöðum um það að fletta. (Gripið fram í.) Ég nefndi það ekki einu orði í ræðu minni að ég væri í sjálfu sér neitt mótfallinn því kerfi húsnæðislána að byggja hér á húsbréfum, enda tel ég að það í sjálfu sér sé skynsamleg hugmynd. Það blasir hins vegar við og kemur fram í fylgiskjölum fjárlagafrv. í fyrsta lagi að hrein lánsfjárþörf húsnæðislánakerfisins á þessu ári verði 22,3 milljarðar kr. Hverjum dettur það í hug að þessi mikla útgáfa, sem vel að merkja mun auðvitað fyrst og fremst skila sér í uppbyggingu húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki nokkur áhrif á vaxtastigið í landinu? Ekki nokkrum heilvita manni.
    Það kemur líka fram í fjárlagafrv. að lánsfjárþörf hins opinbera hafi aukist verulega á undanförnum árum og ég ætla að fá að leyfa mér að vitna í það:
    ,,Árið 1986 nam hrein lánsfjárþörf um 4% af landsframleiðslu. 1988 var hlutfallið komið í tæplega 7%, 1990 í tæplega 8% og árið 1991 stefnir í 9,7%. Tvo þriðju hluta þessarar aukningar má rekja til húsnæðislánakerfisins en fjárþörf þess hefur farið úr tæplega 5 milljörðum kr. árið 1986 í rúmlega 22 milljarða kr. samkvæmt áætlun fyrir 1991, reiknað á föstu verðlagi. Aukningin til húsnæðislánakerfisins er veruleg, jafnvel þótt tekið sé tillit til þess að framlag úr ríkissjóði til byggingarsjóðanna hafi lækkað úr 3,6 milljörðum kr. 1986 í tæplega 1 milljarð kr. 1991 og minni lánveitingar banka og lífeyrissjóða.`` Hér kemur þetta auðvitað fram svart á hvítu sem ég lagði áherslu á í ræðu minni áðan.