Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 00:19:00 (613)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :

     Herra forseti. Ég vil þakka viturlega ákvörðun sem hæstv. forseti hefur tekið. Ef hún hefði ekki verið tekin, þá hefði heldur ekki orðið samkomulag um að halda kvöldfund annað kvöld, en eins og fram hefur komið, þá er það í ráði að ræða á morgun námslán og jafnframt að reyna að ljúka umræðu um EES sem ekki var lokið.
    Ég er hálfhissa á hv. þm. Geir H. Haarde ef hann hefur búist við að við færum að tala um veðrið eða hvað ætlaði hann eiginlega að láta okkur ræða um? Hvaða umræða bjóst hann við að færi fram að lokinni þessari umræðu ef henni hefði nú lokið fyrir miðnætti? Nei, auðvitað stóð aldrei til að taka annað mál til meðferðar á þessum fundi en umræðu um skýrslu Byggðastofnunar.
    Hæstv. forsrh. minnti á það að gríðarlegur tími þingsins hefði farið í ýmsar umræður. Ég vil vekja athygli á því að hv. stjórnarliðar hafa ekki látið sitt eftir liggja, hvorki í dag né í öðrum umræðum hér og hvað eftir annað hafa meira að segja ráðherrar gengið fram í því að vekja upp umræður sem hafa verið að klárast þannig að það er ekki ástæða til þess að kenna okkur stjórnarandstæðingum um það þó að mikill tími hafi farið í umræður í þinginu. Ég tel einboðið að halda áfram þessari umræðu um skýrslu um Byggðastofnun. Ég sé ástæðu til þess að óska hæstv. forsrh. góðrar ferðar í merkilegu ferðalagi sínu, árna honum allra heilla þar og þegar hann kemur til baka, þá getum við haldið þessari umræðu áfram. Það er ekkert nauðsynlegt að gera það á kvöldfundi. Það er allt eins hægt að gera það á venjulegum fundartíma.