Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun

18. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 00:21:00 (615)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
     Herra forseti. Ég tel að það sé allmikil nauðsyn að það verði skoðað betur en gert hefur verið hvernig menn standa að vinnubrögðum á þessum vinnustað. Hér erum við komnir með fleiri, fleiri mál í umræðu, klárum fátt, höfum ekkert kerfi á því hvenær við ætlum að vinna að löggjafarstörfum, hvenær við ætlum að vinna að því að ræða um skýrslur eða álitsgerðir. Og umræðan er mest farin að snúast eftir því hvenær hæstv. ráðherrar eru á landinu. Við lukum umræðu vegna þess að hæstv. menntmrh. var á förum. Nú frestum við umræðu og þá er okkur tilkynnt að hæstv. forsrh. sé á förum. Satt best að segja minnir þetta mest á þá góðu bók Jónsmessunæturmartröð á fjallinu helga þegar verkföllin skullu á.
    Ég verð að segja eins og er að sú umræða sem hér hefur farið fram endurspeglar það ástand sem er í þjóðfélaginu og þeirri umræðu er takmarkað hægt að fresta. Við siglum hér á 1. farrými með 20 milljarða viðskiptahalla inn í mesta atvinnuleysi sem þjóðin hefur upplifað í 20 ár. Ég hef haft af því fréttir að hattur hafi verið boðinn upp fyrir norðan og keyptur á þokkalegu verði. ( Forseti: Má ég minna hv. þm. á það að ræða þingsköp.) Og eins vil ég benda hæstv. forseta þingsins á það að ráðherrar þessa lands eru vissulega búnir að vera á ferli og tala við fólkið og hafa tekið upp á ýmsum nýjungum. En þeirra vinnustaður er hér, herra forseti. Og hvar er sá agi sem hinn almenni þingmaður krefst að forsetar hafi til að halda mönnum við þá vinnu sem þeim var ætlað að sinna?
    Sjútvrh. talaði um leikaraskap, pólitískan leikaraskap. Einu sinni var borið á þetta

þing að það væri að verða að leikhúsi. Spurningin er: Eru menn að breyta ríkisstjórninni í ferðaskrifstofu? Hvert stefnir? Þessi hringavitleysa gengur ekki með stjórn þingsins. Það sjá allir. Hér verður að koma einhverju verklagi á hlutina.