Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 13:31:00 (618)

     Guðrún Helgadóttir :
     Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir að fá að ræða utan dagskrár þá uggvænlegu þróun sem nú virðist stefna í varðandi málefni íslenskra námsmanna ef marka má þær hugmyndir sem uppi eru eftir að núv. hæstv. ríkisstjórn tók við völdum. Nokkur bið hefur orðið á umræðunni vegna fjarveru hæstv. menntmrh. en ég vænti þess að fram geti farið málefnalegar umræður um þetta mikilvæga mál.
    Lánasjóður ísl. námsmanna var stofnaður árið 1952. Með stofnun hans skyldi lagður grunnur að jafnrétti íslenskra ungmenna til náms og ég hika ekki við að halda því fram að stofnun sjóðsins sé mesta kjarabót sem íslenskar fjölskyldur hafa öðlast í sögu lýðveldisins. Því miður leið langur tími þar til samtök launamanna gerðu sér ljósa þýðingu þessara sjálfsögðu réttinda en nokkur merki eru nú um að sú tíð sé liðin. Þar til Lánasjóður

ísl. námsmanna var stofnaður var nám forréttindi hinna ríku og fjöldi ungmenna lét sig ekki dreyma um framhaldsnám og urðu ekki síst konur þar illa úti. Við gætum safnað saman umtalsverðum hópi kvenna sem fengu það hlutskipti á árunum fyrir stofnun sjóðsins að strita fyrir andans mönnum þjóðarinnar og afkomendum þeirra og var þá ekki spurt hvort hjóna væri betur fallið til námsins. Enn lengri tími leið þar til það fór að renna upp fyrir mönnum að námslán eru ekki fyrirgreiðsla til þeirra einstaklinga sem námið stunda heldur fjárfesting í þágu samfélagsins alls. E.t.v. skortir enn nokkuð á þann skilning og skal vikið að því síðar.
    Fram til ársins 1967 voru lán úr sjóðnum endurgreidd á 10--15 árum með 3,5% vöxtum. Á árunum 1967--1975 voru vextir 5% og því langt undir verðbólgu á þeim árum, auk þess sem endurgreiðslur hófust ekki fyrr en fimm árum eftir að námi lauk. Miklu minna eftirlit var á þessum árum með framvindu náms en nú er. Árið 1976 voru námslán verðtryggð, fyrst allra fjárskuldbindinga, en endurgreiðslutíminn var lengdur í 20 ár. Árið 1982 samþykkti hið háa Alþingi núgildandi lög um Lánasjóð ísl. námsmanna en frv. til þeirra laga var afrakstur vinnu milliþinganefndar sem skipuð hafði verið til þessa verks. Ég átti sæti í þeirri nefnd og þar sat m.a. núv. hæstv. fjmrh. Ég hygg að við getum verið sammála um að mikil vinna var lögð í það verk og vel til þess vandað með ágætri aðstoð sérfróðra manna og bar þar hæst að öðrum ólöstuðum Þorstein Vilhjálmsson prófessor. Lánin voru áfram verðtryggð og skulu endurgreiðast á 40 árum. Endurgreiðslur hefjast þremur árum eftir námslok. Eftirlit með framvindu náms var mjög hert og eru lán því aðeins veitt að námsmaður skili tilskildum prófum. Tvær afborganir eru greiddar á ári, sú fyrri er föst upphæð, hin síðari háð tekjum. Almennt er greiðsla um 3,75% af tekjum fyrir skatta. Útreikningar sýna að langflestir námsmenn greiða lánin að fullu á 20 árum og samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í apríl 1991 skila tæplega 90% af útlánum sér aftur að fullu verðtryggð.
    Um þessi lög frá 1982 hefur ríkt friður og námsmenn virðast hafa unað þeim sæmilega. Dæmi um það eru góð skil á endurgreiðslum og var hlutfall vanskila við sjóðinn í árslok 1990 einungis 0,94% af S-lánum, en það eru lán sem voru veitt eftir 1982, eftir námslok þegar endurgreiðslur eru hafnar, en 1,26% af V-lánum, en það eru lán sem voru veitt á árunum 1976--1982. Hygg ég að óvíða sé betri skil að finna á fjárskuldbindingum hérlendis.
    Þá er rétt að taka það fram að námsmenn taka því aðeins námslán úr sjóðnum að þeir þurfi á þeim að halda. Allar sögusagnir um annað eru fullyrðingar sem þeir tala mest um sem minnst þekkja til. T.d. ef hv. alþm. skyldu ekki vita það taka nú aðeins 60% stúdenta við Háskóla Íslands námslán, en af sjálfu leiðir að þeir sem stunda nám erlendis eru háðari sjóðnum. Nú dreifast útlán sjóðsins þannig að um 60% lántakenda skulda innan við 1 millj. kr. og aðeins 1% skuldar 5 millj. eða meira. Það er því ekki margt sem bendir til að námsmenn sækist eftir námslánum nema um raunverulega þörf sé að ræða.
    Í umræðum um lánasjóðinn heyrast oft þær raddir sem býsnast yfir því að námsmenn eigi bifreiðir, búi ekki verr en aðrir og það er eflaust rétt, enda væri annað óeðlilegt. Það vill nefnilega svo til að fjöldi námsmanna er fjölskyldufólk sem hefur allar sömu frumþarfir og aðrir og börnin þeirra þarfnast alls hins sama og önnur börn. Lífsbarátta námsmanna er í engu frábrugðin lífsbaráttu annarra vinnandi manna í þessu landi, eini munurinn er að þeir fá ekki laun fyrir vinnu sína heldur fjármagna framfærslu sína með námslánum sem þeir verða síðan að endurgreiða. Kjör þeirra eru því í flestu svipuð kjörum hinna lægst launuðu í landinu að þessu undanteknu og í sumum tilvikum e.t.v. lakari. En eftir stendur að í fjölmörgum tilvikum er lánasjóðurinn undirstaða þess að þeir geti stundað nám sitt.

    En hver er þá staða sjóðsins sjálfs? Er hann enn eitt gjaldþrotafyrirtæki þjóðarinnar? Erum við að afskrifa skuldir hans og greiða þær úr eigin vasa, eins og til fiskeldisfyrirtækja, eins og til útgerðarfyrirtækja, eins og til allra þeirra fyrirtækja sem við erum alltaf að borga peninga fyrir? Nei, aldeilis ekki. Fá fyrirtæki í þessu landi eru betur stæð. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, en það er skýrsla frá því í apríl í vor:
    ,,Lánasjóðurinn getur staðið undir öllum núverandi skuldbindingum með eigin fé sínu. Ef sjóðnum hefði verið lokað í árslok 1990 gæti hann staðið við allar sínar skuldbindingar án þess að þurfa á frekari ríkisframlögum að halda. Þar að auki gæti sjóðurinn endurgreitt ríkissjóði á nafnvirði rúma 9 milljarða af eigin fé sínu sem var rúmlega 13 milljarðar króna um síðustu áramót.``
    Hér er því enginn banki eða Byggðasjóður í hættu. Lánasjóður ísl. námsmanna er stöndugt fyrirtæki. En hver er þá vandinn? Hann er augljós. Þegar lögin voru samin var okkur öllum ljóst að umtalsverð ríkisframlög þyrfti að leggja sjóðnum í rúman áratug eða þar til endurgreiðslur færu að skila sér að einhverju marki. En síðan hlytu þau að fara lækkandi þar til sjóðurinn gæti staðið á eigin fótum. Enda hefur þetta gengið eftir. Hitt var ekki ljóst að æ fleiri námsmannahópar gerðu kröfur til sjóðsins án þess að við því yrði brugðist með auknum framlögum. Þess í stað var gripið til lántöku sem greiða þarf vexti af, en námslán eru einungis verðtryggð. Hér hefur því skapast vaxtamunur sem í dag er um 6% og segir sig sjálft að það kemur illa niður á sjóðnum. Slík lántaka getur ekki haldið áfram. Hún er vítahringur sem verður að rjúfa. Lántökur verður að stöðva vegna kostnaðar sem að lokum verður sjóðnum ofviða. Sjóðinn verður að fjármagna með ríkisframlögum sem fara síðan lækkandi í stað þess að auka í sífellu vaxtakostnað, sem áður en varir leiðir sjóðinn í gjaldþrot. Vandi sjóðsins er því miður fortíðarvandi ríkisstjórna sem alla tíð hafa verið honum andsnúnar. Miklar sveiflur í ríkisframlögum hafa reynst honum hættulegar og á sl. áratug hefur hlutfall þeirra í fjármögnun sjóðsins verið frá 50%--90%. Þessar sveiflur hafa bitnað illilega á námsmönnum sjálfum sem jafnan eiga það undir ríksstjórn hverju sinni hver kjör þeir búa við á hverjum tíma, auk þess sem skert framlög til sjóðsins hafa stefnt stöðu hans í það óefni sem nú blasir við.
    Núv. hæstv. ríkisstjórn klifar gjarnan á því að fjárhagsvanda þjóðarinnar beri ekki að skilja óbornum kynslóðum eftir, en með því að efna til lántöku í stað þess að fjármagna sjóðinn með ríkisframlögum meðan hann þarf þess með, er hún einmitt að ýta vandanum til þeirra sem á eftir okkur koma. Svo einfalt er það. Það hefur jafnan verið hlutverk alþýðubandalagsmanna að verja þennan sjóð. Það skal þó ekki vera meginefni máls míns því að ég hygg að flestir námsmenn viti það. Ekki er langt síðan tveir hæstv. fyrrv. menntamálaráðherrar Sjálfstfl. skertu námslán um u.þ.b. 20% og breyttu tekjuviðmiðun í þá veru að hún kom hinum tekjuhæstu að mestu gagni. Næsti hæstv. menntmrh., Svavar Gestsson, skilaði þessum 20% aftur til námsmanna og færði tekjuviðmiðun til réttlátari vegar. En núv. hæstv. menntmrh. var ekki lengi að taka 17% til baka. Því til viðbótar skipaði hann nefnd til að endurskoða gildandi námslánakerfi og vekur það athygli að enginn fulltrúi námsmanna átti þar sæti, heldur var hún skipuð fimm miðaldra karlmönnum í góðum embættum, sem tæplega skulda lánasjóðnum umtalsverðar upphæðir. Konur áttu þangað að sjálfsögðu ekkert erindi. Kannski heldur hæstv. menntmrh. að stelpurnar séu enn í bomsum og peysusettum að vinna fyrir strákunum í skrifstofum landsins, en svo er nú ekki, þökk sé Lánasjóði ísl. námsmanna. Hugmyndir þessarar þreytulegu nefndar liggja nú fyrir og það er ekki að ófyrirsynju að ugg setji að námsmönnum sem að sjálfsögðu hafa mótmælt þeim svo til öllum. Það sem fyrst verður fyrir hverjum hugsandi manni sem les þann samsetning er þetta og það er meginefni málsins. Nefndarmenn virðast leggja að jöfnu

almenn fjárfestingarlán einstaklinga t.d. til kaupa á íbúð eða heimilistækjum og framfærslulán námsmanna, þ.e. lán þeim til viðurværis meðan þeir eru að mennta sig í þágu samfélagsins. Því er fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra: Er það einnig skoðun hans að þekkingarleit og menntun sé einkamál einstaklinga sem sé samfélaginu í heild óviðkomandi en einungis fjárfesting hans sjálfs? Við þessu verðum við að fá svar. Þetta er slík grundvallarspurning að án svars við henni er ekki hægt að ræða málefni lánasjóðsins af neinu viti. Í áliti nefndarinnar segir, með leyfi hæstv. forseta: ,,Nefndin leggur áherslu á að raska sem minnst reglum um útlán sjóðsins en leggur til veigamiklar breytingar á endurgreiðslureglum til þess að tryggja fjármögnun hans þótt áfram sé gert ráð fyrir`` --- og ég bið hv. alþm. að hlusta --- ,,að námslán séu meðal hagstæðustu lána sem í boði eru í þjóðfélaginu.`` Hér leynir sér ekki að nefndin lítur á námslán sem hver önnur fjárfestingarlán til einstaklinga rétt eins og menn fá hagstæð lán til húsnæðiskaupa. Síðan ljúki menn námi og fari að skófla inn peningum og geti þannig endurgreitt þessi hagstæðu lán á skömmum tíma.
    Ég hlýt að spyrja hæstv. menntmrh.: Telur hann að þetta sé svona í raun? Skilar menntun námsmanni sjálfkrafa háum launum þegar til starfa er komið? Er bein fylgni milli menntunar manna og launa? Nei, því fer fjarri. Í fyrsta lagi lýkur þekkingarleit aldrei og fjölmargir vísindamenn þjóðarinnar vinna störf sín á lágum launum einfaldlega af því að þeir meta þekkingu sína og þekkingarleit meira en ýmis þau lífsgæði sem aðrir setja öllu ofar. Og á meðan á námi stendur eru námslán ekki til annars en að framfleyta námsmönnum og fjölskyldum þeirra, börnin þeirra þarfnast heimilis og matar og gæslu, rétt eins og önnur börn. Og raunar mættu yfirvöld ýmislegt læra af framlagi námsmanna við Háskóla Íslands varðandi íbúðir handa ungu fólki, þar sem eru íbúðarbyggingar Garðanna sem námsmenn hafa sjálfir komið upp af miklum myndarskap og fyrirhyggju. Og ofbjóði mönnum að námsmenn eigi bifreiðir sem engir aðrir eru taldir geta verið án er skýringin eflaust sú að krökkunum þeirra er nákvæmlega jafnkalt á morgnana þegar þeir eru fluttir til dagheimila og dagmæðra út um allan bæ og krökkunum okkar hinna og daglegt líf jafnsnúið. Það er því óþolandi í allri umræðu um sjóðinn að enn þá skuli skjóta upp ímyndinni um efnilega námsmenn sem fóru með kæfubelg til Kaupmannahafnar og dóu þar úr berklum eða óreglu í köldum herbergiskytrum. Menntun þeirra er enn í vanskilum. Það eru lánin í Lánasjóði ísl. námsmanna ekki og heldur ekki sú þekking sem lánin gerðu þeim kleift að afla sér.
    Hæstv. forseti. Mér er ljóst að ég þarf að stytta mál mitt. En ég vil leyfa mér að renna að lokum lauslega yfir tillögur nefndarinnar sem helst stinga í augum og allar mótast af því viðhorfi sem ég hef hér lýst, sem sagt að námslán séu eins og hver önnur lán, en þau eru það ekki. Það er lagt til að stytta endurgreiðslutímann þannig að hann verði þrefaldur námstími. Hvað þýðir þetta? Háskólakennari sem eftir fimm ára nám, og það er líklega lágmark, og hefur búið í leiguhúsnæði á námstímanum skuldar 2 millj. 160 þús. kr. Hann hefur e.t.v. 100 þús. kr. í mánaðarlaun eða 1200 þús. kr. á ári og er nú 15 ár að greiða lán sitt. Greiðslubyrði hans yrði um 17% af tekjum í stað 3,75% eins og nú er. Og það er raunar harla langt frá því markmiði nefndarinnar að menn greiði aldrei meira en 10% af tekjum sínum til sjóðsins eins og stendur annars staðar þannig að eitthvað hlýtur að stangast þarna á.
    Hafi þessi maður hins vegar 2 1 / 2 millj. í árstekjur lækkar greiðslubyrðin niður í 8,8% og niður í 6,73% ef hann hefur 3 millj. sem er nú harla ólíklegt um menn af þessu tagi, þar sem ekki gert ráð fyrir neinni tekjutengingu við þessar greiðslur. Hér er enn verið að hygla þeim sem best kunna að verða settir.
    Nú liggur það fyrir námsmönnum eins og öðrum að reyna að koma yfir sig húsnæði að námi loknu. Hefur nefndin, hæstv. forseti, gert sér grein fyrir að svo há greiðslubyrði sem lögð er til mundi til að mynda útiloka þá lægstlaunuðu frá húsbréfakerfinu? Finnst hæstv. menntmrh. það eðlilegt að námsmönnum, nýkomnum heim frá námi, sé meinað að fá húsbréf eins og öðru vinnandi fólki í þessu landi?
    Greiðslur skulu nú hefjast ári eftir námslok. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að gera mönnum kleift að fara í framhaldsnám eftir einhvern tíma þegar greiðslur eru þegar hafnar og maðurinn þar með bundinn við að afla tekna? Lengi hefur verið litið svo á að nöfn vina og vandamanna á skuldabréfum námsmanna væru fremur til þess að einhver tengiliður væri milli sjóðsins og námsmanna sem oft eru erlendis og t.d. ef námsmaður stæði ekki í skilum með endurgreiðslur, þá væri einhvern að finna. Um fjárskuldbindingar væri ekki að ræða, t.d. í þeim tilvikum að námsmaður félli frá. En nú er lagt til að eignir aðstandenda verði teknar upp í skuldir látinna námsmanna og er sú hugmynd slíkt siðleysi að undrum sætir. Er hæstv. menntmrh. sammála því að vinir og venslamenn sem skrifað hafa nafn sitt á skuldabréf og eiga nú ekki að vera einn heldur tveir greiði námslán ef námsmaður fellur frá? Með hverju eiga þeir að greiða, hvað eiga þeir að selja? Menntun mannsins eða heimili sín? Þessu hljótum við að verða að fá svör við.
    Þá er lagt til að sjóðurinn hefji töku lántökugjalda eins og bankar og peningastofnanir. Telur hæstv. ráðherra eðlilegt að námsmenn reki þá opinberu stofnun sem annast námslán þeirra? Megum við kannski vænta þess að félagsmálastofnanir hefji slíka gjaldtöku við greiðslu framfærslulána? Ég hlýt að spyrja um það.
    Þá hlýt ég einnig að spyrja: Er eðlilegt að lánasjóðurinn gerist banki og gróðafyrirtæki með því að unnt verði, eins og segir í tillögunum, að veita viðbótarlán á markaðsvöxtum samkvæmt ákveðnum skilyrðum sem stjórn LÍN setur. Þar með er hugmyndum þeirra sem núgildandi lög sömdu gersamlega kollvarpað og ég spyr: Er hæstv. ráðherra samþykkur þessu?
    Óteljandi spurningar vakna einnig þegar rætt er um 20 ára aldursskilyrði til lánsréttar. Hefur ekki verið rætt um það í dýpstu alvöru að menn geti e.t.v. lokið stúdentsprófi fyrr en nú er algengt? Af hverju eiga þeir sem það gera að bíða til 20 ára aldurs eftir láni?
    Virðulegur forseti. Það er óhjákvæmilegt að ræða þessi mál af alvöru áður en lengra er haldið. Það er ljóst að sjóðurinn þarfnast nú verulegra fjármuna næstu árin. Ef það er enn vilji yfirvalda að gera öllum kleift að stunda nám sem þess æskja og ef yfirvöld leggja enn á það áherslu að þekking og menntun sé undirstaða velferðar og framfara í hverju samfélagi. Námsmenn hafa hingað til greitt lán sín verðtryggð og þannig endurgreitt það sem þeir fengu en með tilliti til aukinna krafna til sjóðsins og vanhugsaðra framlaga til hans á ýmsum tímabilum er öllum ljóst að nú þarf meira til. Námsmenn eru áreiðanlega meira en til viðtals um að taka þátt í því að afla sjóðnum meiri tekna en upphaflega var gert ráð fyrir, en því miður hefur lítið samráð verið við þá haft. Nú verður eflaust skipuð nefnd til þess að semja nýtt frumvarp til laga um Lánasjóð ísl. námsmanna og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ekki tryggt að námsmenn fái sæti í þeim hópi eða verður gengið fram hjá þeirri mjög svo algengu reglu að við samningu frumvarpa sé leitað samráðs við þá sem málið er skyldast og þekkja það best?
    Hæstv. forseti. Tími minn er á þrotum. Yfir lestrarsal Háskóla Íslands stendur skrifað: ,,Vísindin efla alla dáð.`` Í hátíðaræðum stjórnmálamanna er oft vitnað til þessara orða og margar ræður hafa verið haldnar í þessum sal um gildi rannsókna og þekkingarleitar á sérhverju sviði. Það kemur því kannski spánskt fyrir sjónir að í tillögum margumræddrar nefndar er talað um að minnka ásókn í Lánasjóð ísl. námsmanna. Sú spurning hlýtur að vakna hvort í því megi felast fækkun þeirra sem afla sér þekkingar í þessu landi. Í ræðu

við brautskráningu stúdenta sagði Sveinbjörn Björnsson háskólarektor eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Nám er vinna, jafngilt hverri annarri vinnu sem menn stunda. Þeir sem eyða 5--10 árum ævi sinnar í háskólanám koma til starfa með umtalsverðar námslánaskuldir en eru auk þess orðnir langt á eftir jafnöldrum sínum með stofnun heimilis og öflun eigin húsnæðis sem lengst af hefur verið lífakkeri okkar hér á landi. Þessi mismunur jafnast ekki með hærri launum. Á mörgum sviðum háskólagreina ná launin ekki meðaltali annarra stétta.``
    Orð rektors voru ósköp hversdagslegar staðreyndir og langt frá því orðskrúði sem hv. alþm. og hæstv. viðhafa gjarnan um gildi menntunar og kjör menntamanna í landi okkar. Sú er von mín að minna verði um orðskrúðið í framtíðinni en meira verði rætt af skynsamlegu viti um hagsmuni samfélagsins varðandi menntun og þekkingarleit og aðstæður þeirra sem tilbúnir eru að fórna kröftum sínum í þágu íslenskrar menningar og framfara. Skilji hæstv. ríkisstjórn ekki hvers virði námsfólk er hverju þjóðfélagi og vinni hún ekki að því af alefli að tryggja skilyrði til æ flóknari þekkingarleitar í síflóknari veröld þar sem þekkingarskortur og vanræksla ógnar nú lífi jarðarbarna bið ég hæstv. ráðherra að gæta sín næst þegar þeir ganga undir skriftina á veggnum: ,,Vísindin efla alla dáð.`` En það er eina vísuorðið sem eftir er þarna á veggnum af hinni frægu vísu Jónasar Hallgrímssonar til Páls Gaimards og hattar einungis fyrir hinum línunum.
                Vísindin efla alla dáð,
                orkuna styrkja, viljann hvessa,
                vonina glæða, hugann hressa,
            farsældum vefja lýð og láð.
    Þannig fór nefnilega fyrir frægri söguhetju Þórarins Eldjárns, Óskari Björnssyni, doktorsefni í líffræði, á leið til salar til að verja ritgerð sína um óskabirni að hann fékk þungt koparslegið l-ið í höfuðið og biluðu þá sansarnir svo að ekkert varð úr doktorsvörn. Doktorsefnið hafði gleymt öllu um óskabirni, sagði þá skepnu aldrei hafa verið til og eyddi hann síðan ævinni í að rannsaka lífríkið í borðtuskum. Á veggnum stóð eftir: ,,Vísindin efa alla dáð.``
    Hæstv. forseti. Ég lýk nú máli mínu. En ég bið hv. alþm. að ræða málefnalega um stöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna eins og hún er nú og hlífa mér og þeim sem til heyra við klögumálum á víxl um hverjum vandi sjóðsins sé að kenna. Víst getur lífríki borðtuskunnar verið forvitnilegt en heldur ógeðfellt ef hún er ekki skoluð og undin öðru hverju. Hér er til umræðu vandi sem varðar alla framtíð þjóðar okkar og það er skylda hæstv. ríkisstjórnar að skýra okkur frá hvert hún stefnir til lausnar honum. Við erum reiðubúin til að taka þátt í þeirri vinnu í góðu samráði við námsmenn.
    Ég hef lokið máli mínu, frú forseti.