Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 14:27:00 (622)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Mér sýnist nú að það sé ástæða til þess að hafa hér almennt námskeið í meðferð klukkunnar, ekki bara fyrir undirritaðan heldur líka hæstv. menntmrh.
    Það sem lá fyrir í þessum efnum var ósköp einfaldlega það, eins og komið hefur fram í tillögum námsmanna, að þeir eru með beinar tillögur um sparnað á útgjöldum lánasjóðsins upp á 400 millj. kr. á ári eins og liggur fyrir í gögnum sem hæstv. ráðherra hefur á sínu borði. Kjarni málsins er hins vegar sá að með því að skerða lánasjóðinn, með því að skera niður umsvif hans, er ríkisstjórnin að taka ákvörðun um að skera niður heildarframlög til menntamála á Íslandi og þar með að grafa undan þeirri meginundirstöðu lífskjara sem eru vísindi, rannsóknir og menntir hér í þessu landi. --- Og ég hef ekki notað nærri allan minn tíma, virðulegi forseti.