Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 14:28:00 (623)

     Finnur Ingólfsson :
     Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðrún Helgadóttir málshefjandi sagði það í sínum upphafsorðum að friður hefði ríkt um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er nú því miður ekki svo og allan þann tíma sem Sjálfstfl. hefur verið í menntmrn. og farið með yfirstjórn lánasjóðsins þá hefur í raun og veru ríkt upplausnarástand í málefnum lánasjóðsins og friðurinn er nú ekki meiri en svo og það á hv. þm. Guðrún Helgadóttir að vita.
    Málefni lánasjóðsins hafa mjög mikið verið til umræðu að undanförnu og það er hart fyrir námsmenn að búa við þá óvissu og þann kvíða sem slíkt skapar vegna þess að það er stór ákvörðun fyrir hvern og einn námsmann eða hvern sem er að hætta í vinnu og hefja langskólanám eða fara beint upp úr menntaskóla og setjast inn í háskólann. Það eru stórar ákvarðanir sem þá eru teknar og þeir sem þær ákvarðanir taka verða auðvitað að geta treyst því að við þá framfærslu sem þeir búast við að fá á námstímanum verði staðið. En því miður er það ekki svo að það hafi verið gert í gegnum tíðina.
    Ég trúi því að hæstv. menntmrh., Ólafur G. Einarsson, fari mýkri höndum um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna og sjóðinn en fyrri menntmrh. Sjálfstfl. hafa gert. Ræða hans áðan benti til þess að svo muni verða. Öll embættisfærsla hans hinar síðustu vikur og mánuði bendir til þess að námsmenn geti vænst þess að hann fari mýkri höndum um sjóðinn en fyrri menntmrh. Sjálfstfl. hafa gert. Það væru mér vonbrigði ef svo yrði ekki.
    Af því að hæstv. fjmrh. gengur í salinn þá get ég ekki látið hjá líða að rifja upp blóðuga niðurskurðarsögu Sjálfstfl. í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Ég ætla ekki að fara lengra aftur en til ársins 1983 þegar ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. var við völd. Á þeim tíma fór Sjálfstfl. með menntamálin í landinu. Ítrekað reyndi menntmrh., báðir menntamrh. Sjálfstfl. á þeim tíma, að fá lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna breytt. Það gátu framsóknarmenn ekki fallist á og þeir stöðvuðu í raun allar tilraunir sjálfstæðismanna til breytinga á þessum lögum. En ráðherra menntamála hefur auðvitað reglugerðarvaldið og það er mikið hægt að gera innan reglugerðarrammans. Í raun var það það vald sem fyrrv. menntamálaráðherrar Sjálfstfl. beittu á þessum árum.
    Ég ætla að minnast á nokkur atriði í þeirri sögu. Þegar lögin sem nú gilda um lánasjóðinn höfðu verið samþykkt 1982 var sett reglugerð á grundvelli þeirra laga. Í þeirri reglugerð eru ákvörðunaratriði eins og um lánsupphæðir og hvernig þær skuli breytast með tilliti til þróunar verðlags, gengis og launa. Þar var gert ráð fyrir því að framfærslukostnaður námsmanna og námslag mundu breytast að öðru jöfnu í takt við breytingu á verðlagi og gengi.
    Á tímabilinu 1983--1987 voru gerðar fimm breytingar á einni grein þessarar reglugerðar, 21. gr., sem fjallar um framfærslumatið og framfærslukostnað námsmanna. Það sem öllum þessum reglugerðarbreytingum var sammerkt var að þær allar framkvæmdu menntamrh. Sjálfstfl. Alveg ótrúlegur hringlandaháttur viðgekkst. Breytingar á reglugerðinni voru svo til vikulegar. Í upphafi árs 1986 þegar breytingarnar voru orðnar fimm var niðurstaðan sú sama, að reglugerðin var orðin eins og hún hljóðaði upphaflega. Þrátt fyrir það kostaði þessi hringlandaháttur námsmenn lækkun á framfærslulánum um 20%. Og það sjá allir sem vilja sjá að mjög erfitt er fyrir námsmenn að búa við slíkar kringumstæður. Breytingin sem gerð var sl. vor af hæstv. núv. menntmrh. var 16% skerðing og það er auðvitað erfitt fyrir námsmenn á þessum þrengingartímum að þurfa að taka á sig slíka skerðingu.
    Þessi reynsla sagði mér og mörgum fleirum að það yrði með einhverjum hætti að koma við breytingu á lögunum um námslán og námsstyrki til að koma í veg fyrir að þeir menntamrh., hvort sem þeir væru í Sjálfstfl. eða annars staðar, sem svona vildu haga sér gætu gert endalausar slíkar breytingar. Því fengum við samþykkt í þinginu í maí 1989 lög sem gera það að verkum að réttur menntmrh. til sífelldra breytinga á reglugerðinni var takmarkaður. Hann þurfti eftir lagabreytinguna að leita samráðs námsmanna og ef ekki náðist samkomulag þá var um úrskurðarnefnd að ræða. En þrátt fyrir þetta tókst núv. menntmrh. að skera framfærsluna niður um rúm 16% á sl vori.
    Lögin frá 1982 eru í raun og veru samningur milli ríkisvaldsins og námsmannahreyfinganna. Það á hæstv. fjmrh. best að þekkja vegna þess að hann sat í nefndinni sem útbjó þessi lög. Það var til fyrirmyndar hvernig þáv. menntmrh., Ingvar Gíslason, stóð að því að undirbúa þetta mál. Hann gerði það með þeim hætti að hann fékk alla þingflokka sem þá áttu sæti á Alþingi til að tilnefna einn fulltrúa í nefnd til að undirbúa nýja lagasetningu ásamt námsmönnum. Og um þetta náðist svo gott samkomulag að líta má á þessi lög sem samning milli námsmanna og ríkisvaldsins.
    Megineinkenni laganna eru fjórir meginþættir. Í fyrsta lagi tryggja lögin jafnrétti til náms. Í öðru lagi taka þau tillit til aðstæðna námsmanna á meðan á námi stendur. Í þriðja lagi eru endurgreiðslur námslánanna tekjutengdar að námi loknu. Og í fjórða lagi var gert ráð fyrir því, sem er breyting frá því sem áður var, að endurgreiðsluhlutfall lánasjóðsins yrði sem allra hæst og stefnt var að því að það færi yfir 90%.
    Allt þetta hefur gengið eftir nema það, því miður, að endurheimtuhlutfall sjóðsins er lægra en menn áætluðu að það yrði í upphafi. Þetta viðurkenna námsmenn. Þetta viðurkenna í raun og veru allir. Og námsmenn hafa sýnt vilja sinn í því að takast á við þetta vandamál. Hæstv. menntmrh. má því ekki nú slá á útrétta sáttarhönd því að það er mikilvægast í þessu máli að fá námsmenn með vegna þess að það eru þeir sem þurfa að búa við lögin. Við sem greiðum skattana og erum í dag að greiða af lánunum okkar þurfum auðvitað að geta tryggt það og viljum vera viss um að þetta endurheimtuhlutfall sé sem allra hæst.
    Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson situr í salnum þá finnst mér rétt að rifja það upp að nú þegar námsmenn hafa sýnt þá samningslipurð sem þeir hafa gert og boðist til, eftir því sem ég hef heyrt, að skera niður og spara í lánasjóðnum eða hækka endurheimtuhlutfallið sem nemur 400 millj. kr. en það algjört nýmæli af hálfu námsmannahreyfinganna að bjóða slíkt fram. Ég hygg að hv. þm. Össur Skarphéðinsson muni það þegar hann stóð á svölum þingsins, stappaði í gólfið, hrópaði og gólaði og var með harða kröfugerð fyrir námsmenn. Á þeim tíma voru námsmenn algjörlega ósveigjanlegir til nokkurra samninga. Þetta sýnir þá hugarfarsbreytingu sem átt hefur sér stað hjá námsmönnum. Og ég legg á það áherslu við hæstv. menntmrh. að hann nýti þetta lag til samkomulags í málinu.
    Lítum aðeins á hugmyndirnar. Það er rétt að undirstrika það vegna þess að hæstv. menntmrh. lagði áherslu á að þetta væru hafa aðeins hugmyndir sem settar hefðu verið á blað. Hann sagði það í raun og veru áðan að hann ætlaði ekki að framfylgja mörgu af því sem þarna er lagt til.
    Málshefjandi gerði glögga grein fyrir öllum þeim þáttum sem í þessum hugmyndum felast en ég ætla að minnast hér á þrennt sem ég tel skipta langmestu máli í þeim hugmyndum. Í fyrsta lagi er það lánstíminn. Það er gert ráð fyrir því að lánstími almennra námslána verði styttur og verði sem næst þrefaldur námstíminn. Í dag er endurgreiðslutíminn 40 ár. Námsmenn hafa sýnt fram á það --- og ég trúi því að menntmrh. hafi fengið þær upplýsingar í hendur --- að næði þessi tillaga fram að ganga verður endurgreiðslan af lánunum fyrir hvern og einn, alveg sama hversu háar tekjur hann hefur, algjörlega óbærileg og útilokað við þetta að búa. Menn sjá því strax að hér er um algjörlega óraunhæfa hugmynd að ræða.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að lánin séu áfram verðtryggð en beri hálfa vexti ríkisskuldabréfa, sem jafngildir um 4% vöxtum nú. Þetta ákvæði verði endurskoðað ef verðtryggingarákvæði ríkisbréfa breytist. Það eru til ýmsar tröllasögur um hvernig námsmenn nýta sín námslán. Allt eru þetta tröllasögur. Og þegar maður spyr: Við hvern á þetta? er

því miður aldrei hægt að benda á nokkurn heldur sagt: Ég hef bara heyrt þetta. Þannig er nú oft á tíðum að menn éta hver upp eftir öðrum og lítið mark takandi á því sem þannig er sagt.
    Þær hugmyndir hafa verið uppi þegar Sjálfstfl. hefur farið með stjórn lánasjóðsins að draga sífellt úr tekjutillitinu, þ.e. að þær tekjur sem námsmaður getur aflað sér á námstímanum hafi minni og minni áhrif á lánið. Ég held að hér sé um algjörlega ranga leið að ræða af þeirri ástæðu að ef hætt verður að taka tillit til tekna þá fyrst mun ásóknin í lán frá sjóðnum aukast. Þá fyrst er hætta á misnotkun. Vegna hvers? Jú, vegna þess að þessi lán bera ekki vexti. En hvernig á þá að koma í veg fyrir það? Einfaldasta ráðið er auðvitað það að setja á markaðsvexti. En það hefur verið, a.m.k. meðal flestra stjórnmálaflokka, samstaða um að námslán eigi ekki að bera vexti af þeirri ástæðu að það verður að líta á það framlag ríkisins sem felst í vaxtaniðurgreiðslunni sem framlag til menntunar, sem framlag til þeirra námsmanna sem leggja á sig mikla vinnu og erfiði við að mennta sig og koma síðan inn á vinnumarkaðinn betur menntaðir en áður. Menntunin á auðvitað að skila, við skulum orða það svo, meiri framleiðni fyrir þjóðfélagið, þannig að sjálfstæðismenn skilji það nú miklu betur en aðrir. Og það er því alveg út í loftið að setja vexti á þessi lán og að þeir séu 1, 2, 3, 4%, hefur bara ekkert að segja.
    Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því að endurgreiðslur hefjist ári eftir námslok í stað þriggja. Þetta er ótrúlega áhrifarík breyting. Hún mun skila meiru inn fyrir sjóðinn strax í upphafi. En það fólk sem úr námi kemur --- það þekkja þeir auðvitað sem hafa gengið þá leið --- skuldar ekki bara lánasjóðslánin. Það skuldar líka peninga í bönkum. Þetta fólk er að koma sér upp húsnæði. Það er að koma sér upp fjölskyldu og þannig mætti lengi telja. Þetta eru því verulega kostnaðarsamir hlutir og sá tími sem þannig myndast frá því að námi lýkur og þar til námsmaður á að fara að endurgreiða lánið verður að vera til þess að menn hafi smá ráðrúm.
    Þetta vil ég segja núna við hv. þm. Össur Skarphéðinsson: Við sem erum í stjórnarandstöðunni treystum ekki Sjálfstfl. í þessum efnum. Við horfum kannski svolítið til þín en hvort reynslan verður sú sama og í skólagjaldamálinu mun auðvitað framtíðin leiða í ljós. En nú máttu í þingflokki Alþýðuflokksins stappa og góla eins og þú gerðir á pöllunum fyrrum.