Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 14:46:00 (626)

     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
     Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. rifjaði upp samstarfsörðugleika okkar frá árunum 1983--1987 um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það hefur hann gert áður. Svo hefur það nú skolast til í kollinum á honum þennan tíma sem liðinn er frá þessu, og gerir eftir því sem árin líða, að fátt var satt af því sem hér var sagt.
    Staðreyndirnar eru þessar: Ég kom með ákveðnar hugmyndir sem mætti nota um takmörkun á útstreymi fjármuna úr lánasjóðnum, svokallaðan kvóta á námsmenn. Þannig að menn gætu innan ákveðinna marka skipulagt sitt nám og fengið lán til þeirra hluta. Um þetta var ekki ágreiningur.
    Ágreiningurinn milli mín og hæstv. fjmrh. snerist hins vegar um hversu hart við ættum að taka á því að ná endurheimtuhlutfalli sjóðsins upp. Ég lagði til á þeim tíma að prósentan í tekjutillitinu yrði hækkuð úr 3,5% í 4,5%. Á þetta gat hæstv. fjmrh., sem þá var þingmaður Sjálfstfl., ekki fallist. Um þetta urðu miklar deilur og þær enduðu með því að ekki náðist samkomulag í þeirri ríkisstjórn um að gera breytingar á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna vegna þess að framsóknarmenn stóðu gegn þeim breytingum. Þá notaði fyrrv. menntmrh. reglugerðarvald sitt til þess að skerða námslánin, sem hann hafði auðvitað fullan rétt til, en það var ekki með fulltingi okkar framsóknarmanna.