Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 14:52:00 (629)

     Rannveig Guðmundsdóttir :
     Virðulegi forseti. Í stefnu- og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir svo:
    ,,Lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna verður breytt í því skyni að hann fái risið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og geti áfram tryggt jafnrétti til náms. Að óbreyttu er framtíð þessa mikilvæga sjóðs teflt í tvísýnu.``
    Það er því ljóst að stjórnarflokkarnir eru sammála um að endurskoða lög og reglur Lánasjóðs ísl. námsmanna. Það er líka ljóst að markmiðið með endurskoðuninni er að tryggja framtíð lánasjóðsins, tryggja að hann stuðli að jafnrétti til náms án þess að til komi óhæfilegar skuldbindingar ríkissjóðs. Til þess að svo megi verða þarf að endurskoða gildandi reglur um lánveitingar, svo og um lánakjörin hjá sjóðnum.
    Sérstakur starfshópur á vegum menntmrh. sem báðir stjórnarflokkarnir áttu aðild að hefur verið að skoða stöðu og afkomu sjóðsins og leiðir til úrbóta. Eins og komið hefur fram hefur starfshópurinn sett fram hugmyndir til breytinga og ekki ástæða til af minni hálfu að tilgreina þær hugmyndir því að þær hafa verið kynntar af þeim ræðumönnum sem tekið hafa til máls í þessari umræðu. Mun ég ekki fjalla um þær hér og tel það ekki tímabært. Þessar umræddu hugmyndir eru fyrst og fremst hugmyndir nefndarmanna sjálfra án skuldbindinga af hálfu stjórnarflokkanna og án þess að stjórnarflokkarnir hafi tekið afstöðu til þeirra á þessu stigi.
    Þó t.d. frumvarpsvinna hafi ekki farið í gang og málið sé enn þá á umræðustigi milli flokkanna hafa samtök námsmanna samt sem áður fengið hugmyndirnar til kynningar og þeim hefur þar með verið gert kleift að koma með sínar athugasemdir og ábendingar. Þingflokkur Alþfl. hefur kynnt sér umræddar hugmyndir og þingflokkurinn hefur jafnframt átt fund með forsvarsmönnum námsmanna og hlýtt á þeirra sjónarmið. Þingflokkurinn hefur í framhaldi af viðræðum við forsvarsmenn námsmanna óskað eftir því að fá tillögur námsmannahreyfinganna um hugsanlega breytingu á Lánasjóði ísl. námsmanna til skoðunar. Þingflokkurinn bíður nú eftir svari námsmannanna, tillögum þeirra og greinargerð. Það kom hins vegar fram í máli menntmrh. áðan að honum hafa borist athugasemdir og tillögur þessara aðila.
    Þegar tillögur námsmannahreyfinga berast þingflokki Alþfl. mun hann taka þær til umfjöllunar. Hann mun taka tillögur starfshóps menntmrh. til umfjöllunar og í framhaldi af því taka afstöðu til þeirra breytinga sem að mati þingflokksins er rétt að gera á lögum og reglum Lánasjóðs ísl. námsmanna. Á þessari stundu liggur afstaða þingflokksins ekki

fyrir. Hins vegar hefur sú afstaða Alþfl. komið skýrt fram að námslán eru mikilvæg til að jafna aðstöðu til menntunar. Þau eiga að taka mið af aðstæðum námsmanna og tekjum, sem og af almennum kjörum í samfélaginu.