Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 15:42:00 (635)

     Ólafur Þ. Þórðarson :
     Herra forseti. Eitt af þeim nýyrðum íslenskrar tungu sem notað hefur verið mikið í þessum ræðustól er orðið fortíðarvandi. Hæstv. menntmrh. glímdi við þetta orð og þá túlkun sem þar lægi að baki. Það er ekki búið að skilgreina þetta í neinni orðabók og þess vegna dálítið erfitt að átta sig á því hvað liggur þarna á bak við. En e.t.v. er mesti fortíðarvandi þjóðarinnar tengdur fæðingu þeirra ráðherra sem nú eru í þessu landi.
    Mér er ekki ljóst hvenær þeir menn, sem standa svo fastir í fortíðarvandanum, komast á sama tímaplan og hinir sem eru í þessari nútíð, sem er eina tímabil ævinnar sem menn lifa. Því að hvort sem við ætlum að lifa fortíðina eða framtíðina stöndum við nú föst í því að lifa aldrei nema nútíðina, --- og er kannski fyrsta skilyrðið til þess að reyna að draga úr áhyggjum manna að gera sér grein fyrir því að áhyggjur nútíðarinnar eru það vandamál sem við er að glíma. Ég sé að hæstv. ráðherra er farinn að skrifa og þætti mér vænt um ef hann kæmi þessu á framfæri við aðra ráðherra svo dragi úr þeirra áhyggjum af fortíðinni og þeir færu að nálgast nútíðina.
    Einnig er það mikið umhugsunarefni að svo hart berst hæstv. ráðherra í þessu máli að samstarfsflokkur í ríkisstjórn, Alþfl., fær þann stimpil að hann hafi verið algjörlega óábyrgur fyrir kosningar. Þar hafi engin ábyrgð verið til. Það hlýtur að vera umhugsunarefni hvað það er sem gerir það að verkum að Alþfl. lætur hafa sig í þennan kattarþvott hér dag eftir dag í þinginu, að þingmönnum hans er velt upp úr því alveg miskunnarlaust að allt sem þeir gerðu á seinastliðnum þremur árum hafi verið unnið eins og hálfvitar og ábyrgðarlausir menn hafi staðið þar að verki. Og geðlítið er það lið sem er í þeim flokki ef á að taka þessu þegjandi. Maður spyr: Hvað hefur gerst í flokki Jóns Baldvins? Þess Jóns Baldvins sem á sínum tíma fór einn í stjórnarsamstarf með Framsfl. og öll þjóðin vissi að hafði mikil áhrif á stefnu þeirrar ríkisstjórnar. ( Gripið fram í: Það var Jón Baldvinsson.) Jón Baldvinsson. (Forseti hringir). Herra forseti, við leysum þetta, hv. 1. þm. Norðurl. v. og ég.
    Jón Baldvinsson, það er alveg rétt, og hann var Vestfirðingur, þannig að mér er maðurinn nokkuð kunnur. En þetta er fortíðarvandi að hafa átt slíkan mann og þurfa í dag að bera saman við þá geðlausu þingmenn sem hér sitja undir þessari meðferð. Það hefði ekki hent þann sem bar það nafn Jón Baldvinsson á sínum tíma. Það er auðvitað hægt að koma með nýtt vörumerki og reyna að stæla en það verður hálfgert smjörlíki saman borið við smjör þegar útkoman er skoðuð.
    Ég veit ekki hvort hægt er að brýna svo deigt járn að það bíti en ég hef verið að bíða eftir þeirri stóru upprisustund þegar alþýðuflokksmenn stæðu nú upp og lýsti því yfir að þeir hefðu unnið jafn vel og vit og samviska leyfði á seinasta kjörtímabili og það rísi upp einhverjir aðrir en hv. 1. varaþingmaður flokksins á Vestfjörðum til varnar fyrir flokkinn fyrir það tímabil.
    Mér er ljóst að við lifum þá tíma nú í þessari nútíð að menn hafa lagt ofurást á þær kenningar sem ákveðinn lektor við Háskóla Íslands hefur haldið mjög á lofti og varð frægur fyrir þegar hann hélt þeim hugsanlega möguleika fram að það væri eitthvað markaðsverð á ömmum og hann hefði heimild til að selja. Ég veit að hans áhrif eru mikil og ég veit líka að það er hugsanlegt að tillögur um að nú eigi doktorar að fá sérstakan styrk tengist því að sumir menn hugsi enn á framtíðarnám.
    En það sem ég skil ekki í þessu sambandi er hvað hefur komið fyrir Alþfl. ( Gripið fram í: Hann fór í doktorsnám.) Hann fór í doktorsnám. Þá er látið í það skína að enn sé uppreisnar von. Sannleikurinn er nefnilega sá að hér fáum við yfir okkur ómengaða stefnu frjálshyggjunnar án þess að vart verði við það að örfáir dropar af rauðum lit frá þróttmiklum jafnaðarmönnum hafi blandast saman við vökvann. Mig undrar það satt best að segja að menn hafa í þessari umræðu líka reynt að finna einhverja réttlætingu fyrir því að það eigi að setja fjármuni í Lánasjóð ísl. námsmanna út frá því að við leggjum vegi, út frá því að við eyðum peningum í eitthvað annað. Mér finnst það gjörsamlega út í hött að leggja þetta svona upp.
    Árið 1925, þegar hægri öfl réðu á Íslandi en frjálshyggjan var ekki þekkt sem fyrirbrigði, þá trúðu menn því að það ætti að styrkja íslenska námsmenn. Þá trúðu menn því, eins og segir í lögum sem þá voru sett, með leyfi forseta: ,,Lög um styrkveiting handa íslenzkum stúdentum við erlenda háskóla.
    Heimilt er ráðherra að veita, samkvæmt tillögum þar til kvaddrar nefndar, styrk til náms við erlenda háskóla íslenzkum stúdentum, allt að 4 á ári, enda hafi þeir lokið stúdentsprófi hér á landi með fyrstu eða annarri einkunn.``
    Jafnvel þá í eymd og fátækt íslenskrar þjóðar töldu menn að slík fjárfesting ætti rétt á sér.
    Japanskur hagfræðingur hefur verið að viðra þær skoðanir, m.a. hafa þær borist mér í pósti í íslenskri þýðingu, að það geti verið hættulegt fyrir þjóðir að eiga of miklar auðlindir. Það geti orðið til þess að þær gleymi aðalauðlindinni sem sé sjálf þjóðin. Og þegar við leiðum hugann að því hvaða þjóðir hafa komist af efnahagslega og hugsum til Evrópu, þá virðist nokkuð vera til í þessari kenningu, því að Svisslendingar, sem ekki geta státað af miklum auðlindum, hafa komist efnahagslega betur af en margir aðrir. Ef til vill er það vegna þess að þeir áttuðu sig á því að aðalauðlindin var þjóðin.
    Ég hef fengið í hendur greinargerð frá vestfirskum námsmönnum þar sem þeir fara yfir þær breytingar sem gerðar eru á þeirri úthlutun sem við blasir og, með leyfi forseta, vil ég vekja athygli á nokkrum atriðum sem þar koma fyrir. Þeir segja m.a.:
    ,,Möguleikar námsmanna til að afla sér tekna yfir sumartímann voru litlir og með nýjum reglum voru þeir gerðir enn minni.`` --- Þeir segja: ,,Hertar voru kröfur um að námsmenn sem þurfa að leigja á almennum leigumarkaði gefi upp leigugreiðslur til leigusala. Þetta varð til þess að námsmenn, eini hópurinn á leigumarkaðnum, verður að greiða hærri leigu til að mæta skattheimtu leigusala, auk þess sem námsmönnum er gert enn erfiðara að finna sér leiguhúsnæði því verst er fyrir leigusala að fá leigjanda sem er námsmaður.``
    Ég held að það hljóti að vera ærið umhugsunarefni að þegar búið er að skerða framfærslugrunninn um 17%, eins og gert hefur verið, hvort þær hugmyndir sem þeir vísu menn á góðum launum hafa samið og við höfum fengið í hendur, nefndin sem Guðmundur K. Magnússon prófessor var formaður fyrir, ég hugleiði það mjög þegar svona skýrsla er lögð fram og ráðherra fer fyrstur að sverja það af sér að ekki standi nú til að samþykkja það sem í henni standi, það er rætt um það á rósamáli, þá sækir á mig sú hugsun hvort e.t.v. sé það svo að það frv. sem á að samþykkjast fyrir jól sé alls ekki á vinnslustigi í dag vegna þess einfaldlega að hæstv. menntmrh. viti ekki hvað hann ætli að hafa í því.
    Ég sat í menntmn. þegar núverandi lög um námslán voru tekin fyrir. Vissulega fórum við mjög yfir forsendurnar og við lengdum tímann sem ætlaður var til endurgreiðslu,

við lengdum hann í allt að 40 ár, þ.e. við vildum ekki sleppa mönnum við að greiða til baka, jafnvel þó að þeir þyrftu að standa í því í 40 ár. Þessu hafa sumir snúið við og túlkað þetta nánast á þann veg að námslán séu til 40 ára og menn geti allir verið í 40 ár að greiða þessi lán. Þetta er alröng túlkun. Mjög margir munu greiða þessi lán á miklu skemmri tíma.
    Að mínu viti er eitt grundvallaratriði í þessu sem menn verða að gera sér grein fyrir. Námsmenn á Íslandi, sem ein heild, sem starfa hjá íslenskri þjóð í framtíðinni, greiða að fullu til baka öll þau lán sem þeir fá. Þeir greiða þau til baka með tvennu móti. Annars vegar í gegnum afborganir af námslánunum og hins vegar með þeim sköttum sem þeir greiða til íslenska ríkisins. Það er því ekkert upp á þá að klaga í þessum efnum.
    Sú eina hætta sem fylgir því kerfi sem við búum við og sú eina hætta sem e.t.v. getur verið raunveruleg er ef menntun námsmanna er svo víðs fjarri því að geta átt sér atvinnuvon hér á landi að það leiði til þess að stór hópur þeirra komi aldrei til með að vinna á Íslandi. Þá stöndum við uppi með þá staðreynd að þeir íslenskir námsmenn, sem koma til með að búa hér á landi, borga ekki aðeins sín lán að fullu í gegnum endurgreiðslurnar og í gegnum skattana heldur borga þeir einnig lánin fyrir hina sem fara af landi brott. Það er spurning hvort það sé sanngjarnt gagnvart þeim íslensku þegnum sem borga sín lán að fullu til baka með þessum tveimur aðferðum að leggja það á þá að borga hitt einnig. Ég held þess vegna að ef menn vilja breyta þeim reglum sem eru á endurgreiðslunni þá hljóti það að vera á þann veg að þeir Íslendingar, sem njóta námslána en starfa ekki á Íslandi í framtíðinni, verði látnir greiða einhverja vexti af sínum lánum.