Lánasjóður íslenskra námsmanna

19. fundur
Þriðjudaginn 05. nóvember 1991, kl. 16:27:00 (643)

     Valgerður Sverrisdóttir :
     Hæstv. forseti. Hér er til umræðu mikilvægt mál fyrir sjálfstæða þjóð því það er mikilvægt að mennta íslenska þjóð og að það sé gert að svo miklu leyti sem unnt er í íslenskum skólum.
    Í öðru lagi er um mikilvægt mál að ræða þar sem hér er fjallað um jafnrétti til náms. Þegar Lánasjóður ísl. námsmanna var stofnaður lá hugsjónin um jafnrétti til náms til grundvallar, kannski ekki síst vegna þess að Íslendingar voru þess minnugir hvernig fátækir, ungir menn á árum áður komust til mennta. Þessari grundvallarhugsjón er vert að halda á lofti.
    Hér er um slíkt jafnréttismál að ræða að það er ekki óeðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort sjóðurinn ætti e.t.v. frekar að heyra undir félmrn. í stjórnsýslunni en ekki menntmrn. Ég verð jafnvel að segja það að miðað við síðustu hugmyndar nefndar sem skipuð var af menntmrh. um framtíðarhugmyndir á skipan mála, þá dettur mér í hug að þessi málaflokkur væri betur kominn í forsjá núv. hæstv. félmrh. sem hefur fengið orð á sig fyrir að vera fastur fyrir og gefast seint upp við að afla fjár til síns málaflokks.
    Hæstv. menntmrh. hefur reyndar sagt í viðtali sem við hann var haft fljótlega eftir að hann tók þetta mikilvæga embætti að sér að það sé hlutverk Lánasjóðs ísl. námsmanna að tryggja að allir sem hafa áhuga og hæfileika til að mennta sig geti það óháð efnahag. Hann sagði reyndar í sama viðtali að hann mundi óska eftir sem allra nánustu samstarfi við námsmenn og fullyrti að hann mundi ekki þvinga fram lög í gegnum þingið án samráðs við námsmenn. Þetta eru mikilvægar yfirlýsingar nú þegar allt annað virðist vera uppi á teningnum hjá hæstv. ráðherra og vinnubrögðin í þveröfuga átt við þessar yfirlýsingar sem komu fram í Röskvublaði í ágúst sl.
    Við samningu þeirra laga sem nú eru í gildi voru kallaðir til fulltrúar allra stjórnmálaflokkanna auk fulltrúa frá öllum hugsanlegum félagasamtökum námsmanna. Þáv. menntmrh. lagði áherslu á að ná sem víðtækastri samstöðu um málið, jafnt á þingi sem utan þings. Þáv. menntmrh. lauk ræðu sinni á eftirfarandi hátt þegar hann mælti fyrir frv. á Alþingi í janúar 1982 og dró saman aðalatriðin í ræðunni. Með leyfi forseta langar mig til að fara yfir nokkra punkta:
  ,,1. Lánasjóður ísl. námsmanna er eðlileg og sjálfsögð stofnun í nútímaþjóðfélagi. Þessi starfsemi er félagslegt réttlætismál í eðli sínu, leið til þess að eyða forréttindum og stéttamun.
    2. Lánasjóðurinn hefur verið að eflast og þróast síðustu 30 ár.
    3. Fjárhagsbyrði ríkissjóðs er allveruleg vegna sjóðsins en virðist þó hafa náð vissu jafnvægi síðustu tíu ár og þarf ekki að koma neinum á óvart.
    4. Tryggja verður að starfsemi sjóðsins sé heilbrigð og nái tilgangi sínum. Því hljóti lög og reglur um sjóðinn að vera háð gagnrýnni og eðlilegri endurskoðun á hverjum tíma.
    5. Telja verður að nú sé eðlilegur tími til þess að endurskoða lög um sjóðinn og

því er þetta frv. flutt.
    6. Benda verður á að þetta frv. er samið af fjölskipaðri nefnd sem í áttu sæti fulltrúar hinna ólíkustu stjórmálaflokka og hagsmunahópa. Þótt fyrirvari sé um einstök atriði í frv. hefur þessi nefnd hvatt til þess að frv. verði flutt og tekið til meðferðar í þinginu.``
    Hvernig er svo ástandið í dag þegar núv. hæstv. ríkisstjórn hyggst breyta lögum Lánasjóðsins í því skyni að hann fái risið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og geti áfram tryggt jafnrétti til náms eins og segir í margnefndri hvítbók, stefnuskrá núv. ríkisstjórnar? Vandinn er þríþættur:
    1. Kerfið hefur ekki náð sér enn þá frá þeim dögum að fjármagn var lánað út fyrir verðtryggingu og þeir fjármunir skila sér illa inn aftur.
    2. Afföll eru af útlánuðu fé úr sjóðnum. Þau eru ekki mikil en þau eru þó um 10% og það er of mikið.
    3. Útlán hafa verið fjármögnuð með lánum í ríkara mæli en ekki með framlögum úr ríkissjóði. Á þann hátt hefur skapast gífurlegur vaxtamunur. 25% af útgjöldum sjóðsins fór í að greiða afborganir og vexti á síðasta ári og stefnir í enn hærra hlutfall í ár. Þetta er að sjálfsögðu ekki flókið mál að skilja og á því þarf að fást lausn.
    Hæstv. forseti. Það þarf að fást lausn sem byggir á því að áfram verði jafnrétti til náms. Það skiptir allan almenning í landinu máli. Það verður ekki fram hjá því komist að það mun kosta peninga.
    Þau námslán sem námsmenn eiga nú kost á eru ekki há. Eftir skerðingu hæstv. ríkisstjórnar á sl. sumri eru þau raunar mjög lág. Mér er kunnugt um ótta námsmanna í dag, oft og tíðum fólk sem hefur brotið ýmsar brýr að baki sér til þess að komast í nám. Það segir í dag að það hefði ekki farið út í nám ef það hefði vitað að hverju stefndi í málefnum lánasjóðsins.
    Lánasjóður ísl. námsmanna er ekki fjárfestingarsjóður eins og menn eru sífellt að hamra á. Hann er enginn fjárfestingarsjóður. Hann er ekki sjóður viðskiptalegs eðlis. Þegar talað er um að menntun sé fjárfesting er það í rauninni hugtakaruglingur. Hitt er annað mál að menntun er verðmæti og hefur eins mikil áhrif á framfarir í þjóðfélaginu og hagvöxturinn og fjármagnið sjálft.
    Þjóðfélagið vanhagar alltaf um beinharða peninga. Það er þó þroski mannsins, þekking og menntun sem fær hjólin til að snúast.
    Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram af nefnd skipaðri af hæstv. menntmrh. og hér hafa verið til umræðu eru mjög róttækar. Það róttækasta eru vextir á lánin. Ég leyfi mér að fullyrða að það kerfi sem orðið hefur til í hugmyndaheimi þessarar stjórnskipuðu nefndar gengur ekki upp, enda hefur verið sýnt fram á það með fullum rökum. Reyndar hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir að hann muni ekki gera þessar tillögur að sínum og er það vel. En mig langar þó aðeins að nefna hér eitt sem kemur fram í tillögunum. Það er að 20 ára aldursmarki þurfi að hafa verið náð til þess að eiga möguleika á fyrirgreiðslu úr sjóðnum. Sá hópur fram að þessu sem notið hefur fyrirgreiðslu úr sjóðnum og ekki hefur náð 20 ára aldri er fyrst og fremst iðnnemar. Með þessum tillögum er því verið að beina nemendum inn á bóknámsbrautir. Ég lýsi fullri andstöðu við þessar tillögur. Það er nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið að verkmenntun sé í heiðri höfð og möguleikar nemenda innan verkmenntageirans séu ekki skertir. Miklu frekar þyrfti að auka þá. Þarna er því um nýja stefnu að ræða í menntunarmöguleikum þjóðarinnar sem ég skora á hæstv. menntmrh. að kasta sem fyrst fyrir róða.
    Hæstv. forseti. Lánasjóði ísl. námsmanna hefur því miður verið þrykkt niður á stig lágkúru. Við skulum skella skollaeyrum við sögum sem eru á kreiki í þjóðfélaginu um að námsmenn séu eitthvað annað en heiðarlegt fólk sem fyrst og fremst þarf á lánasjóðnum

að halda til að geta stundað sitt nám án tillits til efnahags og félagslegra aðstæðna. Ég skora á hæstv. menntmrh. að vinna nýjar hugmyndir að breytingum á reglum sjóðsins í samráði við námsmenn eins og hann tók svo skilmerkilega fram fyrr í viðtali að hann mundi gera og ég kom áður inn á.
    Það unga fólk sem er í forsvari fyrir námsmönnum gerir sér ákaflega vel grein fyrir því að sjóðurinn er í vanda og það þarf að grípa til agðerða, en því er að sjálfsögðu ekki sama um hvernig það er gert. Það er auðvitað hægt að hugsa sér allt annað skipulag á námsaðstoð en nú er. Það er hægt að taka upp fyrirkomulag eins og var við gömlu skólana í Skálholti og Hólum, ölmusurnar. Ég leyfi mér að fullyrða að þjóðin vill eiga öflugan lánasjóð þannig að allir geti haft sömu möguleika til náms. Það er grundvallaratriðið.